Lesbók Morgunblaðsins - 04.01.2003, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. JANÚAR 2003 5
sú algengasta er að afmarka upphaf og endi
ákveðinna tímaskeiða. Við búum til mynstrið
tikk-takk eins og Kermode bendir á: „Allt sem
hefst með tikk ber í sér vitneskjuna um yfirvof-
andi og óumflýjanlegt takk, þrátt fyrir að heim-
urinn sé að upplagi klukkulaus staður.“
Við tímamót (afmæli, áramót o.fl.) svífur andi
saknaðar og trega yfir vötnum, tímamót eru að
vissu leyti dauði. Heimsendaspár hafa enda
löngum tengst fyrirfram ákveðnum tímamót-
um, eins og Frank Kermode rekur í bók sinni.
Þar minnir hann á að árið 1000 e. Kr. hafi gefið
hugboð um dómsdag og hið sama þekkja þeir
sem muna aldamótin 2000 – með öllum þeim
hörmungum sem þeim tímamótum áttu að
fylgja. Mætti halda því fram, líkt og Kermode
gerir, að grundvallartímaskiptingar mann-
skepnunnar, eins tilviljanakenndar og þær nú
eru, séu í raun mótaðar til þess að taka á sig
þungbæran dauðakvíða okkar og allar hugsan-
legar vonir. Þannig verður mannkynssagan eins
konar dagatal mannlegs kvíða.
En fyrst heimurinn fórst ekki árið 1000 og
heldur ekki árið 2000 finnur kvíði okkar sér ann-
an farveg. Eða er ekki sífellt verið að vara okkur
við endalokum aðskiljanlegustu fyrirbæra? Hið
vestræna veldi á að vera að niðurlotum komið,
ósonlagið, regnskógarnir, fjórflokkakerfið, full-
veldishugtakið, hrein náttúra, guð, höfundurinn
og jafnvel Sagan. Um þetta er rætt fram og aft-
ur, en ef við gætum ekki að okkur getur tilfinn-
ingin orðið raunveruleikanum marktækari. Á
það benti John Barth einmitt í grein sinni um
þrotabókmenntir, „Literature of Exhaustion“
árið 1967, en hann sagði engu máli skipta hvort
skáldsagan lifi af formtilraunir samtímans –
hrun skáldsögunnar geti einfaldlega orðið að
menningarlegri staðreynd ef nógu margir höf-
undar óttast slíkt hrun. Hið sama gildi um ótt-
ann við að vestræn menning sé á hverfanda
hveli. Ef nógu margir hafi slíkt á tilfinningunni
muni það gerast.
Viðbrögð yfirvalda í New York við hryðju-
verkaárásunum í hitteðfyrra kölluðust að vissu
leyti á við þessa hugmynd. Fólk var hvatt til
þess að halda áfram daglegum störfum sínum í
kjölfar harmleiksins í stað þess að draga sig inn
í skel. Ástæðan var einföld; hræðsla borgarbúa
við truflað borgarlíf er í sjálfri sér truflun á
borgarlífinu. Hugarfarið ræður úrslitum.
Heimasmíðaðar veraldir
Á öllum sviðum óttast menn endalok. Eða er
kannski hægt að gera því skóna að þeir óski sér
endaloka? Í sumum tilfellum virðist það ekki
fjarri lagi. Kermode hefur sína skýringu á þess-
ari tilhneigingu. Hann bendir á að einn helsti
kostur tímamóta og endaloka sé sá að þau geri
okkur kleift að átta okkur á hræringum og inn-
taki ákveðinna skeiða. Það sé varla hægt í
miðjum klíðum, frá okkar óskilgreinda stað í
miðjunni, og þess vegna verði að ná einhverjum
áfanga til þess að öðlast yfirsýn yfir það sem
gerst hefur.
Áður er nefnd sú leið að binda sífellt enda á
tímabil, til þess að ná yfirsýn, en ef hún bregst
er önnur leið fær: Að búa til frá grunni veraldir
þar sem allt hefur samhljóm og merkingu. Und-
ir þann hatt falla skáldsögur, kvikmyndir og
önnur listaverk þar sem minnstu smáatriði í
upphafi verks geta haft merkingu sem afhjúpuð
er þegar á líður, eða stuðlað að rökréttum sögu-
lokum. Við slíku er aftur tæplega hægt að búast
í lífinu sjálfu þar sem of margt er tilviljun og
ekkert er ákveðið fyrirfram.
Heimsmyndabygging af þessum toga hlýtur
að gera hlutskipti mannsins þolanlegra en ella.
Ef hann getur skapað sér heim þar sem allt hef-
ur tilgang og leiðir að röklegum lokum er nokk-
uð unnið í baráttunni við meint merkingarleysi
hans eigin lífs.
Skáldsagan hefur af þessum sökum upphaf,
endi og röklega framvindu. Oftast. Og það er,
vel á minnst, endirinn sem öllu ræður. Fléttan
fylgir mynstrinu tikk-takk, frá sköpun til slita,
og til þess að saga gangi upp þarf hún að við-
halda lifandi eftirvæntingu eftir takk. Samband
lesanda við bókina byggist á væntingum hans og
mætti sögunnar til þess að koma honum sífellt á
óvart – saga sem heldur áfallalaust áfram að
fyrirsjáanlegum endi er nær goðsögu en skáld-
sögu, svo vitnað sé enn í Kermode. Því djarfari
hvörf, sem kollvarpa væntingum okkar, því bet-
ur speglar verkið kynni okkar af veruleikanum.
En hver sem fléttan kann að vera er lesanda/
áhorfanda varla rótt fyrr en hann hefur fengið
kröfu sína um sögulok uppfyllta. Endirinn er
markmið, eins og einmitt felst í hugtakinu sjálfu
á ýmsum tungumálum. Endirinn ljær hverju at-
riði nýja merkingu, sé það lesið í samhengi
heildarinnar. Í sakamálasögum kemur iðulega í
ljós í lokin hver hinn seki er og breytist þá við-
horf lesandans til persóna um leið og skilningur
hans á atburðum skerpist. Í sumum verkum
kemur í ljós á síðustu metrunum að aðalpersón-
an er eitthvað annað en lesandinn hélt, kannski
morðingi, kannski hundur, kannski framliðin
manneskja: ... „já og nú veit ég það, núna veit ég
það, því er í raun þannig varið, ég er ÞINN
AFTURGENGNI SONUR“ er t.d. letrað á
lokasíðu Svefnhjólsins eftir Gyrði Elíasson.
Tilbrigði af þessum toga hafa og skilað fersk-
um straumum inn í kvikmyndagerð; nú um
stundir eru mjög í tísku kvikmyndir þar sem
endirinn bætir spánnýrri vídd í það sem áhorf-
endur hafa þegar meðtekið (Fight Club, The
Sixth Sense o.fl.).
Allt er óskapnaður
Það skal eftir sem áður haft í huga að skáld-
sögur eru ekki lífið, eins og Sartre sagði, en þær
eru á einhvern hátt eins og lífið. Þess vegna eru
fyrirvaralaus endalok skáldverka jafnvel í betra
samræmi við veruleikann en undirbyggð sögu-
lok, þegar allt kemur til alls. Lífinu getur lokið
hvenær sem er og þess vegna eru endasleppar
sögur kannski sannari en aðrar bækur. Dæmi
um þetta er skáldsagan Ameríka eftir Kafka,
sem víða hefur verið gefin út þrátt fyrir að vera
aðeins hálfkarað verk. Síðasta efnisgrein bók-
arinnar hefst á orðunum: „Fyrsta daginn var
ekið yfir hátt fjall.“ Í vændum er allt annað en
niðurlag, sögumaður er í miðju kafi að lýsa
fyrsta degi lestarferðar, en þá – skyndilega –
sleppir frásögninni. Hún er enda-laus. Höfund-
urinn átti víst í erfiðleikum með að ljúka sögunni
og hvarf frá henni í þessu ástandi. Svo dó hann.
Það hafa verið örlög margra bóka gegnum
tíðina að enda (eða hefja) líf sitt hálfkláraðar.
Menn eru alltaf að deyja, þar með taldir höf-
undar, og þeir deyja stundum frá óloknum verk-
um sínum. Hins vegar er ekki algengt að slíkar
bækur rati í útgáfu því krafan um heildstæða
byggingu hefur löngum verið ofarlega í huga út-
gefenda. Á tímum póstmódernískrar endur-
skoðunar á viðteknum venjum virðist hins vegar
sem fleira sé leyfilegt en áður; óhefðbundin
bygging (meðvituð eða ómeðvituð) vekur at-
hygli og er gjaldgeng í flórunni.
Póstmódernisminn nýtir uppbrot módern-
ismans á útveggjum skáldskaparins til þess að
reisa nýjar borgir. Afnám greinamerkjasetn-
ingar, fjarvera ríms, rof upphafs, miðju og end-
is, allt verður að nothæfum múrsteinum í fram-
kvæmdaáætlun nýrra tíma. Það er ekki alls
kostar rétt að frásögnin sé horfin úr samtíma-
verkum og höfundurinn er langt í frá dauður.
Þvert á móti eru þessi fyrirbæri sýnilegri en oft
áður og þar með líflegri. Innviðir skáldverka eru
augljósir, blekkingarnar játaðar og samræðan
við hefðina meðvituð.
Á tímum póstmódernisma, segja spekingarn-
ir, upplifir einstaklingurinn sig í miðju sögunn-
ar, í miðju safninu, og getur unnið úr því sem í
kringum hann er að vild. Kannski er minningin
um upphafið týnd og fyrirboði endalokanna
óljós, eins og Kermode leggur til, og kannski
snýst samtímaskáldskapur um að fara með for-
tíð og framtíð sem sérstaka útgáfu samtíðarinn-
ar. Í þessu samhengi mætti taka ótalmörg dæmi
um menningarfyrirbæri sem fjalla um fortíð,
tímaflakk, framtíðarspár og fleira, út frá augna-
bliki samtímans. „Í miðjunni leitum við að full-
komnun tímans, að upphafi, miðju og endi í sam-
ræmi,“ sagði Kermode og segir enn. Kannski er
betra að orða þetta þannig að í upplausninni sé
allt hægt. Í heimsslitum, í hruni viðtekinna
gilda, opnast möguleikar á nýjum samsetning-
um, rétt eins og segir í Gunnlaðar sögu á nýárs-
nótt þegar öll grafhýsi opnast og dauðir rísa
upp: „Allt er óskapnaður. Tíminn mælir ekki.
Hvergi er upphaf né endir. Konungurinn þarf
að deyja til þess að endurfæðast“ og „allt fórnar
sér í samruna við andstæðu sína til að kveikja
nýtt líf úr dauða sínum“. Þannig er ástandið
kannski nú á þröskuldi nýársins, á tiltölulega
nýbyrjuðu árþúsundi, að þrot endalokanna fæða
af sér ferska sýn. „Þá fyrst skilst manni að and-
stæðurnar eru ekki líf og dauði heldur líf og ótti.
Hví skyldu menn óttast einsemd dauðans? Sú
einsemd varir aðeins þá örskotsstund áður en
hnitbjörgin opnast og hvel hverfist á ný,“ segir
ennfremur í Gunnlaðar sögu með vísan til trú-
arinnar á líf eftir dauðann. Það er sú trú sem
óneitanlega kemur í veg fyrir að við förum yfir
um – í öllu falli vissan um að jörðin muni halda
áfram að snúast eftir okkar dag.
Heimavinna og heilablæðing
Að lokum þetta: Italo Calvino skrifaði árið
1985 fimm fyrirlestra sem hann hugðist halda
við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Þeir
báru undirtitilinn „Sex minnispunktar fyrir
næsta árþúsund“ og fjölluðu um bókmenntaleg
gildi sem hann taldi nauðsynlegt veganesti inn í
þriðja árþúsundið. Sjötti kaflinn átti að fjalla um
samræmi og hugðist Calvino skrifa hann vest-
anhafs. En skömmu áður en að ferðinni kom lést
höfundurinn af völdum heilablæðingar. Enda-
lokin voru óvænt, rétt eins og í sögunum tíu í
bók hans Ef ferðalangur á vetrarnóttu. Þess má
að auki geta að áttundi fyrirlesturinn átti, að
sögn eftirlifandi eiginkonu hans, að heita „Að
hefja og enda (skáldsögur)“ en handritið að kafl-
anum hefur ekki fundist. Aðeins minnispunktar.
Þrátt fyrir formtilraunir sínar hélt Calvino þó
þegar allt kom til alls í gömlu hefðina um sögu-
lok og köttinn sem setur upp á sig stýri. Títt-
nefndri bók, Ef ferðalangur á vetrarnóttu, lýkur
nefnilega á því að Lesandinn og vinkona hans
Ludmilla ná fullkomlega saman og gifta sig.
Samstundis gleymir lesandinn vonbrigðum sín-
um yfir að hafa ekki fengið að klára neina af sög-
unum tíu og uppgötvar að saga Lesandans og
Lesynjunnar var sú sem skipti mestu máli.
Og til þess að hnykkja enn frekar á því að
bókinni sé að ljúka lætur Calvino aðalpersónuna
klára bókina sem hinn raunverulegi lesandi hef-
ur í hendi sér á sömu stundu. Þar sem hjónin
liggja í rúmi sínu spyr Ludmilla sinn heittelsk-
aða Lesanda hvort hann ætli ekki að slökkva á
náttlampanum og hann svarar: „Augnablik. Ég
er rétt að klára Ef ferðalangur á vetrarnóttu
eftir Italo Calvino.“
Taktfesta fyrri tíma hefur gengið til. Línu-
legur lestur er truflaður með tilkomu völund-
artexta (e. hypertext) og óumbeðnu flæði upp-
lýsinga úr öllum áttum. Náttúruleg framvinda
lífsins er trufluð með læknisfræðilegum aðgerð-
um, endurlífgunum, tæknifrjóvgunum og öðrum
inngripum. Það er varla skrýtið að skálduð verk
sem spretta úr slíkri áttvillu haldi sig ekki við
hefðbundna framvindu.
Úrvinnslu og framandgervingu endaloka
mun áreiðanlega verða fram haldið, bygging
verka mun áfram toguð og teygð til þess að
rannsaka enn betur eðli þeirra og innviði.
En þótt viðhorf til upphafs og endaloka hafi
breyst er þráin enn fyrir hendi. Þrá eftir því að
komast á leiðarenda, fræðast um afdrif, skynja
samhengið í byggingu verksins, byggingu
heimsins. Við þörfnumst þess enn að sögum í
bókum og bíómyndum ljúki. Sem þær og gera
flestar. Geri þær það hins vegar ekki eftir hefð-
bundnum leiðum, höfum við alltént meiri skiln-
ing á því hvað það táknar. Við vitum að lífinu
getur lokið fyrirvaralaust og skáldskapurinn
speglar ekki lífið almennilega nema hann bjóði
af og til upp á óvænt eða ófullkomin endalok.
Heimildir
Barth, John: „The Literature of Exhaustion“ í The Atl-
antic, ágúst 1967.
Beckett, Samuel: Sögur, leikrit, ljóð. Svart á hvítu,
Reykjavík, 1987.
Calvino, Italo: Lezioni americane. Arnoldo Mondadori
Editore, Milano, 1993.
Calvino, Italo: Se una notte d’inverno un viaggiatore
(nefnd í texta Ef ferðalangur á vetrarnóttu). Arnoldo
Mondadori Editore, Milano, 1994. (Lausl. þýð. tilv. SÞ.)
Gyrðir Elíasson: Svefnhjólið. Mál og menning, Reykjavík,
1990.
Kafka, Franz: Ameríka. Mál og menning, Reykjavík, 1998.
Kermode, Frank: The Sense of an Ending: Studies in the
Theory of Fiction. Oxford University Press. London, Ox-
ford, New York, 1973.
Svava Jakobsdóttir: Gunnlaðar saga. Uglan, Reykjavík,
1990.
Morgunblaðið/Ómar
„Við tímamót (afmæli, áramót o.fl.) svífur andi söknuðar og trega yfir vötnum, tímamót eru að vissu leyti dauði.“