Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚNÍ 2003 Í UMFANGSMIKILLI og metnaðar- fullri doktorsritgerð sem út kom á síð- asta ári glímir Gísli Sigurðsson, fræði- maður á Stofnun Árna Magnússonar, við það erfiða viðfangsefni að gera grein fyrir munnlegri frásagnarhefð á Íslandi á miðöldum en flestir fræðimenn gera ráð fyrir að hún hafi nært höfunda forn- sagna, þar á meðal Íslendingasagna. Erfiðleik- arnir felast ekki síst í því að eini vitnisburð- urinn sem er að fá um þessa hefð eru fornbókmenntirnar sjálfar, þ.e. ritaðir textar. En, eins og höfundur gerir skilmerkilega grein fyrir, hafa þeir sem rannsakað hafa munnlega frásagnarlist, einkum í samfélögum þar sem rittækni hefur ekki náð útbreiðslu, komist að því að töluverður munur er á texta sem hefur verið festur á bókfell og orðræðu sem einvörð- ungu er skráð í svikulu og síkviku minni, en lifnar í munni við flutning. Segja má að sagan sé í vissum skilningi end- ursamin í hvert sinn. Enginn segir nákvæm- lega sömu sögu tvisvar og tveir sagnamenn segja sömu sögu hvor á sinn hátt. Um leið og einn nemur frásögn af öðrum breytist hún og eftir því sem milliliðirnir eru fleiri eru meiri lík- ur á því að breytingarnar verði miklar, ekki síst ef hún berst úr einu menningarumhverfi í ann- að eða ef veruleg umskipti verða á þjóðfélaginu. Munnleg frásögn í óbundnu máli er enn frek- ar ofurseld þessu lögmáli en bundið mál, eink- um ef hið síðarnefnda lýtur flóknum brag- reglum þar sem kröfur um rím og hrynjandi veita brigðulu minni meira aðhald. Eftir því sem hún er sögð oftar, af fleirum og í marg- víslegra umhverfi, er líklegra að hún umbreyt- ist verulega, að formgerð hennar verði einfald- ari og falli að stöðluðum frásagnarmynstrum. Þannig verða ævintýrin til. Og þjóðsögurnar... og jafnvel slúðursögur líka. Fortíð í munnlegri geymd Um það hefur verið lengi rætt hvort Íslend- ingasögur hafi ekki lifað á mannavörum áður en þær rötuðu á bókfell. Ástæðan fyrir þessu er kannski fyrst og fremst sú að mynd þeirra af atburðum sem eiga að hafa gerst minnst tveim- ur öldum fyrr en þær voru skráðar er svo raunsæisleg og frásögnin svo lifandi að það er erfitt að gefast ekki upp fyrir mætti þessara listaverka og trúa hverju einasta orði sem þau segja okkur um veruleika sem bæði er löngu liðinn og lítið eftir af. Sögurnar hlytu að hafa lif- að á vörum sagnamanna þar til þær voru skráð- ar. Raunar gætti þessa viðhorfs um flestar greinar fornsagna fyrir nokkrum öldum. Eink- um virðist þörf norrænna konungsríkja á 17. og 18. öld fyrir glæsta fortíð sem stæðist saman- burð við fortíð suðlægari og voldugri Evrópu- ríkja hafa orðið til þess að mikil stemning var fyrir því að treysta sannleiksgildi miður trú- verðugra sagna af fornkonungum þeirra, t.d. Hrólfi kraka eða Friðþjófi frækna. En eftir því sem vísindalegur þankagangur varð útbreidd- ari og sú hugmynd almennari að náttúrulög- málin hefðu ekkert breyst frá því í öndverðu, hvarf gullaldarglýjan úr augum manna og sömuleiðis átrúnaður á heimildagildi þessara sagna, nema þá um fornan hetju- og goðsagna- heim. Annað gilti um Íslendingasögur og sögur af konungum sem uppi voru um sama leyti og at- burðir Íslendingasagna áttu sér stað, þ.e. í kringum árið 1000. Trúin á sannleiksgildi þeirra lifði lengur. Það eru einkum tvær skýr- ingar á því. Sú fyrri hefur þegar verið nefnd, þ.e. trúverðugleiki þeirra á mælikvarða þess sem lesendur geta vænst af veruleikanum. Hin ástæðan er sú að umræddar konungasögur studdust gjarnan við dróttkvæði sem heimildir. Þar sem þau voru talin hafa tekið litlum breyt- ingum frá því þau höfðu verið kveðin, jók það trú manna á að sögurnar segðu rétt og satt frá. Dróttkvæðar vísur og kvæði er einnig að finna í fjölmörgum Íslendingasögum og var það held- ur ekki til þess að menn misstu trúna á sann- leiksgildi þeirra. Íslenski skólinn og sérstaða Íslendingasagna Viðhorfið til Íslendingasagna fór þó að breyt- ast verulega á fyrstu áratugum tuttugustu ald- ar. Þá fóru menn að veita því athygli að það var ekki alltaf samræmi milli sagnanna; ekki held- ur milli þeirra og annarra heimilda, einkum þeirra sem menn töldu standa nær atburðunum í tíma, eins og Íslendingabók og Landnáma. Þó þessi fræðilega nálgun ætti sér rætur í verkum erlendra fræðimanna, einkum þýskra, má segja að hún hafi náð fullum þroska hér á landi í verkum Bjarnar M. Ólsen, Sigurðar Nordals og Einars Ólafs Sveinssonar. Til varð hinn svo- kallaði íslenski skóli í fornsögurannsóknum og hentar vel að benda á fræga ritgerð Sigurðar um Hrafnkels sögu sem eins konar „manífestó“ þeirrar rannsóknarstefnu. Hann hélt því fram að sagan um Freysgoðann væri fyrst og fremst skáldskapur rithöfundar sem hefði spunnið sögu í kringum nafn á manni sem sennilega hefði verið uppi á söguöld en sem fátt hefði ver- ið vitað um. Tilgangur hans hefði ekki verið sá að greina frá atburðum sem hann teldi að hefðu gerst, heldur að skapa áhugaverða sögu um sérstæð örlög. Rökin sem hann byggði á voru fyrst og fremst þau að Landnáma segði annað en sagan um Hrafnkel, en sagan væri ein til frá- sagnar um alla atburði og flestar persónur sög- unnar. Án of grófrar einföldunar má segja að við- horf íslenska skólans til Íslendingasagna séu að þær hafi verið saman settar af skapandi rithöf- undum sem unnu úr þeirri rithefð sem þegar var fyrir hendi á þeirra dögum, en jafnframt úr fornum kveðskap og frásögnum um fyrstu kyn- slóðir Íslandsbyggðar sem lifðu á mannavör- um. Gert var ráð fyrir munnlegri hefð, en henni var ekki veitt mikil athygli, að kveðskapnum frátöldum, sem talið var að höfundar Íslend- ingasagna hefðu stuðst við á svipaðan hátt og höfundar konungasagna. Þó var mesta orkan lögð í að kanna tengsl sagnanna við önnur rit og hefur sú nálgun verið býsna gjöful, ekki síst þegar menn fóru að horfa út fyrir hinn norræna menningarheim og átta sig á því að ritlistinni fylgdi sjálfkrafa umgengni við ýmiss konar rit sem voru alþekkt meðal lærðra manna um alla Evrópu á miðöldum, hjá klerkum að sjálfsögðu, en einnig leikmönnum sem í vaxandi mæli fóru að tileinka sér menningartæki kirkjunnar á 12. og 13. öld. Þrátt fyrir þetta var erfitt að horfa framhjá þeirri staðreynd að fornsögurnar hefðu á sér yfirbragð sem gerði þær ólíkar flestum öðrum bókmenntum sem samdar voru í Evrópu á sama tíma. Það krafðist skýringa. Árið 1967 setti bandaríski fræðimaðurinn, Theodore M. Andersson, fram þá kenningu að í flestum Ís- lendingasögum mætti finna grundvallarform- gerð sem byggði á hefnd, gagnhefndum og sátt- um. Formgerð þessi benti til þess að sögurnar hefðu borist milli kynslóða munnlega vegna þess að þær túlkuðu áleitið viðfangsefni í sam- félagi hefndarskyldunnar. Um leið og kenning Anderssons gerði grein fyrir því hvers vegna sögurnar hefðu varðveist, skýrði hún einnig hvernig þær höfðu breyst í meðförum sagna- manna, þar sem sagnakonur og menn felldu at- burði og persónur ósjálfrátt að frásagnarform- gerð sem átti djúpar rætur í menningunni. Segja má að grundvallarhugmynd Anderssons um að tengsl milli samfélagsgerðar og Íslend- ingasagna hafi lifað áfram í verkum yngri fræðimanna, þótt þeir hafi útfært hana á mjög mismunandi hátt. Sá sem þetta skrifar er hrifn- astur af því hvernig Preben Meulengracht Sør- ensen tvinnar saman víðtækri þekkingu á mannfræði, bókmenntafræði og fornnorrænum bókmenntum til að setja fram kenningu um að í bókmenntagreininni Íslendingasögum birtist frásagnarhefð um það hvernig menn öðlast heiður eða tapa honum, verja sæmd sína eða sækja að sæmd annarra. Munnleg hefð og rittengsl Þessir fræðimenn gera ráð fyrir því að Ís- lendingasögur eigi djúpar rætur í samfélaginu, en spretti ekki einvörðungu úr ritmenningu samtímans, en hún varð að mestu leyti til vegna aðlögunar íslensks samfélags að samtíma- menningu Vesturlanda. Raunar verður að taka skýrt fram að langflestir samtímamenn okkar sem hafa fengist við sögurnar eru sammála um þetta, meira að segja þeir sem hafa einbeitt sér hvað mest að því að leita að tengslum tiltekinna sagna við önnur eldri rit eða viljað skoða ís- lenskar miðaldabókmenntir í samhengi við þá miklu sprengingu sem varð í bókmenntasköp- un víðs vegar í Evrópu um sama leyti og ís- lenska undrið átti sér stað. Í riti sínu gefur Gísli Sigurðsson það sumstaðar í skyn að svo sé ekki, þ.e. að þessir fræðimenn láti eins og munnlega frásagnarhefðin hafi ekki verið til eða að hún skipti ekki máli til skilnings á Íslendingasögum eða öðrum fornbókmenntum. Ég held að hið rétta sé að hún liggi utan við þær spurningar sem þeir eru að leita svara við. Í einni neðanmálsgrein (bls. 133) nefnir hann t.d. rit Bjarna Einarssonar um Egils sögu sem dæmi um rannsókn þar sem öll líkindi milli fornra texta eru rakin til rittengsla í stað þess að gera ráð fyrir þeim möguleika að frásagn- arformúlur og fastmótað orðalag sem tvær sög- ur deila geti líka bent til sameiginlegs uppruna í munnlegri hefð. Að vísu er það rétt að bók Bjarna fjallar um bókmenntalegar fyrirmyndir Egils sögu, eins og titill hennar gerir mjög skil- merkilega grein fyrir: Litterære forudsætnin- ger for Egils saga. Rök Bjarna fyrir því hvern- ig höfundur þeirrar merku sögu sótti sér fyrirmyndir og efnivið til eldri rita eru að mínu mati mjög sterk, enda hef ég ekki orðið var við að nokkur setti fram rökstudda gagnrýni á þau á prenti. Það þýðir ekki að Bjarni gerði ekki ráð fyrir að höfundur sögunnar hafi ekki sótt í munnlega hefð. Fullyrðing á borð við þá sem kemur fram hjá Gísla þyrfti að vera studd með dæmum, en eins og hún kemur fyrir veit les- andinn ekki hvað það er í ályktunum Bjarna um tengsl Eglu við fyrri rit sem Gísli telur hvíla á veikum grunni. Þrátt fyrir þessa aðfinnslu, sem ekki snertir niðurstöður Gísla sjálfs, heldur ummæli hans um niðurstöður annarra, er bókin Túlkun Ís- lendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar gott framlag til þeirrar umræðu sem nauðsynlegt er að haldi áfram um eðli og uppruna fornbók- menntanna og túlkun þeirra. Mér sýnist hún koma á eftirfarandi hátt inn í þá sögu fræðanna sem dregin var upp í einfaldaðri mynd hér að framan: Á seinasta þriðjungi síðustu aldar hljóp mikið fjör í rannsóknir á munnlegri hefð hvarvetna í heiminum. Fræðimenn drógu lær- dóm af athugunum þjóð- og mannfræðinga á því hvernig samfélög sem ekki styðjast við lest- ur og skrift miðla fróðleik frá manni til manns og kynslóðar til kynslóðar, og studdust við þær við endurskoðun hugmynda sinna um fornbók- menntir vestrænna þjóða, t.d. Hómerskviður eða frönsku kappakvæðin. Rannsóknir á nor- rænni miðaldamenningu smituðust einnig af þessum áhuga, en upphaflega var sjónum að- allega beint að fornkvæðunum, einkum eddu- kvæðum, því þau virtust vel koma til greina sem bókmenntir sem hefðu getað borist munn- lega frá manni til manns og verið endursköpuð í hverjum flutningi. Erfiðara gekk að notfæra sér þessi fræði til að álykta um það hvort og hvernig langar sögur á borð við Íslendingasög- ur hefðu getað þróast sem munnleg sagnalist áður en þær voru festar á skinn. Fjölþætt og frumleg rannsókn Rannsóknir Gísla snúast um þetta vandamál og eru umfangsmesta og metnaðarfyllsta til- raun til að leysa það hingað til. Atlagan er í senn fjölþætt og frumleg. Eftir inngang þar sem hann lýsir því hvernig viðfangsefnið kveikti áhuga hans og gerir grein fyrir forsend- um sínum og aðferðum, beinir hann fyrst sjón- um að lögsögumönnum þjóðveldisins. Tilgang- ur hans er að leita að merkjum þess að einhvers konar átök hafi átt sér stað í kringum ritvæð- ingu samfélagsins. Hann setur fram þá tilgátu að lögsögumenn, sem byggðu völd sín og virð- ingu á þekkingu sinni á lögum sem þeir kunnu utan að, hafi ekki allir tekið því fagnandi þegar rittækninni var beitt til að skrá lög. Ástæðan var að það þýddi minni áhrif þeirra sem kunnu lögin utanað og meiri fyrir þá sem höfðu til- einkað sér nýju tæknina, þ.e. þá sem stóðu ná- lægt kirkjunni. Með því að skoða það sem heim- ildirnar segja okkur um lögsögumennina, sér hann þess merki að ákveðnar ættir hafi þurft að gefa eftir lögsögumannsembættið um það bil sem lagaritun hófst og það féll í skaut ætta sem einnig höfðu ítök í kirkjunni. Þetta er frumleg hugmynd, en torvelt að sanna hana þar sem fá- ar vísbendingar eru um að ágreiningur hafi verið um að skrá lögin. Ýmsar aðrar skýringar kunna að vera á því að viðkomandi ættir hafi hætt að sjá þjóðinni fyrir lögsögumönnum. Minnkandi pólítískt vægi þeirra þarf ekki að hafa stafað af því að rittæknin væri þeim meiri þyrnir í augu en öðrum, enda verða menn af þessum ættum áhrifamenn kirkjunnar nokkru síðar, eins og Gísli bendir á. Þrátt fyrir þetta er kaflinn góð tilraun til að lesa nýjar upplýsingar úr þeim heimildum sem tiltækar eru, þótt þær segi ekki nóg til að lesa úr þeim ótvíræð svör við tilgátu Gísla. Ekki sýnir Gísli minni hugkvæmni þegar hann tekur til umfjöllunar málskrúðsfræði Ólafs hvítaskálds, bróðursonar Snorra Sturlu- sonar. Í þessari ritgerð frá miðri 13. öld er fjallað um mælskufræði á sama hátt og hún var kennd hvarvetna í Evrópu á þessum tíma, en hún er þó sérstök fyrir það að dæmin eru tekin úr verkum norrænna skálda sem yrkja í hefð dróttkveðskaps en ekki úr kvæðum á latínu. Gísli flokkar dæmin eftir skáldum og síðan skáldin eftir því hvort líklegt sé að Ólafur hafi þekkt verk þeirra úr ritum eða úr þeirri munn- legu hefð sem honum var nærtækust á vest- anverðu Íslandi. Hann kemst að þeirri niður- stöðu að þegar dæmin eru ekki fengin úr ritum, þá sækir Ólafur flest þeirra til skálda úr ná- grenni hans. Með þessu telur Gísli komna fram sterka vísbendingu um lifandi en jafnframt svæðisbundna kveðskaparhefð. Raunar kemur þetta heim og saman við það sem lesa má úr samtíðarsögum um það hvernig dróttkvæðar vísur bárust milli höfðingjasetra, ekki síst ef skáldin voru að láta í ljósi skoðun á mönnum eða málefnum. „Almælt saga“ Þótt þessar niðurstöður varði dróttkvæði en ekki frásagnir, eru þær eigi að síður gagnlegar fyrir næsta hluta rannsóknarinnar, um sögur af Austfirðingum. Ef kveðskaparhefð var bundin ákveðnu landsvæði má einnig láta sér detta í hug að sama kunni að hafa gilt um munnlega frásagnarhefð. Í þessum hluta rannsóknarinn- ar, sem ég tel að sé einna best heppnaður, skoð- ar Gísli Íslendingasögur og þætti sem gerast á Austurlandi. Hann færir rök fyrir því að þær myndi saman það sem hann kallar „almælta sögu“ (e. immanent saga), þ.e. fróðleik um menn og atburði á söguöld sem fólk á því land- svæði hafði á takteinum og sagði hvert öðru til að skemmta og/eða miðla þekkingu. Skrásetj- arar settu bara brot af þessari heildarsögu á bókfellið, í formi þátta eða styttri sagna. Sem heild var hún hvergi til nema í hefðinni. Gísli tekur dæmi af Þorkatli Geitissyni, vopnfirskum höfðingja. Hans er getið í fjölmörgum af þess- um sögum, stundum í stóru hlutverki, oftar í minna. Ef sögurnar af honum væru uppspuni frá rótum, eða jafnvel lagaðar að þörfum rithöf- unda sem væru fyrst og fremst að semja skáld- sögur, mætti ætla að myndin sem hinar ólíku sögur draga upp af Þorkatli væri mótsagna- kennd og sundurlaus. Svo virðist ekki vera og sýnir Gísla að það megi styðjast við Austfirð- ingasögur til að fá heildarmynd af ævi Þorkels, að til hafi verið „almælt ævisaga“ hans sem rat- aði í brotum inn í þessar sögur en hafi verið til í heilu lagi í munnlegu hefðinni. Hugmyndin er bæði frumleg og frjó og væri gaman ef Gísli eða einhver annar prófaði hvað hann kæmist langt með hana í tengslum við aðrar sögur. Hann gerir stutta tilraun til þess í lok bókarinnar, þegar hann ber saman Finn- boga söga ramma og Vatnsdæla sögu og kemst að þeirri niðurstöðu að þar sé að finna tvær SÖGUR Á MANNAVÖRUM Um „Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar“ eftir Gísla Sigurðsson. E f t i r To r f a H . Tu l i n i u s Morgunblaðið/Kristinn Gísli Sigurðsson.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.