Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003 13 TVÆR bækur í bókaflokknum um minnisverð tíðindi aldanna eru komnar út hjá bókaútgáf- unni Iðunni. Viðfangsefni bók- anna er þrettánda öldin og fjalla þær um fyrri og seinni hluta hennar í tveimur bindum. Óskar Guðmundsson fræðimað- ur ritaði bækurnar, en hann hefur jafnframt skrifað bækur í sama bókaflokki um fjórtándu og fimmtándu öldina. Þrettánda öldin er jafnan tal- in ein sú viðburðaríkasta í sögu Íslands og koma þar við sögu margir nafnkunnir menn Ís- landssögunnar, á borð við Guð- mund góða biskup og bræðurna Sturlusyni, þá Þórð, Sighvat og Snorra. „Þetta er af- skaplega litríkur tími,“ segir Óskar í samtali við Morgunblaðið. „Það geisar borgarastyrj- öld í landinu fyrri hluta þrettándu aldarinnar – Sturlungaöldin. Þar koma við sögu þessir frægu menn, Sturlusynirnir, Gissur Þorvalds- son, Kolbeinn Tumason og fleiri eft- irminnilegir kappar. Þetta eru allt miklir bar- áttumenn, en það eru mikil átök á þessum tíma og margir frægustu bardagar Íslands- sögunnar urðu einmitt á þessari öld. En að sama skapi er þetta mikil menningaröld. Þarna eru menn að skrá söguna í klaustrum og á stórbýlum, bæði sögu Noregskonunga sem og Íslendingasögurnar, sem flestar eru skrifaðar á þessum tíma. Við höfum heimildir okkar allt aftur til landnámsaldar einmitt frá tólftu og þrettándu öldinni, þess- ari miklu ólguöld. Á seinni hluta þrettándu aldarinnar var landið hins vegar friðað. Bæði kirkju- valdið og konungsvaldið í Noregi komu þar við sögu. Íslendingar voru reyndar alltaf konungsins menn, og það var bara fram- kvæmdaatriði að innsigla þjóð- félagsþróunina með Gamla sátt- mála, sem ég lít frekar á sem friðarsáttmála en annað. Á þess- um tíma var kirkjan líka að styrkja stöðu sína, bæði sem al- þjóðastofnun og hérlendis sem þjóðleg valdastofnun, ekki síst með tengslum við erkibisk- upsdæmið í Niðarósi.“ Skrifaðar í fréttastíl Óskar segir að ástæðu þess hve mikið er vitað um atburði þrettándu aldarinnar megi að vissu marki rekja til þess hve mikið var skrifað um atburði líðandi stundar á þeim tíma. „Sturlunga er næstum eins og dagbók um viðburði aldarinnar, sérstaklega fyrri hluta hennar. Við fylgjumst með ein- staklingum, ættum og atburðum nánast frá ári til árs. Svo er ýmislegt að gerast í trú- málum á þessum tíma – öldin hefst með upp- reisnarklerknum Guðmundi Arasyni góða, sem varð biskup. Öndvert við marga biskupa á þessum tíma sem voru hluti af veraldlega valdakerfinu, var hann til hliðar við það. Undir lok aldarinnar hafði Árni Þorláksson biskup tögl og hagldir í þjóðfélaginu og kirkj- an orðin sterk og nokkuð sjálfstæð valda- stofnun.“ Bókin er sett upp á aðgengilegan hátt, í eins konar fréttastíl á einföldu máli, þar sem grípandi fyrirsagnir og úrdrættir ráða ríkj- um líkt og um almenn dægurmál væri að ræða. Dæmi um „frétt“ í bókinni hljómar svona: „Guðmundur Arason biskup loksins á fund erkibiskups: Guðmundur Arason biskup er loks farinn til útlanda. Hann reyndi að fara í fyrra en varð þá sjúkur og treysti sér ekki. Mótstöðumenn hans komust hins vegar á kon- ungsfund og erkibiskups (1214).“ Að sögn Óskars eru allar bækurnar í bókaflokknum um aldirnar ritaðar á þennan hátt. „Sturl- unga er aðalheimild mín að þessari öld, en mörgum þykir einmitt flókið og erfitt að fara í gegnum hana, til dæmis vegna þess hve mörg nöfn koma þar við sögu. Með uppsetn- ingunni í Öldinni þrettándu ætti að vera auð- veldara fyrir lesendur að átta sig á hverjir helstu menn og viðburðir eru,“ segir hann, en bókin er ennfremur sett upp í tímaröð. Bókin er aukinheldur ríkulega myndskreytt lit- myndum, bæði ljósmyndum af gripum sem rekja má til þessa tímabils, eða handritalýs- ingum, innlendum sem erlendum. „Myndefnið er nánast allt frá sögutíma, sem gefur glöggt til kynna hvað þetta voru litríkir tímar.“ Bækurnar um Öldina þrettándu eru fyrst og fremst ætlaðar almenningi að sögn Ósk- ars, líkt og aðrar bækur í bókaflokknum um aldirnar. Bókaflokkurinn, sem einnig státar af bókum á borð við Öldina okkar og Öldina sem leið, er einn sá elsti hérlendis. „Margir Íslendingar hafa átt sitt fyrsta stefnumót við sögu þjóðarinnar með því að skoða Aldirnar á heimilum afa og ömmu eða pabba og mömmu. Bækurnar hafa mikið verið notaðar í skólum og eru nemendum hjálpargögn við ritgerðir og verkefni í Íslandssögu. Vegna þess hve Aldirnar hafa komið lengi út hérlendis, eru þetta eiginlega orðnar bækur sem lenda um síðir á bókahillu inni á flestum heimilum í landinu,“ segir höfundurinn að lokum. Rit um hina viðburðaríku þrettándu öld komið út í tveimur bindum hjá bókaútgáfunni Iðunni AFSKAPLEGA LITRÍKUR TÍMI Þrettánda öldin var mikil óeirðaöld í sögu Íslands, oft var hart barist og margir frægustu bardagar Ís- landssögunnar urðu þá. „Þetta var af- skaplega litríkur tími,“ segir Óskar Guðmundsson, höf- undur bókanna Öldin þrettánda. Óskar Guðmundsson KIRKJUKÓR Fella- og Hólakirkju flyt-ur verk eftir tékknesku tónskáldinJan Dismas Zelenka og Fratisek Xav-er Brixi á kammertónleikum sem haldnir verða á boðunardegi Maríu, sunnudag- inn 23. mars. Á tónleikunum, sem hefjast klukkan 17, mæta kammersveitin Jón Leifs Camerata og einsöngvararnir Ólafía Linberg Jensdóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir alt, Garðar Thór Cortes tenór og Davíð Ólafsson bassi til liðs við kórinn og stjórnandi er kór- stjóri og organisti Fella- og Hólakirkju, Lenka Mátéová. Með þessum tónleikum vill Fella- og Hóla- kirkja fagna tíu ára starfsafmæli Lenku, sem er frá Tékklandi og hefur þeim verið valin yf- irskriftin „Salve Regina“ – heil sért þú drottn- ing. Viðfangsefnin eru margvísleg en tengjast flest þema tónleikanna – Maríu guðsmóður. Í Kirkjukór Fella- og Hólakirkju eru 28 manns og segir Lenka það einstaka heppni hversu gott jafnvægi sé á röddunum. En hvað getur hún sagt okkur um tónskáldin? „Zelenka er það tónskáld sem hélt uppi merkjum tékkneskrar tónlistar á barokktím- anum. Tónlist hans hefur notið mikillar virð- ingar og hylli fyrir það hversu einlæg og sönn hún er. Hún er laus við allan þann oflátungs- lega mikilfengleika sem barokktónlist virðist stundum hafa á yfirborðinu og núna seinustu árin hafa tónlistarmenn í Evrópu keppst um að hljóðrita hana. Það má eiginlega segja að Zel- enka sé í tísku. Brixi var eitt mikilvægasta tónskáld Tékka á 18. öld. Tónsmíðar hans falla undir fyrir klass- íska stefnu og vitað er að hann hafði gífurleg áhrif á tónsmíðar samtíðartónskálda sinna.“ Efnisskráin óður til Maríu Hvaða verk flytjið þið á tónleikunum? „Tónleikarnir hefjast á verkinu Salve Reg- ina eftir Zelenka, sem er bæn til Maríu guðs- móður um fyrirgefningu. Verkið er útsett fyrir kór og hljómsveit sem tónskáldið vann upp úr tónverki Frescobaldis, Tónlistarblóminu. Þá verður flutt De profundis, 130. Davíðssálmur, sem Zelenka samdi fyrir útför föður síns. Í því verki gefur að heyra gregorískan kór sem kyrjar ofan í hljóðfæraskipan sem er vandlega sniðin að röddunum hverju sinni. Þriðja verkið á tónleikunum er kantata eftir Brixi, Opus patheticum de septem doloribus B.V. Mariae, en hana samdi Brixi fyrir Mater Dolorosa-hátíðarhöldin sem ávallt fóru fram föstudaginn fyrir pálmasunnudag. Í texta verksins, sem er miðaldakvæði, er fjallað um sjö hryggðarefni Maríu meyjar. Verkinu er skipt upp í kórsöng og aríur og grunntónn texta og tóna er tjáning um depurð, sorg og fjarlægan vonarneista. Síðasta verkið á tónleikunum er Lofsöngur Maríu, Magnificat, eftir Zelenka. Verkið, sem er samið 1725, er meistaraverk sem gleður og það svo mikið að á sínum tíma fékk Bach son sinn, Wilhelm, til þess að skrifa það niður fyrir kirkjukór St. Tómasarkirkjunnar í Leipzig.“ Þótt Lenka eigi tíu ára feril að baki sem org- anisti Fella- og Hólakirkju er býsna fátt sem við vitum um hana. Því var ekki úr vegi að yf- irheyra hana dálítið um veru hennar á Íslandi – og hvers vegna hún talar íslenskuna nánast hnökralaust. „Ég kom til Íslands fyrir þrettán árum, í september 1990, ásamt manninum mínum, Pétri Máté. Við réðum okkur til starfa á Stöðv- arfirði og það var vægast sagt mjög skrítið að koma þangað. Þetta var pínulítið þorp og það gat enginn talað við okkur ensku. Það töluðu allir íslensku. Í dag er ég íbúum Stöðvarfjarð- ar mjög þakklát, vegna þess að þetta varð til þess að við lærðum bæði íslensku. Í mínum augum eru þeir hetjur.“ Á þessum tíma var Lenka að ljúka háskóla- námi í Prag og fannst hún komin á heimsenda. Það lagaðist þó fljótt, því hún segir fólkið hafa verið svo elskulegt. „Eftir eitt ár fórum við til Tékklands í sumarfrí. En þótt við hefðum upp- haflega aðeins ætlað að vera hér í eitt ár, kvöddum við íbúa Stöðvarfjarðar ekki þegar við fórum. Við vissum að við kæmum aftur að sumri loknu.“ Við hvað vannstu á Stöðvarfirði? „Ég var organisti í kirkjunum á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík, auk þess að kenna á píanó og blokkflautu í Tónlistarskólanum á Stöðvar- firði. Þar var Pétur skólastjórinn, yfirmaður minn, auk þess að vera skólastjóri Tónlistar- skólans á Breiðdalsvík og organisti við kirkj- una á Fáskrúðsfirði. Það var nóg að gera hjá okkur, með okkar kirkjukóra og skólatónleika- hald. Það var líka nóg að gera hjá okkur við að kynnast staðháttum, hugsunarhætti þjóðar- innar – og horfa á sjónvarpið til þess að reyna að átta okkur á því hvað var verið að segja þeg- ar munnarnir hreyfðust!“ Hvarflaði ekki að mér að ég fengi organistastarfið Eftir þrjú ár flutti fjölskyldan þó suður á höfuðborgarsvæðið og Lenka sótti um starf organista og kórstjóra sem auglýst var hjá Fella- og Hólakirkju. „Þegar ég sótti um starfið, var það bara í til- raunaskyni,“ segir hún. „Ég var ófrísk af öðru barni mínu og það hvarflaði ekki að mér að ég yrði valin úr hópi umsækjenda. Sonur minn fæddist í júní og ég átti að hefja störf í ágúst. Ég fékk eiginlega sjokk þegar ég var ráðin – og það í hundrað prósent starf þar sem ég átti, auk þess að vera organisti og kórstjóri, að stofna barnakór. En ég naut mikillar þolinmæði frá sam- starfsfólki mínu og sóknarnefndinni sem studdi mig dyggilega fyrstu tvö árin. Það er helst að ég hafi móral yfir mínu vinnuframlagi á þessum tíma. Á endanum tókst þetta þó, með stofnun barnakórsins og öllu tilheyrandi. Hann hefur nú starfað í tíu ár. Ég var ein með hann fyrstu sex árin en þá voru fjörutíu börn í kórnum. Við skiptum honum þá í tvennt, í undirbúnings- deild og unglingadeild, auk þess sem þá var ráðinn aðstoðarkórstjóri, Þórdís Þórhallsdótt- ir. Hennar starf þróaðist þannig að hún er núna með kórskóla fyrir sex til níu ára börn og ég sé um unglingakórinn.“ Ætlaðir þú nokkurn tíma að vera á Íslandi í þrettán ár? „Nei, þetta er bara þessi klassíska reynsla tónlistarmanna sem koma hingað. Ég segi stundum: Lestin okkar er farin. Núna eru börnin okkar komin í skóla hér, við höfum bæði góða vinnu, höfum myndað vináttutengsl og sambönd sem eru okkur mikilvæg og það er hættulegt að ætla sér að klippa á slíkt. Okkur líður mjög vel hér og erum hreint ekki á leið- inni að flytja héðan.“ HEIL SÉRT ÞÚ DROTTNING Morgunblaðið/Sverrir Lenka Mátéova organisti Fella- og Hólakirkju. Tónleikar Fella- og Hólakirkju á sunnudag eru haldnir á boðunardegi Maríu og því tileinkaðir Maríu guðs- móður. Ástæða tónleikanna er hins vegar sú að verið er að halda upp á tíu ára starfsafmæli organistans, Lenku Mátéovu. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við Lenku um tónleikana og veru hennar á Íslandi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.