Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. ÁGÚST 2003 bókinni 1962 og blaðið var þá fyrsta kastið í umsjá Sigurðar A. Magnússonar, rithöfundar, og Haraldar J. Hamars, sem síðar gerðist út- gefandi og ritstjóri Iceland Review. Þessi nýja Lesbók var í rauninni menningarlegt heimilisblað, en unnin eftir formúlu vikublaða með almennum viðtölum og greinum um list- ir, tækni og yfirleitt það sem efst var á baugi, en einnig birtust þar smásögur og ljóð. Þarna var mikil slagsíða orðin á Lesbók frá áratuga langri einhliða áherzlu á þjóðfræði, en með tímanum fékk hún aftur fastan samastað í blaðinu. Þessi breyting á Lesbók í „magasín“ eða heimilisblað, sem gat rúmað næstum hvað sem var, hafði nokkuð breytzt eftir fimm ár. Blaðið var þá í umsjón Sigurðar A. Magn- ússonar sem hefur sýnilega viljað gefa því aukið bókmenntalegt vægi. Þar voru þá líka starfandi hjónin Jón Hnefill Aðalsteinsson þjóðfræðingur og Svava Jakobsdóttir rithöf- undur. Um árabil var Hulda Valtýsdóttir með mér í föstu starfi á Lesbók; einstök kona að vinna með og mikill náttúruunnandi. Til viðbótar við það efni sem við lögðum blaðinu til var treyst á góð samskpti við fræðimenn og ann- að vel ritfært fólk. Sú skipan hélzt á meðan ég hafði umsjón með Lesbók og hún er enn við lýði. Um þá áratugi verður ekki fjallað hér. Frá því ég hóf störf á Lesbókinni teiknaði ég upp útlit blaðsins; held þó að í byrjun hafi þaði þótt næsta óþarft. Alla tíð höfðu menn vanizt því að blýinu væri raðað upp í síður án þess að fara eftir teikningu. Síðar, þegar sér- stök hönnunardeild tók til starfa á Morgun- blaðinu, mótaði Árni Jörgensen útlit blaðsins af sinni alkunnu snilld, enda ríkti þá orðið al- veg nýr skilningur á því hvað útlit blaða skiptir miklu máli og Árni hefur unnið stór- virki. Efnisval fyrir 35 árum Efni eins og þjóðfræði, bókmenntir, mynd- list og arkitektúr, svo og náttúra Íslands, hafði lengi höfðað til mín og Lesbókin fannst mér sá vettvangur í blaðaheiminum sem mér leizt bezt á. Ég saknaði ekki allskonar létt- metis sem varð að vera með á efnislista Vik- unnar, en því er ekki að neita að það var dauf- legra að vinna mestan part einn. En það vandist. Margt hnýsilegt hefur rekið á fjörur Les- bókar árið 1968, fyrsta heila árið sem ég starfaði á blaðinu. Þar á meðal er greina- flokkur um leitina að höfundi Njálu; ekki þó eftir neinn af þekktum sagnfræðingum þjóð- arinnar, heldur Sigurð bónda Sigurmundsson í Hvítárholti, sem auk þessa gerði sér það til dundurs að gefa út spænsk/íslenzka orðabók. Að sjálfsögðu var Hvítárholtsbóndinn heim- sóttur og í leiðinni litum við inn hjá Helga á Hrafnkelsstöðum í næsta nágrenni. Hann var vel ritfær fræðimaður og mikill Njálugrúsk- ari en þessum ágætu fræðimönnum bar ekki saman um höfund Njálu. Ýmsir fleiri en þeir Sigurður og Helgi tóku þátt í leitinni að höf- undi Njálu og birtu afraksturinn í Lesbók. Blaðið var alltaf í góðu samstarfi við „fræða- samfélagið“ eins og það er nefnt nú. Úr þeim hópi er Hermann Pálsson, þá prófessor við Edinborgarháskóla, sá sem mest lagði Les- bók til af sagnfræðilegu úrvalsefni. Sjá má að skáldskapur og umfjöllun um listir hefur talsvert vægi í Lesbók árið 1968; Ungskáldið Jóhann Hjálmarsson, síðar blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar þá um fyrstu íslenzku nútímaljóðin, sem þeir eiga heiðurinn af Jóhann Sigurjónsson og Jóhann Jónsson. Kristján Albertsson skrifar um upp- hafið á rithöfundaferli Guðmundar Kambans, en í hverju blaði eru úrvalsteikningar Baltas- ars. Svo eitthvað sé talið eru þar smásögur eftir Gunnar Gunnarsson og Vilborgu Dag- bjartsdóttur, ljóð eftir Þorstein frá Hamri, Jón úr Vör og Matthías Johannesson ritstjóri birtir þýðingu úr ensku á ljóðum frá Afríku. Sjálfur hef ég skrifað um ljóðræna hláku í myndlist eftir reglustikuskeiðið og grein um Þorgeirsbolasýninguna frægu 1942, þegar Jónas frá Hriflu útnefndi nokkra þekkta myndlistarmenn sem „klessumálara“ og hélt sýningu á verkum þeirra, öðrum til viðvör- unar. Eftir 35 ár væri margt af þessu jafngott Lesbókarefni nú og það var þá. Fengur þótti í grein eftir Ragnar í Smára um Jón á Bergi og skip heiðríkjunnar og sígild er grein dr. Ein- ars Ólafs Sveinssonar um Eddu og Hómer frá sumrinu 1968. „Með hljóðnaðar fyrirsagnir“ Eftir Hannes Pétursson er ljóðið Dægra- mót sem birtist í Lesbók 1968: Aftur hvelfist morgunninn ungur og skær yfir borg landsins. Blöðin, prentuð í gær í húsaskotum nú deyja með hljóðnaðar fyrirsagnir og enginn bíll með augu syfjuleg skimar lengur eftir farþega. Yfir lántökubeiðnir og víxla grúfa sig bankarnir. Gamla turnklukkan slær. Og margfingruð hönd hafnarinnar kreppist um kaupskip og báta. Kyrrðin í stórum hring kringum staka fuglsrödd. Ójú, blöðin frá í gær eru venjulega ekki mikils virði. Við vonuðum samt alltaf að Les- bókin ætti sér lifandi þráð sem næði langt aft- ur í tímann og þótti gott þegar Árni Óla, sem verið hafði ritstjóri Lesbókar lengur en elztu menn mundu, hélt áfram að skrifa í blaðið. Hann var ekki af baki dottinn og skrifaði grein 1968 um þann stað við Aðalstræti þar sem bær Ingólfs er talinn hafa verið. Síðast birti ég grein eftir Árna Óla þegar hann var kominn yfir nírætt, en hann á samt ekki ald- ursmetið. Það á Þórður Kristleifsson, söng- kennari og menntaskólakennari á Laugar- vatni, sem var liðlega 100 ára þegar hann kom með ferðafrásögn sem birtist í Lesbók. Þórð- ur hafði þá nýlega orðið fyrir bíl; ökumað- urinn sá Þórð fljúga yfir framrúðuna og aftur fyrir bílinn. Hann bjóst ekki við neinu öðru en því að gamli maðurinn væri stórslasaður eða jafnvel látinn, en þegar hann steig út sá hann Þórð rísa á fætur, strjúka af sér rykið um leið og hann sagði: „Slyppifengur varstu nú, ungi maður!“ Ég þóttist á hinn bóginn ekki slyppifengur að fá grein Þórðar til birtingar. Þessi afkom- andi séra Snorra, galdraklerks í Húsafelli, er öllum minnisstæður sem honum kynntust. Ekki er ástæða til að rekja nánar efnisval Lesbókar til loka blýaldar 1973. Margt af því efni er klassískt. Þar á meðal eru frábærlega vel skrifaðar endurminningar Jónasar Magn- ússonar í Stardal um æskuheimili Halldórs Kiljans í Laxnesi; greinar sem ég hef oft bent á sem dæmi um það hvað ýmsir bændur voru vel ritfærir þá og gátu skrifað fallegan og áhugaverðan texta, án nokkurrar tilgerðar. Í hraðfleygum heimi Með tilkomu offsettækninnar á Morgun- blaðinu 1973 varð engin efnisleg breyting á Lesbók. En hún boðaði samt tæknibyltingu og útlit blaðsins batnaði. Miklu meiri breyt- ing varð á starfi blaðamanna í byrjun tíunda tugarins með tilkomu tölvutækninnar. Við héldum nokkurn veginn strikinu í efnis- vali þessi 33 ár sem ég sá um Lesbók. Blaðið átti eftir að stækka í broti til jafns við Morg- unblaðið, sem var nauðsynlegt, en mér fannst Lesbókin missa ákveðna sérstöðu við það. En styrkur Lesbókarinnar átti eftir að fara vax- andi og fyrst og fremst gerðist það 1996 þeg- ar Menningarblað Morgunblaðsins og Lesbók voru sameinuð. Við lifum á tímum auglýsinga og umbúða. Útlit blaðanna er hvort tveggja í senn, aug- lýsing og umbúðir, en þau eru eins og annað hluti af menningunni.Við lifum í hraðfleygum heimi þar sem ótal margt er á seyði, en flest ristir grunnt. Dæmigerður nútíma Íslending- ur hraðflettir blaði; hleypur á fyrirsögnunum um leið og hann hlustar með öðru eyranu á unga menn blaðra um popp eða fótbolta á ein- hveri útvarpsrásinni og jafnframt er hann með græjurnar í gangi. Allt þetta áreiti lendir saman í einn graut; fátt eða ekkert situr eftir. Dagblaðaflóran er fátæklegri en var á með- an Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn komu út. DV hefur átt í örðugleikum, en ég vona að blaðið geti blómstrað án þess að líta út eins og útlent hasarblað þar sem glæpir og hörm- ungar æpa af forsíðunni. Fréttablaðinu var ekki spáð glæstri framtíð, en hugmyndin hef- ur gengið upp og blaðið gumar af mestum „lestri“. Án efa er því mikið flett, en fróðlegt væri að mæla þann tíma sem fer í lestur ein- stakra blaða; hann segir miklu meira um inn- tak og gæði. Þar hefur Morgunblaðið án efa yfirburði; en sumt af því sem blaðið birtir út- heimtir talsverðan lestrartíma og jafnvel næði. Dæmi um efni af þessu tagi er margt af því sem birtist í Lesbók, vikulegt Reykjavík- urbréf, svo og ítarlegar fréttaskýringar, sem eru án hliðstæðu í íslenzkum blöðum. Ný menningarfyrirbæri, fjöldi nýbúa og fleira hefur einhver mótandi áhrif; samt er ekki að sjá neinn verulegan mun á þjóðinni frá því sem var fyrir fjörutíu árum. Umferð- armenningin er jafnbágborin; allt of oft ein- kennir fálæti og durtsháttur framkomu okkar og við hrósum ekki öðrum fyrr en í síðustu lög; jafnvel ekki fyrr en í minningargreininni. Við erum „bezta fólk“ inn við beinið en fáum þá einkunn hjá flestöllum útlendingum sem spurðir eru álits, að við mættum vera jákvæð- ari, brosa oftar og vera ögn líflegri. Við höfum breytt blöðunum á síðustu fjöru- tíu árunum og bætt þau; sjálf erum við að mestu óbreytt. Höfundur er blaðamaður og var umsjónarmaður Lesbókar frá 1967–2000. Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu? SVAR: Í stuttu máli sagt er svarið við þess- ari spurningu umdeilt. Víst er að til er ým- iss konar námsefni, þar á meðal tölvuforrit, sem eiga að kenna fólki algjöra tónheyrn. Líklega þarf að taka þeim fögru fyr- irheitum sem gefin eru í auglýsingum fyrir slíkt námsefni af sömu varkárni og öðru auglýsingaskrumi. En þessari spurningu má líka svara í heldur lengra máli og það verð- ur nú gert. Talað er um að einstaklingur hafi algjöra tónheyrn (e. absolute pitch) ef hann þekkir tónhæð fyrirhafnarlaust eða getur sungið tón sem beðið er um. Meðal Vesturlanda- búa er þessi hæfileiki sjaldgæfur en tölur um tíðni hans eru þó mjög á reiki. Líklega býr einn af hverjum þúsund til tíu þúsund yfir honum en þó sjást stundum staðhæf- ingar um tíðni á borð við 3%. Flestir hafa hins vegar svokallaða afstæða tónheyrn og hún er þjálfuð hjá tónlistarnemendum. Tón- listarfólk lærir að þekkja afstöðu tónanna hvers til annars og getur þannig þekkt tón- hæð eða sungið umbeðinn tón ef því er fyrst gefinn viðmiðunartónn. Afstæð tón- heyrn (e. relative pitch) byggist á því að þekkja tónbil en algjör tónheyrn snýst um að þekkja tónana sjálfa. Lengi hefur verið umdeilt hvort algjör tónheyrn er meðfæddur eða lærður hæfi- leiki. Ljóst er að algjör tónheyrn er mun tíðari meðal þeirra sem hefja tónlistarnám fyrir 6 ára aldur en ekki er endilega aug- ljóst hvaða ályktanir má draga af því. Það gæti bent til þess að aldurinn 4–6 ára sé ákjósanlegur til að tileinka sér algjöra tón- heyrn en það skýrir þó ekki hvers vegna mörg börn sem hefja tónlistarnám svo ung öðlast hana ekki. Annar möguleiki er að öll börn fæðist með algjöra tónheyrn eða hæfi- leikann til að öðlast hana en glati henni svo. Þá gæti tónlistarnám á unga aldri hjálpað sumum að varðveita þennan hæfileika. Þriðji möguleikinn er svo að fylgnin milli tónlistarnáms á unga aldri og algjörrar tón- heyrnar verði skýrð með erfðum. Börn sem hefja tónlistarnám ung eru væntanlega lík- legri en önnur til að eiga foreldra sem eru tónlistarfólk og hafa ef til vill líka algjöra tónheyrn. Hugsanlega er þarna um samspil þjálfunar og erfða að ræða. Reyndar búum við öll að vísi algjörrar tónheyrnar. Til dæmis eigum við ekki í vandræðum með að greina hvort tónn sem við heyrum er á tónsviði fiðlu eða kontra- bassa án þess að afstaða tóna eða tónbil hafi nokkuð með málið að gera. Því má kannski segja að þarna sé um að ræða mjög grófa útgáfu af algjörri tónheyrn. Eins hafa tilraunir sýnt að ef fólk sem jafnvel hefur enga tónlistarþjálfun er beðið að raula vin- sælt dægurlag eru töluverðar líkur á því að það hitti á rétta tóntegund eða syngi fyrsta tóninn rétt. Þarna er líklega um að ræða al- gjöra tónheyrn á mjög afmörkuðum sviðum en einstaklingar sem hefur algjöra tón- heyrn getur beitt henni á mun víðtækari hátt. Svo virðist sem hægt sé að tileinka sér algjöra tónheyrn að einhverju marki á full- orðinsaldri en það krefst mikillar vinnu og þolinmæði. Fólk sem hefur þjálfað sig með sérstökum aðferðum til að öðlast algjöra tónheyrn hefur smám saman lært að þekkja tóna án viðmiðunar. Hins vegar virðist það yfirleitt þurfa að hugsa sig um lengur en einstaklingar sem öðluðust algjöra tónheyrn á barnsaldri og eins virðist hæfileiki þessi hverfa ef honum er ekki haldið við með reglubundnum æfingum. Enn er því ósvarað hvort algjör tónheyrn er yfirleitt gagnlegur hæfileiki. Þótt það geti virst gagnlegt að þekkja tóna um leið og þeir heyrast hefur sumum sem hafa al- gjöra tónheyrn þótt þreytandi eða truflandi að heyra „tóna“ út um allt, til dæmis heyra hrærivélina hræra saman kökudeigi í G og vindinn gnauða í D. Algjör tónheyrn getur jafnvel verið til trafala fyrir suma tónlist- armenn, til dæmis við að flytja laglínur milli tóntegunda þar sem afstæð tónheyrn gagnast mun betur og algjör tónheyrn get- ur truflað. Heyrst hefur af fólki sem hefur glatað hæfileikanum til algjörrar tón- heyrnar síðar meir, einmitt vegna þess að hann virtist koma að litlu gagni. Svo virðist sem algjör tónheyrn sé mun algengari meðal þeirra sem eiga svokölluð tónamál að móðurmáli, til dæmis kínversku og víetnömsku. Slík tungumál byggjast meðal annars á tónhæð þannig að orð sem að öðru leyti hljóma eins geta haft gjörólíka merkingu eftir tónhæð. Þetta getur bent til þess að öll börn fæðist þeim eiginleikum gædd að geta tileinkað sér algjöra tónheyrn en líkur séu til þess að hæfileikinn glatist á unga aldri ef hann nýtist ekki og viðeigandi þjálfunar nýtur ekki við. Einnig má vera að algjör tónheyrn nýtist börnum að einhverju leyti við máltöku og að hún eigi í raun að falla í flokk málhæfileika fremur en tónlist- arhæfileika. Eyja Margrét Brynjarsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Cornell-háskóla. Hvað nefnast karl- og kvenkyns kanínur? SVAR: Á ensku nefnist karlkanínan „buck“, en það orð er einnig notað um karlspendýr af hjartarætt. Til eru nokkur mismunandi heiti á íslensku yfir þetta enska orð eftir tegundum, til dæmis hafur, hrútur og tarf- ur. Kvenkanínan er á ensku kölluð „doe“ sem á sama hátt nær yfir kvendýr hjarta, antilópa, geita og skyldra dýra, og er oft þýtt með íslenska orðinu hind. Ekki hefur skapast föst venja um íslensk heiti á kynjum kanína svo höfundar þessa svars viti. Þess má þó geta að þegar inn- flutningur angórukanína hófst til landsins frá Vestur-Þýskalandi árið 1981, þótti til- efni til að finna nöfn á kynin en sú umræða bar ekki árangur. Ein tillaga hlaut þó nokkrar undirtektir: kani fyrir karlkanínur og kæna um kvenkanínur. Orðin eru mynd- uð eftir heitum karl- og kvenkyns hænsn- fugla, það er hani og hæna og eru til að mynda notuð á vef Húsdýragarðins. Þar er kanínuunginn nefndur kjáni! Jón Már Halldórsson líffræðingur og Unnar Árnason bókmenntafræðingur. HVAR er hægt að skoða bandarísku þjóðskrána, hversu margir fæðast og deyja að meðaltali á dag í heiminum, hvað getið þið sagt mér um Orfeif og er ýsan hrææta? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að und- anförnu á Vísindavefnum og hægt er að nálgast svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI GETUR AFSTÆÐ TÓNHEYRN ORÐIÐ ALGJÖR? Morgunblaðið/Kristinn Flestir hafa svokallaða afstæða tónheyrn og hún er þjálfuð hjá tónlistarnemendum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.