Lesbók Morgunblaðsins - 04.01.2003, Síða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. JANÚAR 2003 9
samsett úr tveimur frásögum sem teflt er sam-
an og þannig myndast sú magnaða spenna sem
berst til okkar með ljósinu. Hér er ekki lítið
lagt undir. Á dramatískan hátt er verið að
túlka sköpun og frelsun heimsins í einni mynd.
Byggt er á þeim atburðum Biblíunnar þar sem
Guð opinberar kærleika sinn til mannanna.
Annars vegar er það krossfestingin á Golgata
þar sem Jesús Kristur sonur Guðs, boðberi
kærleika og friðar, er líflátinn á kvalafullan
hátt. Hins vegar er um að ræða mynd af sól-
arupprás. Sólin er komin upp og miðja hennar
er þar sem armar krossins mætast.
Þessi mynd minnir mig á aðra mynd sem ég
á í hugskoti mínu. Norðan við kirkjuna í Skál-
holti hefur verið settur útikross að gömlum
sið. Standi maður steinsnar vestar má á föstu-
inngangi sjá sólina koma upp við eldfjallið
Heklu sem kúrir sakleysislega undir skýinu
sem oft hylur tind þess. Í nokkrar mínútur ber
miðju krossins við sólina og þá kemur manni
Golgata síst í hug. Ljósið verður þessa stuttu
stund birtingarform skapara himins og jarðar.
Við erum nálægt atburðunum sem myndin
lýsir – við erum í myndinni, við erum ímynd
Guðs. Sólarupprásin er birtingarform sköpun-
ar Guðs, sem opinberaði það í syni sínum að
hann er kærleikur. Þetta sýndi hann vottunum
á Golgata og vottunum við gröf Krists á páska-
dagsmorgun.
Í sólarupprás á páskadagsmorgun að aflokn-
um hvíldardegi gyðinga, á fyrsta degi nýrrar
viku, kom í ljós að gröfin var tóm.
Það var fullkomnað.
Kærleikur Guðs hafði sigrað vegna lífs,
dauða og upprisu Guðs sonar. Kristur er því
svarið við dýpstu og stærstu spurningum
mannsins, spurningum um þjáninguna, rétt-
lætið og dauðann. Þetta magnaða listaverk,
gæti sem best borið heitið sköpun og end-
urlausn, en það er heiti á kennslubók í trú-
fræði sem notuð var um áraraðir við guðfræði-
deild Háskóla Íslands.
Þessi mynd gæti einnig borið heitið Sigur
lífsins, sem er yfirskrift sýningar Leifs Breið-
fjörð í anddyri Glerárkirkju, kirkjunnar sem
opnuð var um leið og nýi glugginn var tekin í
notkun.3 Þar voru fimmtán myndir til sýnis
unnar í vatnslitum og pastel. Sigurboginn,
hringlaga eggform og kvadrófóíl formin eru
notuð sem umgjörð. Það síðastnefnda er eins
konar fjórblöðungur eða blómakróna sem vís-
ar, eins og hringformið, til fullkomleikans.
Kvadrófóil formið er mjög algengt í kirkju-
list, ekki síst í dómkirkjum miðalda. Það skír-
skotar til jafnvægis og samræmis bæði í ljósi
fagurfræði og sálfræði. Sálkönnuðurinn frægi,
Carl Gustav Jung, hélt því fram að ferningin,
quaternity, væri frumlægara og sterkara
trúartákn en þrenningin sem skortir skírskot-
un í höfuðáttirnar fjórar og frumefnin fjögur
eins og krosstáknið gerir til dæmis.
Verurnar í myndunum á sýningunni eru í
sama stíl og í glermyndinni, englar, dýrlingar
og biblíulegar persónur – tengiliðir mannsins
við æðri heima, sendiboðar Guðs. Í þessum
myndum eru fuglar. Dúfan er tákn heilags
anda, en getur einnig táknað hinn leitandi og
frjálsa huga mannsins. Örnin flýgur fugla hæst
og hefur því yfirsýn. Hann er tákn Jóhannesar
guðspjallamanns.
Í myndunum má sjá glímuna við sköpunar-
stefið, t.d. þar sem sjónarhornið er frá öðrum
hnetti á eyjuna Solaris í hringlaga úthafinu.
Hér vísar Leifur til þekktrar kvikmyndar eftir
Rússann Andrei Tarkovsky með þessu nafni.
Höfuð Leifs
Í myndum Leifs Breiðfjörð má oft greina
fyrirbæri sem hann kallar hausinn eða kallinn.
Þetta er einfalt og stílgert mannshöfuð, sem
kannske er tákn um manninn sem slíkan eða
mennskuna. Hausinn er yfirþyrmandi í stórum
glerverkum sem er t.d. að finna í Þjóðarbók-
hlöðunni og í flugstöðinni í Keflavík, sem
kennd er við Leif Eiríksson og hann er einnig
til sem glerskúlptúr í minni gerð.
Þessi haus veit upp og starir oft blindum
augum inn í óendanleikann. Yfirleitt eru haus-
arnir með lokaðan munninn eða hann er aðeins
opin upp á gátt, en nefið er stórt og skagar
fram. Það er engu líkara en að hann sé að þefa
af óendanleikanum, hinum endalega veruleika
sem öll sönn list reynir komast í tæri við, ef
trúa má Paul Tillich sem áður er nefndur.
Ég held að þessi haus sé í raun og veru tákn
listamannsins sjálfs og að hann samsami sig
stundum þessum hausi.
Stíll og form steinda gluggans á vesturgafli
Glerárkirkju svipar um margt til annarra
mynda sem Leifur hefur gert fyrir kirkjur.
Hann notar hefðbundin tákn án þess að vera
háður þeim og hann brýtur þau upp hvenær
sem honum sýnist til að opna fyrir nýrri sköp-
un. Hann er alltaf tilbúinn að ryðja úr vegi því
sem hindrar nýja uppbyggingu.
Í því skyni teflir hann fram andstæðum í
formum, litum og ljósi. Það óvænta er alltaf að
verða til í þessum myndum. Á máli guðfræð-
innar segjum við að kraftur Guðs brjóti hlekki,
fyrirgefi og frelsi. Hann leysir manninn frá of-
urvaldi syndarinnar og hefðarinnar ef hún er
aðeins dauður bókstafur.
Það er mikið af karisma í þessum myndum,
mikil gleði, lofgjörð og dýrðarsöngur. Sjálft
verkið er eins og í leiðslu. Það er næstum eins
og undir taki englasöngur í litadýrðinni og
hreyfanleika formanna. Þannig fyllast verkin
anda sem blæs þangað sem hann vill.
Þetta einkennir einnig þau glerlistaverk
sem Leifur hefur gert tillögu að í fjóra glugga
kirkjuskipsins. En þar eru einnig verk sem af
stafar blæ íhugunar og kyrrðar, t.d. mynd-
irnar af auganu og fiskinum sem kallast á yfir
kirkjurýmið og geta táknað nærveru Guðs og
kirkjuna. Stundum má greina kímni í kirkjulist
Leifs og það þarf ekki að vera goðgá í trúar-
legri list þar sem lofgjörð og gleði eru annars
vegar. Myndin af fiskinum með helga menn í
maganum er dæmi um þetta. Stórfiskurinn
syndir tignarlega í loftinu að því er virðist yfir
yfirborði vatnsins eða textans því öldurnar
geta einnig skírskotað til ólæsilegra orða á
blaði. Fiskur sem er laus við vatnið er tákn um
mikið frelsi – allavega er það vísbending um
kraftaverk. Fiskurinn – kirkjan og vatnið –
textinn kallast á eins og í allri góðri guðfræði.
Það kirkjulistaverk úr gleri sem skýrast talar
á máli íhugunar og bænar er myndin í kapellu
kvennadeildar Landspítalans. Heilög kyrrð
einkennir verkið sem og trúarleg alvara sam-
fara sterkri von. Þannig slær list Leifs á
marga strengi trúarlífsins.
Markmið listamannsins er hvorki að auglýsa
tákn og merki né endurtaka ákveðna játningu.
Hér eru það tilfinningarnar sem lýsa upp
myndverkið – tilfinningar sem frelsandi kær-
leikur Guðs hefur vakið – Guðs sem lætur sér
annt um sköpun sína og manninn þar með tal-
inn.
Paul Tillich hefur sett fram kenningu um
fimm formgerðir í myndlist sem tengja má við
mismunandi trúarafstöðu og trúarreynslu.4
Þau verk Leifs sem hér eru sérstaklega til um-
ræðu falla öll undir expressionisma vegna þess
að þau vísa til veruleika bak við það sem mynd-
in sýnir. Trúin sem þar finnur farveg er fyrst
og fremst hrifning og leiðsla – ecstatic og
spiritúal. Myndirnar grípa áhorfandann og
hrífa hann með sér inn í annan heim sem er
laus við takmarkanir og hindranir þessa
heims.
Sem stílform er expressionisminn andsvar
við raunsæisstefnu og hughyggju í myndlist.
Raunsæisstefnan (realism) er að mati express-
ionista of jarðbundin – of bundin við þá hluti
og þau tákn sem notuð eru í myndefninu sjálfu
til að geta opinberað handanveruleikann. Hún
hneigist stundum til bölsýni og fer því á mis
við vonina sem er grundvöllur trúarinnar.
Hughyggjan (idealism) er aftur á móti í eðli
sínu bjartsýn á möguleika mannsins til að ná
fullkomnun og fundvís á æðri markmið og leið-
ir. Þessi stefna gefur manninum og athöfnum
hans því gjarnan guðlegar eigindir. En það er
einmitt þetta sem getur komið í veg fyrir að
sannleikurinn nái að brjótast fram og sigra illu
öflin, öfl myrkursins.
Það sem hindrar hughyggjuna í að miðla
sannleikanum á trúverðugan hátt er, að
margra mati, að hún kemst ekki lengra en að
fegra það sem fyrir er og birtir þess vegna
falska mynd af veruleikanum. Frelsandi sann-
indi verða ekki leyst úr læðingi innan vébanda
hughyggjunnar segja expressionistar.
Frelsandi kærleikur
Hvað er það sem leysir sannindin um frels-
andi kærleika úr læðingi í þessum myndum og
gerir þær trúverðugar sem listaverk? Leifur
Breiðfjörð svarar því aldrei beint. Ég hef um-
gengist hann í nokkur ár og hef ekki fengið
svar, þótt ég viti að hann sé allur af vilja gerð-
ur að leysa úr þessari þraut.
Leifur er ekki beinlínis karismatísk persóna
og ekki líklegur til að falla í trans á trúar-
samkomum. Þeir sem ekki þekkja hann vel
gætu haldið að áhugi hans væri takmarkaður
við efnisleg fyrirbæri. Hann virðist bundinn
við handverkið og tæknilega útfærslu og hefði,
eins og forfeður hans, ábyggilega orðið góður
uppfinningamaður. Stundum minnir höfuðið í
myndum hans á kafara eða geimfara. Leifur
hefði ábyggilega orðið góður landkönnuður.
Það er eins og náðargáfa listamannsins hafi
farið beint í fingur hans. Ég hef séð andann
koma yfir hann og þá sést það bara á því
hvernig hann hreyfir hendurnar.
Leifur var í Skálholti að bíða eftir fólki sem
vildi fá eiginhandaráritun hans á listverkabók
hans með myndum úr Opinberunarbókinni.
Andinn féll einnig yfir hann þar sem hann var
með blað og blýant á djasstónleikum í Skál-
holtskirkju vorið 2000. Á ótrúlegum hraða
teiknaði hann hugmyndir sínar að nýjum lista-
verkum.
Það er sama hve oft maður spyr og hvernig
maður spyr um raunverulegt inntak verka
hans. Hann brosir sínu ljúfa og milda brosi og
víkur sér glaðlega undan og breytir um um-
ræðuefni, og víkur talinu gjarnan að einhverju
sem hann veit að viðmælandinn hefur áhuga á.
Eiginkona hans og náinn samstarfsmaður til
margra ára, Sigríður Jóhannsdóttir sem einnig
er kirkjulistamaður, hefur heldur ekki gefið
skýr svör um þetta.
En hún sagði mér frá atviki sem ég held að
sé lykillinn að svarinu við spurningunni. Leifur
var spurður í þaula af væntanlegum kaupanda
verks um endanlega merkingu þess og hann
færðist undan eins og vanalega, en sá fyrri gaf
ekki eftir og varð ágengur. Leifur svaraði hon-
um loks, svolítíð pirraður: „Æ, það má Guð
vita.“
Listaverk Leifs lifna og fá merkingu fyrir
trú þeirra sem njóta þeirra í kirkjunni. Hefð-
bundnu sálmarnir eru ef til vill ekki alveg í
sama takti og þessi listaverk, en í nýju sálma-
bókinni eru lofsöngvar sem taka undir með
þessum myndum. Þau skírskota sérstaklega til
lofgjörðarinnar í upphafi messunnar.
Í messunni, 8. desember, þar sem söfnuður-
inn tók á móti nýja listaverkinu og þakkaði
listamanninum var sunginn lofgjörðarsálmur
eftir Sigurbjörn Einarsson sem vel á við and-
ann í kirkjulist Leifs. Eftirfarandi vers flytur
sama boðskap og glerlistaverið umrædda og er
yfirskriftin Sigur lífsins:
Vakna, lifna, lífið kallar,
ljóssins ríki frelsarans,
bróðurfórnin brúað hefur
bilið milli Guðs og manns.
Opna hjartað, elska, þjóna
anda, vilja, kærleik hans.
Listaverkið í glugganum og myndirnar á
sýningunni lifna við þegar presturinn tónar
eftirfarandi lofgjörð í upphafi þakkargjörðar-
innar þegar kemur að altarissakramentinu:
Sannlega er það maklegt og réttvíst,
skyldugt og mjög hjálpsamlegt,
að vér alla daga og á öllum stöðum
lofum þig og þökkum þér,
þú heilagi Drottinn, almáttugi faðir og eilífi
Guð
fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Og þegar söfnuðurinn rís úr sætum og syng-
ur Sanctus (heilagur) þá taka englarnir og
postularnir undir:
Heilagur, heilagur, heilagur ert þú,
Drottinn, Guð allsherjar.
Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni.
Hósíanna í upphæðum.
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.
Í krossmarkinu miðju er þyrnikórónan, eina
táknið fyrir utan spjótið sem í raun minnir á
þjáningar Jesú. En fyrir áhrif sólarinnar um-
myndast þyrnikóróna þjáningarinnar í lífsins
kórónu, sem minnst er á í Opinberunarbók Jó-
hannesar. Það er þessi kóróna sem átt er við
þegar fermingarbörnin fá blessun með orð-
unum:
„Vertu trú allt til dauða og Guð mun gefa
þér lífsins kórónu.“
Kristur er ekki lengur á þessum krossi og
hann er ekki í gröfinni heldur. Hann er hér
meðal okkar, hér í kirkjunni og í hjörtum
þeirra sem trúa.
Og í messunni erum við ímynd – í mynd –
hans.
Heimildir
1 Guðbergur Bergsson 2002: Kyrr birta – heilög birta.
Listasafn Kópavogs. S. 74.
2 Íslensk Hómilíubók. Fornar stólræður. Hið íslenska
bókmenntafélag. Reykjavík 1993. S. 8–9.
3 Laugardaginn 7. desember 2002. Daginn eftir var
glugginn helgaður af biskupi Íslands, Herra Karli Sig-
urbjörnssyni, við hátíðarmessu að viðstöddu fjöl-
menni. Þá var tíu ára vígsluafmæli kirkjunnar og við
það tækifæri var ný kapella tekin í notkun.
4 Paul Tillich 1960: „Art and Ulitimate Reality.“ Cross
Currents. A Quarterly Review. Vol X,1
AN OG TRÚIN
élaginu Baldursbrá. Sköpun. Ein af myndum Leifs Breiðfjörð á sýningunni Sigur lífsins.
Höfundur er prófessor í kennimannlegri guðfræði við
guðfræðideild Háskóla Íslands.