Lesbók Morgunblaðsins - 25.06.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. júní 2005
V
issulega er það svo að meðalhiti
á Grænlandi og Íslandi breyt-
ist ekki alltaf á sama hátt í
báðum löndum frá ári til árs
eða frá einum áratug til ann-
ars. Hér á landi getur verið
ríkjandi norðanátt og kuldi að jafnaði, eða
suðlæg átt og hlýindi, þó að á Grænlandi eigi
það sama ekki fyllilega við, mánuðum og ár-
um saman. En málið horfir öðruvísi við þegar
litið er á meðaltöl margra áratuga, að ekki sé
talað um nokkrar aldir. Þá eru vindáttirnar
eins og þær eiga að sér til lengdar, ef svo má
segja, og þá verður hita-
munur landanna mark-
tækur með mikilli ná-
kvæmni. Þetta sýnir sig þegar tvær
algerlega óháðar aðferðir eru notaðar til að
bera saman hitafar í 1100 ár á Íslandi og
loftslag á Grænlandsjökli á sama tíma.
Hitafar á Íslandi 901-2000.
Neðra línuritið á teikningunni sem hér fylgir
sýnir áætlun um hitafar í Stykkishólmi í 1100
ár eftir sögulegum gögnum og hitamæling-
um. Það var fyrst sýnt á ráðstefnu í Aspen í
Colorado árið 1962 og var birt í bókinni Haf-
ísnum árið 1969, en síðan hefur það tekið
mjög litlum breytingum. Fyrstu hitamæling-
arnar eru úr Reykjavík 1823-1845, en þá
byrjaði Árni Thorlacius veðurathuganir sínar
í Stykkishólmi, og þar hafa þær haldið áfram
síðan. Á þessu langa tímabili frá 1823 mátti
svo finna samhengið milli lofthitans og dvalar
hafíssins við landið á hverjum áratug. En um
hafísinn við landið er til allgóð vitneskja allt
frá því um 1600, og á henni mátti byggja
áætlun um hita hvers áratugar á árunum frá
1601 og fram yfir 1820. Sýnu erfiðara var að
meta hita áratuganna frá því um 901-1600.
Það var gert með hliðsjón af sambandi loft-
hitans eftir 1600 og fjölda harðæra á hverjum
áratug sama tímabils. Þau harðæri voru skil-
greind á vissan hátt: Annaðhvort var miðað
við að þá hefði orðið mannfall af harðrétti eða
hafís náð austur fyrir land og til suðurlands,
nema hvort tveggja væri. Varla þarf að taka
fram að þessi fyrri hluti línuritsins er miklu
ónákvæmari en hinn síðari, og því er for-
vitnilegt að fá samanburð á honum og rann-
sóknunum á Grænlandsjökli.
Það línurit lofthitans á Íslandi sem með
þessu fæst sýnir fjögur misheit tímabil. 901-
1200, 1201-1600, 1601-1920 og 1921-2000.
Meðalhiti þeirra er sýndur með svörtu stalla-
línunni. Ekki er hitamunurinn milli þeirra
mikill, en allar rannsóknir sýna að litlar hita-
breytingar geta haft örlagarík áhrif á hag
þjóðarinnar, bæði landbúnað og fiskveiðar.
Loftslag á Grænlandsjökli
Árið 1966 urðu þau tímamót að borað var
djúpt í Grænlandsjökul í rannsóknaskyni. Af
efnasamsetningu borkjarnans mátti ráða
nokkuð um hver lofthitinn hefði verið á mis-
munandi dýpi þegar snjórinn féll. Þessar
rannsóknir eru nú komnar svo langt að til er
listi yfir hlutfallið milli súrefnissamsætnanna
O16 og O18 í snjólagi hvers einasta árs síðan
árið 1133 fyrir Krist. Miðað er við borun á
ákveðnum stað sem er einkenndur með stöf-
unum GISP2, um það bil 700 kílómetrum
norðar en Ísland, miðja vegu milli austur- og
vesturstrandar Grænlands. Rauða stallalínan
sýnir einmitt þessi meðaltöl súrefnisins á
sömu tímabilum og svarta stallalínan frá Ís-
landi er reiknuð fyrir. Það liggur í augum
uppi hvað samræmið er gott milli þessara
tveggja línurita. Þó að það stafi ef til vill að
einhverju leyti af tilviljun, er þetta samt
mjög eindregin vísbending um að langvar-
andi loftslagsbreytingar fylgist að á Íslandi
og Grænlandi, og jafnvel víðar. Því má segja
að Sigurður Þórarinsson hafi verið sannspár
þegar hann sagði að hafísinn við Ísland væri
eins konar hitamælir, ekki aðeins Íslands,
heldur alls Norður-Atlantshafsins og land-
anna sem að því liggja. Það var einmitt sú
hugmynd hans sem kom mér til að ætlast á
um loftslag á Íslandi á sögulegum tíma. Og
það var hann sem bað mig að hlaupa í skarðið
fyrir sig þegar hann gat ekki sótt loftslags-
ráðstefnuna í Aspen fyrir 43 árum.
Áhrif loftslagsbreytinga
Þrisvar sinnum í sögu Íslands virðist hafa
orðið tiltölulega snögg loftslagsbreyting. Í
lok 12. aldar lækkar hitinn um svo sem hálfa
gráðu og þá fer skyndilega að bera á harð-
ærum, miklum fjölda fátækra förumanna og
baráttu milli höfðingja um búsmala, fóður og
hvers konar varning. Þá byrjar Sturlungaöld.
Hafísinn leggst að og jöklar fara vaxandi,
hratt í fyrstu. Næst er það rétt um 1600 sem
enn kólnar og mannfall af harðrétti verður
hvað eftir annað næstu aldir, en jöklarnir
ganga fram með rykkjum og ná hámarki um
1890. Skyndilega batnar snemma á 20. öld
þegar loftslagið tekur stóra stökkið og verð-
ur jafn hlýtt og á landnámsöld. Það eru
mestu tíðindi í íslenskri loftslagssögu. Haf-
ísinn hverfur að mestu og jöklar minnka með
miklum hraða. Og ýmsum hagfræðingum og
sagnfræðingum til undrunar gerist það að
jafnvel í heimskreppunni blómgast efna-
hagur til lands og sjávar. Tímabundinn hafís
á sjöunda áratug veldur eðlilega nokkrum
þrengingum í landbúnaði, og sennilega gættu
menn þess ekki að haga sókn í sjávarfang í
samræmi við skert lífsskilyrði í sjónum, með
alvarlegum afleiðingum fram á þennan dag.
Þó að meðalhiti langra tímabila sé mikil-
vægur er hitt líka þýðingarmikið að vita hvað
hiti einstakra styttri skeiða, til dæmis ára-
tuga, víkur mikið frá langtímameðallaginu.
Þetta sýnist koma allvel fram á árunum 1601-
1920. Með nokkuð jöfnu millibili koma þá ein-
ir átta áratugir sem eru kaldari en meðaltalið
svo að nemur þriðjungi úr gráðu. Þá er hitinn
að jafnaði um 2,7 stig. Þá verður hungur-
dauði algengur, líklega síðast árið 1887. Þess
á milli verða einstakir áratugir 0,7 stigum
hlýrri eða svo. Bústofninn eykst þá og mann-
fallið í harðindunum er unnið upp. Ætla má
að á fyrri skeiðum Íslandssögunnar hafi
breytileiki loftslagsins verið svipaður, en
ekki nærri eins örlagaríkur vegna meiri hlý-
inda. Og á hlýindaskeiði síðustu aldar er ein-
mitt líka um 0,7 stiga munur á hlýjustu og
köldustu áratugum. Þannig má greina
ákveðna reglusemi í sögunni af loftslagi Ís-
lands, og af henni má kannski læra nokkuð
um hvaða breytileika lofthitans er að vænta í
framtíðinni þegar stórkostleg áhrif af manna
völdum eru hugsanleg. En það er önnur
saga.
Heimildir: Páll Bergþórsson 1962. Óprentuð skýrsla til
History Section of the Conference on the Climate of the
Eleventh and Sixteenth Centuries, Aspen, Colorado 16.-24.
júní 1962.
Páll Bergþórsson 1969. Hafís og hitastig á liðnum öldum.
Hafísinn 333-345. Almenna bókafélagið 1969.
Páll Bergþórsson 2004. Tilraunasalur veðranna. Jöklaver-
öld 87-94. Skrudda 2004.
Grootes, P.M., and M. Stuvier 1997. Oxygen 18/16 var-
iability in Greenland snow and ice…….Journal of Geo-
physical Research 102, 26455-26470 (1997).
Loftslag á Íslandi og Grænlandi
Ef hitastig til langs tíma á Íslandi og Græn-
landi er borið saman leiðir það í ljós afar
áhugaverða fylgni, að mati greinarhöfundar.
Svo virðist sem hitastig falli og rísi á sama
tíma í báðum löndum með öllum þeim afleið-
ingum sem það hefur fyrir lífríki og lífshætti,
en jafnvel nokkur brot úr gráðu geta haft
mikil áhrif.
Eftir Pál Bergþórsson
pallberg@isl.is
AÐ ÖÐRUM söfnum hér á landi ólöstuðum er
Safnasafnið á Svalbarðsströnd alveg sér-
staklega skemmtilegt, fróðlegt og fallegt heim
að sækja. Þar er að finna blöndu alþýðulistar
og samtímalista, handverks og leikfanga, t.a.m.
Brúðusafn Íslands sem jafnan er til sýnis og
inniheldur yfir þúsund brúður og skipt er um
gripi reglulega. Fallegur, stór garður er um-
hverfis, lækur, brýr og stígar og í sumar prýða
garðinn álfar unnir af nemendum 5. og 6.
bekkjar Valsárskóla, álfarnir eru litríkir og
róla, klifra og svífa milli trjánna.
Nú hefur sveitarstjórn Svalbarðsstrand-
arhrepps gefið safninu Kaupfélag Svalbarðs-
eyrar og verður safnið tengt Þinghúsinu með
nýbyggingu hannaðri af Ragnheiði Ragn-
arsdóttur arkitekt. Húsakostur safnsins mun
þá verða meira en frambærilegur og mikið til-
hlökkunarefni að sjá árangurinn.
Safnið býður upp á nokkrar nýjar sýningar
eins og á hverju sumri. Það eru litlar einkasýn-
ingar bæði samtímalistamanna og alþýðulista-
manna og stór en þó ekki umfangsmikil sýning,
Myndgaldur, þar sem saman koma alþýðu-
listaverk og samtímalistaverk 160 listamanna.
Á neðri hæð gefur að líta ljósmyndir af end-
urgerð Sænautasels á Jökuldalsheiði, en Sæ-
nautasel hefur oft verið talið fyrirmyndin að
koti Bjarts í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki
Halldórs Laxness. Það hefur verið vafasamur
heiður og líkt og fram kemur í ævisögu Hall-
dórs Guðmundsonar um Halldór voru afkom-
endur Þórðar bónda sem var búsettur þar þeg-
ar Halldór átti leið um 1926 og þáði gistingu,
ekki par sáttir við þá mynd sem Halldór dreg-
ur upp í bók sinni. Endurgerð Sænautasels er
forvitnileg en bærinn líkist mest aflöngum
grasi grónum moldarhól með litlum gluggum.
Umsjón með endurgerðinni höfðu Auðunn
Einarsson trésmiður og Sveinn Einarsson
torf- og grjóthleðslumeistari. Einnig eru til
sýnis munir úr tré og sandsteini eftir Svein
Einarsson.
Lítil sýning með myndverkum eftir Bjarna
Þór Þorvaldsson er einnig á neðri hæð, það eru
bæði málverk og teikningar sem áhugavert er
að sjá.
Á efri hæð er sýnishorn af vinnu heim-
ilisfólks á Sólheimum í Grímsnesi, fallegir
munir eins og allt sem þaðan kemur en Sól-
heimar hafa gefið Safnasafninu 29 leir-
listaverk. Í hornstofu er síðan til fyrsta júlí
sýning á verkum eftir Söru Vilbergsdóttur
myndlistarkonu en annan júlí taka við verk eft-
ir Guðrúnu Veru Hjartardóttur myndlist-
arkonu. Sara Vilbergsdóttir sýnir allnokkra
skúlptúra úr pappamassa sem að nokkru leyti
hafa yfirbragð alþýðulistar. Skúlptúrarnir
sýna gesti fermingarveislu og eru litríkir og
skemmtilegir, þeir njóta sín vel í þessu sam-
hengi.
Það er ógetið stóru sýningarinnar á efri
hæð, 160 verka eftir bæði alþýðulistamenn og
samtímalistamenn, 80 konur og 80 karla. Það
er heillandi að skoða öll þessi ólíku verk og sjá
hvernig þær njóta sín saman hin lærða og sú
leika og oft engin leið að sjá hvorum hópnum
verkin tilheyra. Ef til vill má í list samtímans
merkja vissa þrá eftir hinni hreinu sköpun,
ungir listamenn tala gjarnan um og sækja í
barnslegan leik eða barnslega túlkun á um-
hverfinu við gerð verka sinna. Á öllum tímum
hafa listamenn eins og aðrir leitað leiða við að
ná sambandi við sitt innra sjálf og notað til
þess ýmsar aðferðir en stundum virðist manni
sem þeir sem ómenntaðir eru geti nálgast ein-
hvern sannleika sem þeir sem lærðir eru eiga
erfiðara með að koma frá sér á máta sem öllum
er aðgengilegur. Það er þó engin leið að bera
saman alþýðulist og sköpun menntaðra mynd-
listarmanna, markmiðin eru ólík og viðmið öll
önnur. Hins vegar er frábært að sjá hvernig
þessar listgreinar geta með svo góðu móti og
algerlega áreynslulaust unað hlið við hlið og
auðgað hvor aðra. Það eitt og sér er afrek sem
gerir starfsemi Safnasafnsins einstaka og
framhald hennar spennandi. Enginn sem á leið
um Svalbarðsströnd ætti að láta safnið framhjá
sér fara.
Hin lærða og sú leika
MYNDLIST
Safnasafnið
Svalbarðsströnd
Opið daglega frá kl. 10–18 frá fyrstu helgi í maí fram
í miðjan ágúst.
Sýningar í safninu
Ragna Sigurðardóttir Safnasafnið Verk eftir Söru Vilbergsdóttur.