Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 19.03.2005, Qupperneq 16

Lesbók Morgunblaðsins - 19.03.2005, Qupperneq 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. mars 2005 Þ að er síðdegi á föstudegi, klukk- an að verða hálfsex. Umferðin er upp á sitt besta, aldrei meiri en á þessum tíma, örlítið farið að skyggja og íbúar borg- arinnar eru á þönum að und- irbúa helgina. Margir eru í innkaupum og áreiðanlega fáir með hugann við málara- listina. Í þessari umferð eru á ferð um Reykjavíkursvæðið sjö karlmenn á besta aldri, misgamlir þó, er all- ir stefna á sama stað í Hafn- arfirði, málverkageymslu Sveins- safns. Í málverkageymslunni eru vel yfir þús- und olíumálverk og fjöldi annarra verka, öll eftir listamanninn Svein Björnsson. Það er heldur heitt í safninu, myndirnar standa þétt upp að hver annarri, raðað í skipulega röð í rekkum. Lyktin er sterk og vekur óneitanlega minningar um heimsóknir til málarans, olíulykt sem fyllir vitin, lykt af einhverju sem hefur verið skapað. Einn og einn tínast félagarnir inn. Þeir þekkjast mis- vel en allir eiga það sameiginlegt að hafa ver- ið Sveini Björnssyni listmálara hjartfólgnir. Þrír eru synir hans, Erlendur kvikmynda- gerðarmaður, Sveinn læknir og Þórður lög- fræðingur. Hinir eru samferðamenn hans og vinir frá ýmsum tímum, Eðvar Ólafsson rannsóknarlögreglumaður, Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn, Freysteinn Jóhannsson blaðamaður og greinarhöfundur Skúli Eggert Þórðarson. Í málverkageymslunni hefst þessi sam- verustund okkar félaganna sem á eftir að standa næstu 6–7 klukkustundir. Erlendur sýnir nýjustu aðföng safnsins, þar á meðal er glæsilegt stórt olíumálverk sem hafði eitt sinn verið í eigu stórfyrirtækis en síðustu eigendur myndarinnar höfðu gefið safninu verkið. Þetta er mikil mynd frá árinu 1954, ein af fyrstu stórum olíuverkum sem Sveinn hafði málað – viðfangsefnið er sjórinn, tog- araáhöfn að glíma við fiskinn og að greiða úr flækju veiðarfæra. Ekki ókunnuglegt við- fangsefni en tæknin og mótífið talsvert öðru- vísi en síðar varð hjá listamanninum. Myndin er eilítið farin að skemmast og viðgerð er því óumflýjanleg. Einhver hafði orð á því hvort svo færi að verið gæti að aðföng safnsins yrðu því ofviða en það var snarlega hastað á hann fyrir að vera með svona úrtölur. Fljótlega var haldið af stað á áfangastað, Sveinssafn í Krýsuvík. Þeir bræður hafa útbúið góðan viðurgjörning, íslenska kjöt- súpu sem ákveðið var að snæða þar. Hópnum var skipað í tvær bifreiðar en fyrst var ákveðið að fara í Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði til að skoða hvernig vetursetu altaristöflu Krýsuvíkurkirkju væri háttað. Í kirkjudyr- unum tekur séra Gunnþór Ingason á móti hópnum og leiðir okkur félagana inn í Hafn- arfjarðarkirkju þar sem altaristaflan blasir við þeim sem ganga að kirkjudyrum. Ákveðið er að taka mynd af hópnum við altaristöflu Sveins. Er séra Gunnþór fenginn til þess og ber sig fagmannlega að því verki, raðar mönnum ákveðið upp og hagar sér á allan hátt sem hann hafi aldrei gert neitt annað um ævina en að stilla mönnum upp fyrir myndatökur. Það er ekið um Krýsuvíkurveg heldur rösklega. Fljótlega myndi fara að rökkva og það er ekki eftirsóknarvert að vera á ferð í myrkri á þessum stað. Það er engin umferð, enda er Krýsuvíkurvegur ekki fjölfarinn þeg- ar komið er suður yfir Vatnsskarð. Hann ber þess merki að vera lagður fyrir mörgum ára- tugum og er einnig vanhirtur. Vegarslóðinn sleikir hverja laut og hól, sjálfsagt eru þeir ekki margir svo nærri þéttbýli sem hafa fleiri blindhæðir og -beygjur og þó ekki lengri en raun ber vitni. Við Kleifarvatn er vegstæðið hvað hrikalegast. Snarbratt klettabeltið slútir yfir veginn sem hlykkjast eins og ormur með fram vatninu. Syðst við vatnið liggur veg- urinn upp bratta hlíð inn í þrönga klettagjá. Þaðan er mikið útsýni norður yfir vatnið og til austurs. Ógnvekjandi staður en þó tign- arlegur. Einmitt á þessum stað varð Sveinn fyrir því óhappi fyrir mörgum árum að festa bílinn sinn að vetri til í snjóskafli. Hann var þá einn á ferð og afréð að halda ferðinni suð- ur til Krýsuvíkur áfram fótgangandi, í snjó- komu og svartamyrkri. Hann tók meira að segja með sér vistirnar, tvo innkaupapoka. Gangan hafði tekið hátt í 5 tíma þegar Sveinn komst hrakinn og kaldur heim í húsið sitt. Aðspurður síðar hvort hann hefði ekki verið að því kominn að örmagnast, svaraði Sveinn því þannig að víst hefði hann verið orðinn svolítið þreyttur. Eftir að hann var búinn að fá í sig hita málaði hann þessa nótt einstaka sjálfsmynd, nokkuð sem hann gerði þó allajafna lítið af. Sjálfur hélt hann mikið upp á þá mynd sem ósjálfrátt vakti honum alltaf minninguna um hrakningarnar við Kleifarvatn. Tilhugsunin um að vera einn fót- gangandi á þessum stað í snjókomu og myrkri vekur manni hroll. Þegar komið er að hverasvæðinu í Krýsu- vík blasir við fagurblátt hús með rauðmáluðu þaki. Ekki sérlega stórt um sig en ber sig vel, með háu og miklu risi sem á er stór suð- urkvistur. Þaðan má sjá litlu kirkjuna í Krýsuvík og gamlan kirkjugarð þar sem Sveinn hvílir nú. Þetta er húsið hans Sveins Björnssonar, afdrepið hans og vinnustofa til margra ára en nú er þar safnið hans, Sveins- safn. Umhverfis Sveinssafn er afgirtur garðskiki og er húsið í miðju hans. Aðkoman að húsinu er eins og annað í Krýsuvík, hrjóstrugt en mikilfenglegt. Gras og annar gróður fær að spretta átölulaust og óhindrað. Sjálfsagt myndi vel slegið gras vera stílbrot á þessum stað. Göngustígurinn upp að húsinu er farinn að gróa saman við grasið í kring, það er greinilegt að ekki er eins mikið gengið þarna og áður var. Framan við húsið eru eins konar listaverk, útskornir trédrumbar og tilhöggv- inn mikilúðlegur steinn þar sem stórkarlalegt andlit starir á aðkomumann. Þarna blasir einnig við ofnsáta, mikil um sig og sér- kennilega gerð, úr gömlum ryðguðum pott- ofnum sem staflað hefur verið hverjum upp á annan. Ofnahrúgan og gamall uppstilltur miðstöðvarketill er hvort tveggja óbrotinn minnisvarði um stöðuga baráttu listamanns- ins, en misárangursríka, við að halda hita á húsinu. Þessi listaverk eru þó farin að láta á sjá, ofnsátan að kikna í hnjáliðunum og mið- stöðvarketillinn hallast ískyggilega. Synir Sveins hafa á orði að þetta þurfi að laga næsta sumar. Lyktin á þessum stað er allri annarri lykt frábrugðin, undirfurðulegt sam- bland af hveralykt og öðru úr umhverfinu, og þegar inn í Sveinshús er komið bætist við lyktin af málverkum og olíulitum. Synir Sveins hafa breytt húsinu í safn um list hans. Endurbætur hafa verið gerðar og pallur reistur sunnan við húsið þar sem unnt er að sitja á góðum sumardögum. Inni í hús- inu hafa verið útbúnir tveir sýningarsalir, báðir afar litlir en tengdir saman með löngum gangi. Standi maður við inngöngudyr annars hvors salar sér maður inn í þann sal en um leið inn ganginn og tengist þannig hin- um salnum. Geómetrían í þessu er í anda meistarans sjálfs sem reyndar lagði þó ekki mikið upp úr því formi í listsköpun sinni. Er- lendur segir okkur frá verkunum – fuglinum í myndunum hans. Bláhöfði og madonnan eru þó víða sjáanleg. Fjölbreytileikinn er mikill og hugmyndaflugi listamannsins voru engin takmörk sett frekar en frjálsu flugi fuglsins í myndheimi hans. Þarna voru einnig myndir frá síðasta listaskeiði Sveins þar sem liturinn einn hafði tekið yfir teikninguna. Það húmar senn að og við göngum út fyrir húsið og öndum að okkur vetrarrökkrinu. Veðurhamurinn þarna getur verið slíkur að hann eirir engu en núna er hins vegar nánast logn. Við stöndum þögulir um stund og horf- um út á litlu vötnin tvö sem þarna sjást frá húsinu, annað fulllagt ísi þar sem sjá má móta fyrir æfingaakstri vélhjóla en hitt er ólagt. Enga skýringu er að sjá á þessum mun sem e.t.v. er einkenni Krýsuvíkur – nátt- úrufyrirbrigði sem ekki sjást víða annars staðar Við göngum til stofu, kjötsúpan er á elda- vélinni og matarlyktin fer að gera vart við sig. Þetta er gamaldags kjötsúpa sem soðin er daginn áður og geymd í einn sólarhring til að taka sig. Þá er hún best. Á þessum stað er gott að vera og langar samræður óþarfar. Við unum okkur þarna þegjandi, hver í sín- um hugarheimi. Freysteinn gluggar í lista- verkabók, Eðvar og Egill skoða síðustu myndir Sveins í vinnustofunni, Erlendur vinnur í skrá um listaverkin og greinarhöf- undur leggst fyrir. Þórður og Sveinn yngri tala saman í hálfum hljóðum í eldhúsinu. Þögnin er rofin með tilkynningu um að nú sé kominn tími til að setjast að snæðingi. Klukkan er enda langt gengin í níu um kvöldið og óneitanlega er hungrið farið að gera vart við sig. Kjötsúpan er snædd úr djúpum diskum og skeið er eina verkfærið. Það kemur enda í ljós að kjötið og rófur merjast auðveldlega í sundur. Maturinn bragðast afbragðsvel og það sem er í föstu formi bráðnar í munni. Í upphafi máltíðar minnumst við Sveins og rifjum upp tilefni þess að við séum komnir þarna saman – Sveinn hefði orðið áttræður á miðnætti þenn- an dag hefði hann lifað. Andi hans svífur yfir matnum, því oft var elduð kjötsúpa í þessu húsi. Máltíðin tekur langan tíma, menn gleðj- ast saman og það þarf oft að heiðra gestgjafa og listamanninn. Menn hafa margt að ræða og miklar sögur sagðar, Louis Armstrong blæs í trompet á neðri hæðinni og ómur af tónlistinni berst upp. Að lokinni máltíð er gengið til stofu og snæddur eftirréttur. Erlendur hafði með sér að heiman fartölvuna sína og heldur nú tölvufrumsýningu á því hvernig unnt verður að sýna myndir úr gagnagrunnsskrá safnsins á sjónvarpsskjá og myndvörpum á sýningum annars staðar. Við sjáum að áhorfandinn get- ur valið sér myndir eftir alls konar leiðum og látið þær standa á skjánum eins og hann lystir. Þeir bræður hafa á orði að með þess- um hætti væri unnt að stækka litlu sýning- arsalina í Sveinshúsi og svo hitt að litlar myndir fá nýja vigt. Þar er mikil og óeig- ingjörn vinna á bak við. Rökkursögur eru sagðar og menn minna á að löngum fannst Sveini hann aldrei vera einn og var hann þó aldrei myrkfælinn. Bræðurnir segjast ekki sofa í húsinu og einhverjir næmir ein- staklingar hafa ekki haldist þar við og talið sig finna nálægð einhverra fjarstaddra. Það er þó ekki talin nein sönnun þess að þarna sé reimt og það rifjað upp að Birgitta Eng- ilberts, vinkona Sveins eftir að hann varð ekkjumaður, undi sér vel í Krýsuvík og svaf þar ótrufluð. Í næturhúminu, þegar klukkan er mið- nætti, tygjum við okkur til heimferðar, lík- amar saddir eftir góða máltíð og skemmti- legar samræður. Kyrrð hugans er mikil eftir dvölina í Sveinssafni og andinn er endur- nærður eftir samveruna. Myrkrið grúfir yfir og við kveðjumst án orðskrúðs. Í vinnustofunni hangir málarasloppurinn uppi, inniskórnir hans eru við trönurnar, píp- an liggur í öskubakkanum og tóbaksbréfið hálft þar hjá. Allt er óhreyft eins og lista- maðurinn skildi við það – rétt eins og hann hefði brugðið sér frá eitt augnablik. Álfkonan hans lítur eftir staðnum með sama hætti og hún gætti hans þegar hann var þarna einn um nætur. Garðabæ, 19. febrúar 2005. Í minningu málara Sjö menn héldu til Krýsuvíkur nýlega með kjötsúpu í nesti. Áð var í safni Sveins Björns- sonar listmálara, borðað, rifjaðar upp sögur af Sveini og skrafað um listina. Eftir Skúla Eggert Þórðarson Höfundur er lögfræðingur. Sveinshús „Þegar komið er að hverasvæðinu í Krýsuvík blasir við fagurblátt hús með rauðmáluðu þaki. Ekki sérlega stórt um sig en ber sig vel með háu og miklu risi sem á er stór suðurkvistur.“ ’Eftir að hann var búinn að fá í sig hita málaði hannþessa nótt einstaka sjálfsmynd, nokkuð sem hann gerði þó allajafna lítið af. Sjálfur hélt hann mikið upp á þá mynd sem ósjálfrátt vakti honum alltaf minninguna um hrakningarnar við Kleifarvatn. Tilhugsunin um að vera einn fótgangandi á þessum stað í snjókomu og myrkri vekur manni hroll.‘ Ljósmynd/Hreinn Magnússon

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.