Lesbók Morgunblaðsins - 04.01.2003, Side 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. JANÚAR 2003
K
öttur úti í mýri, setti upp á sig
stýri, úti er ævintýri.
Svona getur saga ekki haf-
ist. Um það gilda óskráðar
reglur, á þennan hátt enda sí-
gildar sögur en byrja alls ekki.
Aftur á móti mega þær gjarn-
an hefjast á orðunum Einu
sinni var …
Þeirrar sterku hefðar sem skapast hefur um
byggingu frásagna sér enn víða stað í skáldskap
og sagnaritun samtímans. Við því er búist að
flétta í rituðum texta hefjist, vindi upp á sig og
nái einhvers konar lokum. Áhöld eru um það
hvort flækjan þurfi að leysast farsællega (e.
happy ending), en endir þarf í það minnsta að
vera til staðar. Svipað er upp á teningnum í öðr-
um tjáningarformum, svo sem kvikmyndum.
Þær hefjast flestar hverjar með sérstakri upp-
hafstónlist, nöfnum helstu leikara, nafni leik-
stjóra og titli myndarinnar áður en kemur að
eiginlegu upphafsatriði sem þjónar þræðinum. Í
myndarlok stendur skrifað skýrum stöfum
Endir og nöfn leikara, tökumanna og hár-
greiðslufólks eru látin líða yfir tjaldið eftir að úr-
slit eru ráðin í sögufléttu myndarinnar. End-
irinn er sérstakt atriði með viðeigandi
lokatónlist, þannig að sá sem kemur fyrirvara-
laust inn í kvikmyndahús getur samstundis ráð-
ið af merkjunum hvort mynd er að hefjast eða
klárast.
Siðareglur um upphaf og endi eru á sama hátt
fyrir hendi í veruleikanum sjálfum og þykja
nauðsynlegar til þess að hafa stjórn á hvers
kyns fyrirbærum. Hringt er út úr kennslu-
stundum með þar til gerðri bjöllu, bundinn endi
á vikuna með þjóðsöngnum í ríkissjónvarpinu
o.s.frv. Það er alltaf eitthvað sem markar lokin;
siður, hátíðleiki, athöfn. Endalok eru alvarlegir
hápunktar.
Kannski á þessi tilhneiging okkar til tíma-
móta rætur í þeirri vissu að tilveran muni einn
daginn taka enda. Ef ekki með heimsslitum, þá í
það minnsta með dauða hvers og eins okkar.
Þetta lögmál tilverunnar ratar inn í öll mann-
anna verk og til þess að spegla megi veruleikann
er krafan um niðurlag bóka og annarra sköp-
unarverka mannsins nánast ósjálfráð. Eins
áþreifanlega og sögur hefjast verður þeim há-
tíðlega að ljúka, eins og Frank Kermode bendir
á í bók sinni The Sense of an Ending: „Okkur
getur vitanlega ekki verið neitað um endi. Það
er einn mesti sjarmi bóka að þeim verður að
ljúka.“
Leikslok dregin á langinn
Hér er þó rétt að staldra aðeins við. Þegar
grannt er skoðað er nefnilega alls ekki satt að
öllum kvikmyndum ljúki með hinni sígildu letr-
un Endir. Aðalpersónurnar eru m.a.s. fyrir
nokkru hættar að ríða til móts við sólarlagið í
lok myndar því upplausn viðtekinna gilda hefur
grafið undan reglum um upphaf, miðju og endi í
kvikmyndum og öðrum listgreinum.
Þetta er reyndar ekkert glænýtt, en segja má
að tilhneigingin hafi ágerst stig af stigi á öldinni
sem nú er nýliðin. Fyrri og síðari heimsstyrjöld
áttu án efa sinn þátt í þessu endurmati, lífið
reyndist hverfulla en áður hafði þekkst; fjöl-
skyldur, vinahópar, þorp og heilar kynslóðir
gátu þurrkast út á svipstundu – samfélögin voru
engu lífseigari en einstaklingarnir sjálfir. Lífinu
lauk ekki endilega með aðdraganda eða viðeig-
andi lokatónlist, jafnvel heimurinn sjálfur gat
horfið í einni svipan eins og kjarnorkuógnin bar
með sér.
Þetta endurspeglaðist víða, jafnvel ljóðin
hættu að hefjast á stórum upphafsstaf og enda á
punkti. Ríminu, sem fól í sér örugga vissu um
niðurlag vísuorða, var víða kastað fyrir róða og
um leið tekin upp ný form án reglna um línu-
fjölda – ljóðum gat lokið fyrirvaralaust.
Endurskoðun forms fór fram í ýmsum list-
greinum, hvort sem var í kjölfar heimsstyrjalda
eða í miðju köldu stríði. Í leikritun var það
Samuel Beckett sem einna lengst gekk frá hefð-
bundinni byggingu með viðunandi árangri.
Nefna má leikrit hans Endatafl sem fjallar jafnt
tæknilega sem efnislega um endalok og end-
anleika. Hefðbundna fléttu er ekki að finna í
verkinu, það virðist gerast að afstöðnum heims-
enda og snýst öðrum þræði um endalok sem
dregin eru á langinn. Í upphafi verks segir önn-
ur aðalpersónan, Hamm: „Nóg um það, kominn
tími til að það taki enda, líka í skjólinu. (Dvöl.)
Og þó hika ég, ég hika við að … við að láta það
enda. Já þannig er það, það er kominn tími til að
það taki enda og þó hika ég við að – (hann geisp-
ar) – við að láta það enda.“ (Beckett 1987:123)
Fátt gerist í verkinu sjálfu og lausnin leikur
einnig á tvennu – þótt þjónninn Clov standi
ferðbúinn í lokasenunni kemur aldrei í ljós hvort
hann fer eða ekki. Beckett teygir meðvitað á
hugmyndinni um leikslok með því að láta þau ná
frá byrjun til enda verksins, en leikrit hans hafa
að sönnu átt þátt í að breyta hugmyndum um
framvindu og lyktir í leikhúsi og víðar.
Skáldsagnaritarar tókust einnig á við tíðar-
andann á öldinni sem leið og skal hér sérstak-
lega minnst á bók ítalska höfundarins Italo
Calvino Ef ferðalangur á vetrarnóttu frá 1979.
Skáldsagan sú er í raun margar sögur, í það
minnsta upphafslínur margra sagna. Helsta
persóna bókarinnar er Lesandinn, auðkenndur
með stórum upphafsstaf. Í fyrstu virðist að vísu
átt við þann sem í raun og veru opnar bókina,
því Lesandinn er ávarpaður í 2. persónu og boð-
inn velkominn að sjálfri bókinni Ef ferðalangur
á vetrarnóttu. Smám saman kemur hins vegar í
ljós að Lesandinn er tilbúin persóna í bókinni og
heldur fléttu hennar saman.
Í stuttu máli kaupir hann bók, sem reynist
gölluð að því leyti að sama örkin kemur end-
urtekið í ljós þegar flett er, og ekki reynist unnt
að lesa nema 32 blaðsíður af sögunni. Lesandinn
fer í bókabúðina og fær eintakinu skipt en þegar
heim kemur áttar hann sig á því að um allt aðra
sögu er að ræða. Þannig vindur verkinu fram og
ítrekað byrjar Lesandinn (ásamt hinum raun-
verulega lesanda) á lestri nýrrar sögu sem
skömmu síðar er rofinn af einhverjum orsökum.
Á milli þessara „upphafskafla“ er fylgst með
Lesandanum og samskiptum hans við Lesynj-
una svonefndu, hina bókhneigðu Ludmillu, en
eftir að fundum þeirra tveggja ber saman hefst
framvinda enn einnar sögu: „Eitthvað hefur
breyst síðan í gær. Lestur þinn er ekki lengur
einangraður: þú hugsar um Lesynjuna sem á
þessari sömu stundu er einnig að opna bókina,
og sjá, ofan á skáldsöguna sem bíður lestrar
bætist hugsanleg skáldsaga sem bíður upplif-
unar, framvinda sögu þinnar með henni eða
réttara sagt: upphaf hugsanlegrar sögu,“ segir
þar. Smám saman kemur í ljós að saga
skötuhjúanna er sú eina sem rakin er til enda í
bókinni.
Það sem vekur í senn spennu og hugarangur
lesandans og Lesandans í verki Calvino eru
endasleppu skáldsögurnar tíu sem enginn botn
fæst í. Þær hefjast flestar samkvæmt kúnst-
arinnar reglum, persónur eru kynntar til sög-
unnar og umhverfi lýst. Framrásin er hins veg-
ar rofin fyrirvaralaust og hvergi í verkinu er
þráðurinn tekinn upp á ný. Ef ferðalangur á
vetrarnóttu er bók upphafanna en um leið er
hún fyrst og fremst um „niðurlög“, ef hægt er að
nota hugtakið í fleirtölu. Himinhrópandi fjar-
vera söguloka skapar þversagnakennda nær-
veru þeirra, lesandanum verður sífellt hugsað til
lokanna einmitt vegna þess að þau vantar. Varla
hefði orðið til sterkari bók um hlutverk enda-
loka þótt hún hefði samanstaðið af sögulokum
einum saman.
Örvun og fullnæging
Ein skýringin á kröfu lesenda eftir niðurlagi
er samkvæmt bókinni sú að endirinn sé full-
nægja sem sífellt er leitað í framhaldi af örvun
upphafsins. Feiminn muldrar Lesandinn við
Ludmillu: „Vonum, – segirðu, – að við höfum
fengið heilt eintak í þetta sinn, rétt innbundið,
svo við verðum ekki trufluð þegar hæst stendur
eins og gerist … – (Eins og gerist hvenær?
Hvað ertu að meina?) – Sem sagt, vonum að við
komumst alla leið fullnægð.
– Oh, já, – svarar hún.“
Hér fær lesturinn kynferðislegan undirtón,
eða vísar í það minnsta í hugsanlegt (ástar)sam-
band Lesandans og Ludmillu. Lestur er þrá
sem bíður uppfyllingar og hann mistekst nema
honum ljúki á fullnægjandi hátt. Bók Calvino er
sem sagt ekki aðeins sýnikennsla í „endalaus-
um“ skáldskap, heldur fjallar textinn sjálfur um
lestur og uppbyggingu texta, upphaf og enda,
og er þannig metatexti, sjálfsaga.
Til þess að athuga frekar hvað verkið hefur að
segja um endalok er best að bera niður í bók-
arlok. Okkar maður, Lesandinn, reikar þá inn á
bókasafn og hittir þar fyrir nokkra lesendur
sem reynast hafa ólíkar skoðanir á endaspretti
bóka. Einn lýsir þeirri skoðun sinni að það sem
mestu máli skipti sé augnablikið á undan lestr-
inum, annar kveðst leita að því sem leynist
handan síðasta orðsins því þar leynist „hinn
sanni endir, endanlegur, falinn í myrkrinu,
áfangastaðurinn sem bókin vill koma þér á“. Sá
þriðji tilkynnir að lestur sinn „taki aldrei enda“,
enda lesi hann aftur og aftur sömu verkin og
leiti sífellt að merkingaraukum, vísbendingum
og leyndum þráðum í textanum. Enn annar les-
andi í hópnum nær aldrei að klára bækur þar
sem hvert orð verður honum tilefni allra handa
hugleiðinga og tenginga, textinn verður honum
hvati til sjálfstæðra hugsana og þannig ferðast
hann fremur um eiginn hugarheim en heim bók-
arinnar.
Þessar kröfur ólíkra lesenda eru írónían upp-
máluð þegar haft er í huga að engin hinna tíu
skáldsagna bókarinnar hefur endað á fullnægj-
andi hátt. Sjálfur segist Lesandinn fyrst og
fremst vilja „lesa bækur frá upphafi til enda“ en
í ljósi hremminga sinna við leit að sögulokum
virðist honum engu líkara en að heimurinn
geymi aðeins „frestaðar sögur sem villast af leið
sinni“, eins og hann kemst að orði.
Óteljandi endanlegir heimar
Við nánari umhugsun virðist niðurstaða Les-
andans býsna rökrétt. Þegar hugað er að mann-
kynssögunni, framvindu hversdagsins, náttúru-
lögmálum og mannlegum samskiptum er engu
líkara en að allflestir söguþræðir lendi í öng-
stræti, sé slegið á frest eða villist fyrr eða síðar
af leið sinni. Það er ekki sjálfgefið að allt endi á
besta veg eða endi yfir höfuð.
Hins vegar leggjum við sjálf ýmislegt á okkur
til þess að búa til endalok og tímamót og ákveða
lengd „söguþráða“ í lífinu. Þessi kerfi eiga sum
hver ekkert skylt við náttúrulögmál enda eru
kerfi okkar hönnuð eftir á. Við ákveðum endalok
til þess að setja í samhengi við upphaf, og öfugt.
Sumarið hefst ákveðinn fimmtudag í apríl til
þess að vetrinum geti lokið, burtséð frá veð-
urspá og snjóalögum, X-kynslóðin var „fundin
upp“ því tímabært var að leysa menn undan
uppakynslóðarstimplinum og módernisminn
laut í lægra haldi fyrir póstmódernismanum,
segja sumir. Aðrir halda því þó fram að módern-
isminn sé sprelllifandi enn, sem einmitt leiðir í
ljós vafasemi þess að vilja láta öllu ljúka þótt
annað hefjist. Þannig mætti áfram telja.
Þannig reynum við sífellt að búa til mynstur
úr tilverunni, úr öllum þessum „frestuðu sögum
sem villast af leið sinni“. Það hefur enginn sann-
að að lífið sé verk með fullkomna byggingu en
við teljum okkur samt trú um það til þess að
eiga hægara með að henda reiður á því.
Þessi hugsunarháttur minnir um margt á
heimspeki stjörnufræðingsins Giordano Bruno.
Hann sagði alheiminn vera óendanlegan, þ.e.a.s.
samsettan úr óteljandi heimum en ekki væri
hægt að segja að alheimurinn væri algerlega
óendanlegur því hver af heimum hans væri af-
markaður og endanlegur. Á svipaðan hátt skipt-
um við óendanlegri tilverunni í afmarkaðar ein-
ingar, heima, sögur. Hver eining hefur upphaf,
inntak og endi og þannig teljum við okkur ná
betri yfirsýn yfir tilveruna. Eitt af mörgum
dæmum er vaxandi vegur einsögunnar þar sem
lífshlaup einstaklinga er rannsakað í stað þess
óvinnandi verkefnis (eða kannski í von um) að
ná utan um mannkynssöguna í öllu sínu veldi.
Rithöfundurinn Italo Calvino virðist hafa
unnið á svipaðan máta, en þegar hann sat við
skriftir leitaði oft á hann löngun til þess að skrifa
eitthvað annað: „Ekki neitt ákveðið heldur allt
sem fellur utan við það sem ég á að vera að
skrifa (…) allir þeir atburðir sem tími og rúm
kunna að rúma. Þetta er slítandi þráhyggja,
skemmandi, og nægir til þess að trufla mig. Til
þess að takast á við hana reyni ég að afmarka
svið þess sem ég vil segja, því næst að skipta því
í enn þrengri svið, búta þau svo frekar niður, og
svo framvegis.“ Samkvæmt þessari lýsingu
vann Calvino á sama hátt og mennirnir frammi
fyrir óbærilegum óendanleika tímans. Þeir búa
til svið og búta þau niður til þess að tapa ekki
glórunni.
Að finna upp tímatal
Tíminn er hér lykilatriði. Þó svo að straum-
hart fljót tímans geti með réttu talist til nátt-
úrulögmála eru línuleg framvinda, tímaeiningar
og tímamót uppfinningar mannsins. Þessar
uppfinningar hafa þróast og breyst, til dæmis
var heimurinn kosmos í hugum Grikkja en saga
í hugum Hebrea. Línuleg tímaskynjun og hring-
laga tími hafa verið eignuð sitt hvoru kyninu í
kenningum femínista og tímatal kristinna
manna og búddista lýtur mismunandi lögmál-
um, svo eitthvað sé nefnt. Mennirnir reyna sem
sé að temja tímann með ýmsum aðferðum og ein
ÓVÆNT
ENDALOK
UM FRAMVINDU OG LYKTIR Í SKÁLDUÐUM VERKUM
Við erum minnt á það reglulega, ekki síst í fréttum, að
lífinu getur lokið fyrirvaralaust. Slæmar fréttir. Þá
skrúfum við niður í þulinum og drífum okkur í bíó eða
grípum bók af náttborði. Þar er öruggt að endirinn
kemur ekki fyrr en allra síðast, eftir 3 klst. eða 200 bls.
Við getum verið viðbúin. SIGURBJÖRG ÞRASTAR-
DÓTTIR kannar möguleika hinna óvæntu endaloka.