Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 26.08.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ „VIÐ látum ekki strákhvolpa lítilsvirða framsóknarkonur og störf okkar, né látum við þá vanvirða stefnumál og lög flokksins og grafa þannig undan fylgi við flokkinn,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, m.a. í framsöguræðu sinni á fundi sem Landssamband framsóknar- kvenna, LFK, hélt í húsakynnum framsókn- arflokksins í Reykjavík í gær, undir yf- irskriftinni: Aftur til fortíðar! Vér mótmælum allar! Á annað hundrað manns; aðallega konur, sóttu fundinn, sem stóð yfir í um það bil þrjá tíma. Fjölmiðlar fengu ekki að fylgjast með fundinum eftir framsöguræðu Sigrúnar. Hún sagði hins vegar í samtali við Morg- unblaðið eftir fundinn að á honum hefði ríkt mikill baráttuvilji, en jafnframt að „fram- sóknarandinn hefði þar svifið yfir vötnun- um,“ eins og hún orðaði það. Í lok hans var samþykkt ályktun, þar sem segir m.a. að framsóknarkonur telji að nýlegt val á ráð- herrum í ríkisstjórn fullnægi ekki mark- miðum flokksins í jafnréttismálum. Álykt- unin, sem að sögn Sigrúnar var samþykkt einróma, er birt í heild sinni hér til hliðar. Berjist af fullum krafti Sigrún, sem er einn stofnenda LFK, rifj- aði í upphafi framsöguræðu sinnar m.a. upp jafnréttisáætlanir flokksins og sagði að á flokksþingi árið 2003 hefði verið samþykkt að setja það markmið að hlutur karla og kvenna í starfi á vegum flokksins verði ekki lakari en 40% árið 2005. „Konur jafnt sem karlar hafa trúað á og fylkt sér undir þessi stefnumál Framsóknarflokksins,“ sagði hún. „Við mótmælum því að þessi stefnumál séu ekki virt nema þegar það hentar þingflokki Framsóknar,“ bætti hún við. „Við höfum samt ákveðið að halda áfram að berjast af fullum krafti fyrir stefnumálum flokksins. Uppgjöf er ekki til í okkar orðabók.“ Sigrún sagði síðar í ræðu sinni að fram- sóknarkonur gerðu þá kröfu að lýðræðis- kjörnir leiðtogar kjördæmanna sex nytu sannmælis innan flokksins. Hvert kjördæmi hefði valið sinn leiðtoga. Og þeirri ákvörðun flokksfélaga hefði hvergi verið hnekkt. „Flokksþing, æðsta stofnun flokksins, velur síðan forystusveitina og eru formaður, vara- formaður og ritari fremstir meðal jafningja, samkvæmt fimm hundruð manna flokks- þingum okkar.“ Sigrún sagði einnig að framsóknarkonur ættu glæsilegar, vel menntaðar og reynslu- ríkar konur í þingflokknum sem og annars staðar. „[Við] blásum því á óvandaðan áróð- ur varaþingmanns sem sjálfur hefur leitað eftir framgangi sér til handa í þremur kjör- dæmum,“ sagði hún og vísaði til Guðjóns Ólafs Jónssonar, varaþingmanns flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þess má geta að í grein á vefritinu hrifla.- is, fjallar Guðjón um þá ákvörðun að Siv Friðleifsdóttir láti af ráðherradómi 15. sept- ember nk., þ.e. þegar umhverfisráðuneytið fer til sjálfstæðismanna. Síðan skrifar hann m.a. að „fáeinir, einkum konur, sem ein- hvern tímann einhvers staðar hafa orðið fyr- ir vonbrigðum með eigin framgang í Fram- sóknarflokknum vitna nú um einhverja meinta þrönga valdaklíku í flokknum sem að því er virðist eigi þar öllu lifandi og dauðu að ráða.“ Bíða ekki eftir prinsum Sigrún sagði að framsóknarkonur vildu jafna stöðu karla og kvenna í flokknum; þær vildu að sjónarmið kvenna fengju notið sín til jafns á við karlana. „Okkur finnst klíkan í flokknum nokkuð kvenmannslaus og bjóðum fram krafta okk- ar og ráðgjöf inn á fundi þeirra. Við fram- sóknarkonur höfum sýnt að við viljum axla ábyrgðina á þjóðfélaginu til jafns á við karla og sannað að í okkur býr sá kraftur sem til þarf.“ Að lokum sagði hún að þingflokkur framsóknarmanna hlyti að skynja, eftir þennan fund, að innan flokksins væri breið- fylking lýðræðis- og jafnréttissinna. „Það verður erfitt að standa og segja – eftir að hafa séð þennan hóp hér – að í andófinu séu einungis fáeinar svekktar konur. Þeir munu jafnframt finna fyrir því að við framsókn- arkonur sofum ekki þyrnirósarsvefni og bíð- um eftir prinsum. Við brjótumst sjálfar gegnum þyrnirunnana.“ Á annað hundrað manns sótti fund Landssambands framsóknarkvenna í gær „Við látum ekki strákhvolpa lít- ilsvirða fram- sóknarkonur“ Morgunblaðið/Árni Torfason Miklar umræður voru á fundi framsóknarkvenna í Reykjavík í gær. JÓN Steinar Gunnlaugsson, prófess- or og hæstaréttarlögmaður, segir enga stjórnskipulega þörf á embætti forseta Íslands og það megi leggja niður. „Ef menn vilja halda því þá er það mín skoðun að það eigi að fella út synjunarvaldið sem felst í 26. grein. Ef synjunarvaldinu er haldið tel ég nauðsynlegt að Alþingi setji lög um atkvæðagreiðsluna sem fram þarf að fara þegar forseti beitir synjunar- valdinu.“ Þetta sagði Jón Steinar þegar hann ræddi 26. grein stjórnarskrár- innar ásamt Dögg Pálsdóttur hæsta- réttarlögmanni og Lúðvíki Berg- vinssyni alþingismanni á fundi Lögréttu í Háskólanum í Reykjavík í gær. Stjórnarskrárgreinin fjallar m.a. um vald forseta Íslands til að synja lagafrumvarpi staðfestingar eftir samþykkt á Alþingi. Telur endurskoðun ekki nauðsynlega Dögg sagði stjórnarskrána og þá 26. greinina ekki þarfnast endur- skoðunar bara af því að forsetinn beitti synjunarvaldinu í sumar. Þó að eitthvað gerðist sem fáir hefðu átt von á, en stjórnarskráin gerði ráð fyrir að gæti gerst, væri það eitt og sér ekki tilefni til endurskoðunar. „Málskotsréttinn má auðvitað skoða í samhengi við allt hitt. En ég er þeirra skoðunar að ef menn vilja fella út 26. greinina verður að setja eitthvað inn í staðinn,“ sagði Dögg og vísaði í það sem Danir gerðu. Þar nægði tiltekinn fjöldi þingmanna til að vísa málum í þjóðaratkvæði. Ekki mætti bara fella 26. greinina niður því þá myndaðist ákveðið tómarúm. Lúðvík Bergvinsson sagði það hafa verið afar sérstakt í sumar að rætt hefði verið um stjórnskipunar- kreppu vegna þess eins að þjóðin fengi að segja skoðun sína á laga- frumvarpi. Spurði hann hvernig það gæti talist kreppa að þjóðin tæki af- stöðu til máls í þjóðaratkvæða- greiðslu. „Ég teldi það algjörlega fráleitt, ef það yrði þannig í reynd, að forsetinn færi að beita þessu valdi í tíma og ótíma. Reyndar tel ég enga hættu á því. Ef forsetinn fer í það að skapa hér óvissu í hverju máli á fætur öðru þá höfum við leiðir til þess, í fyrsta lagi, að setja hann af og í öðru lagi er kosið á fjögurra ára fresti,“ sagði Lúðvík og enginn vildi svo óvisst stjórnarfar. Í reynd væri ekki raun- hæft að ætla að sá sem kjörinn er í embætti forseta myndi á nokkurn hátt hegða sér þannig. Sagan hefði í reynd sýnt það. Þetta væri eitt tilvik á 60 árum og menn ættu ekki að hlaupa upp til handa og fóta og kú- venda stjórnarskránni þótt það kæmi upp. Óskilvirkt stjórnarfar Jón Steinar sagði að stjórnendur þyrftu stundum bæði að taka vinsæl- ar og óvinsælar ákvarðanir. Oft væri nauðsynlegt að taka óvinsælar ákvarðanir og mörg dæmi sýndu að þær hefðu reynst farsælar til lengri tíma litið. Stjórnarstefna sé heildar- stefna sem lögð væri fram og unnið eftir á löngum tíma. Hann sagði að ef forseti færi að neita lögum staðfestingar t.d. vegna einhverra stundarhagsmuna yrði stjórnarfarið ekki skilvirkt. Emb- ættið yrði pólitískt og ríkisstjórnin þyrfti að tryggja sér stuðning forset- ans fyrirfram þegar hún færi fram með erfið mál. Líka væri rétt að for- setinn kynnti afstöðu sína til þing- mála áður en þau yrðu afgreidd. „Þetta leiðir hugann að því hvern- ig Íslendingar vilja að forsetaemb- ættið sé. Vilja þeir að það sé hlut- laust gagnvart pólitískum átökum? Vilja þeir að það sé sameiningartákn eins og það hefur verið talið? Eða vilja þeir hafa þetta pólitískt emb- ætti?“ spurði Jón Steinar og minnti á að Íslendingar væru ekki í vandræð- um með að fjalla um pólitísk ágrein- ingsmál þó forsetaembættið væri ópólitískt. Vettvangurinn væri til staðar á Alþingi og þar væri reglu- lega kosið á pólitískum forsendum. Engin þörf væri á því að gera emb- ætti forsetans pólitískara. Við yrðum verr stödd því ábyrgðin á stjórnarat- höfnum yrði óskýrari. Í því fælist gjörbreyting. Þörf á slíku ákvæði Dögg rifjaði upp umræður um stjórnarskrána fyrir lýðveldisstofn- unina árið 1944 og sagði greinilegt á þeim að synjunarvald forseta hefði verið raunverulegt en ekki formlegt. Þótt það hefði ekki verið notað í 60 ár væri ákvæðið lifandi í huga þjóðar- innar og frambjóðendur í forseta- kosningum hefðu alltaf frá því að hún mundi verið spurðir hvort þeir myndu beita því. Hún sagði þörf á þessu ákvæði og það ætti rétt á sér. Nú þyrfti að setja lög um þjóðarat- kvæðagreiðslu sem allra fyrst og þau ætti ekki að vinna í skugga þess að atkvæðagreiðsla vofði yfir. Skoða ætti slíka lagasetningu almennt án þess að menn væru bundnir af því að móta löggjöfina með tilliti til þess hver niðurstaðan ætti að vera. Allar girðingar í sambandi við það væru óheimilar. Viljinn þarf að vera ljós „Byrjum á því að átta okkur á því hvað við viljum. Setjum svo lagaregl- ur sem hafa að geyma skýran texta um viljann. Þetta er viðfangsefnið í sambandi við stöðu forseta Íslands í stjórnskipuninni,“ sagði Jón Steinar Gunnlaugsson. Textinn í 26. grein og öðrum ákvæðum sem varða forset- ann væri óskýr. Deila sumarsins sýndi það. Ákvæði stjórnarskrárinnar rædd í Háskólanum í Reykjavík Engin þörf á embætti forseta Íslands Morgunblaðið/Jim Smart Dögg Pálsdóttir flytur erindi sitt í Háskólanum í Reykjavík í gær. Haukur Logi Karlsson var fundarstjóri en frummælendur auk Daggar voru Jón Steinar Gunnlaugsson og Lúðvík Bergvinsson. EFTIRFARANDI ályktun var samþykkt á fundi Landssambands framsóknarkvenna í gær: „1. Í Framsóknarflokknum er fjöldi kvenna með hæfileika, reynslu og vilja til að axla pólitíska ábyrgð. Konur sem hafa grund- völl Framsóknarflokksins að leiðarljósi hafna hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynferði. 2. Við framsóknarkonur hvetjum allar kon- ur og jafnréttissinna innan flokksins til að efla tengslanet sín og þjappa sér saman til að halda áfram að ná fram jafnrétti undir merkjum flokksins. 3. Framsóknarkonur munu berjast fyrir því að jafnrétti verði haft að leiðarljósi í flokknum sem og á öðrum vettvangi. Jafnframt hvetjum við jafnt konur og karla að vinna ötullega til að ná fram jafnrétti í þjóðfélaginu. 4. Framsóknarkonur sætta sig ekki við ann- að en að vera metnar að verðleikum og að hafa sömu möguleika og karlar til áhrifa og valda innan flokksins og úti í þjóð- félaginu. 5. Framsóknarkonur telja að nýlegt val á ráðherrum í ríkisstjórn fullnægi ekki markmiðum flokksins í jafnréttismálum sem fram kemur í jafnréttisáætlun flokks- ins og í lögum hans. Jafnréttisáætlun: Flokksþingið setur sér það markmið að árið 2005 verði hlutur karla og kvenna í starfi á vegum flokksins ekki lakari en 40%. Grein 12.8 í lögum flokksins: Við skipan í trúnaðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skal leitast við að hlutur hvors kyns verði ekki minni en 40%. 6. Framsóknarkonur skora á allar stofnanir flokksins að vinna að krafti í anda laga og jafnréttisáætlunar Framsóknarflokksins. 7. Við þökkum þá hvatningu sem við höfum fundið fyrir bæði innan og utan Fram- sóknarflokksins. Hún hefur eflt okkur við að afla málstað okkar brautargengis.“ Ráðherraval fullnægir ekki mark- miðum flokksins í jafnréttismálum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.