Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. ÁGÚST 2003 9 sem var finnst mér aftur á móti vera að hlusta á fólk sem annaðhvort nennir ekki að tala skýrt eða getur það ekki og finnst það jafnvel vel boð- legt, gott ef ekki „töff“, að vera illa talandi. Eftir að ég var kominn til starfa á Lesbók heimsótti ég séra Sigurð austur í Holt. Baltasar var með í för og teiknaði frábærar myndir af skáldinu en ég skrifaði samtal við Sigurð sem birtist þá í Lesbókinni. Eitt af því sem hann sagði þar hefur orðið mér hugstætt alla tíð síð- an: „Mundu eitt, leggðu aldrei lag þitt við lít- ilmótlegar óskir, því síðar á ævinni verður þú umkringdur öllu því sem þú óskaðir þér.“ Sigurður gaf út ljóðabækur en hann var ekki formbyltingarmaður. Með því bezta sem eftir hann liggur er eitt lítið ljóð um Halldór Kiljan Laxness: Beizkur og hýr, bitur og glettinn í senn. Alltaf á verði og ögn til hliðar við aðra menn. Tómlátlegt fas, tillitið spurult og kalt. En hugsunin, stíllinn, tungutakið tindrandi snjallt. Engum andartak sýnt, hvað innst í sefa býr. Ellinnar dul og aldanna reynsla og alltaf nýr. Ég átti því láni að fagna um 1960 að kynnast Jóhannesi Kjarval perónulega og dýrmætar voru þær stundir á vinnustofunni í Sigtúninu þegar ég hitti á hann einan og við létum móðan mása um myndlistina. Ég hafði tekið eftir því í viðtölum við abstraktmennina, sem voru fram- úrstefnumenn þess tíma og ákaflega dómharðir, að þeir töluðu alltaf með virðingu um Kjarval enda þótt hann dansaði ekki eftir þeirra pípu. Kjarval var ekki einungis höfðingi sem gaf verk sín í allar áttir; hann er að mínu áliti einhver gáfaðasti maður sem ég hef fyrir hitt. Að fá að mynda hann við vinnu var næstum ómögulegt og það er enn undrunarefni að hann skyldi taka í mál að fara með mér og Kristjáni Magnússyni ljósmyndara út í Hafnarfjarðar- hraun þar sem Kristján tók af honum sjaldgæf- ar og dýrmætar myndir. Í upphafi ferðar vildi hann allt í einu hætta við allt saman; ljósmynd- arinn væri svo ljótur. Ég reyndi að malda í mó- inn; sagði að Kristján væri talinn með mynd- arlegustu mönnum og enginn tæki betri myndir. Svo fórum við suður í Hafnarfjarð- arhraun; gengum drjúgan spöl frá veginum og þar átti málarinn litatúpur í hraunsprungu. Hann setti upp trönurnar og kvartaði ekki þó að við værum að stjáklast í kringum hann. Litlu síðar sagði hann: „Mikið er þetta ógeðslega ljótt hjá mér, drengir. Eru þið ekki búnir að missa alla trú á mér?“ Um ferðina kom síðan út fjórblöðungur í lit, prentaður á myndapappír, og sjaldan hefur mér þótt annar eins fengur í aflanum. Efni sem nú þætti ótækt í vikublað Lítum ögn á efnisvalið; hverskonar efni þótti framsæknu vikublaði við hæfi að birta og berum það saman við efnið í sambærilegum blöðum í nútímanum. Sumt af því sem okkur þótti þá fengur í mundi líklega einungis valda því að les- endur nútíma glanstímarita fengju ákafan hnerra og flýttu sér að fletta áfram í von um að sjá eitthvað um ástir Jóhannesar í Bónus eða nýjustu ævintýri Lindu P. Svo aftarlega vorum við á merinni að okkur þótti fengur í því að fá til birtingar grein eftir Benedikt frá Hofteigi, þekktan fræðimann, um þá spurningu hvort Ís- land hafi hugsanlega verið albyggt þegar „land- námsmenn“ komu. Þar tók Benedikt undir til- gátu sem Árni Óla hafði viðrað í Lesbók og fannst frekar með ólíkindum að Hrafna-Flóki, víkingur í könnunarleiðangri, hefði haft með- ferðis fjárstofn á skipi sínu, en hann gætti þess ekki að afla heyja og féll fé hans, segir í Land- námu. Hvaða fé gat það verið? Þrír mikils metnir álitsgjafar fengust til þess árið 1963 að spá fyrir um framtíðina á Íslandi að 25 árum liðnum – þá yrði komið árið 1988. Þeir voru Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Jóhann Hannesson guðfræðiprófessor og Gísli Hall- dórsson verkfræðingur. Margt af því sem þeir spáðu rættist; ekki þó samgöngutæknin. Þeir töldu að flugvélar mundu ekki þurfa flugbrautir 1988; þær mundu taka á loft og setjast lóðrétt og verkfræðingurinn taldi líklegt að 1988 yrðum við búin að fá „monorail“ – járnbraut á einum teini. Sumt blaðaefni er sígilt; alltaf er fengur að myndum og viðtali við hjón sem eiga sextán mannvænleg börn. Slík fjölskylda er ekki á hverju strái, en við fundum hana og kynntum í Vikunni 1963 þegar við heimsóttum hjónin á Brúnastöðum í Flóa, foreldra Guðna landbún- aðarráðherra. Á myndinni er Guðni líklega 9 ára. Okkur þótti líka fengur í að ná í end- urminningar Davíðs Stefánssonar skálds frá frostavetrinum 1918 og ekki seinna vænna því Davíð lézt 1964. Rithöfundurinn Jónas Guð- mundsson, ævinlega nefndur Jónas stýrimaður, var einn af þeim sem setti svip á bæinn í þá daga. Hann var góður penni og húmoristi; skrif- aði bæði um skrautlega viðburði frá sjó- mennskuárum sínum og viðtal við þjóðsagna- persónuna Björn Pálsson flugmann sem þótti stundum taka djarflega áhættu í sjúkraflugi sínu. Þessi frækni flugmaður fórst síðar í flug- slysi, þá búinn að bjarga fjölda mannslífa. Jónas stýrimaður féll líka frá fyrir aldur fram; hann hafði víðfeðma, listræna hæfileika og lagði jöfn- um höndum stund á ritlist og myndlist . Heimild um húsakost Frá árunum eftir 1960 er Vikan góð heimild um nýjan húsakost landsmanna. Þá var árvisst að aðalvinningur í Happdrætti DAS væri nýtt einbýlishús og birtist teikning af því, sem ekki væri í frásögur færandi nema fyrir það eitt, að þar er fátt að sjá sem ekki gæti eins verið frá árinu 2003. Jafnnútímalegt er einbýlishús frá 1964 í Mávanesi 4 í Garðabæ, verk Manfreðs Vilhjálmssonar arkitekts. Það hefur ratað í flest rit um úrval byggingarlistar og ég tel að betur hafi ekki verið gert hjá okkur til þessa. Fleiri frábær einbýlishús voru byggð á þessum áratug og má spyrja; hvar eru framfarirnar? Raunar þykist ég geta svarað því. Þær eru í öllum stærri byggingum, sem nú eru yfirleitt mun betri arkitektúr en opinberar byggingar sjö- unda áratugarins. Í Vikunni og einkum þó í Lesbók hélt ég áfram umfjöllun um arkitektúr og umhverfi. Þar sést að í hverri greininni á fætur annarri er með ljósmyndum og texta reynt að benda á austantjaldsbraginn í heilu hverfunum þar sem „frystikistustíll“ var allsráðandi. Auk þess þótti gagnrýnivert að dragast vildi úr hömlu að ganga frá lóðum; sömu moldarhaugarnir ár eft- ir ár fyrir utan dyrnar á nokkurra ára gömlum íbúðablokkum og annað eftir því. Ugglaust hafa þessar aðfinnslur engin áhrif haft en þó er það svo að ótrúlega góð breyting til bóta hefur orð- ið. Alltaf er forvitnilegt að sjá ný menningarfyr- irbæri fæðast og eitt dæmi er um það frá árinu 1963. Þá voru af einhverjum ástæðum teknar myndir í íþróttahúsi ÍR af hópi stæltra stráka sem hamast með járn sem þeir hafa fest á stengur. „Lyftingar er það kallað,“ segir blaða- maðurinn í texta sínum og hefur ekki heyrt það fyrr, en þarna má sjá upphafið á því sem orðið hefur að lífsstíl og tízku hjá fjölda manns. „En þegar á að fylja hryssu…“ Ekki man ég glöggt hver ástæðan var, en við ákváðum að gera svolítið at í menningunni sum- arið 1963. Tveir ungir menn, Jakob Þ. Möller og Gylfi Baldursson, tóku að sér að koma saman ljóðabók á einni kvöldstund og fóru létt með það. Ljóðabókin Þokur eftir höfundinn Jón Kára var síðan prentuð og borin á blöðin og út- varpið þar sem gagnrýnendur fjölluðu um verk ungskáldsins. Krítikin var almennt góð. Áður höfðu nokkrir álitsgjafar, skáld og útgefendur, verið beðin um álit á handriti bókarinnar. Umsagnir þeirra voru yfirleitt jákvæðar; sumir ráðlögðu ungskáldinu eindregið að tala við Ragnar í Smára og fá bókina gefna út. Einn álitsgjafinn var Sigurður frá Brún, hag- yrðingur og kvæðaskáld af gamla skólanum, svarinn andstæðingur atómskáldskapar. Sigur- geir Jónsson, kennari í Vestmannaeyjum, þá um tvítugt, tók að sér hlutverk Jóns Kára og fór með handritið til Sigurðar frá Brún. Eftir lest- urinn sagði hann við ungskáldið: „Af geltum hesti og gröðum er hægt að hafa sama gagn þegar lagður er á þá hnakkur. En þegar á að fylja hryssu, dugar einungis sá ógelti til þess“. Lesbók Morgunblaðsins, þá í umsjá Sigurðar A. Magnússonar, sýndi Jóni Kára þá velvild að birta eitt ljóð. Það var líklega hvorki betra né verra en meðaltalið af því sem kom á þrykk; þó örlaði á gamansemi sem var tilbreyting frá hinni algengu mæðu og svartsýni í kveðskap þess tíma. Dæmi um það er ljóðið Í góðu tómi: Glugggatjöldin bærðust fyrir bíl. Og fáir skemmtu sér betur en barnamorðinginn. Það var júlínótt í Sundlaug Vesturbæjar, klukkan orðin hálfþrjú og handritin ekki komin heim. Andskotann átti þetta nú að þýða? Eru þeir alveg ábyrgðarlausir, þessir Danir? Þessir líka Danir. Og skáldið blés reyknum út í góða tómið sönglaði fyrir munni sér: góða tóm, um loft þú líður börnum og hröfnum að leik. Grýttur í Jeríkó Á árinu 1963 skrifaði ég greinaflokk um ferðalag til Arabalanda sem birtist þá. Greinar frá fjarlægum slóðum voru þá ekki eins hvers- dagslegar og síðar varð, en hvort efnið verður bitastætt hefur alltaf oltið því hvort höfundinum tekst að greina með gests augum eitthvað sem skiptir máli. Ekki get ég dæmt um hvort það tókst. Ástandið í Austurlöndum nær var þá ger- ólíkt því sem síðar varð; hættulaust að ferðast um þessi lönd og ganga um götur Jerúsalem og Betlehem. Þá var Beirút glæsileg borg og eft- irminnilegt að fara yfir hálendi Líbanons og til Damaskus í Sýrlandi. Á leiðinni til Jórdaníu var farið um sýrlenzku eyðimörkina, framhjá tjöld- um Bedúína og allar götur til Jeríkó, sem er víst með elztu borgum heimsins, meira en átta þús- und ára. Þar varð ég fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu þegar ég fór að taka myndir af kon- um sem komu í allstórum hópi að vatnsbóli og hver þeirra bar ílát á höfðinu. Það skipti engum togum; þær settu niður ílátin og hófu grjóthríð á þennan skrattakoll með myndavél – hann var fljótur að forða sér og slapp ómeiddur. Á leiðinni til baka frá Egyptalandi var komið við í Aþenu og þá skynjaði maður muninn á Arabaheiminum og Evrópu; það var eins og að koma til Keflavíkur. Minnisstæðast fyrir utan grjóthríðina í Jeríko var líklega að vera á tungl- skinsbjartri nótt á Akropolishæð í Aþenu. Annað sem uppúr stendur frá ferðalögum um þetta leyti er kvöldstund á heimssýningunni í New York sumarið 1964. Ekki var það hluti af sýningunni sjálfri, heldur mannfjöldi sem safn- aðist saman seint um kvöld. Svo til allir sátu á víðáttumiklu torgi en ýmsir snjallir sjálfboðalið- ar í tónlist tróðu upp. Þarna voru hvítir menn og svartir, brúnir og gulir, indíánar og menn sem gátu verið hirðingjar; jafnvel frumbyggjr frá Ástralíu. Mér fannst aðeins vanta Græn- lendinga; þó gátu þeir verið þar. Svo datt myrkrið á; heitt myrkur. En mann- fjöldinn undi þarna áfram. Mér fannst unaðslegt að upplifa þessa stund og þennan fjölda með svo misjafnan uppruna, en allt í friði og spekt og heldur enga lögreglu að sjá. En þessi mynd var fölsk; Bandaríkin voru ekki friðvænleg þá; aðskilnaðarstefna hvítra og svartra enn við lýði í Suðurríkjunum og menn áttu eftir að sjá forsetann falla fyrir byssukúlu, einnig Robert bróður hans og Mart- in Luther King. Síðan er heimurinn vestan hafs skárri í þá veru að staða þeirra þeldökku er ólíkt betri en hún var þá. Byltingar á sjöunda áratugnum Það er svo með sumar hræringar sem boða skil í hugsunarhætti, tízku og tíðaranda, að maður tekur ekki eftir þeim um leið og þær ger- ast. Jafnvel blaðamenn sem eiga þó að vera með fingurinn á þjóðarpúlsinum taka ekki alltaf eftir þessu fyrr en ákveðin umskipti hafa orðið. Tvisvar urðu veigamiklar breytingar á þessum áratug og báðar höfðu mikil áhrif á klæðnað fólks og útlit. Annarsvegar var það bylting Bítl- anna; það var fjögurra manna bylting og líklega hafa engir ungir listamenn haft eins marghátt- uð áhrif á samtíð sína. En það stóð ekki skrifað í skýin: Hér og nú hefst þessi bylting. Það sem skipti sköpum var að þeir Lennon og McCartney voru lagahöfundar af guðs náð og lögðu undir sig poppheiminn. Það eitt var all- nokkuð afrek. En þeim tókst líka að hafa marg- háttuð áhrif á klæðaburð og útlit fólks. Áður en varði hafði Bítlatízkan gripið um sig og virðu- legir menn létu sér vaxa hár niður á herðar og sáust allt öðruvísi klæddir en áður. Síðari breytingin er venjulega kennd við ’68- kynslóðina og að henni kvað mest í framhalds- skólunum. Allt í einu efaðist ungt fólk um allt vald; kennslustofnanir umhverfðust og þótti þá jafnvel hallærislegt í listaskólum að kennarar reyndu að kenna. Blýöldin á Lesbók Eftir átta viðburðarík ár við ritstjórn Vik- unnar var kominn tími á breytingu og tækifærið gafst þegar mér bauðst að verða umsjónarmað- ur Lesbókar Morgunblaðsins snemma árs 1967. Þá var sjónvarpið komið til sögu og fjölmiðla- heimurinn hafði breytzt. En dagblöðin voru enn í blýinu; myndir og auglýsingar í svart-hvítu. Það voru talsverð viðbrigði að taka til starfa í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti; koma aftur í miðbæinn. Þá eins og alla tíð síðan starfaði úr- valsfólk á Morgunblaðinu. Róttæk breyting hafði verið gerð á Les- Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon Borgarskáldið Tómas Guðmundsson bíður eftir grænu ljósi við Lækjargötu seint á sjöunda ára- tugnum. Lækjargatan er eitt af því sem lítið hefur breyst á fjörutíu árum. Greinarhöfundurinn í viðtali við Sverri Haraldsson listmálara 1967. 

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.