Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003 11 Hver eru markmið Ríósáttmálans? SVAR: Árið 1992 stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir leiðtogafundi í Ríó de Janeiro undir heit- inu „Ráðstefna um umhverfi og þróun“. Í dag- legu tali er ráðstefnan kölluð „Ríófundurinn“. Hann telst tímamótafundur, ekki aðeins sökum þess að þetta var einn stærsti fundur sem al- þjóðasamfélagið hefur staðið fyrir, heldur ekki síður vegna þeirra samninga og samþykkta sem hann skilaði. Ekki er hægt að tala um einn „Ríósáttmála“ heldur er um nokkra samninga og samþykktir að ræða. Eftirfarandi samningar og samþykktir voru gerð: 1. Ríóyfirlýsingin um umhverfi og þróun. 2. Áætlun 21. 3. Meginreglur fyrir skógrækt. 4. Rammasamningur um loftslagsbreytingar. 5. Samningur um líffræðilega fjölbreytni. Mikilvægt er að gera greinarmun á pólitísk- um samþykktum (númer 1, 2 og 3) og alþjóð- legum samningum sem leggja þjóðréttarlegar skuldbindingar á þau ríki sem fullgilda samn- inga (númer 4 og 5). Ríóyfirlýsingin hefur að geyma 27 meg- inreglur í umhverfismálum. Dæmi um sjón- armið sem þar eru viðurkennd eru var- úðarreglan og mengunarbótareglan. Varúðarreglan (e. precautionary principle) kveður á um að þegar vísindaleg óvissa ríki um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans. Með öðrum orðum: Ekki er talið nauðsynlegt að sanna með óyggjandi hætti að náttúran beri skaða af, heldur liggur sönnunarbyrðin fremur hjá framkvæmdaraðila sem eigi að sýna fram á að framkvæmdin valdi ekki skaða. Mengunarbótareglan (e. polluter pays princ- iple) felur í sér að sá sem er valdur að mengun skal jafnframt bera kostnað vegna þess tjóns sem af hlýst. Dagskrá 21 er mörg hundruð síðna fram- kvæmdaáætlun sem er ætlað að vera eins konar leiðarvísir fyrir ríkisstjórnir heims í efnahags- legum og félagslegum málum og í umhverfis- og auðlindastjórnun. Áætlunin er ekki bindandi á sama hátt og alþjóðlegir samningar en hefur pólitískt vægi. Tilvist hennar hefur því verið mikill styrkur þeim sem berjast fyrir auknu vægi umhverfismála í stefnumörkun þjóða og vísa þeir iðulega í framkvæmdaáætlunina máli sínu til stuðnings. Þá hafa fjölmörg ríki útfært dagskrá 21, bæði á landsvísu og á sveitarstjórn- arstiginu. Meginreglur fyrir skógrækt er samþykkt sem var lögð fram sem eins konar málamiðlun til bráðabirgða þar sem ekki tókst að ná sam- komulagi um texta fyrir alþjóðlegan samning um skóga heimsins. Þar sem skóglendi er lítið á Íslandi hefur þessi samþykkt lítið verið til um- ræðu hér á landi. Tveir bindandi samningar voru samþykktir í Ríó: Rammasamningur um loftslagsbreytingar og Samningur um líffræðilega fjölbreytni. Ís- land hefur fullgilt báða þessa samninga. Mark- mið loftslagssamningsins er að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ríki sem eru aðilar skuldbinda sig til að koma upp bók- haldi yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda og í samningnum er það almenna markmið að út- blástur gróðurhúsalofttegunda aukist ekki frá því sem var árið 1990. Árið 1997 var skrifað undir bókun við samn- inginn, Kyótóbókunina, þar sem samþykkt eru ákveðin markmið varðandi útblástur gróð- urhúsalofttegunda og sett tímamörk til að ná markmiðunum fram. Ísland hefur fullgilt bók- unina en hún hefur þó ekki enn gengið í gildi. Markmið samnings um líffræðilega fjölbreytni er, eins og nafnið bendir til, verndun líf- fræðilegrar fjölbreytni en sá samningur felur meðal annars í sér þá skuldbindingu að gera landsáætlun um verndun líffræðilegrar fjöl- breytni. Árið 2002 voru tíu ár liðin frá Ríófundinum og af því tilefni var efnt til leiðtogafundar í Jó- hannesarborg undir yfirskriftinni „Sjálfbær þróun“. Umræðan á þeim fundi snerist ekki um að bæta við nýjum samþykktum og samn- ingum, heldur fremur um hvernig hægt væri að koma í framkvæmd mörgum þeim fögru fyr- irheitum sem er að finna í dagskrá 21 og öðrum samþykktum Ríófundarins. Áhersluatriðin voru útrýming fátæktar, aðgangur að hreinu vatni, sjálfbær framleiðsla og neysla, aukin áhersla á notkun endurnýjanlegra auðlinda og framleiðsla á efnum sem eru ekki hættuleg um- hverfinu. Auður H. Ingólfsdóttir, deildar- sérfræðingur í stefnumótunardeild umhverfisráðuneytisins. Hver verður líkleg staða jökla hér- lendis eftir 50 ár miðað við óbreytta þróun? SVAR: Haldist loftslag næstu 50 ár svipað því sem það var að meðaltali á 20. öld verða jöklar á Íslandi minni um miðja 21. öld en þeir eru nú – bæði að flatar- og rúmmáli. Fannir og margir smáir daljöklar til fjalla munu hverfa, en stóru hveljöklarnir (Vatnajökull, Hofsjökull, Langjökull og Mýrdalsjökull) verða enn á sín- um stað. Meginsporðar hveljöklanna gætu styst um 2–4 km, sporðar á hálendinu minnst, en mest skriðjöklar sem falla niður á láglendi sunnan úr Vatnajökli og Mýrdalsjökli. Þó ræðst hop sporðanna af því hverjir þeirra hlaupa fram á þessu tímabili. Þannig hljóp Brúarjökull fram um 10 km árið 1890 og 8 km 1963–64 og má bú- ast við því að hann taki aftur á rás fyrir miðja öldina, en nái þó skemmra fram en við fyrri hlaupin. Vatnajökull gæti hafað rýrnað um 10% (300 km3) um miðja öldina, sem er nokkru meira en það rúmmál sem hann missti á allri 20. öldinni. Að flatarmáli gæti hann skroppið saman sem nemur helmingi af núverandi flatarmáli Lang- jökuls. Hinir stóru hveljöklarnir gætu misst hlutfallslega meira af rúmmáli sínu (15–20%). Haldist loftslag óbreytt gæti því rýrnun allra jöklanna næstu hálfa öld jafngilt fimm metra þykku vatnslagi jafndreifðu yfir allt Ísland. Hér er um gróft mat að ræða en von er á ítarlegri svörum sem jöklafræðingar vinna nú að. Helgi Björnsson, jöklafræðingur við Raunvísindastofnun. HVER ERU MARKMIÐ RÍÓSÁTTMÁLANS? Á meðal spurninga sem hefur verið svarað á Vís- indavefnum að undanförnu má nefna: Hver eru sérsvið afbrotafræðinnar, hvenær kemur orðið unglingur inn í málið og hvers vegna er geispi smitandi? VÍSINDI VÉSTEIN Ólason þarf vartað kynna en hann hefur írannsóknum sínum feng-ist við íslenskar miðalda- bókmenntir, en einnig bókmenntir síðari alda og bókmenntafræði. Vé- steinn hefur samhliða prófessor- störfum í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands gegnt stöðu forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar frá árinu 1999. Stofn- unin sinnir umfangsmiklum sam- skiptum við erlenda fræðimenn er rannsaka íslenskar miðaldabók- menntir. „Stofnun Árna Magnús- sonar er áreiðanlega ein alþjóðleg- asta stofnunin sem rekin er á vegum Háskólans, við fáum árlega til okkar fræðimenn frá ólíkum löndum sem vinna að rannsóknum sínum, auk þess sem við eigum í mikilli samvinnu við útgáfur og höf- unda erlendis varðandi útgáfu fræðirita. Þess- um samskiptum fylgir einnig fyrirlestrahald á borð við það sem ég er að leggja í hér í Norður- Ameríku,“ segir Vésteinn. Vésteinn hóf fyrirlestraför sína í Bandaríkj- unum með fyrirlestri í síðustu viku við Wis- consin-háskóla í Madison, þaðan sem leiðin lá til Minneapolis í Minnesota. Þar flutti Vésteinn m.a. fyrirlestur um Íslendingasögur í tengslum við víkingasýninguna, Víkingar: Saga Norður- Atlantshafsins, sem fyrst var sett upp í Smit- hsonian-safninu í Washington árið 2000, en hef- ur síðan verið í New York, Houston, Los Angel- es, og Ottawa í Kanada. Vísindasafnið eða Science Museum í Minneapolis er síðasti við- komustaður sýningarinnar, en hún var sett upp þar í nóvember síðastliðnum. „Tildrög fyrir- lestraferðarinnar voru þau að aðilar sem standa fyrir víkingasýningunni í Minneapolis buðu mér að koma og flytja fyrirlestur í tengslum við sýninguna. Ég þakkaði fyrir það boð og fannst gaman að geta gert það. Í kjöl- farið höfðu aðilar í Minnesota- háskóla í Minneapolis samband við mig og buðu mér að halda þar málstofu og taka þátt í um- ræðum um miðaldabókmenntir í hópi sem þar er. Síðar var afráð- ið að ég færi einnig til Madison í nágrannafylkinu Wisconsin og héldi fyrirlestur um Íslendinga- sögur við norrænu deildina í há- skólanum þar.“ Vésteinn lýkur för sinni í Vict- oria á Vancouver Island í Kan- ada, þar sem hann flytur tvo fyr- irlestra í næstu viku við háskólann í Victoria. „Ég hef áður komið til Victoria, það var fyrir fjölmörgum árum þegar ég hélt fyrirlestur á vegum sjóðs sem kenndur er við Richard og Margréti Beck, og er ætlað að styrkja heimsóknir og fyrirlestrahald Ís- lendinga við skólann. Erindin sem ég flyt þar nú eru einmitt haldin á vegum þessa sjóðs,“ segir Vésteinn. Mikill áhugi var fyrir fyrirlestri Vésteins við Wisconsin-háskóla í Madison en þar mátti sjá áheyrendur úr ólíkum áttum og af ólíkum kyn- slóðum. Fyrirlesturinn nefndist „Íslendinga- sögurnar: Hvers konar bókmenntir eru þær?“ og er byggður á efni bókarinnar Samræður við söguöld sem Vésteinn gaf út árið 1998. Bókin kom einnig út á ensku undir heitinu Dialogues with the Viking Age. Vésteinn segist hafa í hyggju að vinna áfram með ýmsa þætti bók- arinnar á næstunni og hafi hann því getað unn- ið fyrirlestrana í tengslum við þá vinnu. „Bókin er hugsuð sem nokkurs konar kynning á Ís- lendingasögum, þar sem ég leitast við að lýsa einkennum sagnanna og velti því fyrir mér um hvað þær fjalli. Í fyrirlestrunum ræði ég þessi grundvallareinkenni, auk þess sem ég leitast við að tengja frásagnarlist Íslendingasagnanna við evrópskar bókmenntategundir á miðöldum. Þar set ég fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig skrifaðar íslenskar sögur hafi þróast út frá skrifuðum evrópskum bókmenntum en fengið sitt sérstaka eðli vegna þess efnis sem þar var tekið upp úr munnlegri geymd. Ég reyni að tengja þetta við almennar fræðikenn- ingar um bókmenntategundir, þær kenningar eru reyndar margs konar og henta misjafnlega þegar leitast er við að varpa ljósi á einkenni Ís- lendingasagnanna. En almennt felst umfjöllun- in í því að skoða Íslendingasögurnar annars vegar sem evrópskar bókmenntir, sem eigi sér sínar fyrirmyndir og upptök þar, og hins vegar að skýra sérkenni þeirra með hliðsjón af því samfélagi og þeirri fortíð sem Íslendingar áttu á víkingaöldinni.“ Meðal þeirra spurninga sem brunnu á áheyrendum á fyrirlestri Vésteins, var sú hvernig standi á því að svo ríkuleg bók- menntahefð hafi orðið til á Íslandi á miðöldum, en ekki á hinum Norðurlöndunum, s.s. í Noregi og Svíþjóð. Vésteinn segir hér um sígilda spurningu að ræða, sem vart fáist einhlítt svar við. „Settar hafa verið fram ýmsar kenningar til að leita svara við því hvers vegna Íslend- ingar skrifuðu svo mikið á miðöldum. Sú stað- reynd, að þar var um að ræða fólk sem nýlega hafði yfirgefið heimaland sitt og sest að í nýju landi, getur hafa haft þau áhrif að menn hafi leitast við að fylgjast með fregnum og varðveita sögu gamla og nýja landsins og það hafi ýtt undir sagnahefðina. Víkingarnir höfðu jafn- framt ferðast mikið, og höfðu margir land- námsmannanna á Íslandi dvalið í einhverjar kynslóðir innan um kelta á Bretlandseyjum. Líklegt er að fjölmargir keltar hafi farið með landnemunum til Íslands, en nýlegar DNA- rannsóknir gefa það til kynna að mikill meiri- hluti þeirra kvenna, sem voru meðal landnema, hafi átt keltneskar rætur, en stærstur hluti karlanna norrænar. Þannig styðja þessar rann- sóknir þær gömlu sagnir að margar konur hafi verið herteknar á Bretlandseyjum, og færðar hingað til lands með landnemunum. Þetta gæti hafa haft sín áhrif á frásagnarlist og menningu landsins, en Keltar áttu sér sterka sagnahefð.“ Vésteinn bendir á að einnig megi leita skýr- inga að nokkru leyti í hinu nána sambandi sem ríkti milli kirkjunnar og höfðingja á Íslandi á þeim tíma sem sögurnar voru ritaðar. „Vegna þess hversu landið var smátt og strjálbýlt mynduðust ekki þau skil milli kirkjunnar og höfðingja sem finna mátti í öðrum Evrópulönd- um. Veraldlegir höfðingjar nutu því góðs af þekkingu kirkjumanna, sem margir hverjir voru mjög lærðir. Þannig var ekki aðeins skrif- að um kirkjuleg efni, heldur einnig veraldleg, s.s. konunga og bardaga. En þetta eru allt kenningar sem settar eru fram eftir á í tilraun til að skýra það hvers vegna svo ríkuleg sagna- ritunarhefð spratt fram á Íslandi. Ef engar bókmenntir hefðu verið í landinu, hefði líklega verið bent á sams konar rök og ég nefndi hér áðan, þ.e. að landið hefði verið svo fámennt og strjálbýlt.“ Handritin í útlegð – Telur þú að áhugi á Íslendingasögum sé að aukast utan hins norræna bókmenntaheims? „Það er erfitt að segja. Ég hugsa að áhugi fyrir Íslendingasögum sé talvert útbreiddur, og má þá ætla að þýðinga- og útgáfustarfsemi og önnur kynning á erlendum vettvangi, er tengist þessum sagnaarfi okkar Íslendinga að undanförnu, hafi borið einhvern ávöxt. En ef litið er aftur til síðustu tuttugu til þrjátíu ára, hefur kennsla í íslenskum fræðum í erlendum háskólum átt í vök að verjast, a.m.k. í hinum enskumælandi heimi. Það sama á reyndar við um mörg önnur lítil fög, sem mega sín lítils gagnvart sparnaði og hagræðingu í rekstri há- skólanna. Í stórum háskólum hefur vægi greina á borð við fornensku og miðaldabókmenntir jafnframt verið að minnka andspænis hinu sí- fellt breikkandi sviði nútímabókmennta. Þar hefur áhugasviðunum fjölgað mjög hratt á síð- ustu árum og eru enskar nútímabókmenntir ekki eins einfalt hugtak og þær voru áður. Þær greinast nú í ýmis svið, s.s. nýlendubókmennt- ir, kvennabókmenntir og aðra bókmenntahópa sem hafa kallað á athygli og aukið á fjölbreytn- ina í bókmenntafræðum. Þó eru enn nokkrir háskólar í Norður-Ameríku sem hafa sterkar íslenskudeildir eða kennslu í íslenskum fræð- um, s.s. háskólinn í Winnipeg í Kanada, háskól- arnir í Berkley og Los Angeles í Kaliforníu og í Seattle í Washington-fylki. Hér í miðríkjum Bandaríkjanna, s.s. í Minneapolis og Madison, er talsvert sterkur áhugi fyrir norrænum fræð- um, þar sem stór hluti íbúanna á sér norrænar rætur, og vilja margir efla vitund sína um þá fortíð, ekki síst víkingamenninguna, og þangað má rekja áhuga á Íslendingasögunum. Vésteinn segir það að lokum skemmtilegt að fá tækifæri til að koma á þessar slóðir, en með honum í för er Unnur eiginkona hans. „Ég hlakka til að sjá aftur víkingasýninguna sem ég sá í Washington árið 2000, en hún er einkar vönduð og vel framsett. Þar eru, auk gripa úr Þjóðminjasafninu, handrit og handritabrot frá Árnastofnun. Þau eru reyndar búin að vera óvenjulega lengi að heiman, því stofnunin hefur ekki heimild til að lána handrit lengur en í ár í senn. En vegna áhugans sem er fyrir víkinga- sýningunni hér í Bandaríkjunum hefur hún far- ið víða og þurftum við hjá Árnastofnun að leita eftir undanþágu hjá ríkisstjórninni til þess að framlengja dvöl handritanna hér úti. Það leyfi var góðfúslega veitt, enda felst í þessu mik- ilvæg kynning á íslenskri sögu og hefur sýn- ingin verið í góðum söfnum þar sem við höfum getað fylgst vel með að fylltstu öryggiskröfum sé framfylgt,“ segir Vésteinn Ólason að lokum. Vésteinn Ólason ÁHUGI ÚTBREIDD- UR EN KENNSLA FER MINNKANDI Vésteinn Ólason er á ferð um Norður-Ameríku um þessar mund- ir með fyrirlestra um Íslendingasögurnar í farteskinu. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR hitti Véstein að máli er hann flutti fyrirlestur við Wisconsin-háskóla fyrir fullum sal áhugasamra gesta. heida@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.