Lesbók Morgunblaðsins - 08.05.2004, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. MAÍ 2004 3
H.C. Andersen
hefði orðið tvö hundruð ára á næsta
ári og verður efnt til mikilla hátíða-
halda í Danmörku. Jónína Ósk-
arsdóttir rýnir í nýjar og gamlar þýð-
ingar á ævintýrum Andersens en þær
eru afar misjafnar og sumar ekki
boðlegar að mati greinarhöfundar.
Út með
ruslið,
eða
hvað?
spyr Þorvaldur Gylfason í grein þar
sem hann ræðir hlut afþreyingar-
menningar í ríkisreknum menning-
arstofnunum á Íslandi svo sem leik-
húsunum og ríkissjónvarpinu.
Alþýðumenning á
Íslandi 1830–1930
nefnist nýútkomið rit í ritstjórn Inga Sig-
urðssonar og Lofts Guttormssonar. Sig-
urður Gylfi Magnússon gagnrýnir ritið
harðlega fyrir að sniðganga stóran hluta
rannsókna á þessu sviði, þar á meðal á
þriðja þúsund útgefinna blaðsíðna hans
sjálfs. Sigurður Gylfi telur ritið dapran
vitnisburð um óvönduð fræði.
Svava Jakobsdóttir
lést fyrir skömmu en verk hennar lifa
með okkur. Pétur Már Ólafsson skrifar
um leikritið Lokaæfingu og skáldsöguna
Leigjandann sem eiga brýnt erindi við
samtímann, að mati greinarhöfundar.
FORSÍÐUMYNDIN
er af hluta verks eftir Erlu Þórarinsdóttur er nefnist Corpus lucis sensitivus/
anima (2003) en Erla sýnir nú á Kjarvalsstöðum. Ljósmynd: Þorvaldur Örn
Kristmundsson.
Þ
egar José Luis Roderiguez
Zapatero tók við embætti for-
sætisráðherra á Spáni fyrir
nokkrum vikum lýsti hann því
yfir að stjórn hans ætlaði að
skera upp herör gegn ofbeldi
sem konur sæta á heimilum
sínum á Spáni. Hann lýsti því
yfir að ofbeldi gegn konum væri þjóðar-
skömm. Samkvæmt þeim tölum sem hann
nefndi hafa um 600 konur látist á undan-
förnum átta árum vegna ofbeldis maka eða
sambýlismanna og talið er að um tvær millj-
ónir kvenna búi við heimilisofbeldi. Mér
segir svo hugur um að áratuga barátta
kvennahreyfinga á Spáni gegn kynbundnu
ofbeldi sé loks að skila sér og það svona
rækilega. Ég hef ekki séð neina greiningu á
kjósendum Sósíalista á Spáni en mér kæmi
ekki á óvart þótt konur væru mjög fjöl-
mennar í þeim hópi og flokkurinn því að
svara kröfum kvenna um nauðsynlegar að-
gerðir. Yfirlýsing Zapatero vakti athygli rit-
stjórnar Morgunblaðsins sem fjallaði um
hana í leiðara. Þar kom fram að þetta væru
ótrúlega háar tölur og spurt var hvort verið
gæti að Spánverjar væru eitthvað verri í
þessum efnum en aðrar þjóðir en jafnframt
hvort við ættum kannski að líta í eigin barm
varðandi frekari aðgerðir til verndar þeim
konum sem búa við ofbeldi.
Íbúar Spánar eru um 41 milljón. Ef við
gefum okkur að konur séu helmingur íbú-
anna þýðir talan sem nefnd var hér að ofan
að um það bil 10% af öllum konum búi við
heimilisofbeldi. Ef miðað er við fullorðnar
konur er hlutfallið mun hærra. Samkvæmt
skýrslu frá Spáni sýndi rannsókn sem náði
yfir árin 1999–2001 að rúmlega 9% kvenna
yfir 18 ára aldri viðurkenndu að hafa sætt
ofbeldi af hálfu maka eða kærasta og að
rúmlega 70 konur að meðaltali létu lífið ár
hvert eftir misþyrmingar sömu aðila.
Stjórnvöld líta greinilega svo á að ástandið
sé mun alvarlegra en þessar tölur sýna.
Samkvæmt margítrekuðum rannsóknum
Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO)
og fjölda annarra stofnana verður um þriðj-
ungur kvenna í heiminum fyrir kynbundnu
ofbeldi einhvern tíma á ævinni. Um fjórð-
ungur kvenna í heiminum býr við heimilis-
ofbeldi. Könnun sem gerð var í Svíþjóð fyrir
nokkrum árum sýndi að allt að 40% kvenna
töldu sig hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi
en sú könnun var reyndar gagnrýnd fyrir of
víða skilgreiningu á ofbeldi. Ljóst er að
stríðsátök og það ástand sem skapast í lok
styrjalda eða vopnaðra átaka auka ofbeldi
gegn konum til muna og þarf ekki annað en
að minna á fréttir frá Írak þar sem konur
hafa vart þorað út fyrir dyr mánuðum sam-
an. Tölurnar frá Spáni eru því alls ekki
hærri og reyndar lægri en annars staðar í
heiminum, séu þær marktækar. Tölurnar
um dauða kvenna eru hins vegar sláandi
enda sjaldgæft að slíkar staðreyndir séu
dregnar fram.
Það er ákaflega erfitt að meta umfang
heimilisofbeldis vegna þess hve dulið það er,
hve mikil skömm fylgir því og hve djúpar og
sögulegar rætur kynbundið ofbeldi á í
menningu og valdakerfum (kynjakerfum)
þjóða um allan heim. Löggjafinn, lögregla,
trúarbrögð og kirkjur héldu löngum hlífi-
skildi yfir ofbeldismönnum og enn gengur
illa að fá ráðamenn og almenning til að horf-
ast í augu við þetta hrikalega og óþægilega
vandamál og grípa til nauðsynlegra að-
gerða. Því telst það til tíðinda þegar ríkis-
stjórn setur baráttu gegn kynbundnu of-
beldi efst á sína dagskrá. Það gefur von um
breytta tíma og sýnir að það þarf þekkingu,
baráttu og pólitískan vilja til að taka á svo
alvarlegum málum sem snerta líf og heilsu
fjölmargra kvenna og barna.
Það var upp úr 1980 sem athygli kvenna-
samtaka fór að beinast æ meir að ofbeldi
gegn konum sem sérstöku viðfangsefni á
leið kvenna til sjálfstæðis og frelsis. Á
kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem
haldin var í Nairobi í Kenýa árið 1985 var
ofbeldi gegn konum orðið aðalmálið og
segja má að það hafi verið efst á baráttulist-
anum æ síðan. Sameinuðu þjóðirnar tóku
málið alvarlega og þarf ekki annað en að
skoða heimasíður UNIFEM og WHO til að
sjá hve mikil áhersla er lögð á að draga úr
ofbeldi gegn konum enda gríðarlegur heil-
brigðisvandi. Árið 1993 samþykktu Samein-
uðu þjóðirnar sérstaka yfirlýsingu um af-
nám ofbeldis gagnvart konum sem m.a.
Íslendingar hafa staðfest þótt þess sjái lítt
stað í umræðum hér á landi eða í nýbirtri
framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í
jafnréttismálum.
Fyrir tæpum áratug var gerð könnun á
umfangi heimilisofbeldis hér á landi. Hún
sýndi að heimilisofbeldi var ákaflega svipað
og í þeim löndum sem við berum okkur sam-
an við, jafnvel ívið meira en t.d. í Danmörku.
Í kjölfarið voru nefndir settar á laggir sem
komu með tillögur til úrbóta og var sumum
þeirra hrint í framkvæmd. Á síðasta ári var
birt samnorræn könnun sem leiddi í ljós að
ofbeldi gegn konum virtist vera meira hér á
landi en á hinum Norðurlöndunum. Ekkert
bendir til þess að dregið hafi úr ofbeldi gegn
konum eða að það hafi breyst að öðru leyti
en því að meira ber á hópnauðgunum en áð-
ur. Stöðugt koma fram ný dæmi um kyn-
ferðislega misnotkun á börnum, einkum
stúlkubörnum, sem auðvitað eru angi af
sama meiði. Nýlega kynnti Kvennaathvarfið
í Reykjavík ársskýrslu sína fyrir síðasta ár.
Þar kom fram að fleiri konur dvöldu í at-
hvarfinu en árið áður eða 73 konur með 59
börn. Alls leituðu 388 konur á aldrinum 13
ára til áttræðs til athvarfsins, nokkrar
þeirra oftar en einu sinni. Á þeim 12 árum
sem Neyðarmóttaka vegna nauðgunarmála
hefur starfað hafa meira en eitt þúsund
manns leitað til hennar, bæði karlar og kon-
ur. Það er því ljóst að kynbundið ofbeldi er
verulegt hér á landi. Ýmis kvennasamtök
sem vinna að baráttu gegn kynbundnu of-
beldi og afleiðingum þess hafa margbent á
nauðsyn nýrrar könnunar á umfangi ofbeld-
is gegn konum en ekki síður á nauðsynlegar
lagabreytingar sem tryggja rétt þeirra sem
sæta ofbeldi. Það er því verk að vinna á Ís-
landi rétt eins og á Spáni og þar þurfa að
koma að verki þeir sem best þekkja til mála,
ekki síst kvennasamtök. Spurningin er hve-
nær við fáum stjórnvöld sem beita sér gegn
þeirri þjóðarskömm sem ofbeldi gegn kon-
um er á Íslandi.
MAÐUR LÍTTU
ÞÉR NÆR
RABB
K R I S T Í N Á S T G E I R S D Ó T T I R
krast@simnet.is
JÓHANNES ÚR KÖTLUM
TAL VIÐ SPÓA
Ég átti í morgun tal við spakan spóa,
sem spígsporaði um þýfðan sinuflóa
og var að flauta fjörugt ástarstef
og föndra við sitt langa og bogna nef.
Hann sagði, að hvergi væri betra að vera
né viturlegra hreiður sitt að gera
en hér á þessum hlýja og frjálsa stað,
og hjartanlega vall hann upp á það.
Ég grét af öfund, vildi verða spói
og vildi að landið yrði tómur flói,
og vildi elska og syngja í sinu þess,
– þá sagði spóinn: Jæja, vertu bless!
Jóhannes úr Kötlum (1899–1972) var skáld.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
1 9 . T Ö L U B L A Ð - 7 9 . Á R G A N G U R | U M S J Ó N Þ R Ö S T U R H E L G A S O N
EFNI