Morgunblaðið - 04.11.2004, Síða 10
10 FIMMTUDAGUR 4. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Ögmundur sagði að þar væri af-
dráttarlaust kveðið á um að ekki
stæðist íslensk lög að ráða menn til
erlendrar herþjónustu. „Það er því
ekki undarlegt að ríkisstjórn Íslands
reynir nú allt hvað hún getur að sýna
fram á að íslenska gæslusveitin í Kab-
úl í Afganistan sé ekki hersveit. En
sannast sagna er málatilbúnaðurinn
mjög ósannfærandi,“ sagði hann.
Ögmundur sagði að íslenska sveitin
bæri öll einkenni hersveitar, hún bæri
hermannstitla, flestir liðþjálfar og
majorar og væru undir forystu
„ofurstans“ Hallgríms Sigurðssonar.
Hann beindi nokkrum spurningum
til Davíðs Oddssonar, m.a. hvaða
lagastoð væri fyrir því að koma á fót
vopnaðri liðssveit Íslendinga í Afgan-
istan sem bæri hertitil og lyti heraga.
Hann spurði hvaða réttarstöðu ís-
lensku friðargæsluliðarnir hefðu
varðandi eigin tryggingar og skaða
sem þeir kynnu að valda öðrum og
sömuleiðis hver hefði lögsögu yfir
rannsókn á því ef friðargæsluliði
myndi vega ríkisborgara þess ríkis
sem hann væri að friða. Þá spurði Ög-
mundur utanríkisráðherra hvort ís-
lenskur friðargæsluliði nyti verndar
ákvæða Genfar-sáttmálans um með-
ferð stríðsfanga ef hann yrði tekinn til
fanga af óvinveittum aðilum.
Utanríkisráðherra svaraði því til að
ekki væri litið á friðargæsluliðana
sem hermenn, þótt þeir nytu réttar-
stöðu hermanna innan NATO, lentu
þeir í átökum.
Loks spurði Ögmundur hvort það
DAVÍÐ Oddsson utanríkisráðherra
sagði í utandagskrárumræðum á Al-
þingi í gær, um árásir á íslenska
starfsmenn utanríkisþjónustunnar í
Kabúl í Afganistan, að skipti á yfir-
manni friðargæsluliðsins á flugvellin-
um færu fram fyrr en ráðgert hefði
verið, í kjölfar árásarinnar í Kabúl 23.
október sl. Nýr yfirmaður fer utan 10.
nóvember næstkomandi og er ætlað
að endurskoða öryggisreglur á flug-
vellinum í samráði við fráfarandi yf-
irmann, Hallgrím Sigurðsson. Davíð
sagði að ekki væri litið á friðargæslu-
liðana sem hermenn. Þeir hefðu á
hinn bóginn réttarstöðu hermanna
innan NATO ef til einhverra atvika
kæmi.
Utanríkisráðherra sagði að Kabúl
væri hættulegur staður, friðargæslu
þyrfti ekki þar sem engin væri ógnin,
og því væri nauðsynlegt að tryggja
öryggi friðargæsluliðanna og að eng-
in „óþarfa áhætta“ væri tekin vegna
þeirra. Ráðherra sagði að ítarlega
hefði verið farið yfir árásina, aðdrag-
anda hennar og allar aðstæður. Verið
væri að athuga starfshætti friðar-
gæsluliða og hvort þjálfun þeirra væri
nægjanleg.
„Við tökum mjög nærri okkur þann
skaða sem okkar menn urðu fyrir, um
leið og við lýsum aðdáun okkar á
æðruleysi þeirra og aga eftir að ógn-
irnar dundu yfir og þökkum guði fyrir
að ekki fór verr í þetta skiptið. Ég vil
ítreka að starfsemi friðargæslulið-
anna hefur verið mjög árangursrík.
Stefna íslenskra stjórnvalda er
óbreytt og áfram verður staðið með
bandalagsþjóðum okkar í Afganistan
og ég vona að um það geti ríkt bæri-
legur friður hér,“ sagði Davíð.
Stenst ekki íslensk lög
Umræðan á Alþingi í gær fór fram
að beiðni Ögmundar Jónassonar,
þingmanns Vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs. Ögmundur vitnaði í
upphafi máls síns til 114. gr. almennra
hegningarlaga að hver sá sem réði
menn innan íslenska ríkisins til er-
lendrar herþjónustu skyldi sæta
fangelsi allt að tveimur árum.
kæmi til greina að verða við óskum
Bandaríkjamanna, að sameina gæslu-
liðið í Afganistan bandarískum her-
sveitum sem þar væru í „svokölluðu
stríði“ gegn hryðjuverkum. Davíð
sagði enga afstöðu hafa verið tekna til
þessarar beiðni.
Sinna borgaralegum verkefnum
Utanríkisráðherra sagði að á síð-
ustu árum hefðu íslensk stjórnvöld
markvisst unnið að aukinni þátttöku
Íslands í friðargæslu. Friðargæslulið-
ar væru nú á þriðja tug manna. „Þátt-
taka í friðargæslu felur í sér aukin
tækifæri fyrir okkur, til að leggja
okkar af mörkum, sem við öll viljum,
til að stuðla að friði og stöðugleika í
heiminum. Það má vera ljóst að við Ís-
lendingar reynum seint að leika lyk-
ilhlutverk á alþjóðavettvangi í þess-
um málum, en við einbeitum okkur að
ákveðnum afmörkuðum verkefnum
og þess vegna getur framlag okkar
skipt nokkru máli,“ sagði Davíð.
Að mati Davíðs þarf ekki sérstaka
lagastoð til að stunda friðargæslu af
þessu tagi. „Það er alveg ljóst að þess-
ir menn, sem eru á okkar vegum, eru
að sinna borgaralegum störfum, svo
sem eins og kennslu og þjálfum í
brunavörnum, flugumferðarstjórn og
fleiri þess háttar hlutum.“ Á hinn bóg-
inn, sagði Davíð, hljóta aðilar á frið-
argæslusvæðum að vera til þess færir
að verja sjálfa sig ef til árása kæmi.
„Það felst í eðli friðargæslu, að menn
sem stunda hana starfa á svæðum,
þar sem ógn er á ferðinni. Ella þyrfti
enga friðargæsluliða,“ sagði utanrík-
isráðherra.
Þarf þjálfaða hermenn
Nokkrir þingmenn tóku til máls í
umræðunum. Þingmönnum stjórnar-
andstöðunnar varð tíðrætt um að frið-
argæsluliðarnir hefðu greinilega
stöðu hermanna, þeir lytu heraga og
tækju við tilskipunum yfirmanna
sinna. Nauðsynlegt væri að ræða
hlutverk íslenskra friðargæsluliða og
hvernig þeir væru þjálfaðir til starfa.
Var kallað eftir umræðu um málið
innan utanríkismálanefndar Alþingis.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þing-
maður Samfylkingarinnar, sagði það
blasa við að til friðargæslu þyrfti
þjálfaða hermenn ef vel ætti að
ganga. Sagðist hún löngum hafa gert
athugasemdir við það að litið væri til
friðargæslu innan íslensku utanríkis-
þjónustunnar sem þróunarsamvinnu.
Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðis-
flokki, sagði að leita þyrfti allra leiða
til að tryggja öryggi friðargæsluliða,
þannig að atvik eins og í Kabúl í síð-
asta mánuði endurtæki sig ekki.
Sagði hún friðargæsluliðana hafa
sýnt mikið hugrekki og fórnfýsi og
þakkaði þeim fyrir vel unnin störf við
erfiðar aðstæður.
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknar-
flokki, sagði friðargæsluliðana ekki
vera hermenn í hefðbundnum skiln-
ingi þess orðs. Þeir sinntu borgara-
legum verkefnum en það blasti við að
þeir þyrftu að bera vopn á ófriðar-
svæðum. Eitthvað hefði heyrst ef
verr hefði farið í Kabúl og friðar-
gæsluliðarnir ekki verið vopnaðir.
Utandagskrárumræður á Alþingi um störf íslensku friðargæsluliðanna í Afganistan
Hafa réttarstöðu hermanna í NATO
Morgunblaðið/Árni Torfason
Davíð Oddsson utanríkisráðherra.
Morgunblaðið/Kristinn
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar.
EFTIR að yfirmaður öryggisgæslu
Íslendinga á flugvellinum hafði gert
vettvangskönnun í Chicken Street,
fjölförnustu verslunargötu Kabúl,
vegna fyrirhugaðrar ferðar þangað til
teppakaupa, var rætt um að viðkoma í
versluninni yrði að vera stutt og
vörur tilbúnar til afhendingar þegar
þangað væri komið. Það brást og mið-
að við áætlaðan komutíma í versl-
unina höfðu friðargæsluliðarnir verið
þar í klukkustund þegar árásin var
gerð.
Þetta er meðal þess sem kemur
fram í samantekt utanríkisráðuneyt-
isins vegna sprengjuárásarinnar í
Kabúl 23. október sl.
Í samtali við Morgunblaðið sagðist
Hallgrímur telja að þeir hafi verið
inni í búðinni í um 45 mínútur.
Gunnar Snorri Gunnarsson ráðu-
neytisstjóri sagði að samantektin
væri byggð á upplýsingum þeirra
sem voru á staðnum.
Lengi áform um ferðina
Fram kemur að áform höfðu verið
uppi um það í nokkurn tíma að efna til
ferðar í verslunarhverfi borgarinnar
vegna teppakaupa áður en heim yrði
haldið, en mannaskipti á flugvellinum
eru fyrirhuguð 30. nóvember. Hall-
grímur Sigurðsson, yfirmaður flug-
vallarins, bað Ásgeir Ásgeirsson, yf-
irmann öryggisgæslu Íslendinganna,
að kanna vettvang í verslunarhverf-
inu m.a. hvar þá teppaverslun var að
finna sem mælt hafði verið sérstak-
lega með af hálfu tyrkneskra kunn-
ingja og fleirum. Sú vettvangskönnun
fór fram fimmtudaginn 21. október.
Þegar ferðin var farin var öryggis-
ástandið nokkuð gott, ástandið hafi
verið metið sem „grænt“ af hálfu ör-
yggisyfirvalda friðargæsluliðsins sem
er lægsta viðbúnaðarstigið.
Í bifreiðinni voru, auk íslensku frið-
argæsluliðanna sex, Bandaríkjamað-
ur sem starfar á flugvellinum og
Tyrki sem að sögn Hallgríms hafði
milligöngu um verslunarferðina.
„Gestrisni með
tilheyrandi spjalli“
Brottfarartími frá flugvellinum var
um 13:55 og var áætlaður komutími
til verslunarinnar um 14:15. „Þegar á
reyndi var verslunareigandi ekki
tilbúinn með þær vörur sem lofað
hafði verið og er lélegu símasambandi
um kennt. Var hafist handa um að
taka til varninginn jafnframt því sem
þiggja þurfti hefðbundna afganska
gestrisni með tilheyrandi spjalli. Allt
tók þetta lengri tíma en áætlað var.
Komið hefur fram að þeir sem úti
voru töldu stoppið orðið of langt og að
Ásgeir hafi með fasi og látbragði gefið
þeim sem inni voru til kynna að tíma-
bært færi að fara að tygja sig, en ekki
sagt það berum orðum eða krafist
þess. Í framhaldi af því segir þó [Hall-
grímur] við þá sem inni voru að klára
málið og það er við upphaf að und-
irbúningi að brottför þeirra sem árás-
in er gerð eða um kl. 15:15,“ segir í
samantektinni.
Í niðurlagi segir að það liggi fyrir
að upprunaleg tímaáætlun stóðst ekki
en þó verði að hafa í huga að ferðin
var farin við tiltölulega góðar öryggis-
aðstæður. Ennfremur segir: „Ekki
liggja fyrir neinar vísbendingar frá
öryggisyfirvöldum friðargæslunnar
um að lengd dvalarinnar fyrir utan
verslunina í „Chicken Street“ hafi or-
sakað árásina eða hvort hún hafi ráð-
ist af því að þar var um tilviljanakennt
skotmark að ræða.“„Staðreyndin er
sú að ferðir utan flugvallar geta verið
hættulegar og á það hefur verið lögð
áhersla í öllu starfi friðargæslunnar í
Kabúl,“ segir í niðurlagi samantekt-
arinnar.
Í samantektinni er tekið fram að
ein ástæða þess að Ásgeir Ásgeirsson
leitaði frekar eftir aðstoð Íslendinga
við öryggisgæslu í ferðinni, fremur en
til annarra friðargæsluliða sem starfa
við flutninga á flugvellinum, var sú, að
hann taldi Íslendingana betur hæfa til
að sinna því hlutverki. „Reynslan
hafði sýnt að ekki aðeins voru þeir
betri og varkárari ökumenn heldur
töluðu þeir bæði íslensku og ensku, en
málakunnáttu og þjálfun margra al-
þjóðlegra friðargæsluliða er verulega
ábótavant,“ segir í samantektinni.
Samantekt utanríkisráðuneytisins um sprengjuárásina
Höfðu verið í allt að
klukkustund í versluninni
HALLGRÍMUR Sigurðsson, yfir-
maður flugvallarins í Kabúl sagðist í
viðtali við Morgunblaðið ekki sjá hvað
hefði átt að gera með öðrum hætti í
sambandi við verslunarferð í teppa-
búð í borginni en meðan á henni stóð
var gerð sprengjuárás á íslenska frið-
argæsluliða. „Ég sé það satt að segja
ekki. Ég held að okkar viðbúnaður og
hegðun hafi verið eins og best var á
kosið, miðað við að við vorum að fara í
bæinn,“ sagði hann. Engar reglur
hefðu verið brotnar með því að fara í
ferðina og engar viðvaranir frá her-
liðinu í Kabúl um ferðir um þessa
götu hefðu verið í gildi.
Hallgrímur, tveir aðrir íslenskir
friðargæsluliðar, Bandaríkjamaður
sem starfar á flugvellinum og tyrk-
neskur sendiráðsstarfsmaður voru
inni í búðinni þegar árásin var gerð.
Í viðtali við Morgunblaðið í gær,
sem tekið var áður en tilkynnt var um
að yfirmannsskiptum á flugvellinum
yrði flýtt, sagði Hallgrímur að hann,
Friðrik Már Jónsson flugumferð-
arstjóri og Bandaríkjamaðurinn hafi
ætlað að kaupa teppi í búðinni en að
Tyrkinn hafi átt milligöngu um ferð-
ina. Hann telur að hafi verið inni í
teppabúðinni í Kabúl í um 45 mínútur
þegar sjálfsmorðssprengjuárásin var
gerð. Aðspurður sagðist hann ekki
hafa gert ráð fyrir sérstökum tíma-
takmörkunum vegna ferðarinnar.
„Þetta er öðruvísi en að fara út í búð
og að kaupa sér kók. Það eru ýmsir
siðir sem tengjast þessu. Maður þarf
að byrja á að setjast niður, tala við
kaupmanninn og drekka te áður en
maður fær að skoða og versla,“ sagði
hann. Hallgrímur kvaðst ekki hafa
verið tekinn að ókyrrast þegar árásin
var gerð en hún hefði hafist í þann
mund sem þeir ætluðu að yfirgefa
verslunina.
Engum skipað
Í viðtali við friðargæsluliðana þrjá
sem slösuðust í árásinni kom m.a.
fram að þeir höfðu engan áhuga á
teppakaupum. Spurður um hvað
hefði gerst ef þeir hefðu neitað því að
fara í ferðina, sagði Hallgrímur að þá
hefðu þremenningarnir einfaldlega
ekki farið. Aðrir menn, ekki endilega
Íslendingar, hefðu verið fengnir til
fararinnar. Hann ítrekaði að engum
væri skipað að fara í slíka ferð.
Aðspurður kvaðst Hallgrímur
þurfa að fara um Kabúl 3–4 sinnum í
viku vegna vinnu sinnar og í slíkum
ferðum lentu menn gjarnan í umferð-
artöfum.
Hallgrímur Sigurðsson, yfirmaður
flugvallarins í Kabúl
„Viðbúnaður og
hegðun eins og best
verður á kosið“