Lesbók Morgunblaðsins - 08.05.2004, Síða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 08.05.2004, Síða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. MAÍ 2004 M estur hluti þeirrar tón- listar, sem flutt er í hljómleikahúsum heimsins, er gömul músík. Það þarf ekki annað en að skoða efnisskrá Sinfóníu- hljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar undangengin ár og sölutölur um sígilda hljómdiska til að sjá, hvernig landið liggur. Gömlu meistararnir – Bach og Mozart, Beethoven og Brahms, Wagner og Verdi og margir fleiri – gnæfa yf- ir nútímann, enda þótt ýmis yngri tónskáld og núlifandi hafi gert margt mjög vel allt fram á okkar daga. En áheyrendur nútímans eru yfirleitt sólgnari í gömlu músíkina. Hvers vegna? Er ástæðan sú, að gömlu jaxl- arnir kærðu sig kollótta um sína eigin samtíð og skrifuðu heldur handa framtíðinni? Nei, það er af og frá. Þeir lögðu þvert á móti tals- vert á sig, sumir a.m.k., til að verða við ósk- um eigin áheyrenda og ábyrgðarmanna og voru eftir því við alþýðuhæfi, t.d. Mozart og Verdi. Er þá ástæðan e.t.v. sú, að tónlist- arsmekkur áheyrenda sitji einhvern veginn fastur í fortíðinni? Það verður einnig að telj- ast ólíklegt. Ekki hefur bókmenntasmekk- urinn staðið í stað, svo mikið er víst. Nútím- inn á rithöfunda, sem standa gömlu risunum fyllilega á sporði um alþýðuhylli. Nútímahöf- undar njóta útsýnisins af öxlum eldri höf- unda. Það verður ekki með góðu móti sagt um Balzac, Dickens, Dostojevskí og Tolstoy, að þeir gnæfi yfir helztu rithöfunda 20. aldar með líku lagi og Beethoven og Brahms skyggja á tónskáld 20. aldar, því að bækur margra nútímarithöfunda eru rifnar út. Hver er þá skýringin á því, að nútíma- tónlist nýtur tiltölulega minni hylli en nú- tímabókmenntir? Ein hugsanleg skýring á misræminu er sú, að tónskáldin hafi með tímanum fallið í þá freistni að skrifa hvert handa öðru og látið áheyrendur sitja á hak- anum. Þessi kenning er stundum studd þeim rökum, að klassísk tónlist njóti stuðnings af almannafé og tónskáldin hafi að því skapi minna til áheyrenda að sækja en á fyrri tíð. Í Afríku er yfirleitt ekki gerður greinarmunur á klassískri tónlist og dægurtónlist, og e.t.v. er ástæðan sumpart sú, að tónskáldin þar, eða lagasmiðirnir, þurfa að ná til áheyrenda, því að annars fengi tónlist þeirra aldrei að heyrast. Gegn þessu geta menn teflt fram þeirri þungu röksemd, að klassísk tónlist Evrópu náði mestum blóma í skjóli skattfjár og þurfti því ekki nema að litlu leyti að beygja sig undir aga markaðsins í nútíma- skilningi, af því að kóngar og furstar borg- uðu brúsann af annarra fé: þeir voru mark- aðurinn. Önnur hugsanleg lausn gátunnar er sú, að tónlist og bókmenntir lúti ólíkum lögmálum fullkomnunar og hafi þess vegna rutt sér ólíka farvegi: tónlistin hafi á eigin spýtur komizt nálægt leiðarlokum fyrir hundrað ár- um eða svo, þar eð það sé einfaldlega ekki hægt að gera miklu betur en gömlu brýnin og viðbætur yngri tónskálda hljóti því skv. eðli máls að vera minni háttar, en bókmennt- irnar séu á hinn bóginn ekki komnar á leið- arenda og komist þangað aldrei, þar eð þær lúti öðrum og e.t.v. sveigjanlegri tæknilög- málum en tónlistin. Þessi tillaga að lausn er reist á þeirri skoðun, að tónlist er öðrum þræði tæknilegt verkefni: það þarf mikla tæknikunnáttu og yfirleitt langskólanám til að geta samið boðlega sinfóníu eða óperu, en ekki í sama mæli til að semja skáldsögu, enda þótt skáldsagnagerð lúti einnig tiltekn- um reglum um sagnbyggingu, sjónarhorn o.fl. Tónlist lýtur á hinn bóginn fastákveðn- um innri rökum, sem ekki verða rofin. Tón- list eins og myndlist lýtur m.ö.o. ströngum reglum, sem menn verða að hafa lært til hlít- ar – ekki af sjálfum sér, heldur af öðrum – til þess að geta brotið þær að einhverju gagni og skapað nýja tónlist. Bókmenntir lúta ekki sambærilegum rök- um: þar er næstum allt leyfilegt, innan marka. Rithöfundar lesa og hlusta og læra þannig að skrifa, það er reglan; tónskáld sækja tónlistarháskóla. Þessi eðlismunur – nema þetta sé bara stigsmunur, það er ekki gott að segja – bregður birtu á það, hvers vegna það er tiltölulega sjaldgæft, að tveir vanir menn, sem heyra sömu tónleika, séu á öndverðum meiði um það, hvort konsertinn hafi verið góður eða ekki, á meðan hitt gerist oft, að tveir menn sjái sömu leiksýningu eða lesi sömu skáldsögu og hafi gerólíka skoðun á sýningunni eða sögunni. Rótgróin rökfesta tónlistarinnar virðist hafa þróazt á þann veg, að ýmis nútímatónlist höfðar e.t.v. frekar til hugans en hjartans og hefur þá kannski sum- part fyrir þá sök orðið viðskila við þá áheyr- endur, sem hugsa með hjartanu og finnast rök vera léttvæg í listum. Góðir skáldsagna- höfundar þurfa yfirleitt ekki að óttast slík viðbrögð: þeir skrifa sig fæstir frá lesendum sínum með framþróun bókmenntanna að leið- arljósi. Samt er málið ekki alveg svona einfalt. Það sést á því, að það, sem sagt var að fram- an um tónlist, á nær eingöngu við um klass- íska músík, en tónlist 20. aldar spannar miklu víðara svið. Um dægurtónlist og djass gilda að sumu leyti svipuð lögmál og um bók- menntir: þessi músík lýtur að sönnu föstum reglum, en þær eru aðgengilegri og auðlærð- ari en lögmál klassískrar tónlistar, og dæg- urtónlistin og djassinn eiga sér að sama skapi fleiri iðkendur og áheyrendur en klass- ísk músík. Leikhúsið virðist tæknilega séð liggja ein- hvers staðar á milli fagurbókmennta og klassískrar tónlistar. Shakespeare, Ibsen og Brecht gnæfa yfir nútímaleikskáld líkt og gömlu tónskáldin gnæfa yfir yngri tónskáld. Þeir voru t.d. allir þrír á verkefnaskrá stóru leikhúsanna í Reykjavík 2003. Yfirburðir þeirra virðast m.a. felast í tæknilegri full- komnun, sem helgast aftur af því, að leik- húsið lýtur reglum, sem menn komast ekki hjá því að virða, enda þótt þær séu ekki í alla staði jafnstrangar og lögmál tónlistarinnar. Og e.t.v. getur reikul staðsetning leiklist- arinnar í þessu rófi glöggvað skilning okkar á þeim vanda, sem nútímaleikhús virðist hafa ratað í. Sumum – t.d. Arthur Miller, svo sem ég hef fjallað um áður hér í Lesbókinni – virðist leikhúsið vera deyjandi listform, og þeir hafa þá m.a. í huga þrálátan fjárhags- vanda leikhúsanna, en hann stafar aftur af því, að leiklist er vinnufrek og vinna er dýr. Að þessu leyti er peningaleysi leikhúsanna og heilbrigðiskerfisins af sömu rótum runnið. Tilraunir margra leikhúsa til að laða að sér áhorfendur með því t.d. að sviðsetja kvik- myndir og keppa þannig við kvikmyndahúsin vitna um vandann. Á meðan klassískt leikhús á í vök að verjast á Broadway, er Walt Disn- ey-samsteypan með einar fjórar sýningar á fjölunum eða í undirbúningi í New York – rándýrar uppsetningar á gömlum og nýjum bíómyndum í þeirri von að draga mikinn fjölda áhorfenda að leikhúsinu og þá um leið inn í ljómann frá Hollywood. Borgarleikhúsið er að gera sams konar tilraun þessar vik- urnar með söngleikinn Chicago og rokgeng- ur: myndin var sýnd í fyrra, en verkið var að vísu sviðsverk í upphafi, frumsýnt á Broad- way 1975. Þjóðleikhúsið gerði svipað um jólin 2002. Þetta er nýtt: þarna eru klassísk leik- list og afþreying að því er virðist að renna út í eitt eins og afrísk tónlist, af því að naumur fjárhagur húsanna neyðir þau til þess. Og leikhúsin reyna aftur og aftur að laða til sín áhorfendur með stripli og klámi, jafnvel í klassískum uppfærslum, þar sem það á ekki heima. Bandaríska leikskáldið Edward Albee kvartar sáran undan sjónvarpsvæðingu leik- hússins. Hann hefur samið næstum 30 leik- rit, en fæst þeirra eru þekkt utan þröngs hóps nema Hver er hræddur við Virginíu Woolf? Þegar Virginía Woolf var fest á filmu fyrir bráðum 40 árum, þótti handritsgerð- armanninum, sem kvikmyndaverið setti til höfuðs höfundinum, eitthvað vanta: honum fannst það ekki nógu áhrifaríkt, að prófess- orsfrúin í verkinu (Elizabeth Taylor, átti fyrst að vera Bette Davis, en Albee fékk ekki að ráða því) kveldi bónda sinn (Richard Burton, átti að vera James Mason) á því að vera sífellt að tala um barnið, sem þau höfðu aldrei átt. Handritsmanninum þótti nauðsyn- legt að hafa barnið heldur herfilega van- skapað í hlekkjum uppi á háalofti, og annað var eftir þessu, og Albee tókst með naum- indum að aftra þessum ósköpum, og myndin fékk að lokum að fylgja leikritinu og tókst vel. Hann stóð svo fast á höfundarrétti sín- um, að handritsgerðarmanninum tókst ekki að bæta nema tveim stuttum setningum inn í kvikmyndina – báðum óþörfum, segir Albee. En sjónvarpsvæðingin heldur áfram. Og þá vaknar þessi spurning: ef leikhús, studd af almannafé, telja sig knúin til að keppa við sjónvarpsstöðvar, sem sérhæfa sig í útsend- ingu erlends afþreyingarefnis, er þá ekki verið að kippa fótunum undan eða a.m.k. draga kraftinn úr málflutningi þeirra, sem telja rétt og nauðsynlegt, að ríki og byggðir styðji leikhús af menningarástæðum líkt og ýmsa aðra menningarstarfsemi? Hversu langt gæti Sinfóníuhljómsveitin gengið í þá átt að troða upp með Rottweilerhundunum til að drýgja tekjurnar, áður en skattgreið- endur kipptu að sér hendinni? Varla alla leið. Sinfóníuhljómsveitin er gerð út fyrir al- mannafé af ýmsum góðum og gildum ástæð- um, m.a. til að flytja verk, sem Rottweiler- hundarnir ráða ekki við. Þjóðleikhús og borgarleikhús og ríkisóperuhús í Evrópu sýna með sömu rökum yfirleitt ekki söngleiki nema endrum og eins: þau þurfa ekki á því að halda, og það er ekki heldur í þeirra verkahring, heldur einkaleikhúsa. Brezka þjóðleikhúsið í London sýnir þó jafnan einn söngleik á ári með miklum brag. Menn hafa sumir að gefnu tilefni spurt sömu spurningar um Ríkisútvarpið. Til hvers er ríkið í sjónvarpsrekstri, ef það setur markið ekki miklu hærra en einkastöðvarn- ar? Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur vakti máls á því í blaðagrein fyrir nokkru, að langflest helztu skáldverk þjóðarinnar hafa aldrei verið kvikmynduð handa sjónvarpi með sama hætti og þykir sjálfsagt í öðrum löndum. Undantekningarnar er hægt að telja á fingrum annarrar handar. En þess konar efni virðist ekki eiga upp á pallborðið í rík- issjónvarpinu eins og sakir standa. Efnisvalið þar á bæ leiðir hugann að ummælum, sem Egill Helgason blaðamaður hafði eftir banda- ríska kvikmyndaleikstjóranum Woody Allen í blaðagrein um daginn: ,,Í Kaliforníu fara menn ekki út með ruslið, þeir setja það í sjónvarpið.“ Verkaskiptingin í sjónvarps- heiminum ber þess ýmis merki, að ríkissjón- varpið þykist þurfa að keppa við og endur- óma einkasjónvarpsstöðvarnar í stað þess að rækja þá menningarlegu sérstöðu, sem því var ætluð í öndverðu. ÚT MEÐ RUSLIÐ – EÐA HVAÐ? James Mason Bette DavisEdward Albee Henrik IbsenLudwig Van Beethoven E F T I R Þ O R VA L D G Y L FA S O N Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hvers vegna er mestur hluti þeirrar tónlistar sem flutt er í hljómleikahúsum heims gamall? Hvers vegna sýna leikhúsin kvikmyndir? Hvers vegna leggur rík- issjónvarpið megináherslu á afþreyingarefni?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.