Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. ÁGÚST 2003 7 orðinu. Hvort tveggja finnst mér reyndar gott, en sakna þess þó reyndar studum að mér finnst orðið hafa þurft að víkja of mikið. Skáldskapur á leiksviði birtist með ýmsu móti og það gerir hugarflug líka. Oft er leikmynd, eða umgjörð sýningar, feiknalega skáldleg og oftlega eru hugmyndir í útfærslu beinlínis upplyftandi, sérstaklega ef það er jarðsamband við skáldið – en við megum ekki gleyma því að hugmyndaflug getur líka birst í því hvernig lesið er í orðanna hljóðan. Það er til dæmis ágætt að setja Lárus Pálsson á fón- inn til þess að minna sig á þetta. Ýmsir leikarar í dag kunna mjög vel að gefa orði skáldsins hljóm. Þar má nefna Gunnar Eyjólfsson, Arnar Jónsson, Hilmi Snæ Guðnason – og af konunum þær Herdísi Þorvaldsdóttur og Önnu Kristínu Arngrímsdóttur. Og sem betur fer marga fleiri.“ Sveinn viðurkennir að af þessu megi ráða að hann sé nokkurs konar alæta á stíltegundir í leikhúsi og segir að kannski sé það bakgrunn- urinn sem hann hefur í leiklistarfræðinni sem geri að verkum að hann leggi aðferðir svo að segja að jöfnu. „En síðan met ég hvort mér finnst vel gert eða illa út frá forsendunum,“ bætir hann við. „Þessar stíltegundir þurfa hvorki að þróast né staðna innan sinna viðja. Sýningar sem mér hafa þótt mjög frjóar og spennandi eru, til dæmis, sýningar sem kó- reanskur leikstjóri, vinur minn, setti upp af Blóðbrullaupi með kóreönskum shamanisma, grískur harmleikur sem annar þekktur leik- stjóri kínverskur setti upp sem kínverska óp- eru. Aftur á móti verð ég að viðurkenna að mér fannst ekki tilraunir Ariane Mnouchkinei í Sól- arleikhúsinu, með aðferðum japanska leikhúss- ins á Shakespeare, sérlega spennandi, vegna þess að þar var hún að þvinga annars konar að- ferðum upp á það sem hún var með í höndunum, því þetta var ekki á forsendum japönsku leik- húshefðarinnar heldur á forsendum hinnar versturlensku hefðar.“ Raunsæi, andóf og pólitískt leikhús Þú talar um breytingar sem orðið hafa á leik- húsinu frá því á 7. áratugnum og minntist á spunaleikhúsið. Hvaða breytingar aðrar hafa verið afgerandi? „Þegar ég byrja að vinna í leikhúsi er ab- súrdisminn að slá í gegn. Hann var í sjálfu sér höfnun á raunsæisleikhúsinu og andóf. Mín kynslóð tók því andófi fagnandi. Samt fannst mér ekkert að því að hrífast af vel gerðri raunsæisleiksýningu, enda vorum við á sama tíma kannski að búa til raunsæislega leiksýn- ingu og við vorum öll, hvað það snertir, undir áhrifum frá Stanislavski. Engu að síður fannst okkur ekkert að því að vera á næsta leiti að þreifa okkur áfram með stílfærðan leikmáta og reyna að finna nýtt hljóðfall og prófa ný hreyf- ingamynstur. Þetta var á 7. áratugnum og flest- ir leikstjórar tóku þátt í að reyna að búa til nýtt sviðsmál. Síðan kom tímabil sem var mjög ólíkt þeirri mynd sem blasir við í dag. Það var tími hins svo- kallaða pólitíska leikhúss. Nú, eins og flestar tískustefnur gekk það stundum út í öfgar. Góð pólitík getur verið af- skaplega vont leikhús – en á hinn bóginn hristi þetta dálítið upp í leikhúsfólki í sambandi við samábyrgð innan leikhússins og utan. Menn fóru að velta fyrir sér grundvallarspurningunni „er hægt að hafa áhrif á gang þjóðfélagsins í leikhúsi, eða er það blekking ein og leikhúsið annaðhvort fílabeinsturn eða afþreying ein?“ Persónulega nægir mér ekki leikhús leikhúss- ins vegna og hefur aldrei gert.“ Ekkert endilega ein formúla Að hverju leitar þú í leikhúsi? „Ef við segjum að þær hugmyndir sem birt- ast í skáldsögum, ljóðum, heimspekitextum, samfélagslegum skrifum séu stundum kveikjan að þeim breytingum sem eiga sér stað, hvers vegna eigum við þá að undanskilja leikhúsið? Er leikskáldið verr gefið til höfuðsins en önnur skáld? Leikhúsið er afsprengi hvers tíma og endurspeglar því, eins og öll mannleg fyrirbæri, parta af því lífi, því mennska umhverfi sem við búum okkur eða okkur er búið. En ég er ekki að biðja um predikanir. Predikanir í leikhúsi eru með ólíkindum leiðinlegar – en það leikhús sem höfðar til mín, er það leikhús sem tekur þátt í að búa stöðugt til nýtt líf, hvort sem það er gert með meðvitaðri heilastarfsemi eða öðrum að- ferðum leikhússins. Ég held að leikhús sé ekki lifandi, nema það sé í takt við sína tíma og á hverjum tíma er ekkert endilega nein ein form- úla. Mannlífið er mjög margbreytilegt. Það leiðir auðvitað hugann að mikilvægi frumsköpunar. Ef við skrifum ekki sjálf um okkar eigið samfélag, þá gerir það tæpast nokk- ur annar – og sú mynd sem við ölumst upp við af mannlífi í kvikmyndum og sjónvarpi núna, held ég að verði varla kölluð lýsing á íslensku mann- lífi. En yfirleitt fæða tískustefnur af sér and- stæðu sína og sú leiklist sem hefur verið hamp- að mest að undanförnu hefur verið meira fagurfræðileg og byggst á tilraunum, oft á mjög ferskan máta – en er í sjálfu sér frábitin því að taka á vanda samtímans, sem við þurfum þó ekki að loka augunum fyrir. Sumum hefur þótt umbúðirnar verða meira áberandi en innihaldið oft á tíðum, þótt það sé auðvitað langt frá því alltaf. Þegar best hefur tekist til, er um að ræða leiklist sem er annars konar en við höfum kynnst, eða búið til áður, og það er spennandi. Þar hefur gætt áhrifa frá, til dæmis, þýsku leik- húsi en sjálfur er ég hins vegar ekki síður hrif- inn af þeirri naumhyggju sem er í tísku í frönsku leikhúsi – og þá erum við aftur komin að hreinleikanum og leikaranum í forgrunni.“ Bandamannaævintýrið Nú hefur þú sett upp mikinn fjölda sýninga, bæði hér heima og erlendis. Hvaða verkefni standa upp úr þegar þú lítur yfir farinn veg? „Það er töluvert erfitt að svara því; það er eins og að gera upp á milli barnanna sinna. En eitt af ævintýrum lífs míns er Bandamannaæv- intýrið. Þar var leikarinn í forgrunni, enda margprófuðum við allar mögulegar lausnir og frumkvæði leikaranna var þar mjög mikið og skemmtilegt. Æfingaferlið skiptist yfirleitt í fjögur tímabil. Fyrst var hugmyndavinna, safn- að gögnum, rætt um tilgang, hvað við vildum segja og með hvaða hætti til þess að við værum ekki að endurtaka okkur. Á næsta tímabili voru nánast eingöngu tækniæfingar og spuni, æfing- ar sem við fengum að láni héðan og þaðan, til dæmis frá Complicité-leikhúsinu, Suzuki og fleirum, auk þess sem við bjuggum sjálf til æf- ingar. Eftir spunaæfingarnar var sest niður til þess að semja texta og við tók formlegt æfinga- tímabil. Þetta ferli gat tekið uppundir ár. Þessar sýningar lékum við miklu meira er- lendis en hér heima. Það gerðist okkur reyndar að óvörum. Það fóru einfaldlega að dembast yfir okkur boð um að sýna á leiklistarhátíðum víða um heim. Ég held að við höfum komið fram á tuttugu og tveimur leiklistarhátíðum á þessu tímabili. Það þýddi auðvitað að í hvert skipti var nánast eins og um frumsýningu væri að ræða. Við gerðum miklar kröfur til okkar og höfðum ævinlega aðalæfingu tveimur tímum áður en við lékum. Sviðið var mikið til autt, enda þýddi ekkert að vera með mikla leikmynd þar sem við ferðuð- umst í fjórar heimsálfur. Hins vegar lögðum við mikið upp úr búningum og ljósum. Þetta voru auðvitað alveg óskaplega skemmtilegar ferðir. Við vorum eins og ein fjölskylda, þótt við hefð- um ekki öll þekkst áður en við byrjuðum að vinna saman. Ég held nú að hápunkturinn hafi verið þegar við vorum í Leikhúsi þjóðanna, sem þá var hald- ið í Seoul. Við vorum beðin um að vera með vinnustofu til þess að útskýra vinnuaðferðir okkar og síðan sýndum við verkið fimm eða sex sinnum fyrir troðfullu húsi við gríðarleg fagn- aðarlæti. Það voru aðeins fjórir aðrir evrópskir flokkar sem boðið var á hátíðina í þetta sinn.“ Hvað kom til að þið lentuð á þessari hátíð? „Leikhús þjóðanna er afsprengi alþjóðasam- taka leikhúsmanna og haldið árlega, alltaf í nýju og nýju landi. Það hafði maður frá þeim séð okk- ur á listahátíðinni í Helsinki þegar við vorum með sýningar þar og boðið okkur til Seoul til þess að sýna og kynna okkar aðferðir. Og þarna kynntum við sem sagt íslenska kvintsöngva og rímur, dönsuðum vikivaka og annað sem við nýttum okkur upp úr okkar skemmtilega arfi.“ Hvernig stóð á því að þið byrjuðuð á þessu Bandamannaverkefni? „Þetta tíu ára ferli byrjaði með því að við vor- um beðin um að setja upp litla sýningu í Nor- ræna húsinu. Hún átti að byggjast á fornsög- unum. Úr varð Bandamannasaga, sem byggðist á einni Íslendingasagnanna, síðan kom Amlóða- saga sem byggði á goðsögunni um þennan sér- staka mann og að lokum Edda.ris, sem var byggð á Skírnismálum. Þetta var gefandi tími og það má líka segja að þetta hafi verið menn- ingarpólitískt verkefni.“ Varð eiginlega Ibsen-leikstjóri Hvernig þá? „Í heimi þar sem við eigum á hættu að týnast í sama hólfi og aðrar þjóðir, er hverri þjóð hollt að átta sig á því sem hún hefur annars konar í sínum skjatta – og koma því á framfæri. Sem sagt fjölbreytni menningar er auðlegð. Annað sem ég hafði mjög gaman af eftir að ég hætti að starfa sem leikhússtjóri, var að leik- stýra óperum. Það varð auðvitað til þess að ég vann með mjög mörgum söngvurum – sem margir voru alveg óborganlegir karakterar. Til dæmis man ég eftir einni prímadonnunni sem átti það til að kveikja á útvarpinu, hlusta um stund á mjög vondan söng og segja síðan: „Það ætti að banna þetta.“ Síðan slökkti hún á tækinu og hóf að spila upptökur með sjálfri sér.“ Hvaða sýningar hefur þér þótt vænst um? „Ja, ég veit nú ekki hvað skal segja. Mér mis- tókst með nokkar sýningar og var það ljóst á frumsýningu. Með aðrar sýningar varð mér það ljóst smám saman, ég var að leita að öðru. Á námsárunum í Stokkhólmi hélt ég að ég yrði Strindberg-leikstjóri, en ég varð í rauninni Ib- sen-leikstjóri. Sem dæmi, þá setti ég einu sinni upp Afturgöngur Ibsens í Kaupmannahöfn og fékk þessa líka glimrandi gagnrýni fyrir hana, þar sem hún var talin besta Ibsen sýning sem Danir höfðu séð árum saman. Það varð auðvitað til þess að ég var aftur og aftur beðinn að koma til Danmerkur að leikstýra – en alltaf Ibsen. Ég bauð þeim ýmislegt annað, til dæmis grísku harmleikina – en nei, þeir vildu bara Ib- sen. Ég var síðast beðinn í fyrra. En talandi um sýningar sem mér hefur þótt vænt um, þá hefur mér þótt vænt um mörg af þeim íslensku verkum sem ég hef sett upp. Til dæmis Útlilegumennina eftir Matthías Joch- umsson þar sem ég fór aðrar leiðir en tíðkuðust með það verk. Ég get líka nefnt Gullna hliðið sem ég setti einu sinni upp og vildi gjarnan gera það aftur – en allt öðruvísi. Ég er með hugmynd að slíkri sýningu. Ég varð mjög ungur leikhússtjóri og hef því notið þeirra forréttinda að þurfa ekki að taka að mér önnur verk en þau sem ég hef viljað glíma við… Reyndar hef ég notið þeirra forréttinda alla tíð að fást við störf sem ég hef áhuga á. Ég hef sett upp mikið af sígildum verkum, svo það hlýt- ur að vera nokkuð sem ég hef áhuga á. Auk þess sé ég vissa línu í þeim nútímaverkefnum sem ég hef sett upp. Þar eru höfundar eins og Mrosek, Buero Vallej, Tardien, Gmbowicz, Ghelderote og Scheade. Þetta eru allt höfundar sem eru í skáldlegri kantinum, í vitsmunalega kantinum og í tilraunakantinum.“ Ekki eins viðkvæmur fyrir því sem ég skrifa „Nú, frumsköpun finnst mér vera góður grunnur fyrir blómlegt listalíf. Mér hefur fund- ist ákaflega gaman að vinna með höfundum og ég hef átt góða samvinnu við marga þeirra.“ En hvað með þín eigin verk? „Jú, jú, ég hef verið að rembast við að setja eitt og annað saman – en það er svo einkennilegt að öll list er í rauninni ósjálfráð skrift og þegar ég fór að vinna í leikhúsi varð ég að kasta öllu sem ég hafð lært á bak við mig. Ég gat sótt í sarpinn þegar við átti en að mestu leyti byggist vinnan á innsæi. Það sama á við um skriftir. Það sem kemur er það sem vill koma. Hins vegar er svo skrítið að ég er miklu minna viðkvæmur fyrir gagnrýni á það sem ég skrifa en það sem ég set upp á leiksviðið.“ Hvers vegna? „Ég held að ég viti það. Það er vegna þess að í leikhúsinu finnst mér ég bera ábyrgð á lífi allra sem eru innanborðs.“ Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson Frá uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Hamlet í leikstjórn Sveins Einarssonar á síðasta ári. Systkinin Ófelía (Arnbjörg Valsdóttir) og Laertes (Sigurður Þ. Líndal). Sveinn ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, Þorsteini Gunnarssyni og Stefáni Baldurssyni.Leikhópurinn Bandamenn sýnir Amlóðasögu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.