Lesbók Morgunblaðsins - 10.08.2002, Page 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. ÁGÚST 2002 5
hrollvekjan sér til rúms með Drakúla greifa og
ófreskju Frankensteins í fararbroddi.
7. Lifandi kona söguð í tvennt
Árið 1937 keypti breskættaða leikkonan Eva
Berkson rekstur Grand Guignol af Jack Jouvin.
Berkson virtist bera gott skynbragð á starf sitt
því hún tók gömlu farsana aftur til sýningar og
blandaði þeim saman við nýjar hrollvekjur með
þeim árangri að fólk flykktist aftur á sýning-
arnar. Þegar nasistar réðust inn í Frakkland
1940 neyddist Berkson hins vegar til að flýja
land vegna uppruna síns. Á stríðsárunum voru
það síðan helst þýskir hermenn sem heimsóttu
sláturleikhúsið sér til „dægrastyttingar“ og
sagt er að Hermann Göring, yfirmaður flugflot-
ans, hafi haft sérstaka ánægju af blóðugum sýn-
ingum þess.
Berkson sneri ekki aftur fyrr en bandamenn
höfðu sigrað þýsku hersveitirnar árið 1944. En
þá hafði almenningur misst allan áhuga á hryll-
ingsleikritum. Hann fór frekar á heimilda-
myndir sem fjölluðu um pyndingar nasista og
læknisfræðilegar tilraunir þeirra. Grand Guig-
nol átti ekki upp á pallborðið hjá fólki sem hafði
upplifað alvöru hörmungar og dauða allt í
kringum sig. Það var haft eftir Berkson
skömmu áður en hún dró sig í hlé árið 1951 að
helst þyrfti að saga lifandi konu í tvennt á sviði
til að hneyksla franskan almenning.
8. Harmræn endalok
Næstu árin voru eigendaskipti Grand Guig-
nol tíð og menn reyndu hvað þeir gátu til að
hressa upp á starfsemina en án árangurs. Char-
les Nonon, sem stýrði því á tímabilinu 1951–
1954, bryddaði t.d. upp á þeirri nýjung að sýna
söngleiki og satýrur í leikhúsinu en af einhverj-
um ástæðum létu undirtektirnar á sér standa.
Femínistinn og glæpasagnahöfundurinn Ray-
monde Machard tók við af Nonon og fékk til liðs
við sig unga og snjalla rithöfunda. Í hennar tíð
voru leikritin vel skrifuð en vegna raðar óhappa
– ein leikkona brenndist t.d. illa á sýningu og
önnur fékk taugaáfall á sviði – fékk leikhúsið
óorð á sig.
Þegar Fred Pasquale tók við rekstrinum árið
1959 var neðanbeltis skopskyn allsráðandi í
sláturleikhúsinu og leikstíll leikaranna ein-
kenndist af hroðvirknislegum vinnubrögðum.
Grand Guignol, sem hafði verið eitt helsta að-
dráttarafl Parísarborgar á blómaskeiði sínu,
var orðið skugginn af sjálfu sér. Allar tilraunir
til að endurvekja forna frægð þess fóru út um
þúfur. Í nóvember árið 1962 var leikhúsinu lok-
að og í mars ári seinna var hryllingsleikhúsið í
Montmartre jafnað við jörðu. Lauk þar með
hálfrar aldar langri sögu eins skrautlegasta og
skemmtilegasta menningarviðburðar úr nætur-
lífi Parísarbúa.
9. Áhrifavaldur á
menningu og listir
Að lokum má benda á að undanfarin ár hefur
áhugi manna á leikhúsinu vaknað að nýju og
aukist á milli ára. Þennan óvænta áhuga má
ekki síst rekja aftur til starfa fræðimanna sem
hafa sýnt leikhúsinu, sem áður taldist svartur
blettur á leikhússögunni, nýjan skilning og
aukna virðingu. Mel Gordon hefur t.d. skrifað
bókina Grand Guignol: Leikhús ótta og ógnar
(1997) sem þessi grein byggir m.a. á og er
áhugasömum bent á að kynna sér hana til frek-
ari fróðleiks, en hún inniheldur m.a. tvö óstytt
guignol-verk í enskri þýðingu og yfirlit helstu
leikritanna.
Gordon líkt og fleiri er þeirrar skoðunar að
þótt Grand Guignol sé ekki lengur við lýði hafi
það haft nokkur áhrif á menningu og listir sem
séu enn merkjanleg og þá ekki hvað síst í sjálfu
leiklistarlífinu. Máli sínu til stuðnings bendir
hann á að um víða veröld starfi nú leikhús og
leikhópar sem kenna sig við franska hryllings-
leikhúsið og haldi nafni þess á lofti.
Ein helsta ástæðan fyrir þessum menning-
arlegu áhrifum er sú að leikhópar á vegum
franska hryllingsleikhússins ferðuðust vítt og
breitt um Evrópu og um endilöng Bandaríkin.
Gagnrýnendur í Bretlandi, Þýskalandi og Ítalíu
voru hins vegar lítt hrifnir af uppátækjum ná-
granna sinna og aðsóknin lét á sér standa. Sömu
sögu má segja um Bandaríkin. Grand Guignol
náði því hvergi jafn miklum vinsældum og í
Frakklandi – ef frönskumælandi Montreal er
undanskilin þar sem gagnrýnandi Montreal
Herald (9. október 1923) hélt ekki vatni yfir
hinu stórkostlega sjónarspili. En þótt leikhóp-
arnir uppskæru ekki erfiði sem skyldi sáðu þeir
fræjum sem síðar urðu að tveimur guignol-leik-
húsum á Ítalíu, stofnuðum í kringum 1910, og
einu á Bretlandi árið 1920, í kjölfar ferðalag-
anna. Að vísu náðu leikhúsin ekki sömu vin-
sældum og franska fyrirmyndin og á þriðja ára-
tugnum lögðu þau starfsemi sína niður.
Grand Guignol hafði líka áhrif út fyrir leik-
húsið og þá einna helst á kvikmyndir. André de
Lorde skrifaði t.d. handrit að ellefu þöglum
guignol-myndum sem gerðar voru á tímabilinu
1911–1914. Þýski leikstjórinn Robert Oswald
sagði myndir sínar Ójarðneskar sögur (1919) og
Fimm ójarðneskar sögur (1933) bera með sér
keim af leikfléttum franska leikhússins, enda
innihélt hvor um sig nokkrar stuttar hrollvekj-
ur á gamansömum nótum. Kvikmyndin Klefi
Dr. Caligari (Robert Wiene, 1919), sem er talið
eitt af höfuðverkum þýsks expressjónisma, var
hafnað af mörgum fylgismönnum stefnunnar á
þeim forsendum að myndin bryti í bága við
heimspeki hennar og væri frekar í anda franska
hryllingsleikhússins. Í því samhengi mætti líka
nefna að Filmulíkkistan (Robert Florey, 1928)
var fyrsta viðurkennda guignol-myndin frá
Hollywood.
Á tímabili misstu kvikmyndagerðarmenn (í
Hollywood) áhuga á Grand Guignol, en þá vildi
svo til að leikritin rötuðu í bandaríska útvarps-
þáttinn „Slökkvið ljósin“ árið 1939. Þátturinn
naut talsverðra vinsælda og gat af sér ýmsar
eftirlíkingar, s.s. „Stund reimleika“, „Hinn und-
arlegi Dr. Strange“, „Hurðin sem hriktir í“ og
„Helgistaður hugans“, sem fluttu gamanleikrit
og hrollvekjur til skiptis rétt eins og sláturleik-
húsið. Það var ekki fyrr en með tilkomu breska
Hammer-kvikmyndagerðarfyrirtækisins á 6.
áratugnum, sem framleiddi blóðugar hrollvekj-
ur, að aftur mátti skynja áhrif Grand Guignol í
kvikmyndum. Þá hafa eftirmyndir leikhússins
skotið upp kollinum í nokkrum nýlegum mynd-
um, síðast Viðtali við vampíruna (Neil Jordan,
1994), sem byggð er á samnefndri bók Anne
Rice. Það má því til sanns vegar færa að þótt
öskrin í leikhúsinu við Chaptel-götu í Mont-
martre hafi fyrir löngu hljóðnað lifir andi Grand
Guignol áfram, bæði í máli og myndum.
Að lokum vil ég þakka Guðna Elíssyni, lektor
í almennri bókmenntafræði við Háskóla Ís-
lands, fyrir góð ráð og gagnlegar ábendingar.
Heimildir:
Gordon, Mel. The Grand Guignol: Theatre of Fear and
Terror. Önnur útgáfa. De Capo Press Inc., New York 1997.
Ritstjóri Hartnoll, Phyllis. The Theatre: A Concise
History. Thames og Hudson, London og New York 1998.
Ritstjóri Jakob Benediktsson. Hugtök og heiti í bók-
menntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands,
Mál og menning, Reykjavík 1998.
Úlfhildur Dagsdóttir. „Það liggur í augum úti: Grand
Guignol, leikhús og líkamshryllingur“. Lesbók Morgun-
blaðsins, 17. febrúar 2001.
„Á stríðsárunum
voru það síðan helst
þýskir hermenn sem
heimsóttu sláturleik-
húsið sér til „dægra-
styttingar“ og sagt er
að Hermann Göring,
yfirmaður flugflot-
ans, hafi haft sér-
staka ánægju af blóð-
ugum sýningum þess.
Berkson sneri ekki
aftur fyrr en banda-
menn höfðu sigrað
þýsku hersveitirnar
árið 1944. En þá
hafði almenningur
misst allan áhuga á
hryllingsleikritum.
Hann fór frekar á
heimildamyndir sem
fjölluðu um pynd-
ingar nasista og
læknisfræðilegar
tilraunir þeirra. “
„Fólk af öllum stéttum, dagfarsprúðir og löghlýðnir borgarar, dreif hvaðanæva að úr heiminum
til að borga sig inn á ofbeldisverk Grand Guignol.“
Skopmynd úr frönsku samtímablaði sem sýnir að áhorfendur þurfi að gangast undir læknisskoðun áður en þeir fá að horfa á sýningu í Grand Guignol.