Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2003, Page 7
ólíkar birtingarmyndir sömu munnlegu hefðar.
Fróðlegt væri að skoða fleiri sögur í tengslum
við þessar tvær, t.d. Hallfreðar sögu sem einnig
fjallar um skipti manna við goðana í Vatnsdal.
Eins væri athugandi að rýna í sögur sem
segja heila ævisögu manns, eins og t.d. Egils
sögu eða Grettlu, og athuga hvort finna megi
merki þess að höfundur hafi raðað saman brot-
um úr „almæltri“ sögu þeirra. Þótt ég sé á
þeirri skoðun að það skýri meira um byggingu
og innihald Egils sögu og samspil hennar við
merkingarheim 13. aldar, að gera ráð fyrir því
að hún sé fyrst og fremst verk höfundar sem
hafi farið afar frjálslega með og bætt verulega
við það sem hugsanlega kann að hafa verið sagt
frá Agli tveimur til þremur öldum eftir andlát
hans, þá er einnig afar líklegt að einhvers konar
munnleg hefð hafi verið til um skáldvíkinginnn
frá Borg. Þessu til stuðnings má geta að fyrir
nokkrum árum gerði nýsjálenski fræðimaður-
inn Russell Poole rannsókn á nokkrum vísum
sem Egill kveður, samkvæmt sögunni, í við-
ureign sinni við berserkinn Ljót hin bleika.
Færir Poole rök fyrir því að vísurnar hafi upp-
haflega verið ortar sem samfellt kvæði en að
Egluhöfundur hafi slitið það í sundur og aðeins
notað það sem honum hentaði af lengra kvæði
sem að talsverðu leyti er glatað.
Sé þetta rétt, erum við komin með dæmi um
forstig að frásögn úr Íslendingasögu sem kem-
ur úr munnlegri frásagnarhefð. Viðureign við
berserk á sér margar hliðstæður í fornbók-
menntunum og á sér vafalaust rætur í fornum
frásögnum á mannavörum, ef til vill goðsögum.
Þessi grunnfrásögn er tengd þekktri persónu,
syni landnámsmanns, og verður þannig hluti af
„almæltu“ sögunni um hann. Þá eða síðar eru
vísur ortar og lagðar í munn hans og er auðvelt
að sjá fyrir sér flutning frásagnarinnar og
kvæðisins sem henni fylgdi sem skemmtiatriði í
fagurri veislu hvenær sem er á þjóðveldisöld,
þó fremur eftir miðja 12. öld þegar áhugi á
dróttkvæðum virðist vaxa á ný meðal Íslend-
inga. Í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að
þetta hafi allt saman gerst á fremur stuttum
tíma, þ.e. að kvæðið og frásögnin hafi orðið til
sem munnleg skemmtun á dögum Egluhöfund-
ar og hann hafi tekið það sér til handargagns
þegar hann setti söguna saman.
„Almælt“ Vínlandskort?
Fjórði og ekki síður umfangsmikill þáttur í
leit Gísla að munnlegu frásagnarhefðinni sem
Íslendingasögurnar eru sprottnar úr fjallar um
sögur er greina frá ferðum norrænna manna
vestur um haf. Kaflinn um þær er bæði
skemmtilegur og fróðlegur. Hann hafnar ekki
þeirri niðurstöðu bókmenntafræðinga að höf-
undar þessara sagna hafi verið undir áhrifum
frá bókmenntategund úr samtíma þeirra, þ.e.
sögur í helgisagnastíl um ferðalög til landa
handan þessa heims. En hann færir sterk rök
fyrir því að þær byggi einnig á frásögnum sem
borist hafi mann fram af manni um ferðalög til
Vínlands í kringum árið 1000. Grænlendinga
saga og Eiríks saga segja ekki alltaf sömu sögu,
ekki síst um landshætti vestanhafs. Helsta ný-
mælið hjá Gísla er að líta svo á að upplýsing-
arnar sem hvor saga fyrir sig varðveitir útiloki
ekki það sem hin segir. Samkvæmt aðferða-
fræði hans birtist í báðum sögunum hluti af
hinni munnlegu frásagnarhefð og með því að
skoða þær saman fæst fyllri mynd af þeim fróð-
leik sem til var um löndin vestan hafs á Íslandi
um það bil sem sögurnar voru skráðar. Þetta
færir Gísli sér í nyt til að setja fram nýjar hug-
myndir um hvar á vesturströnd Ameríku Vín-
land hafi verið. Úr sögunum megi lesa e.k. „al-
mælt“ Vínlandskort, þ.e. upplýsingar um
löndin vestanhafs sem er sláandi lík austur-
strönd Norður-Ameríku eins og við þekkjum
hana í dag.
Ekki er víst að allir séu sammála aðferðum
hans eða niðurstöðum en því verður ekki á móti
mælt að hann sýnir töluverða hugkvæmni í tök-
um sínum á efninu um leið og hann er sam-
kvæmur þeim hugmyndum sem hann leggur
upp með og er það í sjálfu sér virðingarvert.
Bók Gísla Sigurðssonar er þörf áminning til
allra þeirra sem fást við fornbókmenntirnar um
að ekki megi gleyma því að áður en fornsög-
urnar voru samdar, og ekki síður samhliða því,
dafnaði frásagnarlist sem höfundarnir sóttu
kraft og efni til. Henni ber því að fagna, ekki
einvörðungu fyrir margt gagnlegt sem hún
segir okkur um munnlegu hefðina heldur vegna
þess að hún er okkur sem erum að fást við ís-
lenskar miðaldabókmenntir frá öðrum hliðum,
brýning um að veruleikinn sem þær eru
sprottnar úr er flókinn, að ekki sé nóg að skoða
þær frá einni hlið eða fáum. Ef við viljum kom-
ast að heildarskilningi á þessu merka fyrirbæri
verðum við að beina sjónum okkar að því frá
sem flestum hliðum. Tilraun Gísla Sigurðsson-
ar til að bregða birtu á þá munnlegu hefð sem
Íslendingasögur nærast á færir okkur heim
sanninn um að þessi hlið er ekki síður mikilvæg
en aðrar. Nú er komið að því að þróa betur hug-
myndir okkar um hvernig munnlega hefðin
tvinnaðist saman við aðra þætti til að úr yrðu
þau meistaraverk heimsbókmenntanna sem
margar Íslendingasögur vissulega eru.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚNÍ 2003 7
A
F HVERJU er himinninn
blár – Spurningar og svör
af Vísindavefnum er heiti
bókar sem kom út á dög-
unum hjá Máli og menn-
ingu. Þar birtist úrval af
spurningum og svörum af
Vísindavef Háskóla Ís-
lands, sem forseti Íslands opnaði í ársbyrjun
2000 og hefur notið fádæma vinsælda æ síðan.
Í bókinni birtist fjöldi spurninga um allt milli
himins og jarðar frá fólki á öllum aldri, jafnt
um hversdagsleg sem fræðileg efni. Bókin er
byggð upp þannig að þau þekkingar- og efn-
issvið sem flestar spurningar hafa beinst að
eru afmörkuð og þeim er síðan raðað upp í efn-
isklasa. Þeir gefa yfirlit um tiltekin svið fræð-
anna og mynda einnig röð sem hentar fyrir
samfelldan lestur. Jafnframt snertir efnið
flestar megingreinar vísinda og fræða þannig
að bókin er eins konar alfræðibók fyrir allar
kynslóðir. Hún er ríkulega myndskreytt.
Af hverju að gefa út bók? Eru ekki allar
þessar spurningar og svör á vefnum?
„Það er alveg rétt að fólk hefur aðgang að
öllum spurningunum og svörunum á vefnum
og við erum ekkert að breyta því þó að við gef-
um út bók. Vísindavefurinn er orðinn mikið
gagnasafn, bókstaflega alfræðirit á Netinu,
enda eru svörin að nálgast 3.500 og hægt að
nota leitarvél til þess að finna þau atriði sem
menn vilja fræðast um. Hins vegar þótti okkur
góð hugmynd að taka sama algengustu spurn-
ingarnar og svörin við þeim og setja í bók.
Svörin í bókinni eru 200 talsins og því ekki
nema brot af því efni sem er til á vefnum. Við
töldum að þetta efni ætti alveg erindi við les-
endur á bók, enda nálgast fólk bækur öðruvísi,
eldri notendur eru ekki eins vanir að lesa á
skjá og þeir yngri, sumum finnst óþægilegt að
lesa langan texta á tölvuskjá og margir fara
ekki með tölvuna upp í rúm á kvöldin. Við höld-
um að þetta sé góður kostur til þess að kynna
vefinn og innihald hans almennt og myndefnið
nýtur sín líka betur í vandaðri, litprentaðri bók
en á vefnum.“
Hvernig völduð þið spurningar af vefnum
inn í bókina? Voru þetta algengustu spurning-
arnar, eða þær sem ykkur finnst brýnast að
þjóðin fái svar við?
„Gestir og spyrjendur vefjarins eru í raun
ritstjórar bókarinnar að því leyti að þeir eiga
mikinn þátt í efnisvalinu. Ritstjórnarvinna
okkar fólst í fyrstu í því að afmarka hvar hafa
komið inn flestar spurningar. Kaflarnir í bók-
inni sýna hverju fólk er að velta fyrir sér og við
hverju það vill fá svör. Við bjuggum svo til efn-
isflokka þannig að bókin yrði aðgengilegri og
röðuðum saman spurningum og svörum um
skyld efni. Það er alltaf einhver sem ákveður
hvað er í alfræðiritum, yfirleitt er það hópur
fræðimanna, en í þessu tilfelli er það almenn-
ingur í landinu sem velur efni inn í alfræðiritið
og spyr um það sem hann vill vita. Lesendurnir
hafa mjög mikið vald í þessari bók; ef þeir
hefðu ekki spurt þessara spurninga þá væri
ekki búið að svara þeim.“
Hvaða hlutverki gegnir Vísindavefurinn?
„Vísindavefurinn hefur ýmsum hlutverkum
að gegna, til dæmis er þar stundum verið að
skrifa um hluti í fyrsta sinn á íslensku. Vef-
urinn er mjög aðgengilegur fyrir þá sem vilja
temja sér að hugsa um ýmislegt á íslensku, og
ekki síður fyrir fræðimennina sjálfa sem sumir
hafa ekki haft tækifæri til að koma þekking-
unni frá sér á íslensku. Og þá má segja að kom-
in sé enn önnur ástæða til að setja hluti á bók.
Eitt aðalhlutverk Vísindavefjarins er að
koma af stað samræðu milli háskóla-
samfélagsins og almennings. Þess vegna er
gaman að því hve spurningarnar eru marg-
breytilegar og af ýmsum toga. Oft sér maður
fyrir sér þann sem spyr. Þegar við lesum heitið
á spurningunni „Hvað eru mörg saltkorn í einu
tári?“ getum við látið okkur detta í hug ungling
sem er búinn að vera í mikilli ástarsorg en fer
skyndilega að velta því fyrir sér hvernig hægt
væri að mæla saltmagnið í öllum tárunum. „Af
hverju er himinninn blár?“ er ein algengasta
spurningin sem við fáum á vefnum og því engin
tilviljun að hún er valin sem heiti bókarinnar.
Við sjáum fyrir okkur Íslending sem leggst í
grasið á fallegum sumardegi, horfir upp í heið-
an himininn og fer þá allt í einu að velta þess-
um bláma fyrir sér. Á föstudegi fáum við
kannski spurningu frá hjólbarðaverkstæði þar
sem sprottið hafa deilur um hvort er réttara að
segja tölva eða talva og búið að veðja máltíð á
veitingastað. Svo eru margar spurningar úr
hversdagslífinu, til dæmis köllum við einn kafl-
ann „Eðlisfræði eldhússins“. Það er skemmti-
legt að almenningur í landinu skuli nýta sér
þekkingarsjóð Háskólans og vísindanna með
þessum hætti og háskólinn þá jafnframt tengj-
ast því sem er að gerast utan hans.“
Voru svörin öll til inni á vefnum áður en var
ákveðið að gera bókina?
„Svörin voru öll á vefnum og það var búið að
svara öllum spurningunum nema einni, við
komumst að því að sú spurning passaði vel inn í
einn klasann og létum því svara henni. Sumir
virðast halda að við búum spurningarnar til
sjálf en það hefur ekki verið gert síðan við
bjuggum til sýnishorn í byrjun til að fólk gæti
séð hvað við hefðum í huga. Engin þörf hefur
verið fyrir frumsamdar spurningar frá okkur
allar götur síðan því að við fáum allt að 60
spurningar á dag og eigum alltaf fjölmörgum
þeirra ósvarað.“
Hverjir spyrja?
„Þegar Vísindavefurinn var opnaður voru
fengnir tveir hópar í tölvuver, framhaldsskóla-
nemendur og grunnskólanemendur. Þessir
hópar eru stærsti spyrjendahópurinn, grunn-
skólanemendur á aldrinum 10–16 ára og svo
framhaldsskólanemendur. Stundum fáum við
spurningar frá kennurum sem eru að vinna
verkefni með bekkjum. Þannig að bókin ætti
að geta nýst í kennslu.
Vissulega fáum við spurningar frá fjölmörg-
um hópum í samfélaginu. Elstu skráðir spyrj-
endur hjá okkur eru fæddir fyrir 1920 og sá
yngsti 2001, en hann hefur væntanlega fengið
aðstoð frá fjölskyldunni. Stundum spyr fólk
um hluti sem liggja þungt á því. Einn af okkar
eldri notendum sendi ítrekun á spurningu sem
honum fannst við vera helst til sein að svara.
Þessi ágæti maður var kominn á níræðisaldur
og vildi fá svar við því hvað heilagur andi væri,
helst í þessu lífi. Við brugðum að sjálfsögðu
skjótt við að svara þessu. Svo má nefna að fjög-
urra ára telpa sendi okkur líka nýlega bréf á
pappír til að spyrja af hverju sjávarhljóðið
heyrist í kuðungnum.“
Hverjir svara?
„Leitað er svara innan Háskólans hjá fróð-
ustu mönnum á hverju sviði. Um 470 manns
hafa svarað spurningum. Stærstur hluti svars-
höfunda er starfsmenn Háskóla Íslands en
einnig svara vísindamenn á öðrum rannsókna-
stofnunum og fólk er alls staðar að leggja okk-
ur lið, fræðasetur um allt land, hreindýrataln-
ingamaður á Egilsstöðum og fleiri og fleiri.“
Ein spurningin í bókinni er þessi: „Eru til
svör við öllum spurningum?“ Er leitast við að
svara öllum spurningum?
„Fólk sér að við svörum alls konar spurn-
ingum á vefnum og þá er eðlilegt að spurning
eins og þessi vakni. En við höfum það að leið-
arljósi að spurninganna sé spurt af einlægni.
Stundum eru spurningarnar utan okkar verk-
sviðs, einkum ef þær eru mjög persónulegs
eðlis og svörin eiga kannski ekki erindi við alla
eða tengjast ekki vísindum. Sem dæmi um
slíkt má nefna spurningar um æviatriði núlif-
andi leikara eða um íþróttamenn eða íþrótta-
afrek. Stundum er líka einni spurningu svarað
á fleiri en einn hátt af fræðimönnum úr mis-
munandi fræðigreinum og þannig reynt að
gefa mismunandi sjónarhorn.
Reynslan virðist sýna að við getum gefið ein-
hvers konar svör við öllu, það er að segja að
lesandinn verði fróðari af að lesa svarið. Hins
vegar eru þetta auðvitað oft ekki einu svörin og
kannski vekja þau kannski enn fleiri spurn-
ingar. Við reynum að svara því sem við erum
spurð að en það eru ekki til endanleg svör við
öllu. En það er alltaf hægt að halda áfram að
spyrja; það liggur í eðli þekkingarleitarinnar.“
Af hverju heldurðu að vefurinn sé svona vin-
sæll?
„Fólk sækir væntanlega í fróðleikinn á vefn-
um m.a. vegna þess að spurningarnar eru gríp-
andi og svörin eru læsileg og skrifuð á manna-
máli. Spurningarnar sjálfar draga að sér
athyglina enda eru þær komnar frá almenn-
ingi. Áhuginn hefði hins vegar varla orðið
svona varanlegur og raunar sívaxandi nema af
því að fólk er líka ánægt með svörin. Það er
enginn einn sem getur látið sér detta í hug
svona margar skemmtilegar spurningar.
Áhuginn sem vakinn er með spurningunni
verður til þess að fólk fræðist í leiðinni um efni
sem það vissi kannski ekki að það hafði áhuga
á. Jarðskjálftafræði kveikir kannski ekki for-
vitni hjá öllum en spurning eins og: „Ef allir
Kínverjar stykkju niður af stól á sama tíma,
kæmi þá jarðskjálfti?“ vekur óneitanlega for-
vitni hins almenna lesanda. Hann fræðist þá í
leiðinni til að mynda um Richterskvarðann og
annað þegar hann les svarið og önnur svör sem
vísað er í.“
Og svarið?
„Ef meðal-Kínverjinn er 50 kg og meðalhæð
kínverskra stóla er 50 cm og Kínverjarnir
væru allir á sama stað og hoppuðu allir í einu af
stólunum kæmi jarðskjálfti sem myndi mælast
4,3 á Richter.“
Morgunblaðið/Jim Smart
Þorsteinn Vilhjálmsson, annar ritstjóra bókarinnar Af hverju er himinn blár?, afhendir forseta Ís-
lands, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrsta eintakið.
Jarðskjálfti af völdum
hoppandi Kínverja
Jón Gunnar Þorsteinsson,
aðstoðarritstjóri
Vísindavefjarins og
bókarinnar „Af hverju
er himinninn blár?“,
svarar vísindalegum
spurningum um nýút-
komna bók.