Lesbók Morgunblaðsins - 25.10.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 25.10.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. OKTÓBER 2003 ÞÓRDÍS Aðalsteinsdóttir myndlistarkona opnaði fyrstu einkasýningu sína í Stefan Stux galleríinu í Chelsea í New York á dögunum. Um er að ræða ellefu akrílmálverk sem Þór- dís hefur unnið að síðan hún útskrifaðist úr School of Visual Arts (Sjónlistarskólanum) í New York í maí síðastliðnum. Í fréttatilkynningu frá galleríinu er mynd- um Þórdísar lýst sem djúpstæðum sviðsetn- ingum listakonunnar á sjálfri sér og þeim sem annað hvort standa eða hafa staðið henni nærri. Ákveðin sérviska er sögð einkenna verkin hennar og að henni takist á sérstæðan hátt að miðla hinum táknrænu tengslum milli manneskjunnar, plantna og dýra. Meðal leið- sagnastefja sem aðstandendur gallerísins telja að greina megi í myndum hennar eru ásthneigð, þráhyggja, framandgerving, ótti og efi. „Ég tók þátt í samsýningu hjá Stefan Stux galleríinu í febrúar sem leið en þá var ég með fimm smærri málverk sem ég hafði unnið í skólanum. Þær myndir voru í raun þematískt tengdar því sem ég er að sýna núna. Í kjölfar- ið bauð Stefan Stux galleristi mér að halda einkasýningu í stóra salnum. Þannig má segja að sýningin núna sé nokkuð beint fram- hald af sýningunni þá,“ segir Þórdís aðspurð um tilurð sýningarinnar. Að sögn er Þórdís komin á mála hjá galleríinu sem þýðir að henni býðst að halda aðra einkasýningu þar aftur innan tveggja ára. Staðsetningin heillaði Samkvæmt upplýsingum frá galleríinu var þegar búið að selja átta af ellefu verkum áður en sýningin var opnuð. En Þórdís segir nokk- uð algengt að safnarar sem áhuga hafi á ákveðnum listaverkum á sýningu kaupi þau áður en sýning er opnuð. Þórdís segist strax hafa heillast af listaum- hverfinu í New York þegar hún kom þangað fyrst í heimsókn fyrir nokkrum árum. Í fram- haldinu ákvað hún að setjast að í borginni og fara í framhaldsnám, en hún hafði þá þegar lokið grafíknámi frá Myndlistar- og handíða- skóla Íslands árið 1999. „Í raun var það stað- setningin sem heillaði mig mest, þ.e. New York borg sjálf. Það er svo ótrúlega frjótt listalíf hér og mikið að gerast. Ég kom hing- að í heimsókn og ákvað meðan ég var í þeirri heimsókn að ég vildi búa hérna.“ Sýningin stendur til 15. nóvember næst- komandi. Aðspurð hvað taki við að henni lok- inni segir Þórdís það enn allsendis óráðið. „Vonandi bara fleiri sýningar.“ Þórdís Aðalsteinsdóttir heldur fyrstu einkasýningu sína í Stefan Stux galleríinu í New York „ÓTRÚLEGA FRJÓTT LISTALÍF HÉR“ Málverkið Verkur í blöðruhálskirtlinum (Prostate pain) eftir Þórdísi Aðalsteinsdóttur. MENNINGARMIÐSTÖÐIN áHellnum á Snæfellsnesi verðurvígð með ljósmyndasýningunniUndir Jökli í dag kl. 14. Á sýning- unni eru 57 ljósmyndir þriggja ljósmyndara sem teknar voru á miðri síðustu öld. „Hér er um að ræða einstakar ljósmyndir frá nýstofn- uðum þjóðgarði og friðuðu svæði í nágrenni hans, en myndirnar voru valdar sérstaklega með tilliti til þess að þær gæfu góða innsýn í horfna tíð í því umhverfi sem nú er Þjóðgarð- urinn Snæfellsjökull,“ segir Þorsteinn Jónsson þróunarstjóri uppbyggingarverkefnisins á Hellnum. „Allar myndirnar á sýningunni voru senni- legast teknar í tveimur ferðum Ferðafélags Ís- lands rétt fyrir 1940. Ferðafélag Íslands leigði strandferðaskipið Laxfoss sem flutti ferða- félaga til Arnarstapa, sem tóku sér síðan ferð á hendur og gengu allt svæðið frá Arnarstapa og að Hellissandi, sem á þeim tíma var vegalaust svæði. Flestar myndirnar á sýningunni eru teknar af Þorsteini Jósepssyni og Páli Jóns- syni, en þeir mynduðu mikið fyrir Ferðafélagið á sínum tíma. Auk þess á Stefán Nikulásson eina mynd á sýningunni. Næmt auga fyrir sérstöðu landsins Bæði Þorsteinn og Páll höfðu einstaklega næmt auga fyrir sérstöðu landsins. Þeim tókst að fanga sérstöðu þessa svæðis á filmu, þar á meðal torfbæina, sem lögðust í eyði skömmu síðar, og ýmis menningarverðmæti á borð við vörina á Gufuskálum sem er elstu menjar um sjósókn á Íslandi. Á steinunum í fjörunni má sjá förin eftir skipskjölinn þar sem menn ýttu bátum sínum úr vör. Auk þess má sjá myndir af fiskbyrgjum og torfbæjum sem að mestu leyti er allt horfið í dag. Þannig eru ljósmyndirnar á sýningunni einstakar heimildir um liðna tíð.“ Við vígslu Menningarmiðstöðvarinnar í dag verða kynnt áform Hellisvalla ehf. um upp- byggingu ferðamannaþorps og frístunda- byggðar á Hellnum, en norsk arkitektastofa vann að útfærslu þorpsins. „Hugmyndin er að í ferðamannaþorpinu gegni sérhvert hús ákveðnu hlutverki. Þannig er ætlunin að vera m.a. með fjölnota sýningarhús fyrir leiksýning- ar og tónleika, hótel, kaffihús, krambúð, gallerí, spádómshús, handverkshús og snikkarahús.“ Þorsteinn segir að byggt verði sérstakt Norðurlandahverfi þar sem hvert Norður- landanna fái sitt eigið hús þar sem menning viðkomandi lands verði kynnt. Áætlað er að öll húsin verði byggð við eitt torg og að þar verði staðið fyrir ýmsum uppákomum. Grundvöllur þess að fólk staldri við „Stærsta byggingin á staðnum verður safn- amiðstöð en þar er ætlunin að koma upp sögu- safni, sem sett verður upp með svipuðum hætti og sýningar sem Ernst Backman hefur sett upp í Perlunni. Að auki verður komið upp eld- fjallasafni sem byggist á safninu sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur gert um eldfjöll vítt og breitt um heiminn. En auðvitað munum við einblína sérstaklega á íslensk eld- fjöll. Síðan má nefna Jules Verne stofu sem komið verður upp, en segja má að Verne hafi komið Snæfellsjökli á kortið á erlendri grundu. Til gamans má geta að Frakkar hafa sýnt þessu verkefni mikinn áhuga.“ Aðspurður hvaða gildi afþreyingarþorp og menningarmiðstöð hafi fyrir Snæfellsnesið svarar Þorsteinn því til að hvort tveggja sé grundvöllur þess að fólk stoppi á staðnum. „Með fræðslu þessara safna sem hér verða hafa gestir möguleika á að kynnast þessum einstaka sögustað og þeirri stórbrotnu náttúru sem þarna er. Utanvert Snæfellsnesið hefur lengst af verið nokkuð lokuð bók, bæði fyrir íslenskum ferðamönnum og erlendum, en með tilkomu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls hefur ferðafólk möguleika á að kynnast einstökum náttúrufyr- irbrigðum og merkilegri sögu.“ EINSTAKAR HEIMILDIR UM LIÐNA TÍÐ Ljósmynd/Þorsteinn Jósepsson Sagnir hermdu að Búðahellir væri geysilangur og tengdist Surtshelli í Borgarfirði og lægi jafnvel undir Faxaflóa suður á Reykjanesskaga og að gullsandur væri í hellisbotninum. Ljósmynd/Þorsteinn Jósepsson Kjölfar í grjótinu í lendingu á Gufuskálum er til vitnis um sjósókn í aldanna rás. Ljósmynd/Þorsteinn Jósepsson Franski rithöfundurinn Jules Verne kom Snæ- fellsjökli á kortið erlendis með skáldsögu sinni um leyndardóma Snæfellsjökuls. Ljósmynd/Páll Jónsson Fjárréttir og bátauppsátur á Hellnum sem í dag eru rústir einar. silja@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.