Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2003, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2003, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. SEPTEMBER 2003 S TUNDUM verður lífið óbæri- lega erfitt og óheyrilega grimmt. Sultur og sársauki, kvalir og dauði leggjast yfir allt. Engin gleði, engin nautn, bara þjáningar og tóm. Hvernig fer maður þá að því að láta ekki örvilnunina buga sig? Það eru ýmsar leiðir færar auðvitað. Hægt er að bægja ljótleikanum frá sér, láta sem hann sé ekki til, einbeita sér að fegurð- inni. Það dugar þó skammt þegar grimmdin ryðst inn í líf manns í gervi sjúkdóma, stríðs eða annars konar áfalla eða hörmunga. Ein- hverjir flýja þá á vit blekkingarinnar, búa sér til paradís úr tálsýnum, sem þeir halda við með draumórum, sjálfslygi og ósjaldan með áfengi eða öðrum deyfilyfjum. Aðrir leita á náðir trúarinnar. Ópíum fólksins? Er trúin þá ópíum fólksins eins og Karl Marx sagði? Það mætti færa rök fyrir þeirri skoðun. Annað er þó uppi á teningnum í bók Yann Martel, Sögunni af Pí, sem nú er kom- in út í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stef- ánssonar. Martel segir þar frá lífsreynslu sem að sögn einnar persónu úr bókinni fær mann til að trúa á Guð. Þetta er hræðileg saga af táningsdreng frá Indlandi sem missir allt, bæði fjölskyldu og tilverugrundvöll, lendir í líkamlegum og andlegum hremm- ingum sem hefðu bugað hvern fullþroska ein- stakling. En hann lifir af og heldur bæði reisn sinni og ást á tilverunni. Þessi piltur er trúaður en virðist þó hafa ótrúlega skarp- skyggnan og tállausan skilning á lífinu. Þetta er bara ein af mörgum skapandi mótsögnum í verki Martels, sem hefur allt sem prýða þarf góða skáldsögu: spennandi frásögn, heillandi persónur, sérkennilegar og eftir- minnilegar aðstæður, auk þess sem höfundur er slyngur sögumaður. Um fram allt fær sag- an lesandann til að skynja tilveruna og skilja á annan hátt en áður. Hann verður auðugri af lestrinum. Pí Patel er sextán ára og það er áttundi áratugur tuttugustu aldarinnar. Faðir hans hefur rekið dýragarð í Pondicherry á austur- strönd Indlands. Fjölskyldan er óánægð með ástandið í landinu undir stjórn Indiru Gandhi. Garðinum er lokað, dýrin seld, flest til Norður-Ameríku, en þangað ætlar fjöl- skyldan einmitt að flytja. Hún hyggst hefja nýtt líf í Kanada og tekur sér far með frakt- skipi á leið yfir Kyrrahafið. Mörg dýrin úr garðinum eru einnig um borð. Fjölskyldan ætlar að sinna þeim þar til nýir eigendur geta tekið við þeim á leiðarenda. Eina nóttina sekkur skipið. Pí lifir einn af af mannfólkinu um borð en nokkrum dýrum tekst að komast upp í björgunarbát sem Pí klifrar einnig upp í: sebrahestur, orangútan, hýena og Bengaltígur. Hvað á Pí að gera? Hann er einn og bugaður af sorg á miðju hafi, því stærsta á hnettinum. Hann þarf að deila örfáum rúmmetrum með villtum dýrum og eru a.m.k. þrjú þeirra hættuleg, sérlega þó hýenan og tígrisdýrið. Tiltölulega fljótlega étur hýenan sebrahestinn og órangútanin en þá jafnar tígurinn sig á sjóveikinni og er ekki lengi að ráða niðurlögum hýenunnar. Þá eru bara strákurinn og Bengaltígurinn eftir. Það líða vikur, mánuðir, meira en hálft ár, þar til bátinn rekur á land á vesturströnd Mexíkó. Hvernig fór drengurinn að því að lifa af í slíku návígi við eitt ógnvænlegasta rándýr heims? Ekki er ætlunin að ræna tilvonandi les- endur bókarinnar nautninni af því að komast að svarinu sjálfir. Hins vegar verður vakin athygli á ýmsu í bókinni sem gerir hana að sérstaklega ánægjulegri og uppbyggilegri lesningu. Í fyrsta lagi er það hversu vel hún er samin. Rammafrásögn í fyrstu persónu segir frá höfundi sem hefur gefist upp við skáldsögu. Á ferð um Indland hittir hann mann sem segir honum sögu Pí og þá kvikn- ar löngunin til að hitta hann og skrifa um hann bók. Höfundur hefur upp á Pí í Kanada og tekur til við að skrá frásögn hans af bernsku sinni og þeirri mannraun sem hann lenti í. Inn á milli læðir hann innskotum frá sér sem lýsa Pí eins og hann er nú, sem full- orðinn fjölskyldufaðir. Í lokin er svo „birt“ skýrsla japanskra fulltrúa frá trygginga- félagi fraktskipsins en þeir hitta Pí skömmu eftir að bát hans og tígrísdýrsins rekur á land á eyðilegri strönd Mexíkó. Hann segir þeim sömu sögu og lesendur hafa nýlokið við að lesa, en þar sem þeir draga hana mjög í efa segir hann þeim aðra sögu, ekki síður ægilega. Slyngur sögumaður Frásagnarmátinn er slyngur því hann fléttar saman atburðum úr fortíð, frásögn þeirra í nútíð, og loks annarri útgáfu af sömu atburðum sem er teflt gegn mótbárum við sennileika sögunnar sem lesandinn hefur sogast inn í og heillast af. Í lokin veit hann ekki lengur hvor er sönn, og jafnvel kviknar hjá honum sú hugmynd að hvorug sé það. Þessi óvissa sem lesandinn er skilinn eftir með er bara einn af mörgum kostum sög- unnar. Annar felst í því merkilega sambandi trúar og vísinda sem höfundur býr til í verki sínu og birtist í hnotskurn í aðalpersónunni Pí Patel. Hann nemur tvær mjög ólíkar greinar í háskóla, dýrafræði og trúarbragðasögu. Það er ekkert skrýtið að sonur dýragarðseigand- ans skyldi velja það að gera eðli og lífshætti dýra að viðfangsefni sínu því sannarlega er dregin upp heillandi mynd af undraverðum fjölbreytileika lífsins í garðinum þar sem Pí er alinn upp. En þetta er ekkert Eden. Höf- undi gengur ekki til að draga upp sykursæta mynd af dýraríkinu sem fagra andstæðu mannlífsins. Síður en svo, því hann er greini- lega sömu skoðunar og sautjándu aldar heimspekingurinn Thomas Hobbes sem hélt því fram að lífið í nátturunni væri stutt, rýrt og ruddalegt. Tilvera villtra dýra einkennist af sífelldri baráttu fyrir lífi sínu en um það sitja óblíð náttúruöfl og önnur dýr, bæði af sömu tegund og öðrum. Þau eru því haldin geysilegri öryggisþörf og felst list dýragarð- eigandans í því að skapa þeim þær kjör- aðstæður sem duga til að friða kvíða þeirra fyrir því annaðhvort að vera étin eða fá ekki nóg að éta sjálf. Pí litli er heillaður af dýrunum og marg- breytileika þeirra en hann hefur líka annað áhugamál. Það er guðdómurinn. Hann kynn- ist honum sem kornabarn þegar frænka hans ber hann inn í musteri hindúa. Reykelsið, bjöllurnar, litríkar fórnargjafirnar, sólstafir innan um súlurnar í hofinu, allt er þetta eins og töfraveröld sem ljómar fyrir augum barnsins. Nautnir skynfæranna og stórfeng- legar sögur af guðum og hetjum gefa afstöðu hans til lífsins gleðiríkan grunntón. Þegar hann byrjar í skóla kynnist hann vísindalegri efnishyggju sem telur sig ekki þurfa á Guði eða guðum að halda. Lífið hefur bara þróast af sjálfu sér í samræmi við hin aðdáunarverðu en jafnframt að öllu leyti ópersónulegu lögmál náttúrunnar. Kristinn, hindúi og múslími Á unglingsárunum kemst Pí aftur á móti í tæri við kristna trú og er hún honum full- komlega framandi. Hvað á þetta að þýða að dýrka Guð sem lætur mannfólkið pynta og drepa eigin son? Og það til að bæta fyrir syndir mannfólksins? Þetta er eins og ef dýr- in í dýragarðinum tækju upp á því að láta illa og dýragarðsstjórinn myndi ákveða að gefa þeim sinn eigin son í kvöldmat til að bæta hegðun þeirra. Smám saman sér hann þó fegurðina í hinni kristnu goðsögn og hvernig hún beinir ástinni til lífsins í farveg náunga- kærleikans. Guð er í manninum þótt mað- urinn sé dæmdur til að þjást og deyja. Pí lætur skíra sig til kristinnar trúar. Þá kynnist hann trúnni á Allah og hún snertir hann líka djúpt. Sterkt bræðralag múslíma, tíðir og einfaldir trúarsiðir, fagrar moskur sem eru í senn musteri og samkomu- staðir, óbilandi ástin á Allah og máttug trú- arinnlifun, allt þetta höfðar svo sterkt til hans að hann ákveður að gerast sjálfur músl- ími. Hann er því í senn hindúi, kristinn og múslími. Foreldrar hans láta þetta óvenju- lega uppátæki eftir honum. Þau eru að mestu leyti trúlaus sjálf, en jafnframt ákaflega um- burðarlynd gagnvart yngri syninum, enda mikið ástríki í fjölskyldunni. Að sönnu er þetta þó sérkennileg staða og örlögin haga því svo að einn daginn þegar hann er úti að viðra sig með foreldrum sínum mætir hann kristna prestinum, múslímska ímaminum og indverska pandítnum á sama stað. Allir í einu gefa þeir sig á tal við fjölskylduna til að lofa drenginn fyrir ástundun sína við trúna en eru steini lostnir þegar í ljós kemur að hann stundar hinar tvær ekki minna. Úr þessu verður hin kostulegasta trúardeila þar sem þröngsýni þeirra sem taka eina trú fram yfir aðra kemur berlega í ljós. Það er frumleg hugmynd hjá höfundi að búa til persónu sem ekki gerir upp á milli trúarbragða heldur aðhyllist þau öll af sömu einlægni. Þegar við þetta bætist djúpstæð þekking hans á dýralífinu kemur í ljós það samspil andstæðna sem heldur uppi bygg- ingu þessarar djúphugsuðu sögu. Í höfuðper- sónunni, Pí Patel, koma saman mótsagnir sem að vissu leyti búa í okkur öllum. Menn- irnir eru dýr og því ofurseldir hinu grimm- úðlega lögmáli frumskógarins: að drepa eða verða drepnir. En þeir fæðast líka í mann- legu samfélagi, í fjölskyldum sínum, þar sem þeim er kennt að gæða heiminn merkingu og fegurð. Sú merkingarsköpun sem hefur átt sér stað í samræðu kynslóðanna er í senn leið mannsins til að skilja heiminn og lifa hann af, leið hans til að skilja öflin sem ráða heiminum og til að gefa blindu tilgangsleysi þessara afla inntak og stefnu. Þessi eiginleiki mannanna ól af sér trúarbrögðin en einnig vísindin. Trú og vísindi eru því ekki ósætt- anlegar andstæður, eins og við erum vön að hugsa, því minningin um átök vísindahyggju og valdastofnana kirkjunnar er enn sterk í menningu okkar. Þvert á móti eru þetta bara ólíkar leiðir til að tjá og túlka heiminn og hlutskipti mannsins í honum. Þetta kemur skemmtilega fram í Sögunni af Pí þegar hr. Kumar og hr. Kumar koma til að kveðja Pí. Kumar ku vera algengt ætt- arnafn á þeim slóðum þar sem Pí er upp- runninn. Náttúrufræðikennarinn og bakarinn sem kynnti hann fyrir súfí Íslam heita báðir Kumar og leikur höfundur sér að því stund- um að nefna þá í einni andrá. Á kveðjustund- inni standa þeir hlið við hlið með Pí og horfa á eitt af fegurstu dýrum garðsins, sebrahest- inn, sem reyndar á eftir að koma talsvert við sögu síðar. Hver þeirra dáist á sinn hátt að þessu fagra dýri (sjá skyggða textann). Betri sagan Pí ber greinilega jafnmikla virðingu fyrir hinum trúlausa vísindamanni hr. Kumar og hinum heittrúaða múslíma sem einnig heitir hr. Kumar. Þótt mynd þeirra af heiminum sé gjörólík, sameinast þeir í aðdáun sinni á feg- urð hans. Það streymir eitthvað út frá þeim til heimsins, eitthvað sem hægt er að kalla ást. Aftur á móti á hann erfiðara með að þola þá sem líta á heiminn með kaldri sýn þess sem upplifir allt sem efni. Þetta er ekki efn- ishyggja vísindamannsins sem leitar fyrst og fremst efnislegra skýringa á fyrirbærunum en er knúinn áfram af siðferðislegum hvötum eins og þekkingarþrá og vilja til að skapa eitthvað gott úr nýrri þekkingu. Efnishyggj- an sem honum er í nöp við er sú sem kemur fram í því viðhorfi til bæði manns og náttúru að allt sé fyrst og fremst efni og ekkert sé til utan við vítahringinn að éta eða verða étinn. Það er í þessu viðhorfi sem hinn sanna illska býr eins og vel kemur fram í persónu mat- reiðslumannsins af fraktskipinu sem er reiðubúinn að breyta öllu (og öllum) í mat. Það er engin tilviljun að Pí Patel er græn- metisæta, en þetta er ekki sú einfeldnings- lega eða væmna manngerving dýra sem ger- ir það að verkum að mörgu nútímafólki líður álíka illa, ef ekki verr, þegar það heyrir af því að hrefna sé skotin við Íslandsstrendur og þegar það fréttir af morði í næstu borg, eða stríðsátökum í næsta landi. Pí þekkir villt dýralíf of vel til að falla fyrir slíkri blekkingu auk þess sem lífsreynsla hans sem skipbrotsmaður hefur kennt honum að það er nauðsynlegt að drepa til að lifa af. Hann á hins vegar bágt með að þola þá sem ekki sjá aðra hlið á tilverunni en þessa. Pí verður tíðrætt um hversu mikilvægt sé að velja betri söguna, þ.e. að hugsa um heim- inn og lífið í heiminum með hliðsjón af til- finningum og gildum, út frá huglægri afstöðu okkar, en ekki út frá kaldri og tilfinninga- sneyddri staðreyndahyggju sem elur með sér þá blekkingu að hún láti ekki blekkjast. Eins og komið hefur fram segir Sagan af Pí okkur tvær ólíkar sögur af sömu atburðum og býð- ur okkur að velja þá sem við teljum betri. Ef til vill kennir hún okkur líka að þetta sé ein- mitt það val sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi. Reynslan af lífinu getur verið hræðileg og enginn kemst í gegnum það án áfalla, án missis, án þjáninga. Enginn slepp- ur við dauðann. Er lífið þess virði? Okkur er frjálst að velja þá sögu sem okkur hugnast betur: betri söguna. Yann Martel les úr verkum sínum í Iðnó á morgun, sunnudag, kl. 20 og tekur þátt í pallborðsumræðum um enskar heimsbók- menntir í Norræna húsinu á mánudag kl. 15. Herra og herra Kumar virtust hvor öðr- um ánægðari. „Sebrahestur? segirðu,“ sagði herra Kumar. „Einmitt,“ sagði ég. „Hann er af sömu ætt og asninn og hesturinn.“ „Rolls Royce hófdýranna,“ sagði herra Kumar. „Undursamleg skepna,“ sagði herra Kumar. „Þetta er Grant sebrahestur,“ sagði ég. Herra Kumar sagði: „Equus burchelli boehmi.“ Herra Kumar sagði: „Allahu akbar.“ Ég sagði: „Hann er mjög fallegur.“ Við héldum áfram að horfa. (bls. 89). „Saga sem fær þig til að trúa á Guð“ Sagan af Pi (Life of Pi) eftir kan- adíska rithöfundinn Yann Martel (f. 1963) hlaut hin viðurkenndu Booker-verðlaun á síðasta ári. Sagan af Pi er til umfjöllunar hér en hún er nýkomin út í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. E f t i r To r f a H . Tu l i n i u s Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldabók- menntum við Háskóla Íslands. Sagan af Pí segir okkur tvær ólíkar sögur af sömu atburðum og býður okkur að velja þá sem við teljum betri. Yann Martel.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.