Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.2004, Qupperneq 7

Lesbók Morgunblaðsins - 16.10.2004, Qupperneq 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 16. október 2004 | 7 J acques Derrida hélt skjölum sínum til haga af mikilli alúð og um- hyggjusemi. Skjalasafn hans var stórt því hann geymdi hvert ein- asta bréf (um fimmtán þúsund talsins) og nánast hvern einasta texta sem rak á hans fjörur, auk óteljandi eig- in skrifa. Fyrir tveimur árum gaf hann safn sitt tveimur öðrum skjalasöfnum, annars veg- ar stofnun samtímaminnis og -útgáfu í Frakk- landi (IMEC) og hins vegar safni háskólans í Kaliforníu (í Irvine) þar sem hann kenndi um langa hríð. Í verkum Derrida eru margir þræðir tengdir skjalasafninu; and- skjalasöfn, arfur og erfingjar, menjar og skrift, það sem lifir af og kemur til baka, aftur- göngur o.fl. Í viðtali teknu við Derrida skömmu fyrir andlát hans, gerir hann sér í hugarlund hvað verði um verk hans eftir dauð- ann. Hann segist hafa tvennt á tilfinningunni þar að lútandi: Að verk hans eigi eftir að koma í ljós, þau eigi fyrst eftir að vera lesin af alvöru eftir hans dag (tekur fram að auðvitað séu nokkrir alvöru lesarar í heiminum í dag en lík- lega ekki nema nokkrir tugir). En að um leið finnist honum sem hann skilji ekkert eftir sig nema kannski það sem er í skjalasöfnum og bókasöfnum og að hálfum mánuði eða mánuði eftir dauða sinn verði hugsanlega ekkert ann- að eftir (Le Monde, 12. október, 2004). En hann hefur einmitt oft skrifað um öskuna sem áminningu um ómöguleikann, um þá ógn sem er forsenda þrárinnar og möguleikans á að skilja eftir sig spor. Derrida vildi setja og setti mark sitt á franskt mál og fræðaheim en gerði það ekki út í bláinn eða af kappsemi og hégómlegum metnaði um að reisa sér minnisvarða. Til þess elskaði hann tungumálið of mikið. Og tungu- málið bíður bara þolinmótt eftir að menn fari að skrifa „almennilega“ á meðan ólátaseggir ljúka sér af, eins og kona gagnvart elskhuga með of brátt sáðlát. Hann elskaði franska tungu af mikilli virðingu og lýsti stundum tengslum sínum við hana eins og ástarævin- týri. Hann elskaði hana eins og útlendingur sem hefur verið veitt skjól innan hennar og þegið líf sitt frá henni. Án þess nokkurn tíma að telja sig eiga þessa tungu eða reyna að eigna sér hana. Hún yrði alltaf önnur en hann og tengsl hans yrðu alltaf tengsl útlendingsins, þess sem er framandi. Og í þeim tengslum er möguleiki á að „ólætin“ eða ögrun elskhugans fái aðra merkingu. Ég minnist senu úr mynd um Derrida, frá heimili móður hans í Alsír en í eldhúsinu var vinkona hans frá París að taka upp kampa- vínsflösku og vildi skála fyrir því að Différ- ance-hugtak hans hefði nú verið skráð í franska alfræðiorðabók, en différance er jú ein fyrsta og frægasta nýsköpun hans á sviði franskra orða. Þá spyr mamma hans hvort þetta sé nú það eina sem hann hafi gert sér til frægðar í Frakklandi, að skrifa eitthvað heim- spekiorð vitlaust, hvað hann hafi nú þurft að vera að óþekktast. En hin „vitlausa“ skrift virðist hafa meiri þýðingu en eitt lítið rang- fært „a“ gat grunað og frönsk fræðatunga varð ekki söm á eftir, hún varð önnur en hún var. Og þá aðra og annarlegu tungu erfum við. Sá arfur sem Derrida skilur eftir sig er langt í frá auðlesinn, auðskilinn eða auðþeg- inn. Hvernig er annars hægt að þiggja slíka gjöf, hvernig á að þakka hana? Einn þráður í ritverkum Derrida er einmitt spurningin um gjöfina. Um ómöguleika gjafarinnar, hvernig skilyrði og forsenda gjafar hljóti að vera ómöguleiki gjafarinnar því innan þeirrar ökónómíu sem við tengjumst hvert öðru í gegnum hljóti gjöfin að vera útreiknuð athöfn: Það er ekki hægt að gefa nema ætlast til ein- hvers í staðinn, einhvern tíma, einhvers staðar (jafnvel fyrir handan). Jafnframt er ómögulegt að gefa nema reyna að reikna út hvort gjöfin sé gefin í þökk. Í þessum skilningi verður gjöf- in því að vera ómöguleg eigi hún mögulega að vera annað en útreiknuð. Og kannski verður ekki hægt að þakka hana fyrr en löngu síðar, jafnvel ekki átta sig á að hún sé gjöf fyrr en löngu síðar. Þegar Derrida gaf skjalasafn sitt til opin- berra stofnana, hafði hann alla mögulega og ómögulega fyrirvara á gjöf sinni. Því vakti það undrun mína að lesa vandræðalaus orð forseta Frakklands og án allra fyrirvara um að Derr- ida sem einn mesti heimspekingur samtímans hafi verið gjöf Frakka til heimsins. Mig rámaði þá í orð Derrida í bókinni um gjöfina og tím- ann (Donner le temps, 1. la fausse monnaie, Éd. Galilée, 1991) um það hvernig menn reyni oft að skapa ímynd sína með gjöfinni, gera hana að sinni og eigna sér hana. En það var einmitt þetta eignarhald sem Derrida leitaðist við að afbyggja. „Ef ég ætti að hætta á að gefa eina stutta, úrfellda, ökónómíska skilgreiningu á afbygg- ingunni, Guð forði mér frá því, eins og ég væri að gefa skipun, þá myndi ég segja án setn- ingar: fleira en ein tunga.“ („Si j’avais à risq- uer, Dieu m’en garde, une seule définition de la déconstruction, brève, elliptique, économ- ique comme un mot d’ordre, je dirais sans phrase: plus d’une langue) (Mémoires pour Paul de Man, Éd. Galilée, 1998, s. 38). (Ég lendi í ógöngum við þýðingu á þessu setn- ingabroti; annars vegar er það eins og óþýðan- legt, hins vegar þýðanlegt á margvíslega og alls ólíka vegu). Skjalasafn er alltaf þegar þýtt og verður alltaf að þýða, skrifaði Derrida í bók sinni um skjalasafnið (Mal d’archive, Éd. Galilée, 1995). Og þegar skjalasöfnin eru þar að auki á mörg- um tungumálum, á milli landa, á milli tungna, þá fara þau á milli mála, eru aldrei gefin, verða aldrei gefin staðreynd og því er okkur arftök- um mikil ábyrgð á höndum, enda eru ógöng- urnar endalausar. Á fundi með þýðendum verka hans, sagði Derrida að þegar þýtt væri fyndist sér sem textinn væri sleiktur með tungu sem er eins og eldtunga eða ástfangin tunga sem færist nær og nær textanum en leyfir sér aldrei að éta hann upp eða brenna (L’HerneDerrida, L’édition de l’Herne, 2004, s. 561). Það verður spennandi að sjá hvernig menn munu taka arfi Jacques Derrida. Við sem vilj- um nálgast hann í fjarlægð útlendingsins, verðum að umgangast skjalasöfnin af eins mikilli virðingu og örlæti og hann gerði áður og gefa okkur tíma til að þýða þau. Og taka með ást á móti öllum mögulegum og ómögu- legum afturgöngum sem losna úr læðingi og elta uppi hina nýju tíma þar til þeir verða aðr- ir. Arfur annarra tungna Eftir Oddnýju Eiri Ævarsdóttur oeae@hotmail.com Höfundur vinnur að doktorsritgerð um and-skjalasöfn við Ecole des Hautes Études en Sciences Sociales í París. AP Skjalasafnið „Þegar Derrida gaf skjalasafn sitt til opinberra stofnana hafði hann alla mögulega og ómögulega fyrirvara á gjöf sinni.“ Um skjalasöfn Jacques Derrida A llt frá fyrstu ritum gegna bók- menntir mikilvægu hlutverki í heimspeki Jacques Derrida. Textabrot úr verkum James Joyce og Edgar Allan Poe styðja heimspekilega greiningu í La Voix et le Phénomène (1967). De la Grammatologie (1967) er að stórum hluta til- einkuð Játningum Jean Jacques Rousseau. Með hverri bók Derrida verður þáttur bók- mennta fyrirferðameiri: Lautréamont, Mall- armé, Jean Genet og Philippe Sollers eru í fé- lagi við Platon í grundvallaritinu La Dissém- ination (1972). Jacques Derrida hefur einnig notið liðsinnis Maurice Blanchot, Antonin Artaud, Paul Celan, Hélène Cixous og fleiri í heimspekilegri og bókmenntalegri greiningu á möguleikum og mætti tungumálsins. Takmörkun heimspekinnar Derrida heldur því fram að heimspekin sé tak- mörkuð að því leyti að hún gleymi hinu óendan- lega og leitist við að vera endanleg, að ná utan um allt. Allt frá Platoni til Hegels, hefur heim- spekin firrt sig leyndinni, leyndarmálinu, sem er ósamræmanleg þekkingunni og hlutleysinu.1 Til þess að skilja þessa afneitun heimspekinnar, segir Derrida aðra rödd nauðsynlega og að hana sé að finna í bókmenntum. Þetta er ekki spurning um að þagga rödd heimspekinnar heldur þvert á móti að takast á við hið erfiða verkefni, af nákvæmni og alvöru, að skilja það sem þessi rödd reynir að fela og afneita. Í greiningu sinni á skáldlegum textum spyr Derrida spurninga sem snúa ekki aðeins að bókmenntum heldur einnig að hugvísindum al- mennt (heimspeki, lögfræði, sálgreiningu, mannfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði...). Nálgunin er ávallt a.m.k. tvíþætt; bókmennta- fræðileg og heimspekileg. Annars vegar skoðar hann skáldið og tengsl þess við tungumálið, hins vegar les hann heimspekilega texta og greinir þá. Oft sækir hann þannig stuðning eða svör til bókmenntanna við heimspekilegum vandamálum. Bókmenntir og lýðræði Derrida telur ómögulegt að aðgreina sögu bók- menntanna frá sögu lýðræðisins. Bókmennta- stofnunin er ekki möguleg nema í samhengi við lýðræði. Bókmenntir hafa réttinn til að segja allt og jafnframt til að segja ekki allt – þær hafa rétt til leyndarmáls, og til að þaga yfir því. Þeim er ekki gert, eða þeim á ekki að gera, að svara valdinu, beygja sig undir það, hvort sem það er ríkisvald, trúarbrögð eða stjórnmálaflokkur. Þessi réttur gerir bókmenntunum kleift að spyrja spurninga sem heimspekin hefur veigr- að sér við að spyrja. Samkvæmt Derrida túlka bókmenntir hið opinbera – hann aðgreinir sig þannig frá þeim sem lesa og túlka bókmenntir sem einkamál eða einstaklingsbundið fyrirbæri. Í hans huga eru bókmenntir opinber stofnun sem leyfir að segja hvað sem er (a.m.k. skv. meginreglu). Það sem einkennir bókmenntir í Evrópu er, segir hann, að þær eru órjúfanlega tengdar ákveð- inni lagalegri og pólitískri þróun: frelsinu til að segja allt opinberlega – málfrelsinu.2 Þrátt fyrir að hinn pólitíski réttur bókmennt- anna til þess að segja allt sé skjalfestur getur enginn treyst því að allt hafi verið sagt: Rithöf- undurinn kann að hafa logið, afmyndað, skáldað eins og sést ef til vill best í textum sem sagðir eru sjálfsævisögulegir. Sannleikurinn getur af- bakast og tekið breytingum. Stundum til að nálgast máttugri eða „sannari“ sannleika. Leyndarmálið Derrida talar um leyndarmálið í þessu sam- bandi vegna þess að í frelsinu til að segja allt felst frelsið til að segja allt nema leyndamálið, að segja allt án þess að gera leyndarmálið op- inbert. Í leyndarmálinu felst hin einstaka mannlega reynsla (ĺexpérience de la sing- ularité) en ekki einhver ákveðin framsetning hennar. Það er ekki opinbert en samt ekki held- ur alfarið einkamál. Leyndarmálið tengist lýð- ræðinu órjúfanlegum tengslum: Derrida gagn- rýnir einmitt „lýðræði“ sem kemur í veg fyrir að þagað sé yfir leyndarmálinu. Allir textar geyma leyndarmál, segir Derr- ida, þ.e. merkingargnótt sem við getum aldrei þóst hafa tæmt. Hann tekur sem dæmi verk rit- höfundarins Paul Celan þar sem koma gjarnan fyrir duldar tilvísanir í líf hans eða í verk ann- arra höfunda. Þótt gert væri yfirlit yfir marg- ræða merkingu textans er alltaf eitthvað eftir, eitthvað umfram. Rýmið í ljóðum Celan er t.d. afar mikilvægt en merking þess er óræð. Það eru ekki til neinar leiðbeiningar um hvernig eigi að takast á við taktinn, braghvíldirnar, hljóðgöpin og rofin í ljóðunum. Í nýrri bók um skáldverk Hélène Cixous fjallar Derrida um hið óákvarðanlega í tengslum við leyndarmálið. Það er á mörkum hins skáldlega, draumsins og hins „raunveru- lega“. Leyndarmál og máttur bókmenntanna felst í því að halda leyndarmálinu leyndu, óráðnu; jafnvel þótt það eigi sér stað játning eða uppljóstrun er hún alltaf óráðin. það er ekki hægt að sanna hvort hún sé „rétt“.3 Leyndarmálið sem Derrida hrífst af í verk- um þessara rithöfunda er þannig óráðið og órætt, rétt eins og „hinn“ í siðfræði afbygg- ingar (déconstruction). Ómöguleiki þess að þekkja hinn leiðir til tengsla sem eru byggð á viðurkenningu og virðingu. Í heimspeki Derr- ida vega réttlætiskröfur þyngra en þekking- arkröfur. Derrida segir afbyggingu vera réttlæti og að réttlæti sé reynsla hins óræða; að vera réttlátur er að viðurkenna óendanlega ábyrgð manns á hinum sem eitthvað sem maður getur ekki ráð- ið yfir (eða ákvarðað) og eitthvað sem er hafið yfir skilning manns. Það er einmitt þessi reynsla af réttlætinu sem knýr okkur frá því að taka ekki ákvörðun til ákvörðunar, til pólitískr- ar ábyrgðar. Skrif höfunda eins og Maurice Blanchot, Paul Celan og Hélène Cixous eru op- in fyrir hinu óræða og veita því sem er annað viðtöku. Um er að ræða afstöðu eða fremur við- mót gagnvart því sem getur orðið, getur komið. Í raun og veru er um að ræða viðurkenningu á framtíðinni, á því að eitthvað sem við sjáum ekki fyrir geti orðið. Máttur tungumálsins Derrida segir verk Hélène Cixous vera í „skil- daga“ eða jafnvel í „sjálfskildaga“. Gjörning- urinn sem verður í verkum Cixous er s.s. ekki í nútíð, heldur í skildagatíð: „gæti ég“ — segir sögumaður. Þennan skildaga, gæti-ég, setur Derrida upp sem öflugri gjörning en aðalsetn- ingu verufræðinnar sem er : „þetta er“. Hélène Cixous, segir Derrida, „lætur reyna á kraft þessa „gæti ég“ í skrifum sínum og í einu vet- fangi verður hið ómögulega mögulegt. Veru- leikinn veitir hugórum/draumórum viðtöku.“4 Í textanum H.C. pour la vie, ćest à dire ... segist Derrida eiga í sífelldum erjum við Cixous um dauðann (þau voru nánir vinir og samstarfs- menn í rúm 40 ár eða allt frá því þau kynntust árið 1962 til dauða hans). Hann segist þurfa að minna hana aftur og aftur á að við deyjum , of fljótt, í lokin: „Ég segi henni,“ skrifar Derrida, „að við deyjum í lokin en hún trúir mér ekki. Hún veit en hún trúir mér ekki. Ég verð að geta trúað henni. Ég þyrfti að geta trúað henni. Ég þyrfti að geta það sem ég get ekki. Ef ég gæti trúað henni. Líkt og ég tryði henni. Líkt og. Gæti ég“.5 Derrida segist þurfa að geta skilið hvað „það að trúa“ þýðir frá hennar „hlið“ – þar sem hann er ekki. Hann þyrfti að geta það sem hann get- ur ekki. Hann getur það ekki, en með því að segja „ég þyrfti að geta“ er líkt og hann tryði henni og líkt og hún hefði rétt fyrir sér. „Hún veit,“ segir Derrida, „hún er sú sem veit og ger- ir tilraunir, enda skrifar hún betur en flestir um dauðann: Hún býr yfir vitneskjunni, en hún trú- ir ekki“ (bls. 14). Ég get ekki trúað henni hvað varðar lífið og dauðann. Ég get ekki trúað henni, það er að segja: ég get aðeins trúað henni, ég get aðeins trúað henni í skildaga (140). þannig fer heimspekingurinn Derrida inn á svið skáldskaparins þar sem meira en hið ómögulega er mögulegt. „Gæti ég“ í textum Cixous, þessi ókennilegi skildagi, sem er hvorki boðháttur né nafnháttur segir Derrida vera á mörkum hins mögulega og hins ómögulega. Þar má ef til vill einnig stað- setja hans eigin heimspeki: „Það þarf að hugsa á annan hátt um möguleika hins ómögulega,“ segir hann.6 Þetta kann að hljóma eins og orða- leikur eða skemmtileg þversögn en í huga Derrida er um að ræða eitt alvarlegasta og mik- ilvægasta verkefni samtímans –verkefni sem hann tókst á við í fylgd skálda.  Tilvísanir 1 Jacques Derrida, Donner la mort, Galilée, 1999, bls. 90–91 og bls. 127. 2 Jacques Derrida, Demeure. Maurice Blanchot, Galilée, 1998. 3 Jacques Derrida, Genèses, généalogies, genres et le génie, Galilée, 2003, bls. 26–27). 4 Jacques Derrida, H.C. pour la vie, ćest à dire…, Galilée, 2001, bls. 14. 5 Sama, bls. 141. 6 „Du mot à la vie: un dialogue entre Jacques Derrida et Hélène Cixous“, Magazine Littéraire, n°4, 2004, bls. 28. Bókmenntir í heimspeki Jacques Derrida Eftir Irmu Erlingsdóttur irma@hi.is Höfundur vinnur að doktorsritgerð um skáldverk Hélène Cixous við Paris 8-háskólann. Eru veitt Adorno-verðlaunin. 2002: Tekur sæti í nefndinni Conseil Scientifique du Département de philosophie de l’Ecole normale supérieure, í París. Tekur þátt í ráðstefnu um „Verðandi lýðræði“ sem Marie-Louise Mallet skipuleggur. 2003: Maurice Blanchot deyr 20. febrúar. Les texta við bálför skáldsins: „A Maurice Blanchot“. Mars: Tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um skáldið: „Maurice Blanchot er látinn“. Gerður að heiðursdoktor við Coimbra-háskólann í Portúgal. 2004: Viðtal við Jean Birnbaum í Musée d’art et d’histoire du judaïsme í París í tilefni af útkomu bókarinnar Le „concept“du 11 septembre. Viðtal við Hélène Cixous á Bókamessu gyðinga í London (Jewish Book Fair). Ráðstefna tileinkuð Derrida í Strasbourg. Tekur þátt í stórri ráðstefnu tileinkaðri honum í Rio de Janeiro. Jacques (Jackie) Derrida deyr af völdum krabbameins í briskirtli hinn 9. október. Upplýsingar fengnar úr Jacques Derrida e. Geoffrey Bennington og Jacques Derrida (Seul, 1991) og tímaritinu L’Herne, sérriti um Derrida (nr. 83, 2004).

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.