Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2003, Qupperneq 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. SEPTEMBER 2003 11
á Hólum og á Höfða haustið 1431. Þeir gætu
líka hafa flúið í kirkjuna á Höfða undan mönn-
um Hannesar Pálssonar árið 1420.
Niðurstaðan er sú að meint illvirki á Mann-
skaðahóli 1431 séu ekki aðeins hugarburður
seinni tíma manna. Þjóðsagan á sér stoð í veru-
leikanum. Þar gætir rakalausra fullyrðinga og
sagan hefur í tímans rás tekið mið af síðari
tíma þekkingu, fimbulfambi og draumum. Það
er eðli slíkra sagna. Þótt Mannskapshóll hafi
orðið Mannskaðahóll af völdum munnmæla,
eru munnmælin sprottin af atburðum sem áttu
sér stað í nágrenni við bæinn. Að samband sé
milli kvittunarbréfs Jóns Craxtons, Vopna-
dóms Magnúsar prúða og atburðanna á Mel-
horni er mjög hæpið. Líklegra er að samband
sé milli Vopnadóms Magnúsar og ávirðinga
Hannesar Pálsonar á hendur Englendingum,
þ. e. atburða sem gerðust árið 1420, einmitt á
Höfðaströnd. Þó eru tengsl þeirra atburða við
beinafundinn ósönnuð. Fimmtánda öldin var
öld sveina og ófriðar, en heimildir rýrar. Lík-
lega hafa fleiri aftökur orðið á öldinni en þær
sem hér var rætt um, án þess að rata í ritheim-
ildir þess tíma. Aftökurnar á Melhorninu hafa
þó verið stórtíðindi á Höfðaströnd og efni í
munnmælasögur þegar frá leið.
Heimildir:
Annálar 1400–1800. 1. bindi. Reykjavík 1922–1927.
Arnór Sigurjónsson: Ásverjasaga. Reykjavík 1967.
Axel Þorsteinsson: „Þjóðsagan um Mannskaðahól“.
Skagfirðingabók. Rit Sögufélags Skagfirðinga. 21. árgang-
ur. Reykjavík 1992.
Björn Þorsteinsson: „Sendiferðir og hirðstjórn Hann-
esar Pálssonar og skýrsla hans 1425.“ Skírnir. Tímarit
hins íslenzka bókmenntafélags. 127. árgangur. Reykjavík
1953.
Carus-Wilson, E. M.: Medieval Merchant Venturers.
Collected Studies. London 1967.
Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og
gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ís-
land eða íslenska menn. 4. bindi 1265–1449. Kaupmanna-
höfn 1897.
Jón Þorkelsson: Saga Magnúsar prúða. Kaupmanna-
höfn 1895.
Kristján Eldjárn og Jón Steffensen: „Ræningjadysjar
og Englendingabein.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags
1959. [Reykjavík 1959].
SKAÐAHÓLI
NN 1952
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Höfundur er áhugamaður um sagnfræði og vinnur
hjá Staðlaráði Íslands.
Af hverju er hringnum skipt í 360
gráður?
SVAR: Babýloníumenn, sem bjuggu í fyrnd-
inni þar sem nú er Írak en áður hét Mesópó-
tamía, notuðu töluna 60 sem grunnmæliein-
ingu. Talan 60 var einnig grunntala í
talnaritunarkerfi þeirra. Þess sér stað í tíma-
mælingum enn í dag þar sem klukkustundinni
er skipt í 60 mínútur og mínútunni í 60 sek-
úndur.
En hvers vegna var talan 60 notuð sem
grunntala? Það er ekki vitað með vissu en talið
líklegt að ástæðan sé hve margar tölur ganga
upp í 60. Tölurnar 2, 3 og 5 eru frumþættir
hennar en auk þeirra ganga fjölmargar tölur
upp í 60: 4, 6, 10, 12, 15, 20 og 30. Talan 60 er
lægsta talan sem allar sex fyrstu tölur talna-
kerfisins, 1-6, ganga upp í.
Líklegt er að skipting hringsins í 360 gráður
sé af sömu rótum runnin. Talan 360 er deil-
anleg með sömu frumþáttum og 60. Hún hefur
enn fleiri deilitölur, þar sem
360 = 3·32·5,
svo að margvísleg skipting hringsins er
möguleg þannig að gráðutala hvers hluta verði
heil tala.
Skipting hringsins í 360 gráður er hagnýtt í
landmælingum þannig að miðbaug jarðar er
skipt í 360 gráður. Hornrétt á hann eru dregn-
ir lengdarbaugar sem mætast á norður- og
suðurpól. Einnig eru dregnir breiddarbaugar,
90 gráður í norður og 90 gráður í suður. Þurfi
að skipta hverri gráðu nánar, eins og nauðsyn-
legt er í nákvæmum staðarákvörðunum, er
henni skipt í 60 mínútur og mínútunni í 60 sek-
úndur, á sama hátt og klukkustundinni.
Í Mesópótamíu, landinu milli fljótanna Efr-
at og Tígris, blómstraði háþróuð menning um
1700 f.Kr. Varðveist hafa hundruð leirtaflna
með stærðfræðilegu efni. Tölur voru ritaðar
með fleygtáknum þannig að talan 1 var rituð
með lóðréttum fleyg en 10 með láréttum fleyg.
Þannig hafa til dæmis fundist leirtöflur með 9-
sinnum töflunni. Út frá þeirri töflu og öðrum
með einföldum textum mátti sjá að talnaritun
Babýloníumanna var í sætiskerfi þar sem
grunntalan var 60, á sama hátt og grunntalan
10 sem við notum í dag.
Kristín Bjarnadóttir, lektor við Kenn-
araháskóla Íslands.
Geta dýr skynjað jarðskjálfta áð-
ur en þeir verða?
SVAR: Fjölmörg dæmi eru þekkt um ein-
kennilega hegðun dýra rétt fyrir jarðskjálfta.
Í bænum Santa Cruz í Bandaríkjunum faldi
heimilishundur sig undir rúmi sex klukku-
stundum fyrir jarðskjálfta. Engin leið var að
fá hann þaðan og eigandinn fullyrti að hund-
urinn hefði aldrei áður hagað sér svona.
Atferlisfræðingar hafa rannsakað hegðun
dýra fyrir jarðskjálfta. Skömmu fyrir mikinn
skjálfta í Armeníu í árslok 1988, sem varð tæp-
lega 25 þúsund manns að bana, fóru ýmsar
skepnur öðruvísi að en vanalega. Þær voru
órólegar, vildu ekki éta fóður og leituðu burt af
þeim stöðum sem þær voru vanar að halda sig
á.
Villt dýr hegðuðu sér einkennilega og virt-
ust vera lítt mannafælin og sum beinlínis
hændust að fólki. Mörg húsdýr sýndu hins
vegar árásarhneigð. Hundar struku af bæjum
eða geltu látlaust, hross rifu sig laus af stöll-
um, fuglar hópuðust saman og flugu burt og
búrfuglar trylltust og flugu á rimlana. Meira
að segja fiskar í búrum hegðuðu sér ein-
kennilega, sumir syntu niður á botn og héldu
þar kyrru fyrir en aðrir reyndu að stökkva upp
úr búrinu. Slöngur skriðu úr holum og fylgsn-
um sínum.
Jarðeðlisfræðingum er kunnugt um ýmsar
breytingar sem verða í náttúrunni skömmu
fyrir mikla jarðskjálfta, svo sem á loftþrýst-
ingi, lofthita, framandi lofttegundum og raf-
segulsviði í andrúmsloftinu (e. atmospheric
electric field). Slíkt getur valdið hræðslu hjá
dýrum.
Margar dýrategundir hafa einskonar átta-
vita í formi steindar í höfðinu. Steindin nefnist
magnetít og gerir til dæmis farfuglum kleift að
rata. Vegna breytinga á rafsegulsviði jarðar
fyrir jarðskjálfta getur þessi áttaviti ruglast
og það veldur ókyrrð hjá dýrunum. Fjölmarg-
ar fuglategundir, hvalir og jafnvel skordýr
eins og býflugur hafa slíkan áttavita í höfðinu.
Önnur skýring á óróleika dýra fyrir jarð-
skjálfta er sú að að dýrin skynji hátíðnihljóð
vegna vaxandi spennu í jarðskorpunni
skömmu fyrir jarðskjálfta. Menn greina ekki
þessi hljóð en sum dýr gera það og virðast
ókyrrast vegna óþægindanna sem hljóðin
valda.
Að lokum má benda á að vísindamenn nú-
tímans virðast vera í þann veginn að finna
ýmsa mælanlega fyrirboða um hamfarir eins
og jarðskjálfta og eldgos. Vel er hugsanlegt að
ýmis dýr finni þessa fyrirboða betur en menn
og bregðist við samkvæmt því, áður en menn
hafa orðið neins varir. Skýringar á þessu
kunna sem sagt að vera á næsta leiti í fram-
vindu vísindanna.
Jón Már Halldórsson, líffræðingur.
AF HVERJU ER
HRINGNUM SKIPT
Í 360 GRÁÐUR?
Hvað er gen; af hverju hóstar maður; hvernig er
jafnræðisreglan; voru víkingar einhvern tímann
góðhjartaðir; hvers vegna er „svína-“ svona algengt örnefni á Íslandi
og hvaða tilgangi þjónar eyrnamergur? Þessum spurningum og fjöl-
mörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og
hægt er að nálgast svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is.
VÍSINDI
Morgunblaðið/Kristján
Skynja kýr jarðskjálfta áður en þeir verða?
Við gluggann
í grænleitu þorpi
sem tekur lit af sígrænum grenitrjám
í hlíðinni fyrir ofan bæinn
bíður kona eftir manni
Augu hennar hvarfla
upp eftir fjallinu
sem bíður með henni
og svæfir hana á kvöldin
þegar hann kemur ekki
Ljósin í fjallinu
senda silfraða birtu inn í gluggann
grenitrén standa teinrétt á verðinum
og þegar hann kemur yfir hæðina
getur fjallið farið að sofa
ANNA S. BJÖRNSDÓTTIR
Höfundur er skáld.
YFIR HÆÐINA