Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Side 5

Lesbók Morgunblaðsins - 17.08.2002, Side 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. ÁGÚST 2002 5 anum er ómögulegt að vita hvað af þessu er ímyndun hennar. Sagan endar á því að verið er að taka viðtal við Anne, sem hefur greinilega náð langt í kjölfar þessara atburða – skrifað um þá blaðagreinar og bók – vegna þess að nú á að setja upp leikrit byggt á þeim. Þar kemur í ljós að morðgátan leystist aldrei og þegar Anne stendur upp til að fara kemur þjónn með frakka sem hún virðist ekki kannast við að eiga en lætur samt færa sig í. Lokamyndin er heilsíðumynd af henni þar sem hún gengur burt íklædd frakka sem minnir ekki lítið á frakka þann sem negldur var á krossinn. Þarna er myndmálið notað til hins ýtrasta og reynir mjög á hæfileika lesandans til að lesa í myndmálið. Umræður um frakka komu fyrst við sögu í öðrum hluta þegar Carpenter á leið úr líkhúsinu, eftir að hafa fylgst með krufningu hins myrta, rekst þar á mann sem er, að því er virðist, að skera upp yfirhöfn. Til skýringar á athæfi sínu segir hann að það sé eitthvað allt öðruvísi við frakka sem enginn er í, eitthvað sem er óeðlilegt og vitnar í Yeats um að hann hafi séð fimmtán svipi, en sá versti hafi verið yfirhöfn hangandi á herðatré. Þá nótt hverfur lík ‘guðs’ og í staðinn finnst frakki skorinn í hengla. Þannig er spilað á hlutverk: hlutverk sem er einskonar tómur frakki sem hver sem er getur farið í: geðsjúklingurinn er bæði rannsóknarlögreglumaður og frelsari, Anne tekur á sig frakka hans og þær byrðar sem honum fylgja og guð er umfram allt dauð- ur. Það andrúmsloft mystíkur og yfirnáttúru sem sagan dregur fram er svo undirstrikuð í myndmáli og teiknistíl, en myndirnar eru mál- aðar fremur en teiknaðar og minna á vatns- litamyndir. Dökkir og gráir undirtónar eru ríkjandi meðan bakgrunnurinn er einfaldur og oft óskýr svo að fólk og hlutir í forgrunni virka einangraðir. Þannig er næstum eins og öll sag- an gerist í þoku sem lesandinn verður stöðugt að rýna í. Glæpagáta af þessu tagi er reyndar sérlega vel til þess fallin að útskýra hvernig mynda- sagan er lesin. Myndasaga er saga sögð í myndum og máli, og þar skiptir miklu máli að myndin er ekki myndskreyting við málið, né þarf málið endilega að útskýra það sem fram kemur á myndinni. Lesandi myndasögu þarf því stöðugt að tengja myndir og texta og vinna úr flóknu samspili þeirra innan hvers ramma og að auki þarf hann að tengja milli ramm- anna, fara með upplýsingar úr einum ramma yfir í annan og þannig lesa sig í gegnum sög- una. Þannig er lesandinn eiginlega settur í hlutverk rannsóknarlögreglumanns sem þarf að safna saman fjölbreyttum og ólíkum vís- bendingum í eina heild. Myndasögur fyrir alla, konur, börn og kalla Saga evrópsku myndasögunnar er mjög svipuð þeirri bandarísku, en þar þróuðust sög- urnar einnig upp úr dagblaðastrípum. Í Frakklandi og Belgíu hefur myndast sterk hefð fyrir myndasögum, en þar hefur þetta efni svipaða stöðu og aðrar bókmenntir og er lesið af öllum almenningi. Bandaríska mynda- sagan í dag er hinsvegar orðin að neðanjarð- arfyrirbæri, næsta lokuðum menningarkima sem einkennist af sérverslunum og safnara- menningu. Margir (hvekktir) höfundar og aðdáendur vilja halda myndasögunni innan þessa þrönga ramma, á þeim forsendum að að- eins þannig fái hún frið til að vera það upp- reisnargjarna form sem hún getur verið. Myndasagan sem almenningseign myndi verða ofurseld miðjumoði hins kapítalíska neyslusamfélags – og mögulega hætta á áframhaldandi ofsóknir ef hún ekki fylgir því miðjumoði. Grant Morrison hefur gagnrýnt þetta viðhorf í viðtali við Mark Salisbury (Writers on Comics Scriptwriting, 1999). Þar segir hann að markmið myndasögunnar eigi einmitt að vera að verða aftur að almennings- eign, afli sem er jafnútbreytt og kvikmyndir og sjónvarp, en ekki afmarkað sem neðanjarð- armenning. Þrátt fyrir að vera kunnastur fyr- ir róttækar myndasögur eins og Arkham Asyl- um þá hefur Morrison einnig skrifað mun ‘venjulegri’ ofurhetjusögur, sérstaklega í syrpunni um Justice League of America, eða JLA, sem segir frá bandalagi ofurhetja. Einn- ig hefur hann skrifað sögur eins og Animal Man og Marvel Boy, sem eru að grunni til nokkuð hefðbundnar, en innihalda þó skemmtilegar vangaveltur um fyrirbærið of- urhetju. Í báðum sögum kemur hann pólitísk- um boðskap á framfæri. Animal Man segir frá umhverfisvænni ofurhetju og í Marvel Boy er helsti óvinurinn Mídas, en nafn hans er greini- lega táknrænt fyrir þá gagnrýni á neyslu- hyggju og stórfyrirtæki sem sagan inniheldur. Nú síðast var Morrison fenginn til að fylgja eftir vinsældum X-Men kvikmyndarinnar með því að blása nýju lífi í samnefnda myndasögu. Fyrsta syrpan er komin út og jók til muna á frægð Morrisons, en sagan varð umsvifalaust að metsöluriti. Þessum fyrstu blöðum hefur verið safnað saman í bók, eins og nú er orðin hefð fyrir í þessum bransa, og þar er jafnframt að finna einskonar manifestó Morrisons, þar- sem hann lýsir einmitt yfir áhuga sínum á að gera myndasöguna að almenningseign með því að höfða til sama hóps og kolféll fyrir kvik- myndinni. Hann talar um að komast upp úr of djúpu fari hins lokaða myndasögumenningar- kima, opna söguna og persónurnar fyrir nýj- um lesendum og þá ekki síst konum, en X-Men er sú ofurhetjusaga sem hefur hvað mest höfð- að til beggja kynja í gegnum tíðina og það sama gerðist með kvikmyndina. Talið niður að engum Þekktasta verk Grant Morrisons er án efa The Invisibles, eða Hinir ósýnilegu, sem tekur til beggja þessara tilhneiginga í verkum Morr- isons, hins hefðbundna og hins róttæka. The Invisibles er myndasögusyrpa, eða sagnabálk- ur, álíka og Sandman, sem var fyrst gefinn út í blöðum á árunum 1994-2000. Blöðunum var svo safnað í bækur, eins og algengt er orðið, og eru sex af sjö komnar út. Þær eru: Say You Want a Revolution, Apocalipstick, Entropy in the U.K., Bloody Hell in America, Counting to None og Kissing Mister Quimper. Líkt og Sandman sagan hefur The Invisibles orðið að sjálfstæðum menningarheimi, fjöldi vefsíðna er helgaður sögunni eða söguheiminum öllu fremur og árið 2001 kom út bókin Anarchy for the Masses eftir Patrick Neighly og Kereth Cowe-Spigai, sem er úttekt aðdáenda á sög- unni, með nákvæmum skýringum og útlistun- um á flóknari þáttum verksins. The Invisibles gerist á síðustu árum tutt- ugustu aldar og segir frá hópi fólks sem berst ósýnilegri baráttu við ill öfl sem vilja yfirtaka heiminn og þvinga hann undir vald sitt. Þessi illu öfl eru ófreskjur úr öðrum víddum veru- leikans, svokallaðir Archeons, sem eru sérlega andsnúnar allri óreiðu. Markmið Archeon- anna er að koma á algerri hugsanastýringu sem felur meðal annars í sér útþurrkun tilfinn- inga – með því verður heimurinn vanabundinn og reglulegur og öllu óvæntu og óskipulögðu verður útrýmt. Archeonunum er hjálpað af úr- valsliði manna, breskum aðalsmönnum, for- ráðamönnum stórfyrirtækja, hluta af her og lögreglu. Barátta hinna ósýnilegu er ósýnileg vegna þess að þessi ófresku öfl sjást ekki í daglegum veruleika flestra – ekki síst vegna þess að fólk er svo bundið sínum hugmyndum um samþykktan veruleika að það hreinlega „sér“ ekki frávikin. Hættan er því ósýnileg eins og í öllum góðum samsæriskenningum og baráttan gegn henni einnig. Inn í söguþráðinn blandast svo allskonar veruleikaflökt, galdrar, „shamanismi“, tímaferðalög og ferðir í gegn- um víddir, fyrir utan auðvitað heilmiklar pæl- ingar um hvernig hin mörgu svið eða víddir veruleikans eru byggð upp – sem ná ákveðnu hámarki í stórkostlegri sýn á guð sem veru úr öðrum alheimi í haldi hinna illu, en samkvæmt Morrison er guð hrein þekking; óreglulegur massi af fljótandi þekkingu. Í framhaldi af því er hið einfalda fisktákn Jesú táknmynd fyrir fleiri en eitt svið veruleikans, þarsem fyrir ut- an okkar veruleika er annarsvegar heilbrigður hliðarveruleiki sem reynir að vernda okkur fyrir þriðja hliðarveruleikasviðinu, en það er sjúkt og sturlað. Skurðlínurnar sýna svo hvar og hvernig þessir veruleikar skarast. Í þessu felst heimsmynd sagnabálksins. Sagan hefst á því að pönkarinn Dane er sendur á hæli fyrir vandræðaunglinga eftir að hafa kveikt í skólanum sínum. Því er stjórnað af Archeonunum og foringi hinna ósýnilegu, King Mob eða Gideon Starorzewski, bjargar Dane rétt í tíma áður en hann hlýtur hreinsi- meðferð ófreskjanna. En Dane er heldur ekk- ert tilbúinn að gangast undir reglur hinna ósýnilegu og King Mob skilur hann eftir í London, þarsem hann þarf að bjarga sér með- al hinna heimilislausu. Hann hittir Tom O’Bedlam, sem er í raun einn hinna ósýnilegu og tekur til við að þjálfa drenginn. Sú þjálfun felst ekki síst í því að upplifa nýjar hliðar á veruleikanum og viðurkenna eigin yfirnátt- úrulega hæfileika, en Dane er skyggn og hon- um er lýst sem hinum næsta búdda! Þarmeð er hið hefðbundna hetjumynstur jungistans Josephs Campell komið á flug og áður en nokkur veit af er Dane orðinn meðlimur í hópi King Mob, sem telur nornina og klæðskipting- inn Fanny lávarð, Boy (sem er í raun stelpa) og Ragged Robin (sem kemur úr framtíðinni), auk annarra sem koma á einn eða annan hátt að starfseminni. Fyrsti hluti lýsir svo því þeg- ar Dane tekur þátt í fyrsta verkefni sínu með hinum ósýnilegu, en það felst í því að fara hamförum aftur í tímann til ársins 1793, ná í markgreifann af Sade og flytja hann inn í nú- tímann, en honum er ætlað að vera einn af arkitektum fyrir nýja framtíð sem þeir ósýni- legu vilja að ríki. Heimurinn rambar á barmi heimsenda og Archeonarnir eru nálægt því að taka yfir – og hinir ósýnilegu starfa meðal annars að því að hreinlega skrifa nýja framtíð. En óvinurinn hefur komist að því að líkamar hinna ósýnilegu eru varnarlausir meðan andar þeirra ferðast um tímann og senda mexi- kanskan dauðaguð til að ganga frá þeim. Sá heitir Orlando og klæðir sig í mannshúð því hann er holdlaus. Árás hans veldur slíkri trufl- un á tímaferðalagi hinna ósýnilegu að þau lenda í einskonar tímaflökti, hluti hópsins, þar á meðal de Sade, er skyndilega staddur í skáldsögu markgreifans, 120 dagar í Sódómu, meðan annar hluti kemst aftur í eigin tíma og berst við Orlando. Hér eru strax nokkur leiðartemu sagna- bálksins komin fram, en Morrison fléttar jöfn- um höndum heimi skáldskapar og goðsagna- heima inn í söguþráðinn og blandar þetta ferðum í tíma og rúmi. Þannig er King Mob sjálfur upphaflega rithöfundur, eins og kemur fram í öðru bindi verksins. Sögurnar sem hann skrifaði voru hreinar ‘púlp’ bókmenntir, vís- indafantasíur í bondískum stíl, sem minna um margt á aðstæður hinna ósýnilegu. Í fimmtu bókinni, þarsem samspil hliðarveruleikanna er útskýrt, blandast bókin sjálf inn í hóp tengdra veruleika, þegar rammarnir sveigjast eins og sagan sjálf sé að hverfa inn í sjálfa sig, og að verkið The Invisibles sé hluti af því veru- leikaflökti sem frásögnin lýsir. Eins og áður sagði er pönkarinn Dane mögulega næsti búdda, en skýrustu tengslin við goðsagnir og trúarbrögð birtast í persónunni Fanny lá- varði, sem er klæðskiptingur og mexíkönsk norn, bæði kona og maður og hefur heilmikil samskipti við þau mexíkönsku goðmögn sem hún dregur mátt sinn frá. Að auki er mikið um vúdú, sem tengist mjög því skyntruflaða yf- irbragði sem er á bókunum, en fyrir utan pönkið, sem er greinilegur áhrifavaldur, sækir verkið einnig mikið til andrúmslofts sjöunda og áttunda áratugarins – eins og Bítlatilvitn- unin í titli fyrstu bókarinnar gefur til kynna. Barátta hinna ósýnilegu er því líka ósýnileg að því leyti sem hún fer að hluta til fram á sviði hins yfirnáttúrulega, eða á sviðum annar(leg) ra veruleika, en öll hafa þau einhverja yfirskil- vitlega hæfileika. Eins og algengt er með syrpur af þessu tagi koma margir teiknarar að gerð sögunnar og setja sitt mark á andrúmsloft hennar. Jill Thompson teiknar að mestu fyrsta hlutann sem gerist í Bretlandi og endurspeglar breskt andrúmsloft, sú saga er hægari og alvarlegri og teiknistíllinn hrárri og lausari en í næsta hluti sem gerist í Bandaríkjunum og er að mestu teiknaður af Phil Jimenez. Sá hluti lík- ist meira hefðbundinni hetju- og hasarsögu, persónurnar eru gerðar glæsilegri og hraðinn á frásögninni er mun meiri. Í þriðja hlutanum, sem hefst með Kissing Mister Quimper, er það Chris Weston sem er aðalteiknari og myndar stíll hans einskonar brú á milli hins ófegraða yfirbragðs Thompson og fegraðra lína Jime- nez. Í þeim hluta er að finna frekari útleið- ingar á tímaferðalagi Ragged Robin og veru- leikaflökti og tímasamfellum sem því fylgja. Eins og hefðin segir til um er sagnabálkurinn byggður upp af mörgum styttri sögum, sem smátt og smátt safnast saman í heildarsögu hinna ósýnilegu, hver persóna er kynnt til sög- unnar og lesandi kynnist bakgrunni hennar og ástæðum fyrir því að hún gekk í hóp hinna ósýnilegu. Eftirminnilegust er sagan af Boy, blökkukonunni sem var einu sinni lögreglu- kona en uppgötvaði að valdið sem hún þjónaði var spillt. Ragged Robin er þó sú persóna sem er áhugaverðust, en eins og áður sagði kemur hún úr nálægri framtíð þarsem hún hafði kynnst hinum ósýnilegu á síðari stigum, en þau eru þar allnokkuð eldri! Í öðru bindi tekur hún við leiðtogahlutverki hópsins af King Mob, en því er róterað reglulega. Það að láta konuna taka stjórnina er dæmi um þau óvenjusterku kvenhlutverk sem einkenna myndasögur Morrisons. Í The Invisibles er mikið af sterkum kvenhlutverkum, hópurinn er samsettur úr tveimur konum og þremur körlum – en einn þeirra er klæðskiptingur og alinn upp sem kona til að geta haldið við fjöl- skylduhefðinni og orðið norn. Illmennahópur- inn hefur einnig á að skipa mjög flottum kven- hlutverkum, og ekki má gleyma lesbíunni Jolly Roger eða hinni aldurhnignu Edith Manning, sem er einskonar verndari hinna ósýnilegu og mögulega áhrifameiri en það. Sömu sögu er að segja af Arkham Asylum og Mystery Play, í Arkham Asylum er kvenlækn- ir nokkur ein aðalpersónan og Anne í Mystery Play reynist vera lykilpersóna, en ekki ein- ungis sögumaður. Það er því ljóst að þrátt fyrir að Morrison vilji halda í hefðir myndasögunnar og gera hana aðgengilega almenningi á ný, þá fer hann sínar eigin leiðir í slíku trúboði. Hann er ögr- andi og róttækur höfundur sem hefur átt rík- an þátt í að þroska myndasöguna og marka henni vettvang sem marktæku og merking- arbæru listformi. Hann slær hvergi af kröfum, og þrátt fyrir að poppaðri sögur eins og JLA og X-Men bjóði ekki upp á eins skemmtilegar pælingar og önnur verk hans, þá verða þær sögur aldrei leiðinlegar eða þunnar og bjóða upp á óvænt sjónarhorn. Hvort sem Morrison verður einn af þeim sem munu skrifa nýjan veruleika fyrir okkur skal ósagt látið, en það er enginn vafi á því að hann er einn af þeim sem hefur skrifað nýja framtíð fyrir myndasöguna. Höfundur er bókmenntafræðingur. „Á fyrstu sýningunni, í miðri sköpunarsögunni, birtist guð ekki á sviðinu til að reka Adam og Evu burt úr Paradís, heldur finnst hann myrtur baksviðs.“ „Inn í söguþráðinn blandast svo allskonar veruleikaflökt, galdrar, sjamanismi, tímaferðalög og ferðir í gegnum víddir.“ Úr The Invisibles.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.