Morgunblaðið - 25.01.2004, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 25.01.2004, Blaðsíða 17
25.1.2004 | 17 RÓBERT KRISTJÁNSSON múrarameistari er meðal þeirra sem þrjóskuðust lengi við að fá sér farsíma. Það var ekki fyrr en hann gerði sér grein fyrir að hann væri að missa af verkum sem hann lét undan og fékk sér einn slíkan. „Þegar maður er sjálfstæður atvinnurekandi er þetta eiginlega nauðsynlegt tæki til að fólk geti náð í mann á sem fljótlegastan hátt, t.d. ef það vill bjóða manni verkefni. Það geta komið upp þannig aðstæður að maður þurfi að bregðast fljótt við og kíkja á verk til að gefa tölu í það eða svara hvort maður geti tekið það eða ekki.“ Róbert er með eins árs gamlan Nokia-síma og notast við þær hringingar sem fylgdu með honum. Hann breytir þó oft um hringitón eftir því hvað hentar hverju sinni. „Það þarf að vera eitthvað sem ég heyri vel og það getur verið mismunandi eftir því hvað ég er að gera. Það er t.d. ekki sama hvort maður er úti eða inni.“ Hann segir gemsana hafa breytt miklu fyrir iðnaðarmenn. „Nú er hægt að hafa samband við mann nánast hvar sem er en þetta hefur líka gert það að verkum að iðnaðarmenn, sem eru að vinna fyrir meistara, eru allt of mikið í símanum á vinnustað.“ Það er auðheyrt að Róberti finnst farsímarnir á stundum óttalegir friðarspillar. „Ef ég er að vinna fyrir einhvern, t.d. sem launþegi, finnst mér þetta trufla mig óskaplega mikið í vinnunni og maður verður jafnvel stressaður að hafa símann ef maður á von á leiðinlegum hringingum. Hins vegar er þetta gott í mörgum tilfellum, t.d. þegar um veikindi er að ræða hjá manns nánustu.“ Róbert segist ekki vera það tæknilega sinnaður að hann fari inn á Netið með fulltingi gemsans en noti hann stundum til að skoða veðurspána, t.d. þegar á að fara að steypa. Hins vegar nýtir hann sér SMS-kerfið talsvert, mest í sambandi við vinnu. „Einu sinni fékk ég SMS þar sem ég var staddur upp á þriðju hæð á lélegum stillans en síminn minn flautar á sérstakan hátt þegar ég fæ skilaboð. Þarna tók ég símann og hélt mér með annarri hendinni í hálfgerðri lífshættu á meðan ég las skilaboðin með erf- iðismunum. Þar stóð: „Mikið ertu með sætan rass!“ Ég fór að kíkja í kringum mig og niður fyrir still- ansinn en sá engan. Þá var þetta konan mín heima sem sendi mér þessi skilaboð,“ segir hann og hlær hjartanlega. ÓVÆNT SMS Á LÉLEGUM STILLANS M Ú R A R A M E IS TA R I Farsími ANDREU PÁLMADÓTTUR, hárgreiðslunema í Iðnskólanum í Reykjavík, er henni algjör nauðsyn enda er hún ekki með heimilissíma. „Ég bý með vinkonum mínum og við erum hver með sinn síma,“ útskýrir hún og segist nota símann mikið til skrafs og ráðagerða við vini sína. Hún segir það líka hafa verið algjöra byltingu þegar hún fékk farsíma fyrst en þá bjó hún hjá mömmu sinni. „Það varð miklu meiri friður um heimilissímann eins og t.d. á laugardagskvöldum. Þá stoppaði hann ekki allt kvöldið því vinir mínir voru að hringja og spyrja hvað ég væri að fara að gera.“ Þegar vinir Andreu reyna að ná í hana nú svarar hún í nýjan Sony Ericsson síma sem hún fékk að gjöf frá pabba sínum um jólin og er algjört undratæki að hennar sögn. „Þetta er myndavélasími og ég hef heilmikið verið að taka alls konar flippmyndir á hann af t.d. vinkonum mínum. Enn sem komið er geymi ég þær bara í símanum en get sett þær í tölvuna mína ef ég vil. Svo get ég tekið upp hljóð og haft það fyrir hringingarnar mínar, farið inn á Netið og margt fleira.“ Andrea er ekki nándar nærri búin að kanna alla notkunarmöguleikana enda var gamli síminn mun frumstæðari að hennar sögn. Í honum hafði hún þó nokkur lög sem hún sótti sér á Netið og notaði fyrir hringingar. Með nýja sím- anum er ekki þörf á því. „Hringingarnar eru eiginlega lög og það liggur við að það sé eins og heilt diskótek sé að spila þegar síminn hringir,“ segir hún, hæstánægð með þennan kostagrip. Fyrir Andreu eru SMS-skilaboð orðin ómissandi hluti af tilverunni. „Það er alltaf gaman að eiga sæt SMS frá vinum og vandamönnum,“ segir hún. „Vinkona mín sendi mér t.d. SMS um daginn eft- ir að hún hafði komist inn í skóla sem ég hafði stutt hana í að sækja um. Skilaboðin voru: „Best friends – mundu að mér er ekki sama.“ Með þessu var hún að segja að sér hefði þótt vænt um þetta.“ Hún segir svona litlar hlýjar kveðjur mikils virði: „Klukkan sex á aðfangadag fékk ég örugglega 10 SMS þar sem fólk var að óska mér gleðilegra jóla. Eins fékk ég kveðjur á áramótunum.“ Það er greinilegt að Andreu þykir vænt um þessi skeyti og það kemur því ekki á óvart þegar hún klykkir út með að henni þyki voðalega vænt um símann sinn. MEÐ HEILT DISKÓTEK Í SÍMANUM HÁRGREIÐSLUNEMI ALBERT MAREL RÓBERTSSON, sem er í áttunda bekk í Langholtsskóla, á nýlegan Sony Er- icsson síma með litaskjá. Hann er enginn nýgræðingur í farsímanotkuninni því fyrsta símann sinn eignaðist hann þegar hann var átta, níu ára gamall. „Það var svona stór hlunkur,“ útskýrir hann. Hann segir ekki mögulegt að skipta um útlit eða hulstur á símanum sem hann er með núna en hins vegar hafi hann nælt sér í sérstakt lag á Netinu sem síminn spilar í stað hring- ingar til að láta vita af símtölum. „Flestir krakkarnir í bekknum eru bara með lög sem fylgja símunum af því að það er svolítið dýrt að ná í lögin á Netið,“ segir hann og í ljós kemur að nær allir krakkarnir í bekknum hans eru með farsíma. Sumir þeirra eru líka með ansi flotta síma að mati Alberts. „Einn í bekknum mínum er t.d. með síma með innbyggðri myndavél,“ segir hann og það er greinilegt að þar er Rolls Royce farsímanna á ferð í hans huga. En mega krakkarnir vera með símana í skólunum? „Það er góð spurning,“ segir Albert og dæsir. „Nei, það er alltaf sagt við okkur krakkana að slökkva á símunum í skólanum.“ Hann viðurkennir með semingi að það geti verið vegna þess að þessi tæki trufli. „En ég tek minn eiginlega aldrei með í skólann og ef ég tek hann með þá slekk ég á honum.“ Annars segist Albert nota símann til að ná í vini sína og spjalla við fjölskylduna. Eins og svo margir á hans aldri notar hann Frelsiskort í stað símaáskriftar og segist hann fara með um 500 krónur hálfsmánaðarlega í símakort. Þau borgar hann sjálfur af vasapeningunum sínum þannig að hann þarf að fara sparlega með símtölin. Þá kemur SMS í góðar þarfir enda eru hann og vinir hans býsna iðnir við að senda skeyti sín á milli. Og að sögn Alberts er misjafnt hvað stendur í skeytunum. „Það er allt milli himins og jarðar,“ segir hann og harðneitar að strák- arnir séu að skrifast á um stelpurnar í skólanum. „Það er frekar að maður sendi þeim eitt og eitt skeyti.“ SLEKKUR Á SÍMANUM Í SKÓLANUM GRUNNSKÓLANEMI

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.