Lesbók Morgunblaðsins - 12.10.2002, Qupperneq 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. OKTÓBER 2002
Þ
EGAR þarna var komið sögu var
Jónatan Garðarsson orðinn viss
í sinni sök: Þetta var gabb,
hrekkur á vegum sjónvarps-
stöðvar; á endanum myndu þau
stökkva fram og hrópa „Falin
myndavél!“ Síðan myndi parið
benda honum brosandi á ein-
hver tól og tæki og hljóðnema og aðdráttar-
linsur sem þau hefðu falið innanklæða eða
jafnvel í strætisvagninum sjálfum. Þau segðu
honum að brosa. Og sneru sér svo aftur í vagn-
inn og fengju farþegana til að taka þátt í fögn-
uðinum, stund uppljóstrunarinnar.
Þau voru tvö. Annarsvegar ung kona í fjólu-
blárri kápu, hinsvegar nokkru eldri maður
með handlegginn í gifsi og fatla. Hún hafði
komið fyrst uppí vagninn á stoppistöðinni við
Sogaveg og farið svo úr honum þremur stöðv-
um síðar. Í millitíðinni hafði maðurinn komið
uppí og fengið skiptimiða. Svo kom hún aftur í
vagninn á þriðja viðkomustað eftir að hún fór
úr. Sama konan.
Í fyrstu hafði hann ekki gert sér rellu útaf
þessu, þótt það vekti vissulega athygli hans.
Kannski væri þetta tvíburasystir hinnar kon-
unnar. Svona sláandi lík og alveg eins til fara.
Ef til vill þurfti konan bara að skjótast rétt
sem snöggvast að sinna einhverju erindi og
var svo skutlað á fólksbíl í veg fyrir vagninn.
En þegar hún kom uppí í þriðja sinn tóku að
renna tvær grímur á Jónatan Garðarsson.
Ég verð að rjúfa frásögnina til að taka skýrt
fram að Jónatan Garðarsson vagnstjóri á ekk-
ert skylt við Jónatan Garðarsson sem sér um
menningarþátt í sjónvarpinu. Þannig var að
sögupersónan kom til mín þar sem ég sat útí
garði heima hjá mér og var að reykja (ég geri
það gjarnan) og var hún alsköpuð og skýrð
þegar hún birtist mér.
Þannig vildi til að sami maðurinn átti þrí-
vegis leið framhjá á þessum stutta tíma sem
það tók mig að reykja eina sígarettu. Í fyrsta
skiptið fór hann út götuna og kom síðan strax
aftur inn hana; ég ályktaði að hann hefði farið í
sjoppuna úti á horni og væri á heimleið. En svo
sneri hann aftur og gekk ákveðnum en hægum
skrefum út götuna, líkt og hann væri að fara
hana í fyrsta sinn. Í þetta sinn sneri hann ekki
til baka. Og ég fór að hugsa um eilífa end-
urkomu hins sama í hugmyndum þýska heim-
spekingsins Friederich Nietzsche, sem gengur
einsog kunnugt er útá það að hver og einn ein-
asti atburður í tilveru okkar endurtaki sig útí
hið óendanlega. Með því er ekki átt við að líf
okkar sé endurtekningasamt svona almennt
séð heldur að atburðurinn sjálfur endurtaki
sig sem slíkur.
Uppúr þessum þönkum kom sögupersónan
Jónatan Garðarsson til mín fullsköpuð og ljós-
lifandi og hét einfaldlega þessu nafni þegar
hún kom. Ég reyndi að breyta því, kalla hana
eitthvað annað, en það hljómaði ekki sannferð-
ugt. Nafn er einhvernveginn svo fast við eig-
anda sinn þegar það hefur eitt sinn límst við
hann. Mér fannst ég hafa þekkt hann í árarað-
ir. Ég gat ekki breytt nafninu hans.
Enda sér hver sem virðir Jónatan bílstjóra
fyrir sér að hann er ekki líkur nafna sínum í
veruleikanum. Hann er lágvaxinn og feitlaginn
og með alskegg þar sem svört og grá hár eru í
jöfnum hlutföllum. Hann er fjörutíu og átta
ára. Kaskeitið gerir hann nokkuð virðulegan
og búningurinn fer honum vel. Samt er hann
engan veginn stífur í fasi; hann er almennileg-
ur og viðfelldinn en gefur þó kannski alla jafna
ekki mikið af sjálfum sér gagnvart farþeg-
unum. Hann er ekki gefinn fyrir spjall um ekki
neitt. Fólk kemur í vagninn, býður kannski
góðan dag og hann tekur undir ef svo er, en
annars er hann bara að sinna vinnu sinni.
Hann kann sjálfur ekki að meta leigubílstjóra
sem tala mikið við farþegana. Fólk tekur ekki
leigubíla eða strætisvagna til að spjalla við bíl-
stjórann. Svo einmana getur enginn verið, að
hans mati, í þessari einmanalegu borg,
Reykjavík.
Í eitt skipti hending og aftur kannski til-
viljun en það gat bara ekki verið allt með
felldu þegar konan kom uppí vagninn í þriðja
sinn. Jónatan hafði ekki veitt manninum eins
mikla athygli, aðeins tekið eftir að tvívegis
kom maður með hönd í fatla um borð. En kon-
an kom í sífellu í vagninn að nýju, á því lék
enginn vafi. Þetta gátu ekki verið þríburar.
Líkurnar á því voru hverfandi. Hún var ekki
fastagestur í strætó og hvernig ætti að standa
á því að þríburar færu allt í einu að taka vagn-
inn sama daginn? Það væri meiri tilviljun en
eðlilegt væri.
„Góðan daginn,“ sagði Jónatan.
„Góðan dag,“ sagði konan og hann var ekki
frá því að hún væri talsvert sposk í málrómn-
um. Hún setti pening í kassann og sagði:
„Stoppar þú ekki hjá Hótel Loftleiðum?“
„Ójú,“ sagði Jónatan. „Það geri ég.“
Jónatan var fyrir sitt leyti heldur ekki laus
við að vera glaðhlakkalegur í röddinni; hann
skyldi taka þátt í leiknum, hver sem hann
væri.
„Gott,“ segir konan og settist í eitt af
fremstu sætunum um leið og bíllinn rann af
stað. Hún blasti við í speglinum.
Og Jónatan fór að hugsa. Það var aðeins ein
leið til að gera þetta. Bíll hlaut að bíða eftir
henni við hverja stoppistöð þar sem hún fór úr
og bruna með hana fram úr vagninum, stytta
sér leið eftir hliðargötum eða einfaldlega taka
fram úr þegar vagninn hleypti úr farþegum,
og láta hana úr nokkrum stöðvum framar á
leið vagnsins. Síðan æki hann rakleiðis að
næstu stöð þar sem ákveðið væri fyrirfram að
konan færi út. En til hvers?
Þá flaug honum það í hug. Hann væri í fal-
inni myndavél.
Þegar þarna var komið sögu var Jónatan
Garðarsson orðinn viss í sinni sök. Hann hafði
tekið eftir manninum með fatlann líka. Þau
léku bæði sama leikinn. Þetta var greinilega
þaulskipulagt og ærin fyrirhöfn lögð í hrekk-
inn. Þau hlutu að hafa að minnsta kosti tvo bíla
á sínum snærum og hafa kortlagt útí ystu æs-
ar hvar þau ætluðu að fara úr og koma aftur
uppí. Ætlunin væri að ná á mynd viðbrögðum
hans þegar hann færi að taka eftir því að engu
var líkara en að sama fólkið væri stöðugt að
koma í vagninn hans, jafnvel þótt það hefði
rétt nýlega yfirgefið hann. Hann gæti falið
myndavél í gifsinu, hún í kápunni. Kannski
væri SVR jafnvel með í spilinu. Það gæti kom-
ið á hann kostulegur svipur og þegar fram liði
gæti hann jafnvel farið að efast um að hann
væri með réttu ráði.
Enn finn ég mig knúinn til að útskýra frekar
nafn söguhetjunnar. Í nótt dreymdi mig að
Jónatan Garðarsson raunveruleikans kom til
mín og var djúpt særður. Hann spurði hvað
hann hefði eiginlega gert á minn hlut og ég átti
í mestu erfiðleikum með að útskýra að þannig
væri ekki í pottinn búið. Mér leið einsog
glæpamanni.
Nú gæti ég náttúrulega einfaldlega hringt í
hann og reynt að útskýra mál mitt áður en ég
birti söguna en ég kem mér einhvernveginn
allsekki til þess. Ég veit ekki hvernig ég gæti
orðað það. Maðurinn sem gekk margsinnis
framhjá mér þar sem ég stóð útí garði og var
að reykja er hin raunverulega fyrirmynd Jón-
atans. Svo einfalt er það. En hugmyndina að
nafninu fékk ég aftur á móti að láni frá vini
mínum og hæfði það persónunni strax algjör-
lega; raunar hét hún þetta þegar hún birtist
mér. Að auki var nafnið svo með einhverjum
einkennilegum hætti ákaflega hlægilegt í mín-
um huga og hafði dvalist með mér lengi og leit-
að persónu. Ég er að velta því fyrir mér hvers-
vegna mér þyki það svona hlægilegt að
bílstjórinn skuli heita Jónatan Garðarsson. Ég
býst við að ástæðan sé sú að það táknar ekki
neitt, það er algjörlega gjörsneytt allri merk-
ingu. Í því er ekki fólgin nokkur einasta mein-
ing, þessvegna er það fyndið.
Gísli Magnússon rithöfundur viðraði fyrir
nokkru við mig þetta nafn á sögupersónu og
hafði þá þegar sjálfur hrint hugmyndinni í
framkvæmd og var í þann mund að birta í smá-
sagnasafni sínu Einsog vindurinn býður (MM,
2001). Mér er ekki kunnugt um nein viðbrögð
af hálfu Jónatans. Ég ræddi þetta við Gísla í
síma – einnig þá var ég staddur í garðinum
mínum að reykja (stundum finnst mér að ég
geri ekkert annað). Við vorum sammála um að
Jónatan Garðarsson sem stýrir menningar-
þættinum Mósaík væri einstaklega geðugur
maður og hreinlega ekki hægt að láta sér vera
eitthvað í nöp við hann. Einmitt þessvegna
væri svo hlægilegt að einhver skyldi skrifa
sögu þar sem nafn hans kemur fyrir, líkt og sá
hinn sami legði órökvísa fæð á hann, hygðist
ofsækja hann. Hvað skyldi Jónatan sjálfur eig-
inlega halda? Vissulega væri óþægilegt fyrir
hann ef þetta yrði mjög útbreitt, að skíra
skáldaðar persónur í höfuðið á honum, ef það
yrði að nokkurskonar æði. Vonandi fyrirgefur
Gísli mér að lána svona hugmynd hans. Einsog
ég segi, ég þekki Jónatan ekki neitt, er ekki á
nokkurn hátt illa við hann og hann lítur út fyr-
ir að vera víðsýnn og skilningsríkur maður; og
gagnvart honum jafnt sem Gísla þá bara gat
ég ekki að þessu gert. Persóna mín hét þetta
þegar hún kom.
Þá hafði Jónatan séð í gegnum brelluna og
hún því í rauninni ónýt. Hann varð þó að við-
urkenna að þetta var nokkuð smellin hug-
mynd. Eiginlega bráðfyndið uppátæki. Fer-
lega sniðugt. Tilveran sett í einhverskonar
lykkju þar sem sami atburðurinn kemur fyrir
aftur og aftur. Endalaus endursýning á við-
burðum hversdagslífsins.
Og var ekki hversdagurinn nokkurnveginn
þannig? Maður flaut sofandi að feigðarósi án
þess að taka eftir hlutunum í kringum sig: með
því að endurtaka þá í sífellu urðu þeir eft-
irtektarverðir, minnisverðir. Einhvernveginn
vakinn af svefni hvunndagsdoðans. Allt þetta
svipbrigðalausa fólk sem kom í vagninn hans á
hverjum degi og fór út aftur án þess að hann
veitti því nokkra athygli. Hvað nú ef eitthvað
algjörlega útilokað tæki að gerast, einsog það
að sama manneskjan kæmi stöðugt inní vagn-
inn, sama andlitið, sömu fötin? Eitthvað full-
komlega órökvíst og brjálað, eitthvað sem ekki
er fræðilegur möguleiki að gerist í hversdags-
lífinu en fellur þó að flestu leyti einsog flís við
rass að raunsæislegri framvindu hans. Þetta
var miklu fyndnara en ef þau hefðu til dæmis
látið fólk með undarlega hatta streyma inní
vagninn, því með þessu móti var athyglisgáfa
hans vakin til meðvitundar og virkt með
ísmeygilegri hætti í þágu brandarans. Kannski
væru svipbrigði hans þegar skráð á filmu,
breytingarnar sem urðu á andliti hans þegar
fáránleikinn tók að renna upp fyrir honum.
Kannski sæjust hugsanir hans með einhverju
móti á andlitinu. Hann hafði þó verið ansi
snöggur að komast að þessu. Sumir af hinum
bílstjórunum hefðu getað ekið sama fólkinu
allan liðlangan daginn án þess að kippa sér
nokkuð upp við það. Það var hann viss um. Þau
gætu jafnvel útfært þetta fyrir hinar ýmsu að-
stæður. Sama manneskjan kæmi kannski í sí-
fellu í apótek og bæði alltaf um hóstasaft,
kassa í Nóatúni með páfagaukamat, til úr-
smiðs og spyrði um gauksklukkur. Hún myndi
þvertaka fyrir að hafa komið áður væri hún
spurð. Gera sér upp undrunarsvip.
Nú kom maðurinn aftur uppí vagninn.
„Gætirðu nokkuð …“
Hann ætlaði greinilega að ganga úr skugga
um að eftir sér væri tekið og rétti veskið sitt að
bílstjóranum með klinkhólfið opið svo að hann
gæti tekið rétta upphæð fyrir handleggsbrot-
inn manninn.
„Alveg sjálfsagt.“
Jónatan reyndi að koma auga á linsu upp-
tökuvélar í gifsinu. En hann sá ekkert. Ætti
SAMUR OG SAMUR
ÚT OG AUSTUR:
FALIN MYNDAVÉL
SMÁSAGA
E F T I R H E R M A N N S T E FÁ N S S O N
Þau voru tvö. Annarsvegar ung kona í fjólublárri kápu,
hinsvegar nokkru eldri maður með handlegginn í gifsi og fatla.
Hún hafði komið fyrst uppí vagninn á stoppistöðinni við
Sogaveg og farið svo úr honum þremur stöðvum síðar.
Í millitíðinni hafði maðurinn komið uppí og fengið skiptimiða.
Svo kom hún aftur í vagninn á þriðja viðkomustað eftir að
hún fór úr. Sama konan.