Lesbók Morgunblaðsins - 28.09.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 28.09.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. SEPTEMBER 2002 5 okkur í mun að fá Íslendingana til bræðralags við okkur. Okkur þætti leitt að við skyldum ekki þekkjast betur. Við byggjum þó undir sama þaki og við sömu skilyrði. Slíkt yrði að taka enda. Íslensku félagarnir skyldu fá að sanna að við myndum umgangast þá eins og við værum allir frá Íslandi og hjá okkur myndu þeir aðeins mæta innilegri vináttu. Við hefðum talið að ef okkur tækist að fá hann til að taka þátt í skemmtuninni myndu fleiri Íslendingar fylgja dæmi hans, og þá væri ísinn brotinn. Ég bað hann að íhuga þetta og bætti við að þótt hann vildi ekki leika i leikritinu, yrði það okkur til mikillar gleði ef hann bara fengist til að koma, við vonuðumst til að við það yrðu gagnger um- skipti á samskiptum Íslendinga og okkar. Ég lagði mig allan fram við að vinna Lárus á mitt band. Skyndilega stökk hann á fætur, tók um axlir mér og þrýsti mér að sér. Þótt það gerðist með nokkru offorsi, skildist mér strax að nú væri Lárus Blöndal unninn, hann hafði ekki staðist umsátrið. Það var ekki nóg með að hann segðist sjálfur myndu skrá sig til þátttöku í jólagleðinni, heldur ætlaði hann líka að sjá til þess að landar hans færu að dæmi hans. Og ef í nauðirnar ræki, tæki hann að sér hlutverkið. Ég sagði að það væri óþarfi, nema hann kysi það sjálfur; tilganginum með erindi mínu væri hvort eð er náð, en ég þakkaði honum innilega fyrir hlýjar móttökur. Ég var alveg viss um að lið- veisla hans dygði til að bræða fullkomlega sam- an Íslendinga og ekki-Íslendinga. Þegar ég fór hvíslaði Lárus því að mér að hann gæti annars vel hugsað sér að taka að sér smáhlutverk í leik- ritinu. Opinber sendiför mín til höfðingja hins er- lenda ægivalds hafði tekist framar öllum vonum og það vakti mikla gleði hjá nefndarmönnum. Nokkrum klukkustundum eftir að ég hafði farið frá Lárusi höfðu allir íslenskir Garðbúar skráð sig til þátttöku í jólagleðinni. Hugmyndin hafði náð fram að ganga. Vel heppnuð jólagleði með eftirmála Nefndin var önnum kafin. Leikritið var æft. Lárusi var sagt til í hlutverkinu og það var reyndar ekki auðvelt. Leikhæfileika hafði hann ekki, en hann gekk til verks af góðum hug og það vó þungt á metunum. Og nú var komið að jólagleðinni. Hún hófst við jólatréð í lesstofunni og þar var dregið um ýmsa vinninga. Þaðan var gengið til lestrarsal- arins. Við höfðum skreytt hann hátíðlega af litlum efnum. Matarborðið var líka fallega skreytt. Heiðurgestirnir voru prófasturinn, varaprófasturinn og Blicher gamli. Við sáum til þess að Íslendingarnir hópuðu sig ekki saman, heldur dreifðust jafnt á meðal okkar. Lárus Blöndal hlaut sæti andspænis prófastinum. Veislan fór hið besta fram. Eftir að við höfð- um, eins og skyldan bauð, skálað fyrir kóng- inum, háskólaráði og Garðsstjórn, reis einn nefndarmanna á fætur og mæltist til að sunginn yrði söngur, sem dreift hafði verið á blaði. Hann var til heiðurs Íslandi og ljómandi fallegur. Síð- an bauð sami nefndarmaður að drukkin yrði skál Íslands, Íslendinga almennt og þá sérstak- lega íslenskra stúdenta á Garði. Hann hélt góða og glæsilega ræðu þar sem hann dró upp mynd- ir úr norrænum fornsögum. Honum var ákaft fagnað og síðan var skálin drukkin í botn. Á nefndarfundi hafði verið lagt til að skál Ís- lands yrði drukkin að hætti norrænna forn- manna, í miði bornum fram í drykkjarhornum. Sem betur fer strandaði tillagan á ágreiningi um hvort mjöður væri yfirleitt góður og þeim vandkvæðum sem fylgdu því að útvega nægi- lega mörg drykkjarhorn. Málalok urðu þau að við drukkum að venju arrakspúns frá Weiss ný- lenduvörusala úr venjulegum glösum, sem kostuðu átta skildinga stykkið. Þegar kyrrð var komin á eftir skálarræðuna til heiðurs Íslandi reis Lárus Blöndal á fætur til að þakka fyrir hönd landa sinna. Ræða hans var meistaraverk, ekki vegna mælskubragða, held- ur vegna þeirrar málfimi sem honum var eig- inleg. Þannig hafa íslenskir bændur vafalaust talað til forna, bæði á Þingvöllum og öðrum þingum. Hann sagði blátt áfram og hispurslaust það sem honum lá á hjarta og hjartað var barmafullt. Sjálfum vöknaði honum um augu af gleði og þess vegna var ræðan hans svo falleg. Þetta var sönn málsnilld. Hann var skýr og skorinorður, hvert orð meitlað og engu ofaukið. Síðar sungu nokkrir Íslendingar víxlsöngva. Kvöldið var, í stuttu máli sagt, afar vel heppnað. Í mínu tilviki dró þetta þó dálítinn dilk á eftir sér. Sem nefndarmaður hafði ég vissu hlutverki að gegna og skálaði því við marga. Ég hafði að vísu ekki tölu á glösunum, en mörg hafa þau orðið. Ég drakk til að mynda dús með átján manns. Það varð til þess að ég drakk augljósleg of mikið, þótt varla sé hægt að leggja það mér til lasts. Eiginlega hefði þetta átt að duga til að ég yrði ofurölvi, eða dytti jafnvel dauður niður af áfengiseitrun. Púnsið hans Weiss nýlenduvöru- sala var ekkert eðalvín og drukkið í þvílíku magni af tuttugu og tveggja ára pilti, sem auk þess var óvanur slíkri áraun, var það blátt áfram hættulegt. Eiginlega er mesta mildi að ekki fór verr. Þegar risið var upp frá borðum uppgötvaði ég að ég gat ekki staðið í fæturna. Aftur á móti var hugsunin skýr. Mér voru aðstæðurnar full- komlega ljósar, en hvað til ráða væri vissi ég ekki. Þá varð mér litið á Lárus Blöndal. Ég trúði honum fyrir því hvernig fyrir mér væri komið og bað hann að hjálpa mér að komast út úr lestrarsalnum og upp á herbergið mitt, núm- er fimm á öðrum gangi. „Já, það geri ég gjarn- an, bróðir sæll,“ sagði Lárus, tók mig í fangið eins og barn, bar mig niður stigann, yfir húsa- garðinn, og upp á herbergið mitt. Þar hjálpaði hann mér að hátta, kom mér í rúmið, breiddi vandlega yfir mig og kyssti mig góða nótt. Þetta mun ég ætíð muna vini mínum, Lárusi Blöndal, sem nú er löngu látinn. Frá og með þessu andartaki bundumst við ævilöngum vin- áttuböndum. Og enn, svo mörgum árum síðar, er minningin um þennan atburð mér afar kær. Og frá og með jólagleðinni komst á hið besta samband milli Íslendinganna og okkar hinna. Það var heldur engin furða. Við fengum að sanna að þorri íslenskra Garðbúa var hinir mætustu menn, vel gefnir og með hjartað á réttum stað. Á þessum árum voru margir af mínum bestu vinum Íslendingar. Íslendingurinn óreyndi Það má segja að það hafi líka komið Íslend- ingunum vel að vingast við okkur. Það opnaði mörgum þeirra dyr að dönskum menningar- heimilum. Það kunnu þeir vel að meta og alls staðar urðu þeir aufúsugestir. Á skömmum tíma tókst þeim að laga sig að siðum og venjum Kaupmannahafnarbúa. Það heyrði til undan- tekninga að það mistækist. Ég minnist til að mynda kornungs Íslendings sem kom hingað til náms og fékk strax inni á Garði. Þetta var fríður og aðlaðandi piltur, en svo ótrúlega barnalegur að eftir stutta vist hér varð að senda hann heim. Annars er ómögulegt að segja hvernig farið hefði fyrir honum. Það vantaði ekki að hann var vænsti piltur og það hefði aldrei hvarflað að honum að gera nokkrum manni mein. En vegna reynsluleysis og vanhæfni til að átta sig á að- stæðum, kom hann sér í hið ótrúlegasta kland- ur. Jafnvel Adam, ættfaðir okkar, hefði varla farið svo furðulega að ráði sínu, hefði hann kom- ið til Garðvistar í Kaupmannahöfn. Og samt má ætla að frummaðurinn, Adam, hafi verið reynslulausastur allra manna. Afrekið sem olli því að senda varð hann heim hófst með skemmtigöngu á Køgevegi. Hann stansaði fyrir utan Pyttlukrána og virti fyrir sér þá merku byggingu. Fyrir tilviljun stóð gestgjafinn í dyr- unum og reykti pípu sína. Eftir að þeir höfðu virt hvor annan fyrir sér um stund spurði gest- gjafinn hvort hann vildi ekki koma inn og fá sér eitthvað. „Jú, þakka yður fyrir,’’ svaraði hann og gekk hinn. Gestgjafinn bauð honum að fá sér mat, hvað hann og þáði. Um kvöldið spurði gestgjafinn hvort hann vildi ekki gista og vísaði honum síðan til herbergis. Í tvo daga fór hið besta á með þeim. Íslendingurinn fann að hér hafði hann kynnst einstöku góðmenni, sem sýndi honum framúrskarandi gestrisni. Svo tók gestgjafann að gruna að hér væri ekki allt með felldu. Hann kom með reikning fyrir fæði og húsnæði, sem Íslendingurinn botnaði ekkert í. Hann hafði ekki hugmynd um að mönnum bæri að borga fyrir það sem þeim var boðið, en krár voru þá óþekktar á Íslandi. Það kom honum á óvart að þessi vingjarnlegi maður sem hafði verið honum svo góður, skyldi krefjast peninga fyrir vikið. Hann hefði þó gjarna borgað hefði hann yfirleitt átt grænan eyri. Gestgjafinn sá að hér var ekki um neinn svik- ara að ræða og vildi ekki reynast honum illa. Hann og fógetinn yfirheyrðu hann og komust að raun um að hann bjó á Garði. Svo spenntu þeir hesta fyrir vagn og óku honum á Garð. Gram prófessor tók á móti þeim og var sögð upp öll sagan. Hann borgaði gestgjafanum reikninginn og fól eldri samlanda piltisins um- sjón með honum. Eftir að ráðgast hafði verið við aðra Íslendinga urðu málalok þau að þessu náttúrubarni var hjálpað til að ferðbúast og síð- an var honum fylgt um borð í skip á leið til Ís- lands. Af öðrum Íslendingum Milli Íslendinganna ríkti mikil samheldni og gagnkvæm hjálpsemi. Eldri Íslendingar, sem fluttir voru af Garði, en höfðu samt af ýmsum ástæðum ílengst í borginni, mynduðu íslenska nýlendu. Aldursforseti þeirra var Magnús Ei- ríksson (1806–81) guðfræðingur. Hann var eft- irtektarverður maður. Hann var faðirinn í veldi hinna ungu Íslendinga. Þeir beygðu sig fyrir skoðunum hans. En hann var líka maður sem átti virðingu skilda. Hann var að vísu fátækur og bjó við léleg kjör. Hann var hæglátur og vin- gjarnlegur en alvarlegur í bragði, með sér- kennilega fallegt höfuðlag. Hann sást sjaldan hlæja. Hann var piparsveinn og gerði litlar kröfur til lífsins. En það voru ekki bara Íslend- ingar sem litu upp til gamla guðfræðingsins. Hann var vel þekktur meðal fræðimanna í heimi guðfræðinnar. Hann var lærður maður og gjörsamlega vammlaus, bæði í hugsun og framferði. Kannski mátti kalla hann sérvitring, en það var ekkert spaugilegt við hann. Hann lifði fyrir guðfræðina og vísindin. Hann hefði hæglega getað komist til æðstu prestsembætta, en hann var í andstöðu við kirkjuna og kærði sig því ekki um embætti. Hann var ekki einn af þeim sem hagræða skoðunum sínum og sann- færingu í samræmi við stundlega hagsmuni. Hann skrifaði hvert guðfræðiritið á fætur öðru og báru þau vott um mikla þekkingu. En fáir lásu þau og þau vöktu einungis athygli meðal guðfræðinga. Kannski var gallinn sá, að fáir urðu til að andmæla þeim og þau komust aldrei að gagni inn í umræðuna. Blöðin fjölluðu um þau af mikilli varfærni. Það er erfitt að skilja hvernig honum tókst að kosta útgáfuna. Ritin hafa ekki fært honum neinar tekjur, einungis fjárútlát. Annar og mun meira áberandi Íslendingur var dr. phil. Grímur Thomsen (1820–96). Hann var allt annarrar gerðar en Magnús Eiríksson. Yfirleitt bar hann ekki með sér að vera Íslend- ingur. Hann vann um tíma í utanríksiráðuneyt- inu. Hann umgekkst fagurkera og stjórnmála- menn, sótti veislur og var hinn heims- mannslegasti, bæði í fasi og framgöngu. Hann var annars góðum gáfum gæddur og lærður vel. En þessi glæsiriddari í lakkstígvélunum með gulu hanskana hafði aldrei jafnmikla þýðingu fyrir unga landa sína og Magnús Eiríksson. Seinna flutti hann aftur heim til Íslands og bjó þar að hætti bænda, eftir að hafa þerrað af sér glæsimennskuna.“ Heimildir Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn: Herbergjaskrá Garðs 1833–36. Kirkjubækur Trinitatiskirkju 1835. Konungsbókhlaðan í Kaupmannahöfn: Københavnsposten 1835. Aðrar heimildir Bjarni Jónsson: Íslenskir Hafnarstúdentar, Rvk. 1949. Gísli Brynjúlfsson: Dagbók í Höfn, Rvk. 1952. Heiberg, J.L.: Prosaiske Skrifter, 8. b., Kbh. 1861. Lárus Sigurbjörnsson: Leikfélag andans, Skírnir, Rvk. 1947. Nielsen, Rasmus: Regensen, Erindringer fra 1858–62, Kbh. 1906. Páll Eggert Ólason: Jón Sigurðsson, I. bindi, Rvk. 1929. Ploug, Hother: Carl Ploug, hans Liv og Gerning, Kbh. 1905. Höfundur er þýðandi og guðfræðinemi. „„Já, það geri ég gjarnan, bróðir sæll,“ sagði Lárus, tók mig í fangið eins og barn, bar mig niður stigann, yfir húsagarðinn, og upp á herbergið mitt. Þar hjálpaði hann mér að hátta, kom mér í rúmið, breiddi vandlega yfir mig og kyssti mig góða nótt.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.