Lesbók Morgunblaðsins - 04.10.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 04.10.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. OKTÓBER 2003 drög að skilgeiningu skyndilega stoppa ég og skoða hlykkjótt spor mín í snjónum mér er spurn hvort ég hafi lagt krók á leið mína einsog evrópukommúnistarnir nei ég er bara fullur … U M DAGINN fékk ég það hlutverk að velta fyrir mér samgöngumálum, en ég hef ekkert meira vit á þeim en hver annar jeppi. Ég reyndi því að komast inn í einhverjar hliðargöt- ur, en var þá allt í einu kominn á bólakaf í umferðina. Skellinöðrur þutu hjá, ótal bílar flautuðu. Mig dreymdi að ég lenti í árekstri. Svona er það. Maður á alltaf að vera að velta einhverju fyrir sér sem maður hefur ekki vit á, því maður veit miklu meira en maður hefur vit á, eða hefur vit á fleiru en maður veit, bara einsog þegar skýin koma saman og það fer að rigna. Menn verða bara að passa sig að það rigni ekki upp í nefið á þeim. Ég gat til að mynda hafið mál mitt á því að þegar ég var unglingur hélt ég mikið upp á hljómsveit sem hét Traffic með Steve Winwood og öllum þeim snillingum. Traffic er fyrir löngu hætt, en tónlist hennar eldist vel. Því má slá föstu að tónlist eldist betur en bílar. Ég segi það með fullri virðingu fyr- ir fornbílum. Hér var ég strax lentur í vandræðum, svo ég sagði: Mín samgöngutæki eru orðin. Veg- ir þeirra liggja inn og út úr höfðinu. Með þeim má byggja brýr, bora jarðgöng og hreint ótrúleg samgöngutæki geta fæðst. Menn þurfa ekki að lesa nema eina vís- indaskáldsögu til að sannfærast um það. Munurinn á skáldsögum og raunveruleg- um framkvæmdum er sá að í skáldsögum þurfa menn ekki að gera neinar kostnaðar- áætlanir. Frelsi skáldsögunnar birtist meðal annars í því að ein setning getur kostað marga milljarða. Ef Sturla Böðvarsson væri skáld – og ekki skal ég útiloka að svo sé – ætti hann ekki í vandræðum með að hafa alla ánægða, hvort sem þeir eru fyrir aust- an, vestan, norðan eða sunnan. Þeir sem skrifa kvikmyndahandrit njóta ekki þessa frelsis, því þar eru framleiðendur eins konar fjármálaráðherrar. Þetta sýnir um leið hví- lík auðlegð býr í ímyndunaraflinu. En orðin eru líka samgöngutæki á milli manna og því mikilvæg í öllum samskiptum. Það má líka gera ráð fyrir að því meiri tök sem menn hafa á málinu og orðunum því þroskaðari séu þeir. Það þýðir auðvitað hærra siðmenningarstig og hærra siðmenn- ingarstig hlýtur að þýða betri umferðar- menningu, þannig að röksemdir mínar eru ekki jafnmikið út í hött og þær kunna að virðast í fyrstu. Ég er ekki jafnvitlaus og ég lít út fyrir að vera. Ég get þó slegið fram sjálfsögðum sann- indum og fullyrt að hér eru allt of margir bílar. Halldór Laxness hafði ekki rangt fyrir sér þegar hann sagði að við værum bílatrú- ar. Við trúum á bílinn, hann er einsog skurðgoð. Maður á flottum bíl er flottur maður. Að minnsta kosti trúir hann því sjálfur. Sjálfur var Halldór Laxness hrifinn af bíl- um. Hann átti lengi eina Jagúarinn á Ís- landi. Ég man meira að segja eftir honum og veit ekki hvort mér þótti merkilegra Jagúarinn eða Halldór. Fræg er sagan þegar Halldór ók á móti vörubílnum á Vesturlandsveginum, sem þá var svo þröngur að þeir gátu ekki mæst, og Jagúarinn valt út af. Hélt nú vörubílstjórinn að Halldór Laxness væri allur og sá fyrir sér að þetta yrði það eina sem halda myndi minningu hans á lofti, það er vörubílstjór- ans. En viti menn, Halldór Laxness skríður út úr bílnum og segir við vörubílstjórann: „Get ég gert nokkuð fleira fyrir yður?“ Önnur bílasaga um Halldór er sú að bíll hans – ég veit ekki hvort það var Jagúarinn – hafi eitt sinn bilað við umferðarljós. Þegar hann ekur ekki yfir á grænu ljósi byrjar óþolinmóð kona að flauta fyrir aftan hann. Þannig ganga málin um nokkra stund, en þá stígur Halldór út úr bílnum og segir við konuna: „Ef þér gerið við bílinn minn skal ég liggja á flautu yðar.“ Nú er það svo að við getum bölvað bílum í sand og ösku, en það breytir ekki þeirri staðreynd að bíllinn er stórkostlegt tæki, ekki síst fyrir land einsog Ísland. Hann er einsog hestur á hjólum, gerir lítið úr fjar- lægðum og á því sinn þátt í því að halda dreifbýlu landi í byggð. Sjálfur tók ég bílpróf mjög seint, svo al- menningssamgöngur voru lengi minn ferða- máti. Ég þori varla að segja það en ég var 38 ára þegar ég tók bílpróf. Í fyrsta ökutím- anum ók ég frá heimili mínu í Grafarvog- inum og yfir í Hafnarfjörð til að sækja ann- an nemanda. Það var ungur strákur, krúnurakaður með eyrnalokka. Hann leit á mig og sagði: „Hva’ misstir þú prófið?“ Ég á því ákaflega auðvelt með að sætta mig við bíllausan dag, og raunar alls kyns daga, það er eiginlega hver dagur orðinn laus við eitthvað eða helgaður einhverju. Engu að síður finnst mér mikið frelsi að geta keyrt og í sjálfu sér gaman að hafa orðið unglingur tvisvar, því auðvitað breytt- ist maður aftur í ungling við að fá bílpróf. Strætisvagnar hafa því alltaf verið mínir vagnar og ég kann vel að meta þá. Ég vandi mig til að mynda á að lesa í strætó og mörg af mínum fyrstu ljóðum orti ég í Breiðholts- vagninum, leið 11. Einnig var hægt að sitja bara og hugleiða, láta hugann reika, nú eða fylgjast með einhverju atviki sem átti sér stað. Þá má ekki gleyma sessunautunum og öllum sögunum sem maður heyrði í strætó. Mín jákvæðu viðhorf til strætisvagna eru að vísu af gömlum toga. Við strákarnir í Vogahverfinu stálumst stundum með strætó niður í bæ og fórum í leiðangra. Stræt- isvagnarnir stoppuðu við Kalkofnsveg þar sem hægt var að vigta sig í biðskýlinu á risastórri vigt. Við hliðina á því var bílastöð- in Hreyfill og við hliðina á henni söluturninn sem alltaf minnti mig á arabíska höll. Okkur þótti líka ótrúlega gaman að fara í rúllustigann í Kjörgarði, sem þá var eini rúllustiginn í landinu. Við fórum upp og nið- ur, aftur og aftur, alveg endalaust, þar til okkur var hent út. Þá var ekkert íslenskt GATNAMÁLASTJÓRI Í FYRRA LÍFI Hugleiðingar um börnin, frelsið og bílana E F T I R E I N A R M Á G U Ð M U N D S S O N „Mín samgöngutæki eru orðin. Vegir þeirra liggja inn og út úr höfðinu. Með þeim má byggja brýr, bora jarðgöng og hreint ótrúleg samgöngutæki geta fæðst.“ Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon „Mín jákvæðu viðhorf til strætisvagna eru að vísu af gömlum toga. Við strákarnir í Vogahverfinu stálumst stundum með strætó niður í bæ og fórum í leiðangra. Strætisvagnarnir stoppuðu við Kalkofnsveg þar sem hægt var að vigta sig í biðskýlinu á risastórri vigt. “ Í Aðalstræti 1972.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.