Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. OKTÓBER 2003 13 F YRSTA bindi Biskupa sagna er af- ar veglegt rit og er því er skipt í tvo hluta sem hvor um sig er um fjögur hundruð blaðsíður. Í þessu fyrsta bindi eru prentuð þrjú forn rit, Kristni saga sem Sigurgeir Steingrímsson bjó til prentunar, Kristni þættir sem Ólafur Hall- dórsson bjó til prentunar og Jóns saga helga sem Peter Foote bjó til prentunar, en ritstjóri er Jónas Kristjánsson. Í fyrri hluta má finna marg- víslegt fræðilegt efni varðandi sögurnar, þ.e. rit- gerðir eftir annars vegar Ásdísi Egilsdóttur og hins vegar Guðrúnu Ásu Grímsdóttur, auk for- mála eftir Sigurgeir, Ólaf og Peter, en í síðara hluta eru sögutextarnir sjálfir með skýringum, ásamt viðaukum og nafnaskrá. Spurður um útgáfuna segir Jónas þá Ólaf og Peter hafa verið sjálfkjörna til verksins. „Ólafur vegna þess að hann hafði gefið út Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu, en hinir svokölluðu Kristnir þættir hafa verið felldir inn í þá sögu. En Peter vegna þess að hann hefur verið að fást við sögu Jóns helga í meira en fimmtíu ár. Ólaf- ur er þegar búinn að gefa Ólafs sögu út í ritsafn- inu Editionies Arnamagnæanæ hjá Árnastofn- un í Kaupmannahöfn og Peter hefur um langt skeið unnið að nýrri vísindaútgáfu á Jóns sögu helga fyrir sama ritsafn sem væntanleg er nú í vetur,“ segir Jónas og bendir á að Peter er fyrsti erlendi fræðimaðurinn sem býr verk til prent- unar fyrir Fornritafélagið, en Peter er fyrrver- andi prófessor í norrænum fræðum við Univers- ity College í Lundúnum. Mikil kímni í sögunum Hvað var það við Jóns sögu helga sem heillaði þig, Peter? „Í fyrsta lagi þá hefur þessi saga aldrei verið gefin almennilega út, þ.e. eins og hún ætti að vera gefin út. Auk þess hef ég alltaf verið mjög hrifinn af Jóni helga, enda var hann áreiðanlega góður maður. Það var t.d. Jóni helga að þakka að stofnaður var skóli á Hólum, en flestir rithöf- undar, sagnfræðingar og guðfræðingar á 12. öld komu úr þeim skóla. Auðvitað er alltaf erfitt að greina hvað er satt í sögunum um hann og hvað er skáldað, en samt er þetta rammíslenskt efni og mjög vel sagt frá því. Þetta eru skemmtilegar sögur og sumar jarteiknir eru þess eðlis að auð- veldlega má skynja hvernig líf almennings var á þessum tíma. Auk þess er mikil kímni ríkjandi í sögunum þannig að mér hefur aldrei leiðst að vinna við þær,“ segir Peter. Er alþýðan fyrirferðarmeiri í Biskupa sögum en í öðrum fornbókmenntum? „Já, sérstaklega þó í jarteiknasögunum, þ.e. kraftaverkasögunum. Alþýðan kemur nánast ekkert fyrir í öðrum fornbókmenntum. En al- menningur leitar varla til heilags manns nema vera í einhvers konar nauðum. Í sögunum má lesa um menn sem eru hugsjúkir um heilsu barna sinna og fólk sem biður fyrir heimilisdýr- um sínum, því án þeirra væri það bjargarlaust, og Jón hjálpaði alltaf ef heitið var á hann. Í einni sögunni má lesa um konu sem hét á Jón helga sökum mikils músagangs á heimili sínu og að sjálfsögðu eyddi Jón músunum,“ segir Peter. „Þannig var engin bón eða vandamál of smá- vægileg í augum dýrlinganna,“ segir Jónas. Hvernig flokkast Biskupa sögur sem bók- menntagrein? „Biskupa sögur tilheyra bókmenntagrein sem er ekki alveg íslensk, heldur fremur alþjóð- leg. Þess vegna er kannski auðveldara fyrir út- lendinga að fást við þær, að nokkru leyti að minnsta kosti. Því það er varla hægt að bera þær aðeins saman við aðrar íslenskar sögur sök- um þess hve sérstæðar þær eru,“ segir Peter. „Biskupa sögur eru þannig mitt á milli er- lendra helgisagna og íslensku sagnanna, bera keim af hvoru tveggja. Sérstaklega bera dýr- lingasögurnar alþjóðlegan keim, því að sumu leyti var evrópskur lærdómur, trúarlíf, sálmar og helgisögur um útlenda dýrlinga fyrirmyndin að þessum sögum,“ segir Jónas. „Raunar voru Íslendingar mjög fljótir að tileinka sér stílinn á þessum sögum. Þannig hefði enginn getað rekið uppruna Jóns sögu helga til Íslands hefði hún verið þýdd á latínu, því hún virðist alevrópsk. Auðvitað stafar það af því að margt er bundið í hefðum í þess konar ritum og sumum kann að þykja það leiðinlegt, en það þykir mér alls ekki. Íslensku Biskupa sögurnar eiga það reyndar sammerkt hve vel er sagt frá í þeim og greini- legt er að höfundarnir hafa mjög góða tilfinn- ingu fyrir málinu,“ segir Peter. Er vitað hvaða hlutverki þessar sögur gegndu á ritunartímanum? „Það er enginn vafi á því að þessar sögur hafa verið lesnar bæði til fróðleiks og skemmtunar. Þær hafa tvímælalaust gegnt því hlutverki að styrkja fólk í trúnni og líklega voru þær lesnar upp í guðsþjónustum,“ segir Jónas. Besta leiðin til að læra málið Hvert er álit þitt á útgáfu Fornritafélagsins? „Ég hef miklar mætur á þessari ritröð Forn- ritafélagsins og ég held að margir Íslendingar geri sér alls ekki grein fyrir hve mikillar virð- ingar Fornritafélagið nýtur meðal fræðimanna erlendis. Þið eruð að gefa út klassísk verk og ég er afar stoltur af að fá að vera með í svona út- gáfu,“ segir Peter. Hver er staða íslenskra fræða í dag, bæði hér heima og erlendis? „Ég er hræddur um að áhuginn úti fari minnkandi, því það er margt sem menn vilja fremur gera en að leggja stund á norræn fræði. Í Bretlandi eru þó enn þrír háskólar þar sem hægt er að leggja stund á norræn fræði og ís- lensku og unga fólkið sem tekið hefur við af okk- ur sem eldri erum virðist afar efnilegt,“ segir Peter. „Ég get tekið undir þetta, að sumu leyti er þetta hnignandi fag erlendis. Raunvísindin virð- ist bæði njóta hærri fjárframlaga og fremur heilla unga fólkið og þess vegna er þetta kannski eðlileg þróun. En hér á Íslandi standa þessi fræði mjög styrkum fótum og það er alltaf margt ungt, gott fólk sem kemur til þess að læra þessi fræði. Í þessu samhengi má nefna að Árnastofnun er ásamt deildinni í Háskólanum hyrningarsteinn undir þessum fræðum,“ segir Jónas. Til hverra teljið þið Biskupa sögur helst höfða? „Ég hugsaði útgáfuna þannig að hún gæti höfðað til allra bókhneigðra Íslendinga. Hug- myndin með útgáfunni var að hún væri í senn al- þýðleg og fræðileg,“ segir Jónas. „Eins og þú sérð þá kemur bókin út í tveimur hlutum og auð- vitað getur fólk bara lesið seinni hlutann, þ.e. sögurnar sjálfar og sleppt því að lesa formálana í fyrra bindinu,“ segir Peter og hlær. „Ég spái því nú samt að margir muni glugga í formálann, bæði Íslendingar og útlendingar því þarna er einmitt mikinn fróðleik að finna,“ segir Jónas. Hvað geta t.d. yngri kynslóðir helst lært af svona fornum ritum? „Í fyrsta lagi er þetta góð leið til þess að fræð- ast um líf forfeðra okkar og í öðru lagi læra menn tungumálið. Það er svo þægilegt fyrir nú- tíma Íslendinga að það leikur enginn vafi á því hvernig eigi að skrifa fagra og rétta íslensku, því það er sú íslenska sem er meðal annars á Bisk- upa sögunum. En ég tel að menn læri best að skrifa íslensku með því að lesa rit á borð við þessi,“ segir Jónas að lokum. RAMMÍSLENSKT EFNI MEÐ ALÞJÓÐLEGUM BLÆ Fyrsta bindi Biskupa sagna kom nýverið út hjá Hinu íslenzka forn- ritafélagi. Af því tilefni ræddi SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR við Jónas Kristjánsson ritstjóra og Peter Foote, einn þriggja er sáu um útgáfuna. silja@mbl.is Morgunblaðið/Sverrir Fræðimennirnir Jónas Kristjánsson og Peter Foote fletta hinum nýútkomnu Biskupa sögum. Upphafssíðan úr Helgastaðabók er sýnir biskupsvígslu Nikulásar helga. Útrétt hönd Guðs frá himnum minnir á að vald biskupa er þegið frá almættinu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.