Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.2003, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. OKTÓBER 2003
F
JARAN fyrir neðan Búðir á Snæ-
fellsnesi blasir við okkur Roni
Horn. Við sitjum með stóra er-
lenda bók um list hennar á milli
okkar og blöðum í henni mitt á því
svæði sem sum þeirra verka sem
bókin fjallar um eru sprottin úr.
Roni staldrar við þegar hún sér
vatnslitamynd af uppáhaldssteini móður sinnar
bregða fyrir og aftur við mynd af verkinu „ For
Ross and Felix“ er hún gerði út tveimur þynnum
úr skíragulli. Titill verksins vísar til vina hennar,
þeirra Felix Torres Gonzales, hins heimsfræga
myndlistarmanns og sambýlismanns hans Ross,
en þeir létust báðir úr eyðni. Enginn sem veltir
því verki fyrir sér getur verið ósnortinn af þeim
afdráttarlausa einfaldleika efnis og forms sem
þar birtist – hvað þá af þeirri sterku mynd af
sambandi milli tveggja einstaklinga sem í því er
fólgin. Áður en Roni vann þetta verk hafði hún
gert annað með einungis einni gullþynnu og
nefnt Gold Field/Gullflöt (1980–82), en áhugi
Felix Torres Gonzales á því verki var upphafið
að vináttu þeirra.
Á meðan öldurnar velta sér upp rauðgyllta
fjöruna á sólbjörtum en köldum degi hefjum við
samtal okkar um óvenjulega farsælan feril henn-
ar í hinum alþjóðlega listheimi. Roni Horn er án
efa einn virtasti myndlistarmaður samtímans og
ein fárra kvenna sem náð hefur að kveðja sér
hljóðs í veröld sem hún segir engan þurfa að fara
í grafgötur um að er mun hliðhollari körlum en
konum.
Þegar hún er spurð hvert veganesti hennar
hafi verið á þeirri löngu leið sem hún hefur nú
farið segir hún það vera ákaflega persónulegs
eðlis.
„Þegar ég óx úr grasi varð ég þess áskynja að
það sem ég hafði að geyma sem manneskja var
ekki í samræmi við væntingar annarra, t.d. fjöl-
skyldu minnar. Slík höfnun frá unga aldri skerp-
ir vitundina fyrir því hvernig maður geti komist
af – gerir mann með einhverjum hætti færan um
að lifa í þeirri fullvissu að maður þekki tengsl sín
við sjálfan sig. Þetta samband við sjálfan mann
verður síðan að frumforsendu tilvistarinnar og
sambandið við annað fólk kemur þar á eftir – ein-
faldlega vegna þess að annað grefur of mikið
undan sjálfsmyndinni. Það hljómar undarlega,
en þegar ég skoða það sem ég hef skapað í gegn-
um tíðina þá sé ég í því vitnisburð um það hvern-
ig ég hef beint orku minni í þennan farveg og um
leið sett allt það annað til hliðar er tilheyrir
stöðlum samfélagsins; svo sem fjölskyldu og
jafnvel vini að miklu leyti. Einvera mín hefur
orðið að mjög veigamiklum þætti minnar per-
sónulegu reynslu, reyndar má segja að þörf mín
fyrir einveru hafi vaxið. Ég þarf mikið næði auk
einveru til að geta unnið. Margir listamenn þríf-
ast þó betur í tengslum við samfélagið, þeir
þurfa á fólki að halda bæði við framleiðslu verka
sinna og í sköpunarferlinu. Ég er alveg andstæð-
an við þetta fólk. Það er í umhverfi mínu, þar
sem ég er ein með sjálfri mér, sem ég kem auga
á þá hluti sem mér finnast áhugaverðir. Annars
var ég í rauninni mjög ung þegar ég komst að því
að fjölskyldulíf myndi ekki fullnægja þörfum
mínum.“
Þú hefur sagt mér að fortíð fjölskyldu þinnar
sé lítt kunn og uppruni þinn því um margt á
huldu, alveg öfugt við það sem við eigum að venj-
ast hér á Íslandi. Finnur þú fyrir því við vinnu
þína að tengslin við söguna og fortíðina hafi ver-
ið rofin, eða hefur það kannski aldrei skipt þig
máli?
Reyndar finnur maður ekkert fyrir því aðeiga enga fortíð fyrr en maður hittir þásem eiga hana,“ svarar Roni og virðirfyrir sér skýjafarið við sjóndeildarhring-
inn áður en hún heldur áfram. „Það rann ekki
upp fyrir mér fyrr en seint um síðir að saga fjöl-
skyldu minnar var af mjög skornum skammti,
auk þess sem samskiptin í fjölskyldunni voru
þannig að þekking á þeirri sögu sem þó var til
staðar var takmörkuð – nánast engin. Það hefur
auðvitað áhrif þegar tengslin við fortíðina eru
rofin. Í minni vinnu hef ég því einbeitt mér að líð-
andi stundu, ekki síst í sambandi við það hvernig
ég eyði tíma mínum. Allir eiga sér fortíð sem til-
heyrir fjölskyldu þeirra en þar að auki á hver og
einn fortíð sem fólgin er í þeim minningum sem
hann safnar á lífsleiðinni. Sjálf reyni ég þó helst
að halda mig í augnablikinu.“
En ef við horfum framhjá félagslegum og til-
finningalegum grunni og höldum okkur við þann
menningarlega, þá er samt sem áður augljóst að
tengsl þín við fortíðina eru mjög sterk?
„Fyrir utan minn persónulega vettvang, þá
finn ég sterkt fyrir gyðinglegum bakgrunni mín-
um,“ viðurkennir Roni fúslega. „Áhrif hans eru
mikil þótt ég hafi aldrei verið neitt sérstaklega
meðvituð um hann, þar sem þessi ákveðni þáttur
tilverunnar er hreinlega svo miklu stærri en ég
sjálf. Þessi áhrif eru fremur almenns eðlis; í
tengslum mínum við tungumálið, menntun og
hefðir sem ég tilheyri hvort sem mér líkar það
betur eða verr. En allir þessir þættir hafa þróað
það tungumál sem býr í verkum mínum. Þeir
hafa einnig haft áhrif á uppbyggingu þeirra –
það hvernig þau þróast. Ég hef samt sem áður
engin tengsl við sjálf trúarbrögðin, heldur ein-
ungis við menningarlega bakgrunninn.“
Nú ertu Bandaríkjamaður, en vinnur mjög
mikið í Evrópu og virðist hafa sterk tengsl við
þann heim, sem stundum er vísað til í banda-
rískri menningu sem „gamla heimsins“?
Roni játar því og segir að mörgum í Banda-
ríkjunum finnist verkin hennar bera sterkan
svip af evrópskri list.
„Ég held að ástæðan fyrir því liggi í þeim eig-
inleikum sem ég hef reynt að ná fram í verk-
unum – án þess að ég geti þó dæmt um það. Í
mínum huga er form og hugmyndafræðilegur
grundvöllur mjög samtvinnaður í verkunum
mínum. Það væri vitaskuld einföldun að segja að
flestir bandarískir listamenn væru í þeim skiln-
ingi andstæða við mig, en kannski má halda því
fram að þeir hneigist frekar til að útiloka hluti
heldur en innlima þá í verkum sínum. Ef við lít-
um á suma strauma, svo sem naumhyggjuna, þá
er ljóst að til þess að hún geti orðið að veruleika
þarf að útiloka mjög margt vegna þess hve form-
ið er ósveigjanlegt. Að mínu mati er slík tilhneig-
ing til útilokunar að einhverju leyti afrakstur
menningar sem hefur lítil söguleg tengsl.
Bandaríkjamenn þrífast á því að eiga sér ekki
sögu og meta ekki tengslin við tímann, hefðir og
siðvenjur.
Sjálfri finnst mér þó auðvelt að finna merkium bandaríska orku í verkunum mínum,ekki síst í þeirri þörf sem ég hef fyrir ný-sköpun. Í mínum huga er nýsköpunar-
þörfin eitthvað það mikilvægasta sem banda-
rískt þjóðlíf hefur upp á að bjóða. Kapítalískt
hagkerfi felur í sér frekar óljósar hugmyndir um
hvatningu og nýsköpun. Í list gegnir öðru máli,
þar er nýsköpunin sá brennipunktur þar sem allt
smellur saman. Ég sé engan tilgang í því að
stunda listsköpun ef ekki er um að ræða nýsköp-
un í þeim mæli að eftir því sé tekið. Nýsköpunin
verður að vera nægilega mikil til þess að knýja
listamanninn og einnig áhorfandann til þess að
endurnýja tengsl sín við umheiminn. Nýsköpun
á einnig að fela endurnýjun í sér. Það er þó ekki
eins og það þurfi að kvikna á alveg nýrri peru í
hvert sinn sem list er sýnd – tengslin geta end-
urnýjast með óræðari hætti. En þessi þáttur list-
arinnar er að ég held grundvallaratriði í því sem
ég er að fást við.“
Við höfum stundum rætt um minnið og hvern-
ig það starfar í tengslum við fortíðina, bæði hina
sammanlegu og þá persónulegu. En hvað þá með
minnið eins og það kemur fram í verkunum þín-
um? Þú vinnur gjarnan þannig að yfirborð verk-
anna er það sem blasir við, en þó aldrei án þess
að áhorfandinn geri sér fulla grein fyrir því sem
býr undirniðri. Þetta kemur m.a. fram í því
hvernig þú sýnir verkin þín, þú virðist hafa mik-
inn áhuga á dýpt og því sem leynist í djúpinu í
sálfræðilegum skilningi. Þú notar t.d. vísanir í
myndmál völundarhúsa, sjónhverfinga og spegl-
unar í verkum sem tengjast hrauni, sauðfjár-
réttum, heitum laugum – og í uppsetningu verka
þar sem eitt verk er t.d. sýnt í tveimur aðskildum
rýmum.
Hvað laugarnar varðar, þá var ég tildæmis aldrei að hugsa um laugar semslíkar í því verki þótt það sé undan-tekningarlítið það sem fólk man eftir,“
segir Roni og brosir við. „Í mínum huga var hug-
myndin á bak við verkið einfaldlega heitt vatn,
en heitt vatn er vitaskuld ekki nærri eins sjón-
rænt og það er skynrænt. Tilvist lauganna er
augljóslega innan þess samhengis. Þegar horft
er á þessar myndir mínar af heitu vatni þá blasir
við að innihaldið sjálft sést ekki með berum aug-
um, þ.e.a.s. ylurinn í vatninu, heldur verður að
raða upplýsingunum á myndinni saman til að
átta sig á því samhengi. Sjónræni þátturinn er
hluti af reynslu áhorfandans en það sem ég hef
mestan áhuga á að beina sjónum mínum og
áhorfandans að, tengist fremur nærveru verks-
ins í víðari skilningi eða hinni skynrænu reynslu.
GLÍMAN VIÐ A
Í dag fer fram í Háskólanum á Akureyri opnun og tileinkun á verkinu „Some
Thames“ eftir bandaríska listamanninn Roni Horn. Verkið er gjöf hennar til háskól-
ans, en Horn segir Ísland hafa boðið henni upp á lifandi, gagnvirkt samband, er
líkja má við samtal sem enn er í fullum gangi. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR fór
með henni í ferðalag um Snæfellsnes og ræddi við hana um þann efnivið sem finna
má í augnablikinu og um upptök og endalok sjálfsins.
Úr verkinu Dictionary of Water/Orðabók um vatn; 2001. Ein fjölmargra mynda af ánni Thames sem ratað hafa í ýmis verk Roni Horn, m.a. verkið
Some Thames, sem hún hefur gefið Háskólanum á Akureyri.
„Verk Horn færa okkur
lykil – leið til að opna
gátt minnis okkar er
skapar svigrúm á ferða-
lagi okkar um og í gegn-
um tímann.“
(Bell Hooks, bandarískur rithöfundur)