Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003 M enningu er alltaf ætlað að breyta fólki, hún er einn þáttur í umbóta- áætlun stjórnvalda á hverjum tíma. Í þess- um skilningi er opinber menningarstefna að- eins formleg útfærsla á undirliggjandi pólitík, enda haldast menning og stefnumörkun ávallt í hendur. Þetta er skoðun Tonys Bennetts, prófessors í félagsfræði við Open University í London og eins helsta kynd- ilbera menningarfræðinnar nú um stundir, en segja má að Bennett hafi sett menningarstefnu á dagskrá í fræðaheiminum. Hann er væntan- legur hingað til lands í janúar þar sem hann mun halda málstofu og opinn fyrirlestur á ráð- stefnu ReykjavíkurAkademíunnar um menn- ingarstefnu, menningararf og menningarfræði. Hvernig kom til að þú fórst að rannsaka menningarstefnu? Ég bjó í Ástralíu á níunda áratugnum og tók þá þátt í því ásamt hópi fræðimanna við Griffith University að setja á laggirnar rannsóknar- stofnun í menningarfræðum, því háskólinn hafði ákveðið að ráðstafa nokkrum fjármunum til nýrra rannsóknarstofnana. Við töldum að áhugaverðasta verkefnið í menningarfræðum á þeim tíma væri að beina fræðilegri athygli að menningarstefnu, enda hafði þá lítið verið skrif- að um hana frá þessu sjónarhorni. Þetta var sérdeilis ánægjulegt og árangurs- ríkt samstarf og við lögðum upp með að taka menningarstefnu alvarlega bæði sem stjórn- sýslutæki og sem pólitískan veruleika, en ekki síður sem viðfangsefni sem krafðist fræðilegrar gagnrýni. Samband mitt við menningarstefnu hefur alla tíð verið tvíbent að þessu leyti að mig hefur langað annars vegar til að taka þátt í stefnumótunarvinnu og hef gert það í samstarfi við embættismenn á menningarsviði og stjórn- endur menningarstofnana, en hins vegar hef ég líka mikinn áhuga á að rannsaka menningar- stefnu frá utanaðkomandi sjónarhorni. Hvers konar rannsóknum hefurðu unnið að með embættismönnum og stjórnendum? Tja, þetta eru eiginlega fjölmargar rannsókn- ir. Ein sú fyrsta var tölfræðileg athugun á gest- um í galleríum og svo önnur svipuð athugun á samsetningu safngesta. Síðar vann ég við annan mann umfangsmikla könnun á menningarþátt- töku, smekk og áhugamálum í Ástralíu, mjög í anda þess sem franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu hefur gert. Það sem okkur gekk til var ekki síst að sýna fram á að tölfræði skiptir máli. Hafi maður tölur í höndunum sér maður hvert eðli og umfang tiltekins vanda er, í þessu tilviki hvernig aðgangi og jafnræði á menningarsviðinu er háttað. Auðvitað þýðir það ekki endilega að stjórnvöld bregðist við og breyti rétt, en engu að síður nýtist þekkingin stjórnendum og embættismönnum á viðkom- andi sviði. Niðurstöðurnar gefa þeim tæki til að vinna með og þannig hafa rannsóknirnar áhrif jafnvel þótt áhrifanna gæti ekki endilega í op- inberri stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú stend ég ásamt fleirum að stórri breskri rannsókn sem við köllum „menningarlegt auð- magn og félagsleg útilokun“, þar sem markmið- ið er tvíþætt: Annars vegar að rannsaka fé- lagslega og menningarlega skiptingu og ójöfnuð í Bretlandi og leita skýringa, hins vegar að draga af þessu ályktanir um stefnumótun. Við höfum þróað þetta verkefni í samvinnu við nokkrar helstu stofnanirnar sem láta sig þessi mál varða, þ.á m. breska listráðið, bresku kvik- myndastofnunina og ráðuneyti menningarmála, safna og íþrótta. Þegar rannsókninni lýkur munum við annars vegar skrifa lærðar bækur og hins vegar stefnumótunarskýrslur. Þá vann ég einnig stóra rannsókn fyrir Evr- ópuráðið um menningarlegan margbreytileika þar sem ég bar saman hvernig tekið var á marg- breytileika í lögum, stefnumótun og stjórnun í sex ólíkum Evrópuríkjum. Þannig að ég hef rannsakað stefnumótun töluvert innanfrá, ef svo má segja, en svo reyni ég líka að rannsaka menningarstefnu utanfrá og hef sérstakan áhuga á sögu hennar. Þú hefur kallað menningu „vísindi umbóta- mannsins“. Geturðu skýrt hvað þú átt við með þessu? Ég hef reynt að nálgast menningu sem sögu- legt hugtak og fyrirbæri. Þá notast ég ekki við hinn víða skilning mannfræðinnar á menningar- hugtakinu, heldur skoða ég menningu sem tæki eða sem kerfi stjórnunaraðferða. Í ríkjum þar sem þjóðfélagsþegnarnir eru í vaxandi mæli sjálfstæðir og búa við sífellt einstaklingsbundn- ari aðstæður er menningunni ætlað að hvetja til sjálfsprottinna umbóta hjá þeim. Frá og með Upplýsingunni hefur orðræðan um menningu ævinlega búið til bil á milli hefða, siða, venja, af- þreyingar, átrúnaðar og hegðunar ákveðins hluta þjóðfélagsþegnanna og stefnunnar sem þessi orðræða vill að hefðirnar, siðirnir og venj- urnar þróist í samræmi við. Þegar menning er skoðuð frá þessu sögulega sjónarhorni sést að hvar sem hún er að verki er hún gildishlaðin og gerir greinarmun á þeim stað þar sem fólk er statt og þeim stað sem það ætti að vera statt á. Meginviðfangsefnin eru þá að rannsaka ólíkar útfærslur á því hvernig hugsað er um menningu og hvernig menningu er beitt í stefnumótun frjálslyndra stjórnvalda sem tæki til að stýra hópum frjálsra og sjálf- stæðra einstaklinga og þróa þá í vissar áttir. Eða þá að rannsaka hvernig menningu er beitt í ríkjum þar sem lagt er upp með allt aðrar for- sendur en frjálslynd stjórnvöld gera, eins og raunin var með félagslegu raunsæisstefnuna í Sóvétríkjunum og menningarstefnu nasismans. Geturðu sagt okkur svolítið frá sögulegum bakgrunni menningarstefnu okkar daga, hvað- an hún er sprottin? Menn eru nokkurn veginn á einu máli um að á síðari hluta 18. aldar hafi verið farið að fást við menningu og stjórnun á nýjan hátt. Þá fara stjórnvöld að skoða þetta tvennt í samhengi og þá með tilliti til allra íbúa ríkisins. Þetta gerist þegar fjarar undan einveldinu og markaðir og borgaralegt samfélag byrja að öðlast ákveðið sjálfstæði frá ríkisvaldinu. Þótt listir hafi auð- vitað verið notaðar sem stjórntæki fram að þeim tíma, þá beindist sú notkun aðeins að aðl- inum og efri lögum borgarastéttarinnar og mið- aði að því að draga heldra fólk inn í hringiðu konungshirðarinnar með einum eða öðrum hætti. Þegar frjálslyndar hugmyndir um sjálfstæði og frelsi einstaklinga voru svo yfirfærðar á hin- ar vinnandi stéttir, en ekki bara efri stéttirnar, þá varð innra líf allra þegnanna smám saman að viðfangsefni stjórnvalda. Þá varð menning að úrræði til að takast á við alveg nýtt viðfangs- efni: Hvernig eigi að stjórna innra lífi stórra hópa fólks. Síðan er áhugavert að skoða hvers lags verk- efni menningunni er ætlað að leysa og gagnvart hvaða hluta borgaranna í ólíkum löndum og á ólíkum tímum. Þar er auðvitað ekki nóg að skoða opinberar yfirlýsingar um menningar- stefnu (enda verður formleg stefnumótun af þeim toga ekki til fyrr en á 20. öld), heldur þarf að rannsaka framgöngu stjórnvalda á ein- stökum sviðum í gegnum stofnanir og embætt- ismenn. Í bók sem kemur út á næsta ári skoða ég sérstaklega sambandið á milli safna og frjálslyndisstefnunnar undir lok nítjándu ald- arinnar. Þar er kannað hvernig þróunarhyggja og þróunarsöfn tengdust frjálslyndi í breskum stjórnmálum þess tíma, en söfn voru þá helsti vettvangur opinberrar menningar, helsti snertiflötur stjórnvaldsins og menningargeir- ans. Samband menningarstofnana við stefnumót- un um menningarlegan margbreytileika væri sambærilegt viðfangsefni í okkar samtíma. Í dag væri ansi erfitt að finna ,,vestræna“ rík- isstjórn sem lýsir sig andvíga margbreytileika. Hver og ein stjórn hefur því einhverja meg- instefnu um menningarlegan margbreytileika og útfærslu á því hvernig eigi að ná markmiðum stefnunnar. Sumstaðar er skýr stefnumörkun um fjölmenningu, en annars staðar eru aðrar útfærslur, þar á meðal í Frakklandi þar sem fjölmenning fellur illa að hefðbundnum frönsk- um hugmyndum um þegnrétt – þar er ekki rætt um misjöfn réttindi fyrir ólíka hópa heldur jafn- an rétt fyrir alla. En síðan þarf að seilast á bak við þessa opinberu stefnumótun og rannsaka hvernig stefna er útfærð í starfsaðferðum menningarstofnana, hvort sem það eru gallerí eða kvikmyndahús eða annað. Margbreytileiki er sem sagt eitt helsta við- fangsefni menningarstefnu á undanförnum ára- tugum, en hvaða fleiri tilhneiginga er nýlega farið að gæta? Aðgangur og jafnræði á menningarsviðinu urðu mikilvæg viðfangsefni upp úr sjöunda ára- tugnum og þá með áherslu á stéttamun. Frá og með áttunda áratugnum og enn frekar þeim ní- unda áttaði fólk sig síðan á því að aðgangur að „hefðbundnum“ menningarformum var ekki bara stéttbundinn vandi, heldur skiptu kynferði og kynþáttur líka verulegu máli. En um leið fóru menn líka að draga í efa hugmyndina um menningarlega miðju, ef svo má að orði komast, það að til væri ein algild menning sem hægt væri að eiga hlutdeild í eða vera útilokaður frá. Þess í stað tóku menn að hallast að því að til væri fjöldinn allur af ólíkum hópum með ólík menningarleg áhugamál og smekk. Þessir hóp- ar hefðu ólíkar þarfir og þörfnuðust ólíkra rétt- inda. Í Vestur-Evrópu snúast þessi mál einkum um sambandið á milli íbúahópa sem hafa dvalist til langframa í landinu og íbúa sem hafa flutt þang- að síðan að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Ann- ars staðar, eins og í Ástralíu þar sem ég vann um skeið, er viðfangsefnið fremur réttindi íbúa- hópa sem hafa dvalist til langframa í landinu en ráða því ekki, það er að segja réttindi frum- byggja. Önnur rík tilhneiging í menningarstefnu okk- ar tíma er áherslan á svokallaðar samfélags- listir („community arts“). Þar sem ég þekki best til, í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum, snýst þetta hugtak um hlutverk stjórnvalda á menningarsviðinu og að það eigi ekki bara að felast í fjármögnun helstu opinberu listastofn- ananna eins og safna og óperuhúsa og leikhúsa, heldur eigi þau ekki síður að láta sig varða möguleika ýmissa samfélagshópa til listrænnar tjáningar. Að mínu mati ber að skoða samfélagslistir sem hluta af víðfeðmari notkun samfélagshópa í stjórnarháttum samtímans. Það er sama á hvaða sviði stjórnsýslunnar borið er niður, alls staðar er nú rætt um samfélagshópa („comm- unities“). Þetta er hluti af breytingum sem eru að eiga sér stað í stjórnmálum og snúast um að velta meiri ábyrgð yfir á fólk sem þátttakendur í samfélagshópum, fremur en bara sem borg- urum í ríkinu, að skipta borgurunum í ýmsa hópa og gera þessa hópa að litlum einingum þar sem fólk stjórnar hvert öðru og sjálfu sér. Og enda þótt öll orðræðan um samfélagshópa og samfélagslistir láti í veðri vaka að þetta sé allt sjálfsprottið, þá held ég að það sé nú sjaldnast tilfellið, heldur eru samfélagshópar frekar stjórnsýslueiningar. Ég tek samt fram að með þessu er ég ekki að segja að þessi tilhneiging sé ekki stundum góð og gagnleg og mikilvæg, ég er bara að benda á að þetta er ekki jafn einfalt og gefið er í skyn. Hversdagsmenning er á meðal þinna helstu viðfangsefna, geturðu sagt okkur aðeins frekar frá því hvað átt er við með þessu hugtaki? Eitthvert mikilvægasta framlag menningar- fræðinnar til rannsókna á menningu hefur verið að sýna fram á að það sé jafn áhugavert og flók- ið að rannsaka skipulag hversdagslegrar menn- ingar – hvort sem um er að ræða íþróttir eða garðyrkju eða menningarkima eða aðdáenda- klúbba – eins og rannsaka „bókmenntir“ eða „listir“ innan gæsalappa. Það er jafn áhugavert að takast á við spurningar um samband menn- ingar, samfélags og valds í samtímanum eins og við hefðbundnari viðfangsefni á menningarsvið- inu. Ennfremur er enginn Kínamúr sem skilur á milli hversdagsmenningar og „hámenningar“. Hversdagsmenning getur hæglega orðið hluti af list manna eins og Andy Warhol og öfugt. Ég held að þetta sé nú orðið nokkuð viðtekin skoð- un í dag. Hins vegar má nálgast hversdags- menningu á ótal marga vegu. Sjálfur hef ég allt- af hneigst annars vegar til að horfa í gegnum linsu franska félagsfræðingsins Pierres Bour- dieus og athuga hvað kenningar hans geta sagt okkur um hlutverk ólíkra menningarforma í fé- lagslegri skiptingu nútímasamfélags og hins vegar hef ég skoðað menninguna frá sjónar- horni Michels Foucaults, þannig að áhuginn beinist að ólíkum aðferðum til að móta sjálfið og stýra því með margvíslegri hversdagsmenn- ingu. Mér hefur reyndar aldrei almennilega tekist að samþætta þessi sjónarhorn, en sjálf- sagt væri það vel hægt ef maður nú bara settist niður og hugsaði skipulega um það. Þegar þú varst að byrja að setja menning- arstefnu á dagskrá í menningarfræðinni varstu óspart gagnrýndur af sumum fræðimönnum (þ.á m. Fredric Jameson) fyrir að stofna til samræðna við svokölluð ,,hugmyndafræðileg ríkisapparöt“, þ.e. bjúrókrata í stofnunum sem ganga erinda ríkjandi valdhafa. Hvað finnst þér um þessar ásakanir? Fyrir það fyrsta þá þykir mér gildi þessa gamla hugtaks nú heldur vafasamt, því það ein- faldar flóknar og innbyrðis ólíkar stofnanir eins og skóla, gallerí, útvarp og kirkjur þannig að þær virðast allar gegna því eina hlutverki að viðhalda þeim valdatengslum sem fyrir eru í samfélaginu. Auðvitað gera þær það að vissu marki, en að mínu mati má læra miklu meira af því að skoða þær sem vettvang fyrir mótsagnir og átök um menningu og vald. Það verður svo að segjast eins og er að mér fannst merkilegt að fólkið sem var misboðið vegna þess að einhver skyldi ræða við „hug- myndafræðilegu ríkisapparötin“ virtist ekki átta sig á því að það tilheyrði sjálft þessum apparötum, enda vann það í háskólum. Mér þótti furðulegt að halda því fram að maður mætti ekki vinna með og ræða við fólk sem vann í stofnunum sem eru í sjálfu sér svipað upp- byggðar og á svipuðum stað í skipulagi sam- félagsins eins og háskólar. Vinni maður í há- skóla og gefi einkunnir þá er maður vitaskuld hluti af þessu stofnanakerfi sem viðheldur valdatengslum samfélagsins. Reyndar komu flestar ásakanirnar frá kunnum marxískum fræðimönnum sem starfa við bandaríska einkaháskóla og satt að segja finnst mér þær varla svaraverðar. MENNING ER STJÓRNTÆKI Einn af helstu kyndilberum menningarfræðinnar nú um stundir, breski félagsfræðingurinn Tony Bennett, heldur málstofu og opinn fyrirlestur á ráðstefnu ReykjavíkurAkademíunnar um menningarstefnu, menningararf og menn- ingarfræði í janúar. Rætt er við hann um menningarpólitík en hann hefur kallað menningu vísindi umbótamannsins. „Eitthvert mikilvægasta framlag menningarfræðinnar til rannsókna á menningu hefur verið að sýna fram á að það sé jafnáhugavert og flókið að rannsaka skipulag hversdagslegrar menningar […] eins og að rannsaka ,,bókmenntir“ eða ,,listir“ innan gæsalappa,“ segir Tony Bennett. E F T I R VA L D I M A R T H . H A F S T E I N Höfundur er þjóðfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.