Lesbók Morgunblaðsins - 01.11.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 01.11.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. NÓVEMBER 2003 SEINNI hluti afmælissýningar Hafnarborgar verður opnaður í Sverrissal og Apóteki kl. 15 í dag, laugardag. Sýndar verða gjafir (lista- verk) sem safninu hafa borist með áherslu á listaverkagjöf stofnenda Hafnarborgar, þeirra Sverris Magnússonar (1909–1990) og Ingibjargar Sigurjónsdóttur (1914–1986). Sýningin er haldin í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá stofnun safnsins, en fyrri hluti afmælissýningarinnar var í aðalsal Hafnar- borgar frá 1. júní til 4. ágúst í ár. Sýningin stendur til 22. desember. Hið stóra og smáa sem hafið geymir Þá verður opnuð í aðalsal sýningin Hafið. Þar gefur að líta teikningar og málverk eftir Jón Baldur Hlíðberg og höggmyndir eftir John Th. Josefsen. Sýningin fjallar um hafið í öllum sínum myndum og lífríki þess. Jón Baldur er kunnur fyrir myndir sínar úr íslenskri náttúru, þar sem hann túlkar líf- verur á öllum stigum af vísindalegri ná- kvæmni. Jón Baldur sýndi í október og nóv- ember 1999 myndir af fuglum og fiskum í Hafnarborg en í þetta sinn teiknar Jón Bald- ur lífríkið í hafinu í öllum sínum fjölbreyti- leika, frá því smæsta til þess stærsta. Jón Baldur var ásamt Ævari Petersen fuglafræðingi tilnefndur til Íslensku bók- menntaverðlaunanna árið 1998 fyrir bókina Íslenskir fuglar en að auki hefur hann fengið verðlaun Hagþenkis og heiðursviðurkenn- ingu úr Bókasafnssjóði höfunda. John Th. Josefsen myndhöggvari er bú- settur í Noregi og þar hlaut hann menntun sína við Bergens Kunsthåndverkskole. Hann hefur stóra vinnustofu í Sele þar sem hann gerir bæði stórar og smáar höggmyndir. Hann hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða í Noregi frá byrjun áttunda áratugarins og fram á þennan dag. Á sýningunni í Hafnarborg er hafið við- fangsefni hans, öldur þess og hafsbotninn. Verk John Th. Josefsen prýða margar opin- berar byggingar í Noregi. Sýningin stendur til 24. nóvember. Safnið er opið alla daga nema þriðjudaga frá kl. 11– 17. Listaverkagjafir og hafið Jón Baldur Hlíðberg og John Th. Josefsen í Hafnarborg. G ÍSLI Sigurðsson var um 30 ára skeið ritstjóri Lesbókar Morgun- blaðsins en er einnig vel þekktur sem listmálari og ljósmyndari. Segja má að hann sameini kunnáttu sína og list- fengi í bókunum þar sem þær eru fagurlega myndskreyttar ljósmyndum Gísla auk þess sem hann ritar textann af þekkingu og ást á viðfangsefninu. „Bókin er framhald bókar sem kom út í fyrra með sömu yfirskrift, Seiður lands og sagna, og fjallaði um svæði sunnan jökla, aust- an úr Lóni og vestur undir Eyjafjöll. Þessi bók fjallar hins vegar um söguslóðir austan úr Fljótshlíð og vestur í Biskupstungur, þar sem sannarlega er af miklu af taka,“ segir Gísli. Stórfengleg náttúra uppsveitanna „Ég fjalla annars vegar um sögusviðið á sjónrænan hátt með 350 ljósmyndum sem teknar eru á öllum árstímum, en hins vegar er textinn meira um atburði og fólk, alveg frá landnámi þar sem landnámsmenn og söguper- sónur Njálu koma við sögu. Hér er maður sannarlega á Njáluslóðum, en síðar verða Ár- nes- og Rangárþing yfirráðasvæði Haukdæla og Oddaverja og Skálholt annar höfuðstaður landsins í sjö aldir. Í meginatriðum stikla ég stórt, kem við á höfuðbólum og öndvegisjörð- um; byrja á Hlíðarenda og rek sögu jarðarinn- ar allt frá landnámi til nútímans og bregð ljósi á Fljótshlíðina. Keldur eru næsta viðfangsefni og í framhaldi af því er fjallað um drottningu fjalla á Suðurlandi, Heklu, og Heklubæina, síð- an Skarð á Landi og Hruna og fleiri bæi í Hreppum. Vestur í Biskupstungum er Skál- holt sjálfsagður viðkomustaður en einnig Bræðratunga, Úthlíð og Haukadalur.“ Þar er Gísli sannarlega á heimaslóðum því hann er sjálfur fæddur og uppalinn í Úthlíð. „Sérstakt viðfangsefni bókarinnar er stór- fengleg náttúra í uppsveitum Suðurlands og þar er að mörgu að hyggja. Nægir að nefna fegurð Fljótshlíðar, lindasvæði Keldna, um- hverfi Heklu, Gjána og Háafoss í Þjórsárdal, Brúarhlöð, Gullfossgljúfur og Gullfoss, hvera- svæðið í Haukadal og raunar allt Úthlíðarland en bókin endar á umfjöllun um Brúarárskörð, eitt mesta náttúruundur á Suðurlandi.“ Byggingarafrek og merkisfólk „Að langstærstum hluta fjallar texti bókar- innar þó um fólk, allt frá sögupersónum úr Njálu og hinum menntuðu heimsborgurum í Haukadal til fólks sem býr á þessum stöðum í byrjun 21. aldar,“ segir Gísli. „Sagan er við hvert fótmál á þessum slóðum; hvergi þó eins og í Skálholti. Þar væri efni í margar bækur, en fyrir valinu varð að vekja athygli á því sem mér finnst vera menningarsögulegt stórvirki og um leið mesta byggingarafrek á Suðurlandi síðan land byggðist. Þar á ég við Klængs- kirkju, kirkjuna sem Klængur Þorsteinsson biskup lét reisa í Skálholti árið 1153 og stóð hún í 156 ár þar til hún brann. Hún var miklu stærri og breiðari en núverandi Skálholts- kirkja, öll úr timbri. Burðarviðanna aflaði Klængur í Noregi; þeir voru fluttir hingað á skipum, dregnir á ísum frá Eyrarbakka upp að Skálholti og til þess notuð skaflajárnuð naut. Timbrið að öðru leyti var tekið af rekafjörum Skálholtsstóls. Klængur hélt svo 700 manna veislu þegar byggingunni var lokið. Þrjár næstu kirkjur í Skálholti voru að vísu jafn- stórar en þetta var fyrsta byggingin af þessari stærðargráðu og afrekið því einstakt á þeim tíma. Ég vildi vekja athygli á Klængskirkju vegna þess að ég minnist þess ekki úr skóla- bókum eða Íslandssögukennslu að þar væri minnst á þetta byggingarafrek. Mér þótti líka verðugt að vekja athygli á ýmsu merkisfólki, jafnvel afreksfólki, sem hef- ur gleymst í tímans rás. Ég nefni til dæmis hjónin Sigríði og Magnús í Skarfanesi, sem eignuðust 21 barn og þurftu aldrei hjálp. Ann- ar afreksmaður var Skúli Guðmundsson, bóndi á Keldum, sem bjargaði jörðinni undan ágangi sandsins, og Brynjólfur Jónsson, lögréttumað- ur í Skarði á Landi, sem uppi var um 1600 og telst fyrsti nafngreindi myndlistarmaður þjóð- arinnar. Eftir hann eru til mikil dýrmæti í myndum sem skornar eru í hvalbein og horn. Samtímamaður Brynjólfs var Björn Grímsson, sýslumaður í Árnesþingi. Hann er hins vegar fyrsti nafngreindi listmálarinn, höfundur mál- verka á predikunarstól Bræðratungukirkju frá um 1600. Meðal gleymdra merkismanna sem ég fjalla um er Þorsteinn Þorsteinsson. Hann hafði lært jarðrækt og matjurtarækt í Danmörku og kenndi mönnum þessa ræktun eftir að heim kom og í Úthlíð, þar sem hann bjó um 1850, rak hann jarðræktarskóla. Hann kenndi mönnum meðal annars að gera beðasléttur í túnum, en þessi skóli gleymdist svo gersamlega að við vissum ekki um hann þegar ég var að alast upp í Úthlíð.“ Vopnabúnaður Gunnars á Hlíðarenda Ég hef líka dustað rykið af Vísa-Gísla Magn- ússyni sem bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð um miðja 17. öld og er líklega einn lærðasti Íslend- ingur fyrr og síðar. Hann nam í Hollandi og Danmörku; lagði stund á læknisfræði, stærð- fræði, tungumál, heimspeki, grasafræði, landafræði og stjórnfræði. Hann giftist síðan forríkri sýslumannsdóttur frá Hlíðarenda og var sýslumaður þar frá 1653–1686. Vísi-Gísli stundaði umfangsmiklar ræktun- artilraunir sem virðast hafa mistekist nema kúmenið lifði. Þessi brautryðjandi var greini- lega alltof langt á undan sinni samtíð, en samt barn síns tíma og vildi koma upp íslenskum aðli. Ég nefni einnig til sögunnar óþekktan fjöl- miðlamann, Bjarna í Bolafæti í Hrunamanna- hreppi. Hann bjó þar um og eftir 1800. Hann var læs á dönsku og fékk dönsk dagblöð með vor- og haustskipum. Þá hóaði hann saman ná- grönnum sínum og las fyrir þá 6–8 mánaða gamlar fréttir af Napóleónstyrjöldunum. Hann var langalangafi minn og líklega hef ég fengið fjölmiðlagenið frá honum. Sonarsonur hans, Einar Jónsson, myndhöggvari frá Galta- felli, erfði það ekki en vissi hins vegar frá því að hann var smádrengur að hann ætlaði að verða myndhöggvari og ekkert annað. Þessi bók er ekki hliðstæð við árbækur Ferðafélags Íslands að því leyti að fjallað sé um hvern ein- asta blett á svæðinu. Hér hefur geðþótti og áhugi höfundarins fengið að ráða ferðinni um hvar gripið er niður. Þetta eru auðvitað slíkar söguslóðir að margsinnis hefur verið fjallað um þá sem komist hafa á „spjöld sögunnar“. Ég velti fyrir mér ráðgátunni Gissuri jarli og vopnabúnaði Gunnars á Hlíðarenda, kvenskör- ungunum Steinvöru á Keldum og Valgerði biskupsekkju í Skálholti, en virði líka fyrir mér nútíma stórbúskap í Skarði og í Bræðratungu. Í bókarlok er ég kominn vestur að Brúará; enda á Rótarsandi innan við Brúarárskörð, þar sem Brúará á upptök sín. Það er þó ekki mark- mið mitt að skrifa slíkar bækur um allt landið, til þess hefði ég þurft að byrja miklu fyrr. Væntanlega kemur þó enn ein eftir ár sem mun fjalla um svæðið sunnan af Reykjanesi og upp að Húsafelli,“ segir Gísli Sigurðsson sem hvergi nærri hefur sagt sitt síðasta orð. LANDSLAG, ATBURÐIR OG FÓLK Gísli Sigurðsson sendir í haust frá sér annað bindi í bókaflokknum Seiður lands og sagna og ber bókin titilinn Söguslóðir á Suðurlandi. HÁVAR SIGURJÓNSSON ræddi við hann. Morgunblaðið/Kristinn „Sagan er við hvert fótmál á þessum slóðum,“ segir Gísli Sigurðsson. havar@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.