Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. ÁGÚST 2003 11 P ETER Singer heim- spekingur hefur haft afskipti af um- hverfismálum í heimalandi sínu Ástralíu, en hann hefur þó einkum getið sér orð á þeim sviðum heimspekinnar sem fjalla um dýra- og lífvísindasiðfræði. Þar hefur honum rækilega tekist að hrista upp í viðteknum skoðunum. Hann talar tæpitungulaust um mörg stærstu siðferðilegu álitamál samtímans og hann er óhræddur við að setja fram óvenjuleg svör við þeim. Fáir eða engir samtíma- heimspekingar hafa fengið jafn heiftarleg viðbrögð við skoðunum sínum og Peter Singer. Af þessum sökum hefur hann jafnvel verið kallaður „hættulegasti maður í heimi“! En hvernig skyldi heimspekingi – sem vanalega láta sér nægja að velta vöngum án þess að taka beinlínis afstöðu eða gera eitthvað í málunum – takast að öðlast slíkt orðspor? Alvöru heimspekingur? Peter Singer er ólíkur flestum öðrum heim- spekingum. Hann skrifar um siðferðilegan vanda sem venjulegt fólk glímir við, á þann hátt sem venjulegt fólk getur skilið. Þetta er líkast til ástæðan fyrir því að bók hans Hagnýt sið- fræði (Practical Ethics, 1979) er mest selda heimspekirit sem háskólaforlagið í Cambridge hefur gefið út og bók hans um Frelsun dýranna (Animal Liberation, 1975) hefur verið prentuð í næstum hálfri milljón eintaka. Síðarnefnda rit- ið er af mörgum talið biblía dýraverndunar- sinna, t.d. lætur Paul McCartney selja hana á tónleikaferðalögum sínum um heiminn. Singer er líklega eini heimspekingurinn sem fengið hefur tækifæri til að viðra skoðanir sínar í hin- um fræga bandaríska fréttaþætti 60 Minutes II. En getur slík „fígúra“ talist alvöru heim- spekingur sem taka má mark á? Það þarf all- tént ekki að koma á óvart að sumir kollegar Sin- gers vildu til skamms tíma svara þessari spurningu neitandi. Á þessu hefur þó orðið rækileg breyting. Á nýafstöðnu heimsþingi heimspekinga sem haldið var í Istanbúl dagana 10.-17. ágúst sl. var Singer einn aðalfyrirles- aranna og gerði sér m.a. lítið fyrir og fyllti 2.500 manna fyrirlestrasal. Leiðarstef þingsins var „heimspeki andspænis heimsvandamálum“. Í erindi sínu fjallaði Singer um ástand heimsins um þessar mundir, hnattvæðinguna og framtíð Sameinuðu þjóðanna. Hóf Singer lesturinn – eða réttara sagt málflutninginn, því hann talar iðulega blaðalaust – á því að kryfja hugtakið „fyrirbyggjandi árás“, en eins og kunnugt er hafa bandarísk stjórnvöld lýst því yfir að þau telji réttmætt að ráðast í fyrirbyggjandi skyni á lönd sem öðrum löndum stafi ógn af. Varpaði Singer í þessu sambandi m.a. fram þeirri ögr- andi tilgátu, að ef yfirlýsing Bandaríkjanna væri tekin bókstaflega mætti færa rök fyrir því að ýmis lönd, s.s. Norður-Kórea, hefðu ríkari ástæðu til að fara í fyrirbyggjandi stríð gegn Bandaríkjunum en Bandaríkin gegn þeim! Komst Singer að þeirri niðurstöðu að í raun væri hvorki efnisleg né rökleg réttlæting fyrir kenningu Bandaríkjastjórnar um fyrirbyggj- andi árásarstríð, heldur væri um að ræða ger- ræðislega ákvörðun eina stórveldisins sem eftir er í heiminum. Líkti hann yfirstjórn Bandaríkj- anna við „Leviathan“ eða harðstjórann sem Thomas Hobbes dró upp mynd af í samnefndu stjórnspekiriti sínu. Tegundarremba Það er þó einkum afstaða Sing- ers til tveggja málefna sem gert hefur hann jafn umdeildan og raun ber vitni. Í fyrsta lagi er um að ræða gagnrýni hans á svokall- aða tegundarrembu (speciesism) sem kveður á um algera sérstöðu dýrategundarinnar maður meðal annarra dýrategunda sem byggja þessa jörð. Í öðru lagi hef- ur Singer storkað lesendum sín- um með því að efast um hefð- bundnar hugmyndir vestrænnar heimspeki um mannhelgi eða þau sérréttindi sem hljótast af því að við erum menn. Heimspeki Singers tilheyrir nytjastefnu, en siðfræði nytjastefnunnar hefur það að mark- miði að hámarka hamingju sem flestra jafn- framt því að draga úr sársauka. Samkvæmt mannskilningi nytjastefnunnar er maðurinn vera sem þráir vellíðan og forðast vanlíðan, en upphafsmaður þessarar stefnu var Jeremy Bentham. John Stuart Mill, helsti heimspek- ingur Breta á 19. öld, færði nytjastefnuna í bún- ing sem gerði hana að annarri helstu siðfræði- stefnu okkar tíma, en hina má rekja til þýska heimspekingsins Immanuel Kants. Bæði Bent- ham og Mill voru félagslegir umbótasinnar og Singer er fylgismaður þessarar hefðar. Af þess- um sökum vill hann að heimspekin hafi áhrif, að hún stuðli að betra lífi, réttlátara samfélagi og betri heimi þar sem hamingja sem flestra er í fyrirrúmi. Þetta krefst þess m.a. af okkur sem búum í hinum vestræna heimi að við breytum afstöðu okkar gagnvart öðrum heimshlutum og gagnvart dýrum. Samkvæmt því ber okkur sið- ferðileg skylda til að hætta dýraáti og gefa hluta tekna okkar til þróunarhjálpar. „Heimspekingar eru aftur farnir að láta til sín taka“ Singer vakti fyrst á sér athygli með grein sinni „Hungursneyð, velmegun og siðferði“ („Famine, Affluence and Morality“, 1972) þar sem hann hvetur heimspekinga til að láta gjörð- ir fylgja orðum sínum. Hann byrjar greinina með þessum orðum: „Þegar þetta er skrifað í nóvember 1971 er fólk að deyja í Austur-Bengal vegna skorts á fæðu, húsaskjóli og læknishjálp. ... Það er ekki nóg að tala um hlutina. Hver er tilgangurinn með því að tengja heimspeki við opinber (og persónuleg) málefni ef við tökum niðurstöður okkar ekki alvarlega ... [en það fel- ur í sér] að breyta samkvæmt þeim.“ Þrátt fyrir að þessi orð séu skrifuð á háanna- tíma 68-kynslóðarinnar var engu að síður óvenjulegt að sjá slíkar staðhæfingar í fræði- legri ritgerð, enda hefjast þær iðulega með vís- unum í löngu dauða heimspekinga og ritskýr- ingum á hugmyndum þeirra. Heimspekingar hafa einnig verið gjarnir á að velta því fyrir sér skilyrðunum fyrir ímynduðum fyrirmyndar- heimi í stað þess að huga að því hvernig raun- verulega er komið á fyrir veröldinni og finna leiðir til breyta því sem betur má fara. Singer kvaddi sér hljóðs í tómarúmi sem hafði skapast innan akademískrar heimspeki, án þess þó að flýja í útópíur eða óraunhæfar draumsýnir. Vissulega töldu fulltrúar helstu stjórnspeki- stefna þessa tíma, hvort sem það voru frjáls- lyndir lýðræðissinnar, frjálshyggjusinnar eða marxistar, sig vera að svara kalli tímans. Marg- ir áttu þó erfitt með að tengja kenningar sínar við raunveruleg álitamál og voru þær því eftir sem áður loftkastalar einir. Singer vildi strax hella sér út í glímuna við áþreifanleg vandamál og taldi heimspekina geta nýst við að greina þau og leysa. „Philosophers are back on the job“ fullyrti hann í grein í New York Times Magazine árið 1974 og náði þar með að vekja at- hygli almennings á hagnýtingu siðfræðinnar. Allar götur síðan hefur hann verið einn at- kvæðamesti siðfræðingur samtímans. Ekki hvað síst vegna þess hve hann stuggar við mörgum. Hvenær lætur maður mann deyja og hvenær drepur maður mann? Það sem Singer gerir öðru fremur er að benda á tvískinnungshátt í afstöðu okkar til dýra og manna, sem kemur berlega í ljós í ýms- um þeim siðferðilegu álitamálum sem nútíma líf- og læknavísindi hafa fært okkur í fang. Við eyðum milljörðum í að búa háhyrningnum Keikó ‘áhyggjulaust ævikvöld’, en okkur stend- ur á sama um húsdýr sem eru stríðalin á horm- ónabættu fóðri og geta sig hvergi hrært í þröngum kössum fyrr en þau eru leidd til slátr- unar. Við framlengjum með miklum tilkostnaði mannlegt líf sem vart getur talist þess virði að lifa því á sama tíma og við látum viðgangast að börn í þriðja heiminum deyja úr hungri þótt hægt væri að bjarga þeim með tiltölulega litlum tilkostnaði. Singer spyr: Er einhver siðferðileg- ur munur á því að láta mann deyja og að drepa hann? Hann gengur jafnvel svo langt að efast um að réttlætanlegt sé að bjarga með öllum til- tækum ráðum lífi fyrirbura sem horfir fram á ævilanga fjölfötlun. Er lífið raunverulega svo heilagt? Nei, svarar Singer og varpar þar með fyrir róða einni háleitustu og rótgrónustu hug- mynd okkar menningar um mannhelgi. Að dómi Singers gerir líftækni nútímans að verk- um að hefðbundnar hugmyndir um manninn og helgi lífsins fá ekki lengur staðist. Við þurfum á nýjum mælikvörðum að halda. En hverjir eru þeir? „Burt með Singer!“ Þegar Singer ætlaði að halda fyrirlestra um þessi mál í Þýskalandi fyrir röskum áratug mætti hann harðri andstöðu talsmanna sam- taka fatlaðra. Hvað eftir annað var komið í veg fyrir að Singer fengi að stíga í pontu og ráðist var að honum með hrópum og skömmum og honum líkt við nasista. Talsmenn fatlaðra sök- uðu hann um að hvetja til dráps á fötluðum og að lítilsvirða líf þeirra og tilveru. Þeir ásökuðu m.ö.o. gyðinginn Peter Singer, sem sjálfur missti afa sína og ömmu í útrýmingarbúðum nasista, um að hvetja til mannkynbóta í anda nasista. Málið vakti mikla athygli á kenningum Singers, en hann segir sjálfur að þær hafi verið skrumskældar. En þetta mál átti eftir að draga dilk á eftir sér. Þegar Singer tók við prófess- orsstöðu í siðfræði lífvísinda við Princeton há- skóla í Bandaríkjunum ætlaði allt um koll að keyra. Steve Forbes, einn af helstu velunnurum skólans, hótaði að hætta að leggja til fé til skól- ans ef ráðning Singers yrði ekki dregin til baka. Stofnuð voru samtök til að vinna gegn hug- myndum hans. Málið komst í hámæli í fjölmiðl- um, en stjórn skólans stóð fast á sínu enda ætl- un þeirra að ráða siðfræðing sem hefði örvandi áhrif á umræðuna. Singer hefur svo sannarlega staðið undir þessum væntingum, en eftir hann liggja tugir bóka, einkum á sviði siðfræði og stjórnmálaheimspeki, sem hann hefur ýmist ritað sjálfur eða ritstýrt. Samfara því að vera mikilvirkur höfundur á sviði lífvísindasiðfræði hefur hann gefið út bækur um klassíska höf- unda á borð við Hegel, Marx og Darwin. Þjáningar dýra og manna Þótt Singer hafi vakið mesta úlfúð vegna gagnrýni sinnar á helgi mannsins, eru kenn- ingar hans um dýr sýnu róttækari. Hann telur siðferðilega vafasamt, ef ekki beinlínis rangt, að borða dýrakjöt á meðan við getum lifað góðu lífi á grænmetisfæði. Ástæðan er einföld: Dýr líða þjáningar við þær aðstæður sem þeim eru bún- ar í iðnvæddri kjötframleiðslu, vísindarann- sóknum og snyrtivöruiðnaði. Singer færir mannskilning nytjastefnunnar yfir á dýr sem hann segir að hafi sársaukaskyn ekki síður en menn. Einu gildi þótt dýr geti ekki tjáð sig í máli eins og menn. Þau geti þjáðst og það eitt skipti máli. Með þetta lögmál þjáningarinnar að viðmiði geti verið ranglátara að drepa hund en að taka úr sambandi tæki sem viðhalda lífi í dauðvona manneskju sem engar líkur eru á að komist aftur til rænu. Singer er þó ekki þeirrar skoðunar að manneskjur í slíku ástandi séu réttdræpar, eins og sumir gagnrýnendur hans hafa haldið fram. Hann segir ákvarðanir um líf og dauða ráðast af aðstæðum hverju sinni og óskum og viðhorfum viðkomandi einstaklinga og aðstandenda þeirra. Honum er umhugað um að koma umræðunni um þessi mál upp úr þeim spólförum sem hefðbundin viðhorf festa okkur í. Af þeirri tegund nytjastefnu sem Singer að- hyllist leiðir að þegar valið stendur á milli þess að bjarga tíu ókunnugum börnum eða barni manns sjálfs sé réttara að bjarga hinum tíu. Flestir myndu ugglaust halda því fram að þetta sé andstætt siðferðiskennd okkar sem myndi boða okkur að reyna a.m.k. fyrst að bjarga eigin barni. Af þessum sökum hefur Singer verið gagnrýndur fyrir að gera ráð fyrir að því við séum ofurrökvís og jafnvel kaldlynd í siðferði- legum ákvörðunum okkar. Heimspekingurinn Bernard Williams heldur því t.d. fram að lífið sé ekki jafn einfalt og Singer vilji vera láta og ekki sé unnt að beita formúlum hans á flókin og oft mótsagnakennd siðferðileg álitamál. Að gefa tíund Líklega ganga fáir siðfræðingar jafn langt og Singer í að reyna að framfylgja eigin kenning- um í verki. Í skrifum sínum um þróunarhjálp heldur hann því fram að við eigum að gefa þeim sem verr eru staddir af auðæfum okkar. Í þessu skyni setur hann fram einfalda reglu: Ef eitt- hvert okkar á fé eða önnur gæði sem geta betur nýst hinum þurfandi ber okkur að láta þeim þau í té upp að því marki að það skaði okkur ekki sjálf. Í samræmi við þessa kenningu gefur Sin- ger sjálfur hluta tekna sinna til þeirra sem eru þurfandi og allur ágóði af sölu bókar hans Hag- nýt siðfræði rennur til þróunarhjálpar. Nytja- stefnumenn eins og Singer þróa hins vegar ekki lögmál eða viðmið um sanngjarna skiptingu gæða sem gilda eiga innan tiltekins samfélags eða hafa almennt gildi, eins og réttlætiskenn- ingasmiðir á borð við John Rawls hafa gert. Því hefur Singer verið átalinn fyrir að handahófs- kennd viðmið sem komi ekki að tilætluðum not- um við að draga úr fátækt og misskiptingu. Singer hefur víða komið við í lífi og starfi. Hann hefur beitt sér fyrir náttúruvernd og bauð sig m.a. fram til þings í Ástralíu fyrir flokk Græningja. Hann vill að heimspeki sýni sig í verki. Af þeirri ástæðu telja margir kollegar hans úr heimspeki hann vera meiri pólitíkus en heimspeking. Það sem vakir hins vegar alltaf fyrir Singer er að greina og skýra rök fyrir skoðunum. Hann segir sjálfur að heimspekin taki við þegar allar staðreyndir máls liggja fyr- ir. Hann tekur sér þess vegna fyrir hendur að hugsa mál til enda. Af þessum sökum hefur hann oft verið fyrstur til að koma inn á við- kvæm mál eins og um réttinn til lífs sem hann vill ekki einskorða við menn. Hann vill líta á þennan rétt í mun víðara samhengi en almennt tíðkast og það krefst þess að tekið sé tillit til lífsgæða og hamingju. Kristnir siðfræðingar hafa gengið hvað harð- ast fram í að gagnrýna Singer fyrir að virða ekki helgi mannlegs lífs sem æðsta gildi. Sið- fræðingum af hinni kantísku hefð, sem líklega er áhrifamesta siðfræðistefna samtímans, er uppsigað við mannskilning Singers. Samkvæmt kantískum skilningi er virðing fyrir manninum og þau réttindi sem leidd eru af mannvirðing- unni hornsteinn siðfræðinnar. Innan nytja- stefnunnar sjálfrar er Singer umdeildur eink- um vegna þess hversu afdráttarlaus hann er. Þess vegna ásaka margir hann fyrir groddalega sýn á manninn í anda Benthams sem líti aðeins á manninn sem eins konar samansafn kennda á borð við sársauka eða ánægju. Yfirlýstir nytja- stefnumenn, eins og Kristján Kristjánsson, segja um Singer að hann sé maður sem hafi komið meira óorði á nytjastefnuna en drykkju- mennirnir á brennivínið. Frá sjónarhóli Singers mætti hins vegar álykta að hann teldi að nytja- stefnan sé víða orðin svo útvötnuð að hún sé gagnslítil til að hjálpa okkur að koma auga á leiðir til að draga úr vanlíðan og auka vellíðan sem flestra. Hins vegar kallar slíkt augljóslega á rækilega umræðu um það, í hverju gott líf fel- ist og hvaða skilning beri að leggja í líf sem er þess virði að lífa því. Gildi náttúrunnar fyrir manninn og réttur dýra Eins og sagði í upphafi mun Singer næsta laugardag flytja erindi um heimspeki náttúru- verndar, gildi náttúrunnar fyrir manninn og ef- laust mun hann í því samhengi koma inn á rétt dýra, jafnvel þótt hann forðist að tala um „rétt- indi“ í því samhengi. Nytjastefnurök eru oft færð fram til réttlætingar á nýtingu náttúrunn- ar fyrir manninn. Singer mun hins vegar vænt- anlega færa nytjastefnurök fyrir vernd náttúr- unnar. Margir náttúruverndarsinnar forðast að gera það. Þeir óttast að meta og mæla gildi náttúru eftir nytsemi. Oftast er lagður efna- hagslegur mælikvarði á nytsemi og þá má nátt- úruvernd sín oft lítils andspænis meintri ábata- samri nýtingu náttúrunnar. Til stuðnings málflutningi sínum fullyrða margir talsmenn náttúruverndar að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Náttúran verður samkvæmt þeirri skoðun ekki alltaf metin til fjár vegna þess að hún hafi einnig eigið gildi óháð gildi hennar fyrir mann- inn. Singer gengur þvert á þetta viðhorf því hann gerir ekki ráð fyrir að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Að mati Singers getur náttúran ein- ungis haft gildi fyrir menn og dýr. Það verður því spennandi að heyra hvernig hann færir nytjastefnurök fyrir vernd náttúrunnar. VARÚÐ – HEIM- SPEKINGUR Á FERÐ! Næstkomandi laugardag, hinn 6. september, kl. 14, mun Peter Singer, einn umdeildasti heim- spekingur samtímans, halda fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands. Í erindi sínu mun Singer tala um heimspeki náttúruverndar og um gildi náttúrunnar fyrir manninn. Hér er fjallað um heimspeki Singers. Peter Singer E F T I R G U N N A R S I G VA L D A S O N O G S I G R Í Ð I Þ O R G E I R S D Ó T T U R Höfundar eru heimspekingar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.