Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Page 7

Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Page 7
– Þetta er Hrafnafen, sagði Kata. Það var þarna sem þú hafðir næstum sokkið og farist… – Nú man ég það, sagði Tual og hrollur fór um hann. – Þessar forir eru stórhættulegar, hélt Kata áfram, svo margir hafa farist þar að hér hræð- ast menn þær meira en eldinn undir jöklunum. Það krefst einstakrar þekkingar á landinu að greina þær frá fasta landinu í kring. Því trúi ég líka á það sem segir í fornum sögum, að forðum daga hafi elskendur tekið til vitnis forina í Hrafnafeni í stað þess að sverja trúnað á Bibl- íunni og með hennar blessun. Þau sögðu: Ef ég svík heit mín, megi forin þá gleypa mig! Viltu hafa það eftir mér,Tual? Ef ég svík heit mín… – Ef ég svík heit mín, hafði Tual ósjálfrátt eftir henni. – Megi þá forin gleypa mig! – Megi þá forin gleypa mig! – Gott, sagði Kata. Nú máttu taka mig hve- nær sem þú vilt: nú tilheyri ég þér með líkama og sál. * * * Þau elskuðust allan þann vetur, fram í apríl. Í fjarveru prestsins hafði Jörundur gamli veitt þeim blessun sína. Tual fór með tengdaföður sínum á veiðar. Hætti sér stundum út á fjörð- inn á litla bátnum sem hann hafði smíðað og horfði í vesturátt, þar sem bretónsku gólett- urnar voru vanar að koma fyrst að landinu við Íslandsstrendur. En skúturnar birtust ekki. Þær voru þó komnar, en voru enn að veiðum miklu sunnar … Hann andvarpaði. Vissulega hafði hann ekki í hyggju að fara frá Kötu, hann elskaði hana enn, en það hefði þó verið gott að fá að sjá ein- hvern kunnuglegan aftur, fá fréttir að heiman og hvað hefði orðið um Francoise Lhostis, unn- ustuna sem hann hafði skilið eftir í Kerfot. Var hún gift? Lifði hún enn í voninni þrátt fyrir fregnina af dauða hans? Þegar hann var að draga bátinn sinn á þurrt eitt síðdegi kom hann innan um annað ómerki- legt drasl í þanginu auga á myndaramma úr grenikönglum með myndinni af Francoise, sem aðfallið hafði eins og af ásetningi borið á land. Hann rauk þangað, og hjartað sló eins og það ætlaði að springa. Myndin var heil, bara svolítið upplituð eins og hún væri langt að kom- in. Í heilan klukkutíma stóð hann og skoðaði hana og þrisvar eða fjórum sinnum dró hann myndina aftur upp úr vasanum á úlpunni sinni á leiðinni heim til bæjar Jörundar um kvöldið. Hann hafði ekki sagt Kötu frá þessum fundi sínum, en hann var þögull og utan við sig og áhyggjusvipurinn og óljós svör voru ungu stúlkunni vísbending. Hún beið þangað til hann var sofnaður og átti þá ekki í vandræð- um með að finna myndina af Francoise þegar hún leitaði í fórum hans. Án þess að segja neitt lét hún hana aftur í vasann á treyjunni hans og lagðist til svefns við hlið Tuals. Nú vissi hún að úti var um ástir þeirra, að hvorki bænir, ástaratlot né jafnvel litla veran sem hún bar í móðurkviði gæti haldið í Bretónann. Þegar freistingin yrði honum ofviða mundi hann fara. Og hún bjó sig undir þá stund sem örlögin höfðu skapað þeim. Tual sagði varla nokkurt orð lengur, borðaði varla, nartaði bara í matinn. Við borðið hætti hann stundum með hnífinn á lofti í staðnaðri hendinni og starði langt út í buskann, búinn að gleyma fiskstykkinu sem Kata hafði borið fyrir hann eða steiktu rjúpunni sem hann áður var svo sólginn í. Veturinn varð óvenju langur og þótt komið væri fram í apríl var jörð alhvít kring um bæinn og upp um öll fjöll. Samt sem áður nálgaðist heimskautabirtan að sínum hætti. Og Tual beið niðurdreginn. Allt fór í taugarnar á honum, seinagangurinn í Jörundi gamla, sálmasöngur Kötu, brauðskorturinn, vatnsblönduð sýran, það eina sem var að hafa til drykkjar á bænum, hræðileg þráalyktin af lýsi sem settist í allt í eldiviðargeymslunni fyrir móinn þar sem gestgjafar hans fleygðu álkum, lundum og fýlum, sem þau bönuðu með prikum í klettunum. Hann hélt sig eins mikið og hann gat utan dyra og þá helst niðri við víkina, hjá litla bátnum sínum sem var of lítill til að sækja langt út á haf. Hann fór ekki lengur í veiðiferð- irnar með Jörundi, sem veitti honum föðurlega áminningu: – Ef þú hefðir komið með mér í morgun, þá hefðirðu hitt kaupmanninn frá Akureyri. Hann var á leiðinni til Seyðisfjarðar, þar sem flutn- ingaskipin munu í ár taka við fyrri hluta vertíð- araflans af gólettunum. Hann spurði um líðan Kötu og bauð mér geneversnafs. Þessi genever er forláta drykkur. Tual hrökk við, en hann náði nægilegu valdi á sér til að dylja geðshræringuna, og hann spurði eins eðlilegri röddu og hann frekast gat: – Í hvaða átt er þessi Seyðisfjörður? Hér fyrir vestan? Eða í austri? – Í vesturátt. – Langt? – Það fer eftir ýmsu … Þegar krækja þarf inn í landið á sumrin tekur ferðin ekki minna en þrjá daga ríðandi … ef kviksyndið er frosið eins og núna þá er leiðin yfir Hrafnafen áreið- anlega ekki mikið meira en 12 mílur. Þá má fara þetta á nokkrum klukkutímum. – Ah! sagði Tual. Og heldurðu að forin haldi enn… – Auðvitað má engan tíma missa… Þíðan lætur ekki lengi bíða eftir sér … En meðan hrafnarnir eru ókomnir… – Hrafnarnir? – Já … það eru þeir sem gera okkur aðvart … Þegar þeir hópast aftur að Hrafnafeni í vetrarlok, þá er það merki um að forirnar séu að þiðna … þangað til … – Ég skil, sagði Tual. Kata heyrði til þeirra og blóðið fraus í æðum hennar. Gamli aulinn, hann Jörundur, sem óvitandi var að veita henni náðarhöggið með elliæru blaðrinu í sér! Hún sat í keng á hellunni við eldstæðið, með höfuðið í höndum sér og oln- bogana á hnjánum, svo hvorugur mannanna gat séð hve föl hún var. Nokkrum mínútum síð- ar fór Jörundur gamli í rúmið. Hann var gam- all og lúinn, en Tual bar fyrir sig vott af höf- uðverk til að fara út undir bert loft. – Farðu bara að sofa, sagði hann við Kötu. Það er ástæðulaust að þú bíðir eftir mér. Hann hallaði sér fram til að kyssa hana á kinnina, en Kata rétti honum varirnar, sem voru brennheitar og koss hennar varð lengri en venjulega. Varla var hann farinn fyrr en stúlkan fór út á eftir honum. Hún gætti þess að læðast með- fram bæjarþilinu svo að hennar yrði ekki vart. Þegar hún gekk fyrir dyrnar á hesthúsinu sá hún gegn um hálfopnar dyrnar að Tual var að söðla einn hestinn. Hugboð hennar hafði þá ekki verið blekking. Í óþolinmæði að nýta upp- lýsingar gamla veiðimannsins, hafði Tual ekki einu sinni getað beðið til morguns með að koma fyrirætlun sinni í framkvæmd! Hún stytti sér leið til að verða á undan að Hrafna- feni og úr skjóli í dæld milli hólanna gat hún fylgst með honum. Hún hafði ekkert illt í huga. Hafði ekki einu sinni látið sér detta í hug að rísa skyndilega upp fyrir framan svikarann og varpa framan í hann ásökunum um eiðrof við hana. Þessum sviðsetta eiði við forina í Hrafna- feni hafði raunar ekki verið ætlað annað en að vekja upp hjátrúarfullt ímyndunarafl Keltans, en eftir fullyrðingu Jörundar um að forin væri alls hættulaus að vetrinum hafði Tual ekki get- að annað en brosað að sínum fyrri beyg. Og Kata, sem beygði sig fyrir því óhjákvæmilega, vildi bara draga þessa grimmu aðskiln- aðarstund á langinn, festa sér í minni síðustu myndina af flóttamanninum… Að nokkrum mínútum liðnum greindi hún skugga sem kom á stökki í áttina til hennar og í þessum myndarlega reiðmanni þekkti hún Tual. Hún beygði sig bak við kjarrið í sandöld- unum til þess að hann sæi hana ekki. Maður og hestur strukust næstum við hana þegar þeir fóru hjá. Þeir stefndu á Hrafnafen. Án þess að hika hvatti Tual hestinn áfram út í forirnar. Á leið sinni hafði hann ekki í eitt einasta skipti lit- ið um öxl til bæjarins, þar sem hann hafði skilið eftir konu, rétt ófætt barn og gamlan velgerð- armann sem elskaði hann eins og eigin son. Hjarta Kötu herptist saman … Hesturinn klauf loftið. En þegar lengra kom sýndist fóta- burður hans óöruggari og hann eiga í meiri erf- iðleikum. Tvisvar sinnum gaf hann frá sér stutt hnegg, sem gerði stúlkuna óttaslegna. Hún leit betur í kring um sig og veitti því þá fyrst at- hygli að áttin hafði breyst um nóttina, var kom- in á sunnan, vindurinn var dottinn niður, og þar sem hún hnipraði sig bak við hélaðan runna féllu dropar á handarbakið á henni. Það er að hlána, guð minn góður! Hún reis skjálfandi upp og hrópaði af öllum kröftum: Tual! Tual! Snúðu við! Hann heyrði ekki til hennar eða kannski misskildi hann af hverju hún var að kalla. Hafði Jörundur ekki sagt: Ekkert að óttast, svo lengi sem hrafnarn- ir eru ókomnir? Svo langt sem augað eygði var heldur ekki nokkra missmíði að sjá á forinni, hvorki blettur né hrukka.. Sú staðreynd vakti með Kötu ofurlitla von. Ef einhver þekkti Hrafnafenið þá var það svo sannarlega faðir hennar. Eftir nána umgengni dag hvern í sextíu ár huldu þessar dularfullu forir engin leyndarmál lengur fyrir honum. Jörundi gat ekki skjátlast. Samt læddist að henni lúmskur uggur. Hún lyfti augum til him- ins, eins og til að grátbiðja hann um þá hjálp sem hún vænti sér ekki lengur frá mönnum og henni sýndist eins og eitthvað rifnaði þarna uppi yfir henni, í djúpi nætur rauf bjarmi myrkrið, sem fram að þessu hafði aðeins verið lýst upp af endurskini frá hvítri jörðinni. Þessir glampar urðu smám saman líflegri og breidd- ust út yfir allt. Á sama andartaki klauf gríð- arleg hallandi flaug loftið rétt hjá Kötu. Kvik- andi þyrill umvafði hana og hvarf líkur stormsveipi í átt til strandar. Hver hviðan tók við af annarri, þyrlaðist ærandi úr einum stað í annan. Í kjölfar fyrstu framvarðasveitanna kom gríðarlegur gargandi her, svo þéttur að dimmdi á himni og aftur varð nótt. Steini lostin stóð stúlkan á öndinni. Koma hrafnanna hafði sópað burt síðustu voninni og nú þegar sá hún fyrir sér harmleikinn sem koma skyldi og að hluta til var henni að kenna. Var það ekki hún, þegar allt kom til alls, sem hafði leyst bölvunina úr læðingi? Hún sem kall- að hafði yfir Tual reiði Hrafnafens til þess eins að láta á reyna hvort honum væri alvara. Forin hafði hlustað og bjó sig nú undir að gleypa þennan ótrygga elskhuga, svikarann við heit sitt …Varla eina mílu frá Kötu, þarna niðri á þessari hvítu breiðu sem ætlað var að sveipa hann líkklæði, barðist vesalings maðurinn við sömu ógnarhugsanirnar. Skelfingin blandaðist örvæntingarfullu átaki í tilraun til að losa hálf- fasta fætur reiðskjótans og neyða hann með taumunum til að snúa við. Prjónandi skepnan reis nánast beint upp á afturfæturna, til þess eins að falla næstum jafnskjótt með öllum sín- um þunga niður í holuna sem hún hafði mynd- að og sökk þar upp að bringu. Tual flaug eins og byssukúla fram af. Ísinn lét undan þessu þunga höggi. Með nokkurra sekúndna millibili lokaðist Hrafnafen yfir reiðmanninn og reið- skjóta hans. Kata sá höfuð þeirra beggja koma andartak upp úr leðjunni, handlegg sem sveifl- aðist upp í loftið, ólgu – svo varð forin aftur lág- slétt. Ekkert smáatriði hafði farið fram hjá henni. Það birti eins og um hábjartan dag: kynngi- magnaðir logar norðurljósa lýstu upp himininn og yfir staðnum þar sem Tual og hestur hans höfðu horfið spunnu svartir vængir og krossuð nef gormlaga spíral upp í háa súlu. Bærinn Vestra-Horn þar sem stýrimaðurinn slas- aði dvaldi eftir strandið árið 1873. Myndin var tekin árið 1986. Morgunblaðið/Árni Sæberg Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. júlí 2004 | 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.