Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003 7 inum sæist fólkið sveima, langt inni í honum líkt og lifandi skuggar sem áttu frummynd sína og hugarfar leynt og grafið í öðrum tíma, á öðru sviði, langt aftur í forneskju og þess vegna æddi það um einmana, ruglað og sjálfu sér verst. Skammdegið ríkti.12 Hér er ekki ætlunin að þvertaka fyrir möguleikann á duldri samkynhneigð frá- skilda sálfræðingsins. Umræddur hellir getur hins vegar tæplega verið sérhannaður fyrir samkynhneigða. Það eru heldur tæplega orð Geirs Svanssonar. Líkt og gildir um grein Sigríðar Þorgeirsdóttur er grein Geirs um- fangsmikil, fræðilega séð. Hún er líka um hin- segin fræði til jafns við túlkun á skáldskap, eða öllu heldur það sem Geir kallar „hinsegin sögur“. Spurningin er hin vegar sú hvort hin- seginfræði – sem eiga upptök sín í almennri og á síðari tímum opinni baráttu samkyn- hneigðra gegn ofríki kenninga um rétta og ranga kynhegðun og æskilegt sambúðarform – hafi tilhneigingu til að snúast upp í kenning- arlegt ofríki, þegar og ef skáldskapur er ann- ars vegar. Við skulum snúa okkur að Þeirri kvöldu ást sem hugarfylgsnin geyma, en hún hefur líka verið kölluð hinseginsaga. Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma Efni skáldsögunnar Sú kvalda ást sem hug- arfylgsnin geyma er í grófum dráttum eft- irfarandi: Í Reykjavík samtímans situr nafn- laus maður í kjallara og skráir í dagbók leit hugar og líkama að farvegi ástarinnar. Eftir að hafa lifað vammlausu lífi sem eiginmaður, faðir, kennari og starfsmaður í menntamála- ráðuneytinu erfir hann íbúð og elskhuga æskuvinar síns og hellir sér af fullum þunga út í ástarsamband með manni, sem á líka konu. Líkt og tilfinningar séu enn alvöru við- fangsefni í nútímanum spyr hann myrkranna á milli um ástina og möguleika hennar: Er hjónabandið raunverulegur farvegur ástar? Ef svo er hvers vegna þrífast svo mörg sam- bönd á mörkum þess? Fara ástir samkyn- hneigðra tilfinningalífinu betur? Ef svarið er já hvers vegna finnur maðurinn ekki sálarró? Hvers vegna er dauðinn friðlaus á hælum ást- arinnar? Er þetta dauðinn sem er brenni- merktur eyðni eða er samband ástar og dauða mun eldra í menningarsögunni? Leit þessa manns vekur í stuttu máli djúpstæðar spurn- ingar um samband ástar og dauða í lífi og list nútímans. Í þessu efni er líka freistandi að slá fram tilgátu og smíða í beinu framhaldi hald- góða kenningu. Hér verður það ekki gert. Í þessari sögu sem ekki er tileinkuð fólki held- ur guði er spurningin um möguleika tilfinn- inga of fyrirferðarmikil til þess að túlkandi hennar hitti með góðu móti tiltekinn nagla á höfuðið. Hér þjónar dagbókarskrifarinn líka sem víti til varnaðar. Í þrotlausri leit að möguleikum ástarinnar gerir hann tilraun – í huganum – til þess að negla sig fastan á ást- mann sinn, án teljandi árangurs. Það sem hægt er að gera er að halda af stað og leita í sögunni að möguleikum tilfinninga sem virð- ast á víxl raunverulegir og óraunverulegir, lif- andi og dauðir, af þessum heimi og heimi skáldskapar. Það sem skiptir máli fyrir um- fjöllunina hér og nú er að líkt og í Hjartanu sem býr enn í helli sínum má í þessari sögu þreifa á óræði hvatalífsins. Eins má nálgast hugsun höfundarins um og samræðu hans við hugmyndir og kenningar um siðferði hvata- lífsins. Sagan kemur út árið 1993 og nútími hennar er yfirþyrmandi, eins og líf félagans vitnar um: Núna er ég búinn að missa tvær eiginkon- ur, vera í lausri sambúð með fimm, ég hef skilið í alvöru við tvær kerlingar, á samtals sjö börn með öllum og er ekki nema rúmlega fertugur og í fullu standi hvað það varðar. Vildirðu vera í mínum sporum? 13 Kenningakerfi kristninnar og þá sér í lagi tvíhyggja holds og anda á þó mögulega vinninginn. Sú kenning ríður ekki við ein- teyming í sögunni, kannski vegna þess að dagbókarskrifarinn kann sér ekki hóf í bar- áttunni gegn tómhyggju tvíhyggjunnar, þess- ari hugmynd um syndsamlegar ástir líkam- ans, beini andinn honum ekki í góðan og fallegan farveg: hið „kristna“ fjölskyldulíf. Nú fá fleiri persónur sögunnar ekki alfarið svarað boðun kenningarinnar. Sé litið yfir sviðið finna líka fleiri en dagbókarskrifarinn fyrir djúpstæðum vanda í sjálfu höfuðvígi sambúðarformanna; hinu blessaða hjóna- bandi. Eins er þetta með framhjáhald manns- ins og flöktandi kynhneið. Dagbókarskrifar- inn er ekki einn í framhjáhaldinu. Hann er heldur ekki stakur í því að halda framhjá kon- unni sinni með fráteknum manni. Ólíkt hinum persónunum hins vegar afræður dagbókar- skrifarinn að lifa tómhyggju tvíhyggjunnar og það með ástir líkamans að vopni. Eins og ég minntist á hefur sagan verið kölluð hinseg- insaga. Það er skiljanlegt. Í formála verður dagbókarhöfundi tíðrætt um ástina á tímum eyðni. Þetta er líka maður sem nauðugur vilj- ugur hellir sér af fullum þunga út í ástarsam- band með öðrum manni. Geir Svansson hefur í áðurnefndri grein sinni, „Ósegjanleg ást“, lesið söguna á hinsegin nótum og þá sem greiningu á hlutskipti og stöðu samkyn- hneigðra í vestrænu nútímasamfélagi. Geir talar um að ást sögunnar sé í svo miklum „þjóðfélagslegum meinum“ að hún geti ekki þrifist og taki á sig „skæðustu og óttalegustu mein nútímans; ást í meinum (mein) varpast yfir í ást í meini!“. Hér á Geir við sjúkdóm nú- tímans, segir kennarann og að öllum líkindum elskhugann vera með alnæmi eða eyðni, að dauðinn voki yfir frásögninni og að öll túlkun á skáldsögunni hljóti að taka mið af þessu. Ég tek undir það sjónarmið Geirs að dauðinn voki yfir frásögninni. Spurningin er hins veg- ar sú hvaða merkingu túlkandi sögunnar leggur í dauðann. Ég tek nefnilega líka undir það sjónarmið Álfrúnar Gunnlaugsdóttur að fræðimenn neyðist til að stíga varlega til jarð- ar þegar þeir nota bókmenntir sem sam- félagsheimild.14 Varnagli af þessu tagi varðar ekki síst umrætt samband ástar og dauða. Því hvað ef kvölin sem nefnd er í bókinni verði ekki eingöngu skýrð með umræddum fé- lagslegum aðstæðum? Er sagan kannski um dauðann í lífinu, hvernig allir eru dauðans matur? „Maður er ekki bara í þessu dauðans matur heldur í öllu frá því við fæðumst15,“ segir dagbókarskrifarinn við elskhuga sinn í framhaldi af umræðu þeirra um eyðni. Í um- ræðu um leit þessa manns að möguleikum til- finninga, um þá tilvistarskynjun sem hún vek- ur, um það sem er á vissan hátt raunverulegt í sögunni og þá atburði hennar sem gerast í margvíslegum skilningi getur þáttur eyðni í ástarsambandi tveggja samkynhneigðra karl- manna frekar kallast nútímalegur formáli en meginatriði. Önnur skáldsaga frá lokum 20. aldar kann að varpa ljósi á þetta grundvall- aratriði, en sagan The Married Man eftir Ed- mund White fjallar við fyrstu sýn um keimlíkt efni.16 Í báðum sögunum er í forgrunni ást- arsamband tveggja karlmanna sem eru smit- aðir af HIV-veirunni. Og í báðum sögunum er annar maðurinn giftur konu. En ólíkt The Married Man er Sú kvalda ást sem hugar- fylgsnin geyma ekki byggð á félagslegu raunsæi þegar kemur að ástarsambandi tveggja karlmanna á tímum eyðni. Átök sögu Guðbergs eru margræðari. Þau snúast ekki um sjúkdóminn sem slíkan, um viðbrögð við honum og áhrif hans á líf persóna. Átök sögu Guðbergs hverfast ekki heldur einvörðungu um þá möguleika tilfinninga sem raungerast í ástarsamböndum persóna við aðrar persónur, heldur einnig og ekki síður í bráðfeigri ást að- alpersónu á hugsuninni um lífið.17 – Líkt og Geir Svansson nefnir í grein sinni „Ósegj- anleg ást“ vill hann freista þess að „skoða/ túlka/skilgreina“ Þá kvöldu ást sem hugar- fylgsnin geyma, sem og tvær aðrar íslenskar skáldsögur síðari tíma, „í tengslum við nálgun sem kölluð hefur verið „hinsegin fræði““.18 En á meðan hugtökin samkynhneigð og gagn- kynhneigð kunna að gegna lykilhlutverki í hinsegin fræðum – rétt eins og á hinum opna og almenna baráttuvetttvangi gegn ofríki gagnkynhneigðra kenninga og viðhorfa í vestrænu nútímasamfélagi – er beiting þeirra í skáldskap vandkvæðum bundin. Í hugsun um Þá kvöldu ást sem hugarfylgsnin geyma er ekki víst að umrædd hugtök segi alla sög- una. Samkynhneigð kemur þar óneitanlega við sögu, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Fyrir utan áþreifanlega glímu dagbókarskrifans við kynhneigð sína ræðir hann á einum stað um iðju sína, skrifin, og hvernig sá sem skrifar stundi samkynhneigð- ar ástir með sjálfum sér. Ástarsamband skálds og lesanda er einnig til umræðu í þess- ari sögu, eða hvernig lesandi leggst með skáldinu, í huganum. Kannski getur hugtak eins og hringkynhneigð komið til greina í þessu sambandi. Í umræddri sögu má ekki aðeins þreifa á óræðu hvatalífinu andspænis ofríki kenninga um það, heldur því ómælis- djúpi sem ástin á hugsuninni um lífið getur skapað. Lítum á eitt sögubrot: Þegar ég tók til við að skrifa varð strax betra að vera með honum í orði en í verki. Orð veita manni ekki annað en það sem hægt væri að kalla rykið af trumbuslættinum. Þau færa okkur ekki í hendur trumbuna sjálfa, umfang hennar, belginn, og ekki heldur lófann sem slær á strengt skinnið, því að orðin eru tákn fyrir hjóm sem maður ornar sér við þegar það vantar sem þau spretta af. Þau hita upp hugann en eru varla annað en sárabætur fyrir að maður hefur ekki fengið hlutinn og heiminn upp í hendurnar. Góðu heilli er það ekki hægt. Ef við fengjum allt upp í hendurnar umyrðalaust mundi málið týnast úr munni okkar og við færum að rymja í staðinn, draga endalaust seiminn og bölva á sama hátt og dýrin gera en aðallega tuddinn. Með orðum er flest hægt en ekki fengið.19 Lokaorð Sú barátta sem á upptök sín í opnum og al- mennum félagasamtökum í lífinu gegn ofríki kenninga um siðferði hvatalífsins og æskileg sambúðarform hefur augljóslega öðlast lið- styrk frá fræðasamfélaginu. Hér hefur ekki verið efast um mikilvægi þess. Vandinn snýr hins vegar að sambandi kenninga og túlkunar skáldskapar, en svo er að sjá sem kenningar úr baráttuátt geti umbreyst í ofríki, ekki síst í þeim skáldskap sem geymir enn róttækari hugsun um samband hvatalífs og samfélags- sýnar. Það er freistandi að spyrja: Hvað veld- ur? Er það vísindatrúin sem býr ofríkinu að baki? Engu er líkara en hugvísindin renni um þessar mundir hýru auga til „þarflegu grein- anna“. Er þá fokið í flest skjól? Í grein sem ber heitið „Maðurinn í náttúrunni“ segir Guð- bergur Bergsson eftirfarandi: „Leyfum manninum og náttúrunni að varðveita ögn af leyndardómum sínum, og höldum aftur af okkur í þeirri oft kjánalegu þörf að vilja komast að niðurstöðum í nafni vits og vísinda og þarfa fyrir þægindi og lífsgæði eða skraut- sýningar á vísindaafrekum.“ Hann segir einnig þetta í sömu grein: öllu sem maðurinn tekur sér fyrir hendur verður hann að gæta að því hann er í eðli sínu einkum fernt; nálægð, fjar- lægð, hæð og dýpt. Hann ætti öðru fremur að varðveita fjarlægðina í sér. Það sama á við um náttúruna og um- gengni manna við hana. Vegna þess að maður og náttúra án fjarlægðar er kveljandi nálægð. (87) Látum þetta vera lokaorðin. Greinin byggist á erindi sem var flutt 16. mars í afmælisfyrirlestraröð Samtakanna 78. Heimildir: 1. Um skeið átti sér stað mikilvæg umræða í Skírni um hlutverk rithöfunda í nútímaþjóðfélagi og samband lífs og skáldskapar. Umræðan hófst með grein Páls Skúlasonar, „Spurningar til rithöfunda“, í hausthefti 1990. Guðbergur Bergsson svaraði fyrstur með grein sinni: „Er skáldskapurinn leið til hjálpræðis?“, haust- hefti 1991. Síðan svaraði Álfrún Gunnlaugsdóttir, „Að blekkja og blekkja ekki“, hausthefti 1994 og að lokum Sigurður A. Magnússon, „Er gagn að skáldskap?“, í hausthefti 1995. Hér er vísað í grein Guðbergs, „Er skáldskapur leið til hjálpræðis?“, s. 445. 2. Ágústínus: Játningar, þýð. Sigurbjörn Einarsson, Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1962, s. 37. 3. Guðbergur Bergsson: Hjartað býr enn í helli sínum, Reykjavík: Mál og menning 1982, s. 87–88. 4. Sjá Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar, sem er væntanleg hjá Há- skólaútgáfunni vor 2003. 5. Þorvaldur Kristinsson: Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1983, s. 337–340. 6. Ástráður Eysteinsson, „Að gefa í boðhætti“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 127. 7. Sigríður Þorgeirsdóttir: „Meintur dauði femínism- ans“, Ritið, Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Ís- lands, Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Ís- lands 2002, s. 85. 8. Sama grein, s. 77. 9.Guðbergur Bergsson: Hjartað býr enn í helli sínum, s. 122. 10. Sama rit, s. 173. 11. Sjá Geir Svansson, „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“, Skírnir, haust 1998, s. 509. 12. Guðbergur Bergsson: Hjartað býr enn í helli sínum, s. 160. 13. Guðbergur Bergsson: Sú kvalda ást sem hugarfylgsn- in geyma, Reykjavík: Forlagið 1993, s. 188. 14. Álfrún Gunnlaugsdóttir: „Að blekkja eða blekkja ekki“, Skírnir, haust 1994, s. 490. 15. Guðbergur Bergsson: Sú kvalda ást sem hugarfylgsn- in geyma, s. 17. 16. Edmund White: The Married Man, London: Vintage 2001. 17. Sjá nánar um þetta atriði grein mína „Þegar spurt er um tilfinningar. Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma“ í Heimi skáldsögunnar, ritstj. Ástráður Ey- steinsson, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Há- skóla Íslands 2000, s. 93–102. 18. Geir Svansson: „Ósegjanleg ást“, s. 479. 19. Guðbergur Bergsson: Sú kvalda ást sem hugarfylgsn- in geyma, s. 48–49. 20. Guðbergur Bergsson: „Maðurinn í náttúrunni“, Tíma- rit Máls og menningar, 2. hefti 1997, s. 74. 21. Sama grein, s. 87. Höfundur er bókmenntafræðingur. „Listin er aldrei skírlíf,“ sagði Pablo Picasso. Verkið heitir Kossinn (1969).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.