Lesbók Morgunblaðsins - 25.01.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. JANÚAR 2003
É
G NOTA framandleika og trufl-
un til að sjá hlutina í öðru sam-
hengi,“ sagði myndlistarmaður-
inn Hlynur Hallsson um verk
sitt „Fánar fyrir Gehrden“ frá
1998, þar sem hann flaggaði
texta; texta sem hann tók í
sundur, saumaði á skjaldar-
merkjaliti og varpaði þannig nýju ljósi á fortíð
og samtíð. Í öðru verki, „Landamæri“, frá
1996–1998, dró hann upp stjórnmálaleg landa-
mæri ríkja og spurði hvort þetta væru hin
raunverulegu landamæri og hvort til væru
önnur landamæri. Það má segja að verk Hlyns
byggist á spurningum sem vekja upp spurn-
ingar sem vekja upp enn fleiri spurningar – og
ekkert virðist blasa við nema óendanleiki
spurningaheimsins.
– Eða hvað?
Hver veit nema við yrðum einhvers vísari
um okkur sjálf og hinn meinta veruleika okkar
ef við tækjum okkur til og svöruðum þeim.
Spurningarnar eru ekki flóknar og krefjast
ekki neinnar sérþekkingar – en þær eru
ágengar í einföldum hversdagsleika sínum.
Uppistand í Marfa
Hlynur hefur haldið fjölda einkasýninga og
tekið þátt í ógrynni samsýninga hér heima og
erlendis en líklega er sýning hans í Marfa í
Texas í Bandaríkjunum sú sýning sem er okk-
ur ferskust í minni. Hún vakti svo gríðarleg
viðbrögð að jafnvel virtustu fjölmiðlar í
Bandaríkjunum blönduðu sér í slaginn.
Á sýningunni voru verk byggð á staðhæf-
ingum á borð við „George Bush er idiot“ og
„Ísland er bananalýðveldi númer eitt“. Strax á
opnunardegi lá við uppþotum í Marfa og þegar
seinni hluti sýningarinnar var opnaður með
þveröfugum staðhæfingum, gátu þær virst
eins og léleg afsökun frá hendi listamannsins.
En það var af og frá. Sýningin var byggð á
andstæðum staðhæfingum sem oft heyrast
manna á millum og í fjölmiðlum í Evrópu og
Bandaríkunum og átti að endurspegla hversu
ólík afstaða þessara heimsálfa er til alþjóð-
legra málefna. Vissulega átti það að vera ögr-
andi – en ekki bara til að ögra – heldur til þess
að hvetja til umræðu um málefni sem koma
heiminum öllum við.
Þegar Hlynur er spurður hvaða augum
hann líti uppistandið í Marfa þegar hann lítur
til baka, segir hann að það hafi ekki eingöngu
snúist um verkið sem hann sýndi. „Það hafði
líka eitthvað með þennan smábæ í Texas að
gera og spennuna sem hafði myndast í kring-
um þetta listasafn. Bærinn liggur nálægt
landamærum Mexíkó og sjötíu af hundraði
íbúanna eru innflytjendur. Það er allt mjög
slétt og fellt á yfirborðinu en undir niðri er allt
kraumandi.
Ég hafði ekki heldur gert mér grein fyrir
því að um það leyti sem sýningin var opnuð var
eitt ár liðið frá 11. september. Fyrir okkur
sem búum í Evrópu er sá dagur liðinn en í
Bandaríkjunum er sá dagur allir dagar og
verður líklega um alla framtíð. Það er enn ein
ástæðan fyrir því hvað þetta varð mikið tilfinn-
ingamál.“
Spurningar og samhengi
Á sýningu sem Hlynur opnar í Nýlistasafn-
inu við Vatnsstíg í dag, eru ljósmynda- og
textaverk, myndband, innsetning eða aðstæð-
ur og viðhorfskönnun. Elstu verkin á sýning-
unni eru frá 1999 og þau nýjustu frá þessu ári.
Þegar hann er spurður hvort hann vinni út frá
einhverju þema, segir hann: „Nei, sýningin
heitir „bíó – kino – movies“ en þetta er ekki
þemasýning. Verkin snúast hins vegar öll um
myndir og texta og er spurning um það hvern-
ig viðtakandinn upplifir samhengi myndar og
texta.“
Hvort ertu að ögra eða spyrja spurninga?
„Ég ætla að vona að myndlistarmenn hætti
aldrei að spyrja spurninga – og ögra. Ég er
auðvitað á vissan hátt að ögra en það er hins
vegar spurning hvernig maður fer að því og
hver tilgangurinn er. Ég get alveg fallist á það
að í mínum verkum megi alltaf greina ein-
hverja kaldhæðni en yfirleitt fjalla þau um
venjulegt líf – um leið og spurt er: Hvað er
venjulegt?
Ég er með venjulegar fjölskyldumyndir,
sem hægt er að líta á frá öðru sjónarhorni. Ég
sýni líka bíómynd í fullri lengd sem ég tók upp
í morgun og spyr: Hvað er bíómynd? Síðan set
ég diskókúlu inn í hversdaglegt umhverfi“.
Hvers vegna?
„Ef einhver tekur upp á því að hengja upp
diskókúlu í sitt hversdagslega umhverfi, þá
segir það eitthvað um viðkomandi, ekki satt?
En það segir okkur ekki öllum það sama.
Mér finnst gaman að færa myndlistina inn í
fólkið og fólkið inn í myndlistina. Síðan er
spurning hvað sé unnið með því og hvernig
maður gerir það.
Ég hef engan áhuga á að prédika eða spyrja
óþægilegra spurninga, en ég held samt að fólk
líti á myndir mínar sem einhvers konar ögrun,
þótt þær séu sléttar og felldar á yfirborðinu.
Þetta snýst allt um tilfinningaviðbrögð viðtak-
andans. Það er alltaf spurning hvort við getum
sett okkur í spor hans – og spurning um hvort
okkar eigin viðbrögð séu eitthvað betri. Þegar
öllu er á botninn hvolft snýst þetta um for-
dóma og fordóma gegn fordómum. Síðan snýst
þetta einnig um ritskoðun; hvað við megum
segja og gera – hvar eru mörkin?“
Vísindalega ómarktækt
Þú varpar endalaust fram spurningum?
„Já, það er nú svo að ein spurning kallar á
fleiri spurningar og þetta snýst um að spyrja
ekki bara út í bláinn. Ein leiðin sem ég nota er
að tengja saman mynd og texta. Í fljótu bragði
virðast myndin og textinn ekki eiga saman, en
gera það samt. Það fer allt eftir því hver spyr
og hver situr fyrir svörum.“
Svo gerirðu viðhorfskönnun.
„Já, þetta eru einfaldar spurningar á við
„ertu ánægð/ur“ og „ertu hrædd/ur“; spurn-
ingar þar sem kannað er almennt viðhorf til
lífsins. Spurningarnar eru almenns eðlis en
samt spurningar sem maður ætti að spyrja sig
á hverjum degi. Það ætti hver og einn að geta
svarað eins einföldum spurningum og „hver er
ég“, „hvert stefni ég“, „hvað vil ég“? En það er
ekki svo. Svörin við þessum spurningum setja
hlutina í visst samhengi. Þau setja mann í önn-
ur spor en maður stendur í hverju sinni.“
Hvernig tekur fólk því að taka þátt í við-
horfskönnun af þessu tagi?
„Það er enginn gestur á sýningunni krafinn
svara. Það er enginn neyddur til þess að setja
niður og krossa við spurningarnar – en ef fólk
gerir það, þá setur það sig í þær stellingar að
velta fyrir sér hvað því finnst um eigið líf.“
Og birtir þú svo niðurstöðu könnunarinnar?
„Já, ég birti allar niðurstöður kannana sem
myndlistarverk.“
Eru þær kannanir þínar vísindalega mark-
tækar?
„Nei, þær eru mjög ómarktækar út frá vís-
indalegu sjónarhorni. Ég nota listina til þess
að knýja fólk til að hugsa hvað því finnst um
sjálft sig. Þótt ekki hvarfli að mér að fíflast,
eða gera grín að fólki, tek ég mig hæfilega al-
varlega – en ég væri löngu hættur ef mér
þætti þetta ekki skemmtilegt.
Myndlistin má ekki vera of alvarleg. Það
verður að vera húmor í henni, jafnvel þótt hún
fjalli um grafalvarlega hluti. Ég held að lista-
maður nái betur til fólks með því að höfða á
einhvern hátt til skopskynsins.“
HVER ER ÉG – HVAÐ VIL ÉG?
Hlynur Hallsson opnar í dag sýninguna „bio – kino – movies“ í Nýlistasafninu, þar sem sýnd verða ljós-
mynda- og textaverk, myndband, innsetning og gerð verður viðhorfskönnun. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR
ræddi við Hlyn um spurningar sem vekja enn fleiri spurningar, fordóma og ögranir.
Morgunblaðið/Sverrir
Hlynur Hallsson: Ég ætla að vona að myndlistarmenn hætti aldrei að spyrja spurninga – og ögra.
FINNUR Arnar Arnarson og Jessica Jack-
son Hutchins opna jafnframt sýningar sín-
ar í Nýlistasafninu kl. 16 í dag.
Finnur Arnar sýnir myndbandsinnsetn-
ingu og Jessica ljósmyndir og skúlptúra.
List Finns Arnars væri hægt að staðsetja
milli hins hugmyndalega og hins ljóðræna.
Upphaf verka hans er hversdagslegt líf og
jafnvel enn frekar venjulegt fólk og þeirra
sögur. Finni Arnari hefur verið lýst sem
frásagnarmanni í list sinni. Í verkum hans
er til staðar sterk samkennd með mann-
eskjum og beinskeytt pólitísk gagnrýni á
umhverfi mannsins. Þessar tvær hliðar eru
óaðskiljanleg heild í verkum Finns Arnars.
Um list sína segir Jessica Jackson
Hutchins m.a.: „Ég geri verk mín úr til-
tæku efni í rýminu. Þessir hversdagslegu
hlutir fela í sér merki einhvers liðins, elli-
mörk og merki hnignunar. Allt þetta gefur
til kynna að skúlptúrarnir mínir hafi í eina
tíð haft annað notagildi og að tilfinn-
ingalegt og frásagnarlegt innihald þeirra
sé þegar til staðar í efninu, í heiminum. Á
þennan hátt fjalla verkin um sameiginleg
kennsl og viðurkenningu. Um leið og ég
umbreyti hlutunum með eiginlegan efnis-
leika þeirra í huga, þá verða aðferðirnar
til að skapa merkingu meginefnið. Verk
mín eru því mælikvarði á það hvernig við
reynum að lesa hvort annað í gegnum hlut-
ina sem við rekumst á, en einnig eru þau
merki/minjar um mínar eigin tilraunir til
að gera einmitt það.“ Sýningarnar standa
til 23. febrúar.
Nýlistasafnið er opið miðvikudaga til
sunnudaga kl. 13–17.
Hið hversdagslega í
skúlptúrum og myndbandi
Á sýningunni í Nýlistasafninu eru ljós-
mynda- og textaverk, myndband, innsetn-
ing eða aðstæður og viðhorfskönnun.