Lesbók Morgunblaðsins - 26.10.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 26.10.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. OKTÓBER 2002 5 óbyggðirnar án eldspýtna og matar. Á heima- síðu þáttarins The Real World var fyrir skömmu gefið til kynna að áhorfendur myndu brátt fá að sjá enn meiri raunveruleika en áður eða „það sem gerist þegar hlutirnir verða að- eins of raunverulegir“. Framleiðendurnir gáfu til kynna að eitthvað raunverulega óvænt og óviðráðanlegt hefði orðið þess valdandi að hætta hefði þurft tökum á nýjustu seríunni og henni þess vegna verið aflýst en að raunveru- leikinn yrði sýndur í sérstökum þætti. Í ljós kom að hinar óviðráðanlegu orsakir komu til vegna æsts aðdáanda sem hafði ráðist inn í hý- býli þátttakenda og haldið þeim í gíslingu. Ekki var þó um raunverulega gíslatöku að ræða heldur sviðsetningu. Þátturinn með hinum „of raunverulegu“ atburðum var í raun leikin sjón- varpsmynd í anda þáttanna. Áhorfendur voru blekktir en margir þeirra áttuðu sig ekki á því og héldu að um blákaldan raunveruleik væri að ræða. Aðferðin sem notuð var við kynningu þessarar myndar náði að skapa mikla spennu og eftirvæntingu hjá áhorfendum en hún dreg- ur einnig úr trúverðugleik þáttanna. Eins vaknar sú spurning hvort og hvernig hlutir geti orðið of raunverulegir í raunveruleikasjón- varpi. Miðað við auglýsingar og slagorð þátt- anna hefði maður haldið að raunveruleikinn væri það sem leitast væri eftir að sýna. Með því að segja að nú fáum við að sjá meiri raunveru- leika en áður er í raun verið að segja að það sem við höfum séð hingað til hafi ekki verið all- ur raunveruleikinn, aðeins hálfur sannleikur- inn. Þarna er hulunni svipt af raunveruleika- þáttunum og merkingarleysi þeirra. Það sem býr að baki þeim er markaðshyggja sem geng- ur út á það eitt að selja áhorfendum ímyndir af ímynduðum raunveruleika. Raunveruleikinn er nefnilega sá að raun- veruleikaþættir eru jafnritstýrðir og annað sjónvarpsefni. Strangar reglur gilda um hvað má og hvað má ekki segja í sjónvarpi. Í hefð- bundnum spjallþáttum heyrist píp ef fólk tekur sér óæskileg orð í munn en í raunveruleikaþátt- um er slíkur orðsöfnuður einfaldlega klipptur út. Raunveruleikinn er því matreiddur ofan í áhorfendur eftir fyrirfram ákveðnum upp- skriftum úr kokkabókum íhaldsamra framleið- enda, kryddaður eftir smekk þeirra, oft með bragðaukandi efnum, til að gera kássuna girni- legri. Undir eftirliti Raunveruleikasjónvarpið er ekki eingöngu bundið við sjónvarp heldur nýtir það sér aðra miðla í sína þágu. Flestir ef ekki allir raunveru- leikaþættir eiga sínar eigin heimasíður auk þess sem fjölmargir einstaklingar og aðdá- endahópar raunveruleikasjónvarps halda úti heimasíðum og spjallrásum tileinkuðum einum eða fleiri þáttum. Þar er að finna ýmsar upplýs- ingar og aukaefni sem erfitt eða ómögulegt er að miðla í stuttum sjónvarpsþáttum. Meðal annars er hægt að kaupa minjagripi úr sumum vinsælustu þáttunum. Venjulega kaupir fólk minjagripi á ferðum sínum til minningar um ákveðinn stað og reynslu en minjagripir raun- veruleikasjónvarpsins færa okkur minningar um falska upplifun, ferð sem aldrei var farin. Þeir staðfesta ofurverulega þátttöku okkar í at- burðunum. Á heimasíðu Big Brother er svo hægt að fylgjast með þátttakendum allan sólar- hringinn og fá send sms skilaboð þegar eitt- hvað áhugavert gerist. Big Brother er einn tæknilegasti raunveruleikaþátturinn og senni- lega sá minnst ritstýrði. Þar sem um beina út- sendingu er að ræða er ekki hægt að hafa jafn- mikil áhrif á þátttakendur og ella, lítil klippitækni kemur við sögu auk þess sem myndavélar og hljóðnemar eru faldir og þ.a.l. engir myndatöku- eða hljóðmenn á svæðinu. Þarna er í raun um eftirlistmyndavélar að ræða líkt og eru notaðar í öryggisskyni í skrifstofum, verslunum og á götum úti. Það má þó ekki skilj- ast sem svo að Big Brother sé raunverulegri en aðrir þættir af sama toga. Vitneskja þátttak- enda um það að fylgst er með þeim hefur alltaf áhrif, jafnvel þótt þeir segist venjast eftirlitinu. Það er erfitt að ímynda sér að það eina sem myndavélin bæti við séu nokkur kíló. Í raun- veruleikanum ýkir myndavélin ekki aðeins mittismálið heldur öll viðbrögð fólks. Eftirlitið hefur tilfinningaleg áhrif, ekki aðeins á þann sem á horfir í öruggri fjarlægð heldur einnig og ekki síður á manneskjuna sem er undir stöðugu eftirliti myndavélarinnar. Hin hversdagsleg- ustu atvik verða ofurveruleg. Spennan við það að láta fylgjast með frumþörfum sínum og per- sónulegum athöfnum er geysimikil og að sama skapi spennufallið þegar leikurinn er búinn. Það olli miklum umræðum þegar þátttakandi í sænsku útgáfunni af Big Brother sem kosinn var fyrstur í burtu framdi sjálfsmorð mánuði eftir að hann sneri aftur í fábrotinn veru- leikann. Það er greinilega vandlifað í heimi of- urveruleikans. Um leið og við bölvum tækninni eru við svo háð henni að án hennar missum við fótanna. Það er yfirþyrmandi að vera sér með- vitandi um stanslaust eftirlit annarra en það er einnig skelfilegt til þess að vita að enginn sé að fylgjast með. Franski hugmynda- og fé- lagsfræðingurinn Michel Foucault hélt því fram að skelfing eftirlitsins fælist ekki í því að stöðugt væri fylgst með manni heldur liggi skelfingin í óvissunni um að vita aldrei hvort einhver sé að fylgjast með. Óttinn beinist ekki að því að horft sé á mann heldur þeim mögu- leika að enginn sé að horfa. Samkvæmt þessu er áhorfið ekki aðeins helsta áhyggjuefni fram- leiðenda heldur einnig þátttakenda og áhorf- enda. Þetta er nokkuð sjálfhverf afstaða en lýs- ir vel þeirri firrtu menningu sem hin nýja tækni og hinir nýju miðlar hafa haft í för með sér. Mark Boal, fyrrum ritstjóri The Village Voice, veltir fyrir sér raunveruleikasjónvarp- inu með hliðsjón af frægri kenningu Baudrill- ard um Disneylandið og raunveruleikann. Hann segir raunveruleikasjónvarpið í senn fela þá staðreynd og afhjúpa að við lifum nú þegar í eftirlitsþjóðfélagi þar sem afsal nafnleysisins færir manni vegleg verðlaun. Það eru heldur engir smáaurar sem eru í verðlaun í raunveru- leikaþáttunum og því til mikils að vinna, en eins og Boal segir þá kostar það sitt að vera með. Fórnarkostnaður þátttakenda er ekki fjár- hagslegs eðlis heldur felst hann í því að þeir þurfa að gera opinbera ýmsa þætti einkalífs síns og fórna ákveðnum hluta sjálfsmyndar sinnar og persónueinkenna. Margir fyrrum þátttakendur úr raunveruleikasjónvarpinu hafa haldið áfram að vera í sviðsljósinu eftir þættina, sumir hafa jafnvel gerst fyrirlesarar og uppfræða nú æskufólk meðal annars um eyðni og gefa ráðleggingar varðandi ástarsam- bönd. Það er líkt og reynsla þeirra úr raun- veruleikasjónvarpinu hafi gefið þeim einhvern mátt til að miðla raunveruleikanum til okkar hinna og frelsa okkur úr viðjum óvissu og van- þekkingar. Þátttakan getur því opnað nýjan heim frægðar og frama þó svo menn hafi farið tómhentir heim úr keppninni en sú frægð er dýru verði keypt. Í þessu sem og öðru verður ekki bæði haldið og sleppt, fólk þarf að velja milli oft skammvinnrar frægðar og ríkidæmis annars vegar og einkalífs og persónulegs frels- is hins vegar. Raunveruleikaþættir ganga að stórum hluta út á val og þ.a.l. einnig höfnun. Fyrst eru þátt- takendur valdir til leiks, að því er virðist útfrá pólitískri rétthugsun hvað varðar aldur, kyn, kynþátt og kynhneigð, og þegar leikurinn er hafinn gengur hann út á að velja þá sem á að senda burt úr keppninni og þá sem eiga að halda áfram. Margir hafa gagnrýnt raunveru- leikasjónvarp fyrir félagslegan Darwinisma, þar sem hinum veiku er vísað úr keppni og sá sterkasti, vitsmunalega eða líkamlega, stendur uppi sem sigurvegari. Spurningaþátturinn The Weakest Link gengur út á þetta eins og nafnið ber með sér og þar er hinum veikustu og van- hæfustu vísað frá. En sú er ekki raunin með alla raunveruleikaþætti. Í Survivor og sam- bærilegum þáttum eru það alls ekki hinir veiku sem eru kosnir burt heldur hinir hæfustu. Þátt- takendur kjósa þá einstaklinga burt sem þeim stendur ógn af til að tryggja sjálfum sér áfram- haldandi þátttöku. Þar sem um tímabundinn leik er að ræða er þetta ekki spurning um að lifa af, fólk er ekki að berjast upp á líf og dauða og því tekur það aðrar ákvarðanir en ef um raunverulegan lífsháska væri að ræða. Leik- urinn snýst um að vinna peninga. Þeir sem standa uppi sem sannir sigurveg- arar raunveruleikasjónvarpsins eru fyrst og fremst framleiðendurnir sem græða á tá og fingri. Þar sem einhver ber sigur úr býtum er alltaf annar sem þarf að láta í minni pokann. Það eru ekki aðeins þátttakendur sem þurfa að gefa eftir persónuauðkenni sín heldur er líka stór hópur fólks, sem áhorfendur fá ekki að vita um, sem þarf að gefa eftir hýbýli sín og jafnvel menningu. Þessum raunveruleika er ekki hald- ið hátt á lofti. Ekki hvaða raunveruleiki sem er Fjórða serían af Survivor var tekin upp á Nuku Hiva-eyjunni í Marquesas-eyjaklasanum í Frönsku Pólýnesíu. Ein víkin sem lögð var undir þáttagerðina er sæförum á þessum slóð- um að góðu kunn en snekkjur og skemmti- ferðaskip hafa um áratuga skeið varpað akker- um í þessari fallegu vík sem þeir kalla Daniel’s Bay eftir gömlum innfæddum manni sem þar bjó ásamt fjölskyldu sinni. Þegar staðsetning fjórðu Survivor-seríunnar hafði verið ákveðin var Daniel beðinn um að flytja sig um set og sáu yfirvöld á staðnum um að koma fjölskyld- unni fyrir í húsi annars staðar á eyjunni. Gamla húsið, bryggjan og allt það sem áður minnti á Daniel og fjölskyldu hans í víkinni var þurrkað út og hún gerð að bækistöðvum Maraamu „ætt- bálksins“ í 39 daga. Sæfarendum var bannaður aðgangur að víkinni á meðan á tökum stóð og voru þeir ekki ánægðir með það né umbreyt- ingu víkurinnar. Íbúar Nuku Hiva voru hins vegar himinlifandi þar sem hótel og veitinga- hús voru full af starfsfólki CBS-sjónvarps- stöðvarinnar og margir innfæddir fengu vinnu tengda þáttagerðinni. Hús sem reist voru vegna þáttarins voru gefin fátækum eyjar- skeggjum til búsetu eftir að myndatökum lauk og tölvur sem framleiðendur og starfsmenn notuðu voru gefnar í skóla á eyjunni. Framleiðendur Survivor höfðu lofað að allt rask sem þeir kynnu að valda yrði fært í fyrra horf og engin ummerki myndu sjást eftir skamma dvöl sjónvarpsfólksins, allt yrði eins og áður. En ekkert er eins og áður því með komu sinni; húsum, tölvum og tímabundinni at- vinnu fyrir innfædda, hafa framleiðendur Survivor gjörbreytt því samfélagi sem fyrir var á Nuku Hiva. Daniel var boðið að hús hans í víkinni yrði endurbyggt en hann kaus fremur nýju hýbýlin. Það má segja að Survivor hafi umturnað lífinu á þessari litlu eyju. Fræðilega séð hefur ekkert breyst í Daníelsvík en í raun- veruleikanum hefur allt breyst. Ofurveruleik- inn hefur hafið innreið sína í líf þessara eyj- arskeggja og ekkert er lengur eins og var. Fyrir sjónvarpsáhorfendur er hinn tilbúni Maraamu „ættbálkur“ mun raunverulegri en Daniel í víkinni. Á tímum raunveruleikasjón- varps er kaldhæðnislegt að enginn áhugi virð- ist vera á að sýna raunveruleika Daniels eða annarra íbúa eyjunnar, reyndar máttu þeir alls ekki sjást á meðan á upptökum stóð. Það er því augljóst að það er ekki hvaða raunveruleiki eða ættbálkur sem er talinn sýningarhæfur. Maðurinn í hinni nýju náttúru McLuhan talaði um að með rafvæddri miðl- un yrði heimurinn að litlu heimsþorpi þar sem ættbálkasamfélagið myndi vakna til lífsins og skynvit mannsins og náttúrunnar rynnu saman í eitt. Rafvæðingin hefur vissulega minnkað heiminn og fært fólk þannig nær hvert öðru en um leið hefur hún aðskilið fólk og orðið til þess að félagsleg tengsl hafa brostið. Skynvit mannsins og hinnar nýju náttúru, ofurveruleik- ans, hafa svo sannarlega runnið saman í eitt. Að því leyti höfum við snúið aftur til upprun- ans, við erum hluti af hinni nýju náttúru og hún er hluti af okkur. Hin nýja náttúra er hins veg- ar ekki lengur raunveruleg, hún er tálmynd. Líkt og hellisbúar Platóns leitum við raun- veruleikans í tilbúnum ímyndum. Við störum dáleidd á ógrynni mynda og tákna á sjónvarps- og tölvuskjáum löngum stundum og í huga okk- ar hafa þessar myndir smám saman orðið raun- verulegri en raunveruleikinn sem þær eiga að endurspegla. Við dýrkum það sem við höfum skilgreint sem raunveruleik og nú á tímum skjámiðla eru skilgreiningar á raunveruleikan- um ekki lengur miðaðar við raunveruleikann sjálfan heldur eftirmyndir hans. Aðeins með því að vera læs á ofurveruleik- ann getum við gert umhverfi okkar og skynjun skil. Til að við áttum okkur á áhrifum þeirra miðla sem við notum og neytum þurfum við mótvægi við sýndarheiminn. Án þess getum við ekki greint hinn upprunalega tón sem Platón gaf fyrir margt löngu, því í ofurveruleikanum er hann orðinn að forrituðu og margendur- teknu stefi í hljóðgervlum nútímans. Heimildir Baudrillard, Jean. 2000. Frá eftirlíkingu til eyðimerkur . Atvik 3. Bjartur, ReykjavíkurAkedemían, Reykjavík. Boal, Mark. 2002, 7. maí. „The Million-Dollar Castaway.“ The Monitor – The Village Voice . Slóðin er: http://www.villagevoice.com/issues/9943/ boal.php Buchanan, Ian. 2002, 30. apríl. „Enjoying ’Reality TV’.“ Australian Humanities Review . Slóðin er: http://www.lib.latrobe.edu.au/AHR/archive/ Issue-June-2001/ buchanan 3.html#footnote1 Mason, M. S. 2002, 20. apríl. „Get Real.“ The Christian Science Publishing Society . Slóðin er: http://www.csmon- itor.com/durable/2000/06/02/p13s1.htm Monaco, Brian J. 2002, 5. júlí. „The Official Reunion Tour.“ Worldwide Talent Group . Slóðin er: http://www.worldwidetalentgroup.com/ index.html Ryan, Maire-Laure. 2002, 1. maí. „ From The Truman Show to Survivor: Narrative versus Reality in Fake and Real Reality TV.“ Intensities – The Journal of Cult Media . Slóðin er: http://www.cult-media.com/issue2/Aryan.htm Nicholson, Teresa. 2002, 2. maí. „ Can Polynesia Survive Reality TV?“ Cruising World – Shoreline. Slóðin er: http://www.cruisingworld.com/cw_art- icle.php?articleID=731 [Höfundar ekki getið]. 2002, 7. júlí. „The Real World.“ MTVt.com . Slóðin er: http://www.mtv.com/onair/realworld/ [Höfundar ekki getið]. 2002, 7. júlí. „About Reality TV.“ Slóðin er: http://www.realitytvchannel.com/english/about/ about.html Associated Press „Af slagorðum Survivor, „Outwit, Outplay, Outlast“, má ráða að leikurinn gangi einmitt út á að gabba hina þátttakendurna, leika betur en þeir og endast betur.“ Myndatökumenn fylgjast með á indónesísku eyjunni Pulau Tiga þar sem upptökur á þáttunum Survivor fóru fram. Höfundur stundar nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.