Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. NÓVEMBER 2003 E INS og fram hefur komið bendir allt til þess að Jessica Morgan verði sýningarstjóri á Listahátíð vorið 2005, þar sem megin- áherslan verður lögð á myndlist samtímans. Þó að hún væri önn- um kafin við uppsetningu á viða- mikilli sýningu í Tate Modern þegar blaðamaður leitaði hennar gaf hún sér tíma til að setjast niður og reifa hugmyndir sínar um hugsanlegt vægi slíkrar hátíðar á Ís- landi og hvernig hægt væri að standa að henni. „Það er stutt síðan ég fór að vinna hér við Tate Modern, ég byrjaði í desember á síðasta ári,“ segir Jessica þegar hún er spurð um feril sinn. „Og þessi sýning sem ég er að setja upp hér núna, undir yfirskriftinni Common Wealth, er fyrsta stóra verkefnið mitt í þessu safni. Áður en ég kom hingað bjó ég um tólf ára skeið í Bandaríkjunum. Þar starfaði ég síð- ast sem yfirsýningarstjóri við Samtímalista- safnið í Boston, en sýningarstefnan þar var mjög ólík því sem við eigum að venjast hér á Tate; safnið mun minna og megináherslan á sam- tímalist, frekar en nútímalist. Við vorum með átta til tíu sýningar á ári og alla þróunarvinnu þurfti því að vinna mjög hratt. Við einbeitt- um okkur sérstaklega að því að koma þeirri alþjóðlegu samtíma- list á framfæri sem ekki hafði enn náð augum fjöldans, og stóðum t.d. fyrir fyrstu stóru sýningunni fram að þeim tíma á verkum Ólafs Elíassonar í Bandaríkjunum. Aðr- ir listamenn sem við sýndum í Boston voru á áþekkum stað í ferli sínum og hann var þá; vel þekktir innan listheimsins en ekki endi- lega meðal hins almenna safn- gests. Áður en ég varð yfirsýningar- stjóri í Boston vann ég hjá Sam- tímlistasafninu í Chicago, sem stærðar sinnar vegna er líklega líkara Tate Modern, auk þess sem það á mikla safneign. Ég hef því unnið á þeim nótum líka – sem listfræðingur með tengingu við arfleifðina – þó að megnið af vinnu minni þar hafi reyndar tengst al- þjóðlegri samtímalist. Ég vann t.d. með listamönnum á borð við Monu Hatoum, sem býr í Bretlandi en er frá Palestínu, og japanska listamanninum Mariku Mori, svo einhverjir séu nefndir. Og enn áður vann ég í Fogg-listasafninu í Harvard sem á safneign er spannar allt frá fornöld að samtím- anum, svo það er enn eitt sjónarhorn sem ég hef lært á að glíma við. Einnig vann ég um skeið í MoMa, nútímalistasafninu í New York, svo ég hef vissulega komið víða við,“ segir Jessica hlæjandi. Hún hefur einnig skrifað töluvert um sam- tímalist, bæði í blöð og listtímarit, og segist hafa notað það sem leið til að halda sambandi við breskan listheim og Evrópu, en það telur hún mikilvægt þegar maður starfar í Banda- ríkjunum. Virkjar listamennina sjálfa til samstarfs „Það sem er óvenjulegt við starfið hérna í Tate er fyrst og fremst það að störfum sýning- arstjóra er ekki skipt upp með tilliti til tímabila eða þeirra miðla sem listaverkin eru unnin í. Við vinnum einfaldlega saman að því sem ligg- ur fyrir. Hér ríkir þó skilningur á því að ég hef mest sinnt samtímanum á mínum ferli og það er því sviði sem til mín eru gerðar kröfur. Þeg- ar ég kom hingað til starfa hafði enn ekki verið sett saman yfirlitssýning á samtímalist – svo undarlega sem það hljómar – Tate Britain hef- ur hins vegar sinnt því þannig að eftir hefur verið tekið. Það sem gerist í túrbínusalnum til- heyrir auðvitað samtímanum en þar eru engar yfirlitssýningar. Þegar Tate Modern var opnað beindust allra augu að byggingunni og þeim grunni er bygg- ist á nútímalist. Nefna má Warhol-sýninguna, Matisse-Picasso-sýninguna og aðrar risavaxn- ar yfirlitssýningar af stórkostlegum tímabilum nútímalistar sem ekki hafði verið hægt að sinna í Tate Britain vegna plássleysis. Það má heldur ekki gleyma því að Tate Modern hefur markvisst reynt að hasla sér völl sem hlið- stæða við söfn á borð við MoMa í New York, og þurfti til þess ákveðinn tíma og svigrúm. Eftir fyrstu þrjú árin stóð safnið frammi fyrir því að vega og meta hlutverk sitt og beina sjónum sínum í auknum mæli að samtímalist. Hér höfðu verið unnar sýningar er hverfðust um einstaka listamenn en litlar tilraunir gerðar til að ná yfirsýn yfir það sem er ferskast og nýj- ast. Ég var því mjög ánægð að fá tækifæri til að setja saman sýningu eins og Common Wealth, því það er ekki oft sem manni gefst tækifæri til að sýna sneið af samtímalistum í sýningu sem er ekki of stór, en býr þó yfir samhengi. Yfirleitt er reynt að sýna verk þrjá- tíu til fjörutíu listamanna á samsýningum af þessu tagi og mér finnst þær oft þynnast mjög mikið út fyrir vikið. Ýmist týnist þema sýning- arinnar eða þá að hreinlega er reynt að finna þema sem er nógu víðtækt til að spanna nánast hvað sem er. Hin leiðin er að setja einn lista- mann í brennipunkt sem afhjúpar þá auðvitað aðeins eitt sjónarhorn. Á þessari sýningu langaði mig fyrst og fremst til að virkja listamennina sjálfa til sam- starfs. Í stað þess að velja bara verk og stilla þeim upp hlið við hlið langaði mig til þess að fá listamennina til að vinna að verkefninu sem heild. Sem betur fer voru þeir allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum í sameiginlegu verkefni. Auðvitað voru ekki öll viðbrögð þeirra jákvæð en mín skoðun er sú að það sé líka áhugavert að vinna sig í gegnum neikvæða fleti í svona ferli – finna út hvar skörun á sér stað og jafn- framt hvar fólk er raunverulega á öndverðum meiði.“ Merkingarleysan og óttinn við hið sértæka Nú virðist sem sýningin sem þú ert að vinna að hér, stærð hennar og hugmyndir þínar um tengsl einstaklinga og hópvinnu, geti að ein- hverju leyti átt við um þá vinnu sem þú hefur verið beðin um að sinna á Íslandi, í tengslum við Listahátíð vorið 2005. „Vissulega,“ svarar Jessica Morgan. „Það blasir við öllum sem vinna á sviði samtímalista að starf sýningarstjórans hefur breyst mjög mikið á síðustu tuttugu árum. Ég held að þessi knýjandi krafa um að finna nýjar leiðir til að gæða sýningar lífi, sé í rauninni sjálf orðin eitt af þeim viðfangsefnum sem sýningarstjórn snýst um í dag. Við sem stundum þessi störf verðum þó að gera okkur grein fyrir því að þessi krafa getur orðið mjög þreytandi fyrir alla aðra en okkur,“ segir hún alvarleg í bragði. „Á einhvern hátt má því segja að ég falli í þá gryfju að vilja forðast þessar dæmigerðu sýn- ingar og það sem þær fela í sér – auðvitað fylgir sami vandi öllum tvíæringum og öðrum stórum sýningum – en sá vandi tengist líka gagnrýni og heimspekilegum vangaveltum um myndlist. Á síðustu tímum höfum við t.d. í lengstu lög reynt að forðast notkun á skrifum og öðrum hugmyndafræðilegum „tækjum“ er miða að því að skapa einhvers konar frásagn- arramma fyrir áhorfandann. Og það hefur í rauninni haft það í för með sér að vægi sýning- arstjórnar hefur minnkað til muna – eða þynnst út. Þessi áhrif má rekja til 7. áratugar- ins, þar sem sú stefna varð ofan á að ekkert okkar gæti leyft sér að lýsa mjög ákveðinni skoðun, það sem við hefðum ekki leyfi til að yfirfæra vald okkar og þekkingu yfir á aðra. Við erum ennþá að kljást við áhrif þessa ótta sem birtist m.a. í mjög óljósum heildarhug- myndum að baki sýninga. Jafnvel þó að heildarhugmyndin eigi að vera opin og óljós – eins og t.d. á Útópíustöðinni á Feneyjatvíær- ingnum sem ég hafði mjög gaman af – þá má færa rök fyrir því að hún sé svo almenn að það nálgist merkingarleysu. Þessi ótti við að vera sértækur og beina sjónum sínum að því einstaka hefur að mínu mati verið alltof ríkjandi á mínu starfssviði og það er nokkuð sem mig langar til að brjóta mig frá í vinnu minni. Auðvitað tengist það þeirri tilfinningu minni að við höfum með einhverjum hætti misst trúna á hugmyndafræði og þróun „stórra“ hugmynda, sannleikurinn er auðvitað sá að eins og heimurinn er í dag þurfum við mjög mikið á þessum þáttum að halda,“ segir Morgan hreinskilnislega. „Listamenn hafa ekki endilega brugðist við með þessum hætti, og því þurfum við sýning- arstjórarnir að huga betur að okkar málum, vera hugrakkari og þora að koma merkingu á framfæri með vinnu okkar.“ Sérðu fyrir þér að slíkt væri hægt á Listahá- tíð á Íslandi? „Já, ég held það. Auðvitað væri auðveldast að búa sér til dæmigert vítt hugtak sem spann- aði „anda staðarins“ eða „landslags hans“ eða eitthvað þess háttar,“ segir Morgan og hlær. „En það væri algjörlega tilþrifalaust og ég myndi vilja forðast slíkt í lengstu lög. Ætli það megi ekki segja að mig langi til að gera eitt- hvað sem hefur meira vægi. Ég vil ekki nota orðið „ögrandi“ því það er ekki alltaf lausnin – heldur reyna að finna kveikju sem hægt er að vinna út frá sem einnig væri áhugaverð fyrir listamennina. Það þarf að finna slíkri sýningu verðugan brennipunkt, og marka henni þannig sérstöðu, í staðinn fyrir að safna bara saman aragrúa af verkum eins og þegar er gert úti um allan heim. Ég spyr hvaða rök séu fyrir því að endurtaka það sem allir eru að gera.“ Vinnur út frá listaverkunum sjálfum En hverjir myndu taka þátt í svona mynd- listarsýningu á Íslandi og á hvaða forsendum myndir þú vilja velja fólk saman? „Það sem mér finnst athyglisvert við Ísland er ef til vill sú staðreynd að það er staður sem allir vita af en fæstir hafa heimsótt. Landið er nánast eins og myndhverfing sem fólk finnur til mikillar samsömunar með – og það vekur áhuga minn. Það hafa allir einhverja skoðun á Íslandi,“ segir Morgan og hlær. En auðvitað verð ég að skoða það sem er verið að skapa þar. Þó að ég þekki til verka íslenskra listamanna sem ratað hafa inn í alþjóðlega list- heiminn verð ég að tileinka mér þá strauma sem eru til staðar í ís- lenskum myndlistarheimi, rétt eins og ég hef tileinkað mér það sem er að gerast alþjóðlega. Von mín er sú að bæði hugmyndir mín- ar um það sem er að gerast á al- þjóðasviðinu og rannsókn á ís- lensku myndlistarlífi, muni verða kveikja að góðri hugmynd. Ég hef lagt það í vana minn sem sýning- arstjóri að vinna út frá listaverk- unum sjálfum þegar ég vinn að sýningu, frekar en að vera með fyrirfram mótaðan ramma sem verkin eru síðan valin inn í. Hvað framkvæmd slíkrar sýn- ingar varðar er mér annars vegar umhugað um að þetta verði ekki óreiðukennd sýning með óljósum markmiðum og hins vegar að þetta verði ekki sýning þar sem öllum er boðið að vera með – í þeim einum tilgangi að engum finnist hann vera útundan. Það má aldrei gleyma því að stundum get- ur ákveðið listaverk þjónað mjög mikilvægum tilgangi fyrir sam- hengi sýningar, burt séð frá hvort til eru betri verk. Val á þeim nótum markast ekki einungis af því hvernig verkið er og hver hugmyndin að baki sýningarinnar er, heldur einnig hvaða listamenn eru í hópnum sem heild. Auðvitað hef ég mikinn áhuga á að sýna ís- lenska myndlist í samhengi við áhugverðustu hræringar á alþjóðavettvangi en sýningin má ekki verða að tilraun til að sýna öllum allt. Þar af leiðandi verður valið úr hópi listamanna bæði á Íslandi og erlendis með það að mark- miði að hver og einn þeirra listamanna sem taka þátt njóti sín til fullnustu. Ég vil ekki ýta neinum hópi listamanna út í jaðar þessa verk- efnis, myndi t.d. aldrei láta mér detta í hug að sýna íslenska myndlist sér. Slíkt hefur gerst og haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Mitt mark- mið er að reyna að finna réttu verkin fyrir heildarsamhengi þessa tiltekna viðburðar.“ Kynning á íslenskum listamönnum Hvaða hugmyndir hefur þú um þá skörun sem slík sýning gæti afhjúpað með tilliti til stöðu íslenskrar myndlistar í hinum alþjóðlega myndlistarheimi? „Mér finnst mjög mikilvægt að afneita ekki mikilvægi staðsetningar í listheiminum, sá þáttur er heillandi að mínu mati. Burt séð frá gæðum listaverks má fullyrða að þekking á uppruna þess er nánast ætíð mjög upplýsandi um verkið sjálft og ég myndi ekki vilja missa sjónar á þeirri staðreynd. En þetta verkefni Listahátíðar á að vera alþjóðlegur viðburður og þess vegna verður það einnig að höfða til umheimsins. Mín von er sú að slík sýning geti einnig þjónað sem kynning á íslenskum mynd- listarmönnum sem ekki hafa unnið í alþjóðlegu samhengi og þannig orðið lyftistöng fyrir myndlistarlífið á Íslandi. Þetta verkefni er til- raun til að færa íslenskum myndlistarmönnum sams konar tækifæri og kollegar þeirra njóta erlendis, beina sams konar áhuga að framlagi þeirra með því að sýna verk þeirra í samhengi við það besta erlendis frá. Þannig skapast ákveðið samspil, samræða og heild – eða kannski rof,“ segir Jessica brosandi, „því það gæti líka verið áhugavert. Leiðarljósið þarf að vera upplýsing frekar en yfirlit.“ UPPLÝSING FREKAR EN YFIRLIT Jessica Morgan, sýningarstjóri hjá Tate Modern, hefur unnið hjá mörgum helstu listasöfnum heims og sett fram áhugaverðar hugmyndir um hlutverk sýningarstjóra. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR hitti hana í London og ræddi við hana um sýn hennar á alþjóðlega sýningu á samtímalist í tengslum við Listahátíð árið 2005. Morgunblaðið/Fríða Björk Jessica Morgan á tali við þýska listamanninn Pash Buzari, á ferðalagi um Austurland í sumar. fbi@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.