Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚNÍ 2003 OPNAÐ hefur verið nýtt listasafn í Reykjavík. Það er einkasafn Péturs Arasonar viðskipta- manns og safnara og konu hans Rögnu Róberts- dóttur, myndlistarkonu og safnara sömuleiðis. Í um fjóra áratugi hafa Pétur og Ragna safnað myndlist, mestmegnis samtímaverkum, eftir bæði erlenda og innlenda myndlistarmenn. Þau hjónin ráku einnig sýningarsalinn Aðra hæð í samvinnu við Ingólf Arnarson myndlistarmann um sjö ára skeið á tíunda áratugnum en þar á undan rak Pétur Gallerí Krók. Önnur hæð var til húsa á heimili Péturs og Rögnu og þar var kynnt- ur fjöldi erlendra listamanna sem hvorki hafa sýnt verk sín hér á landi fyrr eða síðar. Safn Pét- urs og Rögnu var svo sýnt að miklu leyti í Gerð- arsafni í Kópavogi árið 2000, á dagskrá Reykja- víkur menningarborgar og kom umfang þess og fjöldi verka og listamanna þá án efa mörgum á óvart. Nú hefur Reykjavíkurborg orðið til þess að al- menningur fær að njóta þessarar fjölbreyttu listaverkaeignar með þeim hjónum en eins og nokkuð hefur verið skrifað um í dagblöðum veitti menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar safn- inu veigamikinn styrk. Almenningi og listamönn- um er augljóslega mikill fengur að þessu safni og hreint frábært að nú skuli verk svo margra áhrifamikilla listamanna frá tímabilinu 1960 og fram á okkar daga vera öllum aðgengileg að stað- aldri hér á landi í fyrsta sinn. Safnið á um 300 verk og á sýningunni sem nú hangir uppi eru verk eftir um 50 listamenn, ís- lenska og erlenda. Meginkjarninn er fastasýning þar sem hægt verður að ganga að vissum verkum vísum. Í bígerð er að eitt rými á safninu verði notað til að kynna unga og upprennandi íslenska listamenn og einnig eru fyrirhugaðar kynningar á erlendum listamönnum og verkum þeirra í eigu safnsins. Fjölbreytt samspil Strax þegar komið er inn á fyrstu hæð á Safni tekur á móti gestum fjölbreytt samspil íslenskra og erlendra myndlistarmanna, samspil splunku- nýrra verka og annarra sem eru eldri, en söfnun Péturs hófst á sjöunda áratugnum. Það er nýtt verk eftir Ólaf Elíasson sem mætir sjónum þegar inn er komið, verk sem byggir á einföldum lög- málum birtu og gegnsæis. Þegar sólin nær að skína á þetta verk endurvarpar það smáum regn- bogum inn eftir öllum veggjum í rýminu. Vegg- málverk Lawrence Weiner sem hefst á orðunum Dagljósið (eins og það er) er skemmtilega öðru- vísi nálgun við þessi einföldu náttúrulögmál. Strax hér kemur fram hvernig eldri og yngri, er- lend og íslensk verk ná að skapa nýja heild, þema sem endurtekur sig á missterkan og ólíkan hátt í öllum rýmum og á öllum hæðum safnsins. Á fyrstu hæð er einnig eitt umfangsmesta verk Safns, gólfverk Richards Longs úr fjörugrjóti. Það myndar dulúðuga heild með nokkrum af betri verkum listakonunnar Roni Horn, óvenju- legum fuglamyndum. Þegar gengið er upp stigann á aðra hæð berst bæði þungur niður og klingjandi hljómur til eyrna. Það er sameiginlegt verk þeirra Finnboga Péturssonar og Rögnu Róbertsdóttur sem send- ir frá sér ókennilegan rytmískan nið, hljóðverk Finnboga og sjónræn útfærsla þess mynda and- svar við þögulan hraunferning Rögnu og samtal myndast þarna á milli. Hinn klingjandi hljómur berst svo frá einu uppáhaldsverka minna í þessu safni, eftir Céleste Boursier-Mougenot, verk án titils. Hér er um að ræða bláa buslulaug með uppblásnum veggjum, hálffyllta af vatni. Á yfirborðinu sigla hvítar blá- mynstraðar postulínskálar og diskar, skella stöð- ugt saman með þessum létta, klingjandi hljóm. Á annarri hæð er einnig lítið rými sem að öll- um líkindum verður notað undir sýningar inn- lendra, upprennandi listamanna þegar fram líða stundir. Nú er þar að finna verk eftir Hrafnkel Sigurðsson, Hrein Friðfinnsson og Gabríelu Friðriksdóttur og það er afar skemmtilegt að sjá hvernig þessi verk vinna saman til að skapa eitt- hvað nýtt. Það er augljóst að mikil vinna liggur að baki uppsetningu þeirra verka sem er að sjá í safninu en hún hefur tekist afar vel og þetta litla rými er gott dæmi um það. Á annarri hæð er einnig fjöldi verka í stærri sölunum tveimur. Það eru margvísleg verk sem hér koma saman, m.a. eftir bresku listakonuna Söruh Lucas. Ekki má gleyma sterku myndbandi eftir Roman Signer, verk með einfaldri og áhrifamikilli skírskotun til þess ástands sem ríkir í heiminum og á heimilum í dag. Á efstu hæð safnsins má til dæmis sjá verk eft- ir konseptlistamanninn Stanley Brouwn sem var frumkvöðull á sínu sviði, nýgeómetríu eftir Ger- wald Rockensschaub, skúlptúr eftir Richard Tuttle og fleiri. Þá eru ótalin verk á öllum hæðum eftir listamenn á borð við Carl Andre, Donald Judd, Peter Fischli og David Weiss, Ben Vautier, Dieter Roth, Daniel Buren, Hamish Fulton, Bernd og Hilla Becher, Ilya Kabakov, Joep van Lieshout, Adrian Schiess og marga fleiri. Að ógleymdum íslensku listamönnunum Sigurði og Kristjáni Guðmundssonum, Ingólfi Arnarsyni, Birgi Andréssyni, Hrafnkeli Sigurðssyni, Magn- úsi Pálssyni, Herði Ágústssyni, Daníel Magnús- syni, Særúnu Stefánsdóttur og Kristni Harðar- syni, auk þeirra sem áður voru nefndir. Í safninu liggja frammi nánari upplýsingar um alla þá listamenn sem kynntir eru og fyrirhugað er að leggja áherslu á almenningsfræðslu. Einkasafn Safn Péturs og Rögnu er einkasafn og hefur því að sjálfsögðu sérhæft sig að nokkru leyti, það segir sig sjálft að safnari hefur ekki jafnan áhuga á öllu sem fram kemur innan myndlistarinnar á hverjum tíma og safn þar sem einfaldlega öllu ægði saman, sem hefði það markmið eitt að gefa sýnishorn af öllu sem væri að gerast á hverjum tíma, væri síður áhugavert. Í Safni er í flestum tilfellum um heimsþekkta listamenn að ræða sem flestir hafa verið braut- ryðjendur á sínu sviði. Verkin sem safnið á eftir hvern og einn eru misstór að umfangi enda dett- ur varla nokkrum í hug að einkasafnari uppi á Ís- landi festi kaup á lykilverkum í eigu einhverra frægustu listamanna í heimi. Langt er þó í frá að hér sé eingöngu um minniháttar verk og fjölfeldi að ræða, fjölbreytnin er þvert á móti afar mikil. Sviðið sem safnið nær yfir er afar breitt, allt frá naumhyggju og hugmyndalist sem einkenndi listheiminn að miklu leyti á sjöunda og áttunda áratugnum, til nýrri verka listamanna eins og Söruh Lucas, Gabríelu Friðriksdóttur og Jyrki Parantainen sem seint verða kennd við naum- hyggju. Styrkur sá sem Reykjavíkurborg veitir nær ekki til listaverkakaupa fyrir safnið. Safnið hefur heldur ekki verið byggt upp á styrkjum heldur hreinu einstaklingsframtaki í fjóra áratugi og á án efa eftir að vaxa að umfangi þrátt fyrir þetta. Ekki má gleyma því að Reykjavíkurborg hefur þarna tryggt sér aðgang að safninu til sýninga í salarkynnum sínum, en um það snýst hluti samn- ingsins. Strax um næstu helgi opnar einmitt sýn- ing á alþjóðlegri samtímalist í Hafnarhúsi sem að hluta til byggist á verkum úr eigu Péturs Ara- sonar. Safnarar á Íslandi eru vægast sagt fáir og safn Péturs og Rögnu sannarlega einstakt. Frum- kvöðull var líklega Ragnar í Smára, en lista- verkasafn hans er nú uppistaðan í listasafni ASÍ. Hluti af því safni er sýndur að staðaldri í sýning- arsalnum við Freyjugötu og er skipt um verk ársfjórðungslega, en í húsnæðinu eru einnig sýn- ingar á samtímalist. Hjónin Þorvaldur Guðmundsson og Ingibjörg kona hans komu sér upp merku safni á íslenskri myndlist. Hluta þess má sjá á Hótel Holti, en fyr- ir fáeinum árum var gerður vörslusamningur við Gerðarsafn í Kópavogi um safn þeirra. Árið 2002 var haldin umfangsmikil sýning á þessum verk- um í Gerðarsafni og vakti hún mikla athygli. Í þessu safni eru um 1000 verk. Sverrir Sigurðsson og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir komu sér einnig upp stóru safni sem var gefið Háskóla Íslands og er nú uppi- staðan í Listasafni Háskólans. Árið 1999, á ní- ræðisafmæli Sverris, var einnig stofnaður sjóður upp á 10 miljónir til rannsóknarstarfa á íslenskri myndlist. Safnið er til sýnis á um 20 stöðum inn- an háskólans. Meginuppistaða þess eru verk Þorvaldar Skúlasonar. Safnið kaupir ný verk í litlum mæli og telur nú um 700 verk. Þá má loks geta hjónanna Sverris Magnússon- ar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur sem á 75 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar gáfu bænum hús- eign sína að Strandgötu 37 ásamt listaverkagjöf og bókasafni. Samkvæmt gjafabréfi skyldi hús- næðið notað til að reka listasafn, fyrir listsýn- ingar, tónleikahald og menningarstarfsemi. Þar er nú að sjálfsögðu hin vel kunna Hafnarborg í dag. Af þessu má sjá að það eru örfáir einstaklingar sem safnað hafa íslenskri myndlist í gegnum tíð- ina. Framtak Péturs er í þessu ljósi með ólík- indum og enginn hefur komið upp jafn fjöl- breyttu safni erlendrar samtímalistar og Pétur og Ragna. Samtímalist í heimahúsum Í Safni má sjá hversu vel samtímalist og list frá síðustu áratugum fer á veggjum í húsakynnum af heimilisstærð með venjulegri lofthæð og hversu lítið rými þarf til að koma fyrir spennandi verk- um. Án efa er það viðhorf algengt hjá almenningi að samtímalist sé eitthvað sem einungis eigi heima á safni en því fer auðvitað fjarri. Hér í þessum litlu en margbreytilegu húskynnum þar sem skipast á lítil herbergi og stærri salir kemur þetta sérstaklega vel fram. Í sýningarsölum af þessu tagi skapast innilegra og afslappaðra and- rúmsloft en á stóru safni. Ef Safn gæti nú orðið til þess að fleiri Íslend- ingar myndu finna hjá sér áhugann til að kynna sér og festa kaup á verkum íslenskra samtíma- listamanna væri tilgangi þess meira en náð. Fyr- ir þá sem hugsa list sem fjárfestingu, sem hún er auðvitað löngu orðin, má benda á fjölda íslenskra listamanna sem hafa fest sig svo kirfilega í sessi bæði hérlendis og erlendis að vitað er að verk þeirra munu einungis koma til með að hækka í verði í framtíðinni. Ég vona að sem allra flestir eigi eftir að njóta Safns og verka þess í því afslappaða og lifandi andrúmslofti sem þar ríkir. Listsköpun við Laugaveg Á annarri hæð: Flatt verk í forgrunni eftir Adriean Schiess, verkið Pressure eftir Sarah Lucas í horni, gólfverkið Pair eftir Roni Horn. Þar má einnig sjá verk Ingólfs Arnarsonar, Hreins Friðfinnssonar og Jyrki Parantainen. Á fyrstu hæð Safnsins blasir verk Ólafs Elíassonar við vegfarendum. Ragna Sigurðardóttir MYNDLIST Safn, Laugavegi 37 Safn er opið frá kl. 14–18, miðvikudaga til sunnudaga. SAMTÍMALIST EGYPTAR eru ósáttir þessa dagana við þá meðferð sem brjóstmynd af egypsku drottn- ingunni Nef- ertiti hefur hlotið hjá safn- yfirvöldum í egypska safninu í Berlín, þar sem brjóst- myndin hef- ur verið geymd í rúm 80 ár. Brjóst- myndin, sem er rúmlega 3.300 ára gömul og með þekkt- ustu egypsku fornminjunum, fékk nefnilega nýlega nýtt hlut- verk sem hluti af konsept- listaverki ungverska lista- mannadúósins Litlu Varsjár. Var verkið þannig uppbyggt að brjóstmyndin var látin síga nið- ur á herðar höfuðlausrar brons- styttu af fáklæddri konu, en skrásetning á viðburðinum er framlag Ungverja til Fen- eyjatvíæringsins sem nú stendur yfir. Dieter Wildung, forstjóri safnsins, varði verkið með því að kalla það „óð samtímalistar til Nefertiti“, en í Kaíró er verkið sagt móðgun jafnt við menning- ararfleifð Egypta sem íslamskt siðferði. 500 Turner-verk „fundin“ HUNDRUÐ ómetanlegra verka eftir breska listamanninn Joseph Mallord WilliamTurner hafa fundist í kjölfar þess að sérfræð- ingar Tate-safnsins hófu vinnu við að skrásetja öll verk þessa þekkta listamanns fyrir gerð vefsvæðis tileinkaðs honum. Um 500 verk fundust í heild, á þeim fjórtán mánuðum sem skrásetningin stóð yfir, og fund- ust verkin víða á einkaheimilum – sums staðar höfðu þau jafnvel verið geymd inni í skáp eða uppi á hálofti og gleymst þar. „Þetta voru oft fjölskyldu- dýrgripir, en eigendurnir áttuðu sig ekki á að Turner merkti ekki öll verk sín,“ sagði talsmaður verkefnsisins við fréttavef BBC. Vefsvæðið Turner Worldwide, sem finna má á slóðinni www.tate.org.uk, geymir upp- lýsingar um ein 2.300 verk lista- mannsins víða um heim, auk þeirra 30.000 sem eru í eigu Tate-safnsins, og er í flestum til- fellum að finna tölvumyndir í hárri upplausn af verkum lista- mannsins. Meðal þeirra verka sem þar er að finna má nefna áð- ur ósýnd verk frá einkasöfnum á Írlandi og í Skotlandi. Einar 400 myndir til viðbótar, sem eign- aðar eru listamanninum, eru þá í athugun hjá sérfræðingum Tate og kunna að bætast við vefinn á næstunni, en aðstandendur hans vonast til að vefurinn reynist einkasöfnurum og smærri gall- eríum hvatning til að láta skrá verk sín þar. ERLENT Konseptverkið Nefertiti Rain, Steam, and Speed The Great Western Railway eftir Turner. Nefertiti.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.