Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Síða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Síða 4
KRAFTUR SEM EKKI MÆLIST Í VÖTTUM V ERKIÐ sem Rúrí sýnir á tvíæringnum, sem opnar hlið sín fyrir almenningi nú um helgina, ber heitið Archive – endangered wat- ers, en það er eins og nafn- ið bendir til eins konar gagnasafn um vatn í „út- rýmingarhættu“. Rétt eins og Laufey Helga- dóttir, sýningarstjóri verkefnisins, segir í bæklingi sem gefinn hefur verið út af þessu tilefni sameinar Rúrí í verkinu „eindregna afstöðu sína til umhverfismála, skrásetning- arþörfina, tilfinningaríka nálgun við efnivið- inn, höfuðskepnuna vatnið og tímann“. Rúrí segir blaðamanni að hún líki oft vinnu sinni við fræðimennsku í listum, segir að list- in sé til í mörgum lögum þar sem allt fái þrifist, hvort sem það er skreytilist eða list er byggist meira á öðrum þáttum; rann- sóknum og þess háttar. Þetta viðhorf hennar kemur heim og saman við mörg þeirra stóru verka sem hún hefur unnið, svo sem Para- dís? – Hvenær? (1998) þar sem Rúrí safnaði heimildum um fórnarlömb stríðsátaka, verkið Tíma (1986) þar sem hún rannsakaði húsa- rústir og Skóg (1983) þar sem áprentaðir pappírsstrimlar mynduðu eins konar frum- skóg er áhorfandinn fetaði sig í gegnum. Í nýja verkinu er einnig um rannsókn að ræða, rannsókn á íslenskum fossum, en Rúrí hefur um nokkurt skeið gert þeim og sögu þeirra skil í verkum sínum. Hugmyndinni að nýja verkinu skaut þó upp með óvæntum hætti vegna ófyrirséðs vanda eins og blaða- maður komst að þegar hann spurðist fyrir um tilurð þess. „Ég var með verk í huga sem ég ætlaði að hengja upp í loftið á skálanum,“ útskýrir Rúrí, „ég hef áður gert það í verkum eins og Glerregninu og Tímanum og Einu sinni var, þar sem ég nota upphengingu í loft. Það er svo mikið af sperrum í skálanum í Feneyjum að mér fannst þetta alveg tilvalið. En þegar ég kom á staðinn sá ég að þær voru svo létt- byggðar – bara eins og grind í regnhlíf – að það þýddi ekkert að ætla sér að hengja neitt í þær. Að minnsta kosti ekki þessi gler sem ég var að hugsa um, þakið hefði bara komið niður,“ segir hún og hlær. „Þetta var auðvitað svolítið áfall, en ég tók þann kostinn að nota tímann í að mæla upp allan skálann og reyndi að „taka hann í æð“ svo ég fengi tilfinningu fyrir honum og hvað hægt væri að gera. Laufey Helgadóttir, sýn- ingarstjórinn minn, býr í París mestan hluta ársins og ætlunin var sú að ég kæmi þar við á bakaleiðinni og við myndum skipuleggja sýninguna. Það var því afar mikilvægt að ég yrði þá komin með nýja hugmynd, þar sem við höfðum alltaf verið að ræða þá gömlu og miðað allt út frá henni. Svo ég ákvað að nota tímann í flugvélinni til að hugsa upp nýtt verk og vonaði af alhug að það tækist. Þótt þetta sé nú ekki nema tveggja eða þriggja tíma flug var ég búin að skissa nýja verkið niður þegar ég kom til Parísar.“ Hugmyndaflæðið opnast Svo verkið vitjaði þín á flugi frá Feneyjum til Parísar? „Já, og þetta hefur komið fyrir áður hjá mér, að vera að fljúga svona þegar það opn- ast fyrir hugmyndaflæðið. Skýringin er kannski sú að maður er búinn að vera að undirbúa sig í undirmeðvitundinni – eða yf- irvitundinni eins og ég kalla hana – og svo fær maður það næði sem stundum dugar til þess að tengja. Einu breytingarnar sem hafa orðið á verkinu síðan eru tæknilegar út- færslur. Sjálf grunnhugmyndin er alveg hrein.“ Rúrí segir verkið byggjast á myndum sem teknar eru inn í fossa. „Þær eru síðan fram- kallaðar á glæra filmu og settar á milli tveggja glerja. Myndirnar eru um fermetri, hver fyrir sig, í stálrömmum, er ganga á rennibraut inn í eins konar skáp eða hirslu. Rammarnir eru fimmtíu og tveir og hægt er að draga hverja mynd fyrir sig út. Þegar maður dregur út rammann – eða fossinn – kemur tölvubúnaður til sögunnar og setur af stað hljóðupptöku af fossinum, svo gnýrinn af vatninu skilar sér líka. Það mætti því lýsa verkinu sem mynd- og hljóðorgeli,“ segir Rúrí og hlær við. „Svo er hægt að taka út margar myndir í einu með ólíkum hljóðum og þá er þetta eiginlega eins og lítil kamm- ersveit.“ En hvaða fossar eru þetta? Hvað réð vali þínu á þessum ákveðnu fossum? „Nafn verksins er Archive – endangered waters sem segir ákveðna sögu. Ég hef verið að vinna með fossa undanfarin ár og hef kall- að þann myndaflokk Tímans rás. Vatnið grefur sér rásir, enda er samlíkingin tíminn og vatnið ævaforn. Steinn Steinarr var ekki sá fyrsti sem notaði hana, hún er til í fornum heimsbókmenntum, frá Indlandi og víðar. Enda er samlíkingin svo augljós; okkur virð- ist tíminn vera eins og á eða foss sem rennur án upphafs og án endis. Mér finnst þetta mjög falleg myndlíking og ég skil því vel að hún skuli hafa verið notuð svo víða.“ Þú ert þá að vísa í hringrás lífsins og jafn- framt það sem safnast saman? „Já, og reyndar í samsvörun frekar en endurtekningu. Mér finnst þetta myndmál nefnilega líka afhjúpa hvað við erum mikil peð, ekki síst þegar horft er á þá farvegi sem árnar okkar hafa grafið. Stundum hefur það hugsanlega tekið hundruð þúsunda ára, en sjálf lifum við nú ekki nema svona hundrað ár að hámarki. Mér finnst alltaf mjög athygl- isvert að skoða okkar líf, eða mitt líf, í sam- hengi við alheiminn – hið stóra samhengi. Ég álít það hollt, það dregur til dæmis úr hætt- unni á hroka. Mér finnst það bæði lærdóms- ríkt og gefandi.“ Rúrí brosir breitt og segist reyndar líta þannig á að jörðin sé lifandi, „við eigum því að koma fram við hana sem slíka. Ég álít það einu skynsamlegu skýr- inguna á tilverunni, og lít reyndar einnig svo á svo að allar plánetur og sólir séu lifandi verur.“ Vatn er að verða mál málanna Vísar nafn verksins til þess hvernig mann- skepnan gengur smátt og mátt á vatns- birgðir heimsins, eða ertu frekar að vísa til þeirrar hættu sem þessir tilteknu íslensku fossar eru í? „Við getum sagt að það sé hvort tveggja. Vatn er að verða mál málanna á alheimsvísu eða á mælikvarða jarðarinnar. Við hljótum að þurfa að taka á því á ábyrgan hátt. Við höfum lifað við allsnægtir af vatni – okkur hefur þótt það svo sjálfsagt – að kannski kunnum við ekki að meta það. Ekki síst hér þar sem er svo mikið af því. Þessir fossar hafa alltaf verið til og fólki finnst kannski að þar af leiðandi hljóti þeir alltaf að verða til, eða þá að eitthvað geti komið í þeirra stað. En náttúran er ekki þannig að það sé alltaf hægt að setja eitthvað í staðinn,“ segir Rúrí. Eru þetta þá fossar sem eru í útrýming- arhættu? „Já. Þeir ýmist eru það eða hafa verið það, eins og t.d. Gullfoss sem ég hef unnið með áður í verkinu Tileinkun – til Sigríðar í Brattahlíð. Hann er auðvitað eitt stærsta dæmið úr fossasögu okkar. En svo finnst mér vatn þess utan heillandi. Það er svo hríf- andi tært og yfir því einhver hreinleiki. Svo er auðvitað þessi mikli máttur sem maður skynjar í fossum, en hann er annars konar kraftur en sá sem mældur er í vöttum. Það er ekki bara fallkrafturinn sem fólk skynjar heldur eitthvað annað. Enda eru ábyggilega fáir sem ekki hafa upplifað mátt fossanna. Mér finnst við komast í snertingu við það sem ég nefni dulmögn, af því við sjáum þau ekki. Og ég er ekki að tala um drauga eða álfa eða eitthvað þess háttar, heldur er mín skoðun sú að jörðin búi yfir ákveðinni orku rétt eins og líkamar okkar. Mér finnst reynd- ar þessi gamla hugmynd um makrókosmos og míkrókosmos mjög sannfærandi. Hún lýs- ir málinu á myndrænan hátt, þótt hún út- skýri ekki allt út í ystu æsar.“ Ef við víkjum að þema tvíæringsins að þessu sinni, Draumar og árekstrar, alræð- isval áhorfandans, þá liggur beint við að spyrja hvort þú hafir unnið þetta verk með hliðsjón af þemanu? „Nei,“ svarar Rúrí, „þemað var tilkynnt svo seint. Tengslin eru samt fyrir hendi, sem er auðvitað mjög skemmtileg tilviljun. Allir þessir hlutir; draumurinn, áreksturinn og máttur áhorfandans, eru til staðar í verkinu, til að mynda hefur áhorfandinn verkið alveg í sinni hendi og ræður hvernig hann skoðar og sér það. Draumurinn er líka sterkur þáttur, því þótt sagt hafi verið að orð séu til alls fyrst, þá er mín skoðun sú að draumurinn – eða hugmyndin – hafi verið á undan orðinu. Draumurinn samsvarar í rauninni hugmynd- inni.“ Hvorki efnishyggja né þörf til að forma Þótt efniviður Rúríar tengist fyrst og fremst hinu óhlutbundna – svo sem regnbog- anum, tímanum, stærðfræði o.s.frv. – eru út- færslur hennar á þeim hugmyndum sem hún fær iðulega mjög tengdar efnisheiminum. Verk hennar búa yfir efnislegum þunga, eru oft unnin í grjót, gler, málma og steypu þótt önnur efni komi einnig við sögu. Þessi „þungi“ myndar ekki einvörðungu mótvægi við afstæðan veruleika listar hennar, því hann samsvarar jafnframt áleitinni alvöru þess sem hún tekst á við – en það eru ein- mitt oft siðferðisleg viðfangsefni er leita á mannskepnuna, svo sem umhverfismál, nátt- úran, stríð og félagsleg neyð. Rúrí kannast strax við að nýja verkið búi einnig yfir þess- um eiginleikum, en segir það einfaldlega vera svo að formhugsun hennar eða efnis- tilfinning krefjist þess. „Það hefur þó aldrei verið nein stefna hjá mér að nota efnið svona, það er frekar eins og það sé mér eðlislægt. Ég leita alltaf að farvegi eða tækni sem þjónar hugmynd minni hverju sinni og lendi oft inni í efninu,“ útskýrir hún. „Í rauninni er það bara af illri nauðsyn sem ég nota efnið yfirleitt. Það er að minnsta kosti hvorki efnishyggja af minni hálfu né þörf til að forma. Það má segja að ég hafi bara ekki komist frá þessum efn- istökum. Að vísu eru mörg verka minna efn- isrýr, þótt þau séu gríðarlega stór í afstæðari skilningi, svo sem verkið Helgun sem er á fjórum eyjum í kringum Ísland. Eitt sinn brenndi ég líka regnboga, sem var síður en svo efnismikill, – ekki frekar en gjörning- arnir mínir. Það má segja að ég rambi þarna á landamærum hugmyndalistarinnar því hugmyndir hafa alltaf verið í fyrirrúmi hjá mér, án þess þó að ég hafi verið flokkuð sem konsept-listamaður. Ætli ég sé ekki, ásamt fleirum, einhvers konar blendingur hvað þetta varðar, en ég hef engar áhyggjur af því. Ég reyni bara að finna þá leið hverju sinni sem þýðir hugmyndina inn í sjónheim okkar.“ Verkið sem Rúrí sýnir sem framlag Íslands á Fen- eyjatvíæringnum vitjaði hennar á flugi í háloftunum á milli Feneyja og Parísar. Tíminn er hinn undirliggjandi þáttur í því, rétt eins og í fleiri verkum hennar, og birt- ist að þessu sinni í gagnasafni um fossa. Í viðtali við FRÍÐU BJÖRK INGVARSDÓTTUR segist hún vilja skoða lífið í samhengi við alheiminn í list sinni. Morgunblaðið/Kristinn Rúrí við verk sitt „Archive – endangered waters“ sem líta má á sem hugleiðingu um gildi náttúr- unnar í samtímanum og óð til hennar um leið. 4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚNÍ 2003

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.