Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 14
14 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. október 2005 Á rið 2001 gaf rithöfundurinn Barbara Ehrenreich út bókina Nickel and Dimed: On (Not) Getting by in America (Grænn eyrir með gati: Að bjarga sér (ekki) í Bandaríkjunum), og óhætt er að segja að bókin hafi vakið athygli. Hún sat á metsölulista New York Times um tæplega tveggja ára skeið; var þýdd á fjölmörg tungumál, og er nú notuð á hverri önn sem kennslubók í bandarískum háskólum. Viðfangsefni bókarinnar var láglaunastétt bandarískrar alþýðu og þau hörmulegu kjör sem hún býr við. Ehrenreich gagnrýndi þá mannfjandsamlegu rökvísi sem hægrisinnaðir repúblik- anar hafa, allt frá reaganískum „félagsmála- umbótum“ níunda áratugarins, viljað sýna fram á að sé að finna milli fátæktar og leti eða dugleysis, en samkvæmt slíkum viðhorfum verða einungis þeir undir í samfélaginu sem það verðskulda. Og samkvæmt slíkri rökvísi er veraldleg velgengni og bankareikningur utan stranda Bandaríkjanna sönnun á velþóknun æðri máttarvalda og siðferðislegum yfirburð- um. Ehreinreich benti á að fólki sem vinnur fyrir sér og rúmlega það reynist ómögulegt að rísa upp fyrir fátækramörkin. Til að færa sönnur fyrir máli sínu varði Ehrenreich tveimur árum í rannsóknir. Rannsóknir þessar fólust einkum í því að vinna láglaunavinnu. Hún réð sig til þrifa og þjónustu (á hótelum og í Wal-Mart, o.fl.), setti sjálfri sér mörk sem að einhverju leyti áttu að líkjast lífskjörum þeirra sem í raun búa við þessar aðstæður, og lýsti svo af eigin reynslu hvernig lífshorfurnar voru. Myndin sem hún birti var heldur neikvæð. Hún stakk niður fæti á stað sem flestir líta framhjá og lýsti kringumstæðum sem heldur betur stönguðust á við velmegunarmýtu Clin- ton-áranna. Áhrif bókarinnar takmarkast reyndar ekki við velgengni hennar. Ehrenreich beindi sjón- um að viðfangsefni sem bæði kvikmyndagerð- armenn og aðrir rithöfundar hafa rannsakað nánar í kjölfarið. Bókin var því hálfgerð vit- undarvakning. Í ljósi þess að Ehrenreich var nú ekki beinlínis að lyfta hulunni af vel földu leyndarmáli má spyrja hvað það segi um þjóð- félagsumræðuna almennt séð að viðfangsefni bókarinnar hafi reynst sú uppljómun sem raun ber vitni. En e.t.v. er ósanngjarnt að spyrja slíkrar spurningar. Ehrenreich var vitanlega langt í frá fyrsta manneskjan til að gera þessar kringumstæður að umfjöllunarefni. Og hún nálgaðist efnið eins og blaðamaður en ekki fræðimaður. Sem er sennilega ástæðan fyrir því að niðurstaðan í formi bókarinnar vakti at- hygli. Móttækileiki lesanda stafar a.m.k. að hluta til af þeim persónulega brag sem ein- kennir frásögnina. Sennilega má ætla að fæst- ir lesendur bókarinnar hafi tilheyrt þeirri stétt sem fjallað var um og aðferð fyrstu persónu frásagnar hefur því virkað sem brú milli ann- ars ókunnugra þjóðfélagshópa. Öryggisnetið Í sinni nýjustu bók Bait and Switch: The (Fu- tile) Pursuit of the American Dream (Tálbeit- an: Hin (ómögulega) leit að bandaríska draumnum; 2005) leitar Ehrenreich hins vegar á önnur mið þótt aðferðafræðin sé að mörgu leyti svipuð. Í inngangi bókarinnar útskýrir höfundur að þótt bókin á undan, Nickle and Dimed, hafi haft áhrif sé eitthvað við verka- manna- og þjónustustéttina sem gerir þeim sem henni ekki tilheyra auðvelt að leiða hana (og málefni hennar) hjá sér. Enda þótt hún hafi gert sitt besta til að sýna fram á að um „persónulegt val“ hafi ekki verið að ræða hjá þeim sem sitja fastir í heilsdags- vinnu en fara samt á hausinn geta aðrir alltaf hrist hausinn og sagt: ja, ef viðkomandi hefði bara haft betri menntun; ekki eignast barn á unglingsárunum, ef viðkomandi hefði bara haft dug og þor til að fá skólastyrk, þá hefði allt verið öðruvísi. Einstaklingsbundnar skýr- ingar má því alltaf, að því er virðist, reiða fram til að útskýra efnahagslega niðurröðun og rök- vísi samfélagsgerðarinnar. En þannig er vart komið fyrir umfjöllun um þá sem tilheyra efri hluta millistéttarinnar, hugsaði Ehrenreich. Varla er jafn auðvelt fyrir þá sem njóta forréttinda að útskýra erfiðleika þeirra sem áður nutu forréttinda, en við blasa erfiðleikar nú um mundir, og það reyndist að útskýra hörmungarstöðu þeirra sem aldrei nutu forréttinda. Með þessa hugleiðingu í farteskinu breytir Ehreinreich um viðfangsefni. Í stað umfjöll- unar um „sígildan“ vandamálahóp, þ.e. þá þjóðfélagsþegna sem virðast skapaðir fyrir fé- lagsmálastofnanir og endalaust hopp upp og niður á öryggisneti samfélagsins, beinir Ehrenreich sjónum að þeim sem samkvæmt öllum þekktum kvörðum hafa staðið sig vel, gert það sem þeir áttu að gera, gengið í gegn- um menntakerfið, fengið hálaunaða vinnu, uppfyllt bandaríska drauminn, en eru samt, allt í einu, orðin hálfgerð úrhrök, vandamála- tilfelli, minnisvarðar um það sem verður út undan í kapítalískum veruleika hins frjálsa og alþjóðlega markaðar. Jakkaföt og öryggishjálmar Ehrenreich, með öðrum orðum, beinir sjónum sínum að hvítflibbastarfsmönnum, fólki sem mætir í jakkafötum í vinnuna og þræddi fyr- irframskilgreinda leið að góðu lífi en lendir á hraðahindrun á miðri leið, villist í þoku breyttrar heimsmyndar og upplifir sig skyndi- lega sem umskiptanlegt tannhjól í fyr- irtækjavél sem breiðir úr sér yfir öll landa- mæri – fólki í góðum stöðum sem með öðrum orðum er óvænt sagt upp. Pítsasendillinn sem reynist fyrrum há- menntaður tölvufræðingur í kvikmyndinni Office Space getur hér þjónað í hlutverki skýr- ingarmyndar fyrir viðfangsefni bókarinnar. Og ensku orðin „outsourcing“ og „downsizing“ eru lykilhugtök í þessu samhengi. Kvikmyndin fjallaði á gamansaman hátt um niðurdrepandi fyrirtækjamenningu samtímans, og hugtökin tvö lýsa þeim jarðskjálfta sem yfir þennan menningarheim hefur gengið undanfarin ár. Það sem hefur breyst síðan Ehrenreich skrifaði bókina um þrælandi fátæklinga fyrir um fjórum árum er að vandamálin hafa flest versnað. Núverandi forseti þjóðarinnar, Bush yngri, hefur haft yfirumsjón með róttækum umbreytingum. Fátækt, atvinnuleysi og skuld- ir aukast samhliða því sem þjóðin tekur hvert skrefið á fætur öðru aftur til miðalda hvað fé- lagsleg, siðferðisleg og vísindaleg málefni varðar (fósturvísar, fóstureyðingar, réttindi samkynhneigðra, skil ríkis og kirkju, þróun- arkenningin). Nútímalegt lénsveldi er að myndast þar sem fólk er bundið loforðinu um heilbrigðistryggingu frekar en afmörkuðum landskika. Umskiptin sem Ehrenreich beinir athygli sinni að í bókinni eru síðan þau að það sem miður fer í samfélagsgerðinni hefur ekki lengur bara áhrif á þá sem lægst eru settir. Skjálftinn breiðist út milli stétta og til þeirra sem jafnan hafa talið sig (og verið taldir) öruggir. Leitin að bandaríska draumnum Bait and Switch á uppruna sinn að rekja til fólks sem skrifaði höfundi bréf í kjölfar fyrri bókarinnar. „Við gerðum allt sem við áttum að gera, en samt getum við ekki öðlast starfs- öryggi,“ voru algeng skilaboð. „Því ekki skrifa um okkur?“ Ehrenreich fannst nokkuð til um þessar ábendingar og þannig tók hennar næsta verkefni á sig mynd. Ehrenreich ákveður því að bregða sér í gervi hámenntaðrar manneskju sem vön er háum launum og hlunnindum (líkt og heil- brigðistryggingu) en hefur nýverið verið sagt upp. Hvernig ber slíkt fólk sig að við að finna nýja vinnu? Kemur í ljós að leita að vinnu er eins og að hafa vinnu, nema það er erfiðara að ná árangri. Skipulag og skilvirkni eru leið- arljósin. Þörf er á aga og skýrt skilgreindum markmiðum. Jafnvel getur borgað sig að ráða manneskju til að þykjast vera yfirmaður þinn meðan á leitinni stendur. Finna og borga ein- hverjum til að vera staðgengill þess hluta lífs þíns sem, ef það eru einhverjir kostir við að vera atvinnulaus, þú ættir að vera laus við, a.m.k. til bráðabirgða. Fjöldi fólks vinnur við það að koma þér í vinnu. Það sem kemur með öðrum orðum á óvart er að á milli þess aðila sem er í leit að vinnu og vinnunnar sjálfrar hefur heill iðnaður skotið upp kollinum. Þetta reynist áhugaverðasti flötur bók- arinnar. Ehrenreich kafar djúpt í þann veru- leika sem mætir atvinnulausu hámenntafólki og þeim veruleika reynist stjórnað af nýrri stétt sníkjudýra – svokölluðum „ferilþjálf- urum“. Þessi stétt líkist að sumu leyti íþrótta- þjálfurum, markmiðið er að koma fyr- irtækjavænni ímynd í form. Gera slaka vöðva samkeppnishæfa á markaðstorginu. Að koma ferilskránni í lag reynist listform, tengsla- myndun krefst undirbúnings líkt og um stríðs- rekstur sé að ræða og að sjálfsögðu má ekki gleyma útlitinu. Allt kostar þetta peninga og rökvísin virðist vera sú að ólíkt þeim sem eru atvinnulausir og koma úr verkamannasétt eiga þessir aðilar eignir; fyrrum jakkafatahermenn atvinnulífsins hafa ákveðið fjárhagslegt bak- land, a.m.k. fyrst í stað. Og þannig verður heill iðnaður til úr engu. Galdramaðurinn í Oz Öryggisnetið sem bíður atvinnulausrar Ehreinreich er því iðnaður sem hannaður er til að þjóna þörfum þeirra sem um stundarsakir eru staddir „á milli“. Á milli vel borgaðra starfa, fólk sem á óútskýranlega hátt er statt í því einskismannslandi sem er til staðar á milli fyrirtækja. Þetta er hálfókennilegt rými sem starfsþjálfarar hjálpa þér að kortleggja. Far- arstjórarnir reynast að vísu misjafnir. Flestir reynast þó eiga það sameiginlegt að hafa lítið að segja, en það sem þeir þó segja er hálf- óskiljanleg úrvinnsla á úreltum sálfræðikenn- ingum. Þeir sem bera af eru þeir sem nota táknfræði söngvamyndarinnar Galdramað- urinn í Oz til að útskýra ákjósanleg viðbrögð og vinnubrögð, eða Elvis-dúkkur til að kjarna þá mjaðmahnykki sem liggja vinnuleitinni til grundvallar. Það sem er athyglisverðast við þessa starfs- eða ferilþjálfara sem Ehrenreich lýsir er hvernig orðræða þeirra líkist að sumu leyti skopstælingu á hugmyndum franskra hugvís- indamanna af póststrúktúralisma-skólanum. Umheimurinn, hinn áþreifanlegi veruleiki, er ekki til, segja þeir Ehrenreich. Allt er huglægt og afstætt. Það eina sem skiptir máli ert þú og sá vitundarheimur sem þú skapar. Frönsk heimspeki? Ekki aldeilis. Um er að ræða rof á milli þín og samfélagslegra aðstæðna. Biturð skilar ekki árangri. Að kenna einhverjum öðr- um en sjálfum þér um núverandi stöðu þína er ekki rétta viðhorfið. Þú verður að vera jákvæð- ur og hugsa jákvætt til að fá vinnu á nýjan leik. Þetta er að vísu allt sett fram á tungumáli sjálfshjálparbóka og viðskiptalífsins, og bland- að útvatnaðri sálfræði með keim af hug- myndum Ayn Rand, en tilgangurinn er engu að síður gagnsær. Það er verið að setja fram sem náttúrulega staðreynd, eðlilega og óum- flýjanlega – og þess vegna handan stjórnmála og einstaklingsins – það breytingarferli sem hefur átt sér stað þegar annar aðilinn í samn- ingnum milli launþega og atvinnuveitenda ákveður að rifta honum. Ehrenreich hikar ekki við að gera grín að þeim sem hún hittir á leið sinni að atvinnu- öryggi, en hún gerir líka grín að sjálfri sér. Þessi persónulegi stíll og húmor er tvímæla- laust það sem gerði fyrri bókina jafn vinsæla og raun ber vitni. Sú staðreynd að (líkamleg) dramatík er ekki jafn áberandi hér og Nickled and Dimed dregur þó lítið úr aðdráttarafli höf- undar og verks. Ehrenreich stundar ákveðna tegund hagnýtrar félagsfræði og hún gerir það betur en flestir. Tækifæri og tálsýnir Barbara Ehrenreich skrifaði bók um lág- launastétt bandarískrar alþýðu og þau hörmulegu kjör sem hún býr við árið 2001 eftir að hafa bókstaflega sett sig í spor þess fólks í tvö ár. Nú sendir hún frá sér bók af sama tagi um hámenntaða fólkið með of- urlaunin sem allt í einu stendur uppi atvinnu- laust eftir uppstokkun í fyrirtækjum. Hún segir það fulla vinnu að sækja um vinnu í Bandaríkjunum og að auki hefur fjöldi fólks atvinnu af því að hjálpa fólki við að sækja um atvinnu. Bush-land „Það sem hefur breyst síðan Ehrenreich skrifaði bókina um þrælandi fátæklinga fyrir um fjórum árum er að vandamálin hafa flest versnað. Nú- verandi forseti þjóðarinnar, Bush yngri, hefur haft yfirumsjón með róttækum umbreytingum. Fátækt, atvinnuleysi og skuldir aukast samhliða því sem þjóðin tekur hvert skrefið á fætur öðru aftur til miðalda hvað félagsleg, siðferðisleg og vísindaleg málefni varðar (fósturvísar, fóstureyðingar, réttindi sam- kynhneigðra, skil ríkis og kirkju, þróunarkenningin.)“ Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson @wisc.edu Höfundur er bókmenntafræðingur. Bait and Switch „Ehrenreik kafar djúpt í þann veruleika sem mætir atvinnulausu hámennta- fólki og þeim veruleika reynist stjórnað af nýrri stétt sníkjudýra – svokölluðum „ferilþjálfurum“.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.