Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 15
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. október 2005 | 15 Lítið hefur verið skrifað um íslenska fjöl-miðla. Það er raunar undarlegt því fjöl-miðlar eru gríðarlega stór þáttur í hvers-dagslífi Íslendinga og hefur sennilega orðið fyrirferðarmeiri með árunum. Fjölmiðla- landslagið hefur líka breyst mikið, prentmiðlar hafa lagt upp laupana og nýir og um margt ólíkir tekið við, útvarps- og sjónvarpsstöðvar hafa sprottið upp eins og gorkúlur, netið hefur gjörbreytt eðli og um- fangi miðlunar og nú er staf- ræna tæknin að ryðja sér til rúms í sjónvarpsrekstri svo eitthvað sé nefnt. Rann- sóknir á þessum hræringum hafa verið af mjög skornum skammti hér á landi. Það er því fagnaðar- efni að Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og kennari í fjölmiðlafræðum við sama skóla til margra ára, hefur sent frá sér bók um íslenska fjölmiðla sem nefnist Ritlist, prentlist, nýmiðlar. Áhrif McLuhans Heiti bókarinnar gefur strax til kynna að Þorbjörn byggir á skrifum kanadíska fjölmiðlafræðingsins Marshalls McLuhans sem lýsti þróun fjölmiðlunar allt frá tilurð stafrófsins til rafvæðingarinnar í þekktri bók sinni The Gutenberg Gallaxy árið 1962. Forsíðan gefur þetta einnig til kynna en hana þek- ur texti með stóru letri eftir Walter J. Ong sem lýs- ir því hversu gegnsýrður hugmyndaheimur okkar er af ritmáli en fyrrnefnd bók McLuhans fjallaði einmitt um áhrif prentsins auk þess sem forsíða hennar var einnig þakin texta með stóru letri um stjörnuþoku Gutenbergs. Munurinn á forsíðunum er sá að á bók McLuhans leysist textinn upp í ein- stök stafatákn eftir því sem neðar dregur rétt eins og áhrif prentsins hafa dvínað með tilkomu nýrra rafrænna miðla. Í ljósi þessa kemur það reyndar svolítið á óvart þegar bókin er skoðuð hversu lítið Þorbjörn vinnur með kenningar McLuhans. Hann notar þær í tveimur sögulegum yfirlitsköflum, annars vegar um áhrif prentsins og hins vegar um rafvædda miðla. Aðferðafræði McLuhans verður hins vegar ekki svo mikið vart í heildarmyndinni sem bókin dregur af íslenskum fjölmiðlum. Greina má áhrif hans í kafla um sjónvarp og daglegt líf og í loka- kafla bókarinnar um framtíð íslenskrar fjölmiðl- unar. Það hefði verið forvitnilegt að sjá Þorbjörn glíma við að beita aðferðafræði McLuhans á ís- lenskt fjölmiðlalandslag í meira mæli en Þorbjörn hefur lengi kennt nemendum sínum um kenningar Kanadamannsins. Órökstuddar túlkanir Fyrstu tveir hlutar bókarinnar fjalla um ritlist og prentlist, upphaf ritmáls og þróun þess til byltingar Gutenbergs á fimmtándu öld og áhrif hennar á menningu og samfélag. Í raun eru þessir tveir hlut- ar eins konar inngangur að meginmáli bókarinnar sem fjallar um fréttablöð og „ljósvakamiðla“. Varp- að er ljósi á rætur nútímafjölmiðlunar og fjallað um átökin sem spruttu af viðleitni valdhafa til að hemja og takmarka afleiðingar uppfinningar Gutenbergs. Boð og bönn og kvaðir sem fréttamiðlar þurftu að búa við á fyrstu öldum prentsins og virðast að mörgu leyti hlægileg í augum okkar nú eru í raun af sama toga og þær hömlur sem reynt hefur verið að leggja á fjölmiðla um þessar mundir, meðal annars hér á landi, ef Þorbjörn er rétt skilinn. Hann rekur deilur um fjölmiðlafrumvarpið á síðasta ári og setur þær í samhengi við þróun á eignarhaldi og hug- myndir um áhrif eigenda og auglýsenda á ritstjórn blaða. Hann segir frá hugtökunum upplagsþyrli og glötunarsvelg sem hann segir koma að góðum not- um til skilnings á þróun í átt til fákeppni og jafnvel einokunar í heimi blaða og annarra fjölmiðla. „Hug- myndin um upplagsþyrilinn (sem lýtur að blaði í sókn), og andstæðu hans, glötunarsvelginn (sem lýtur að blaði í hnignun), byggist á því að við óheft- ar markaðsaðstæður ríki háttbundin samvirkni milli efnisgæða dagblaðs, útbreiðslu þess og þeirra auglýsingatekna, sem það geti aflað.“ Upp- lagsþyrilinn útskýrir Þorbjörn þannig að gott blað vindi upp á sig með því að laða að sér auglýsingar og fleiri lesendur sem aftur þýði að blaðið geti bætt sig enn frekar og þannig fengið enn fleiri lesendur og auglýsingar. Þannig haldi þyrillinn áfram þar til markaðsmettun sé náð. Glötunarsvelgurinn lýsir öfugri þróun, blað missir útbreiðslu sem leiðir til þess að auglýsendur gerast því fráhverfir. Blaðið verður verra fyrir vikið sem aftur leiðir til enn færri lesenda og þannig koll af kolli uns blaðið geispar golunni. Í báðum þessum tilfellum skiptir ekki öllu máli hvaða þáttur – upplagið, auglýsingar eða gæði efnis – hrindir ferlinu af stað heldur víxl- verkunin milli þeirra. Að mati Þorbjörns sannaðist þyriltilgátan á gengi Morgunblaðsins á síðustu ár- um og áratugum tuttugustu aldar en keppinautar þess á árdegismarkaðnum lentu í svelgnum. Hann telur og að tilgátuna um upplagsþyrilinn og glöt- unarsvelginn megi nota til að varpa ljósi á breyt- ingar á blaðamarkaði undanfarin ár þar sem Fréttablaðið hafi náð miklum árangri á skömmum tíma en Morgunblaðið tapað auglýsendum og áskrifendum. Áhugavert hefði verið að sjá Þor- björn skýra og rökstyðja þessa túlkun sína betur en hann gerir. Reyndar varpar hann ýmsum fullyrðingum fram í bókinni sem hann rökstyður ekki með dæmum. Hann segir til dæmis á einum stað: „Ritstjórn- arstefna, efnisval og efnistök íslenskra dagblaða hefur ætíð markast í ríkum mæli af hags- munagæslu, einkanlega í þágu stjórnmálaflokk- anna, en aðrar fjöldahreyfingar og hagsmuna- samtök og jafnvel fyrirtæki hafa eftir atvikum notið velþóknunar dagblaðanna eða goldið þess að vera í ónáð þeirra.“ Þorbjörn tilfærir engin dæmi um þetta en þó er um mjög alvarlega gagnrýni að ræða. Reyndar hefur hún heyrst áður en það hefur alltaf skort á vandaðar og ýtarlegar rannsóknir á þessari meintu hagsmunagæslu. Íslenskir vís- indamenn á sviði fjölmiðlafræði myndu gera mikið gagn með því að leggjast í slíkar rannsóknir. Bók Þorbjörns gerir því miður ekki mikið gagn í þess- um efnum. Í fjórða hluta bókarinnar um „ljósvakamiðla“ kemur Þorbjörn aftur að fjölmiðlafrumvarpinu og gagnrýnir þá meðal annars íslenska fjölmiðla fyrir að hafa flestir eða allir farið „offari með einum eða öðrum hætti á einhverju stigi málsins“. Þorbjörn reynir ekki að færa sönnur á mál sitt með dæmum og heldur ekki þegar hann fullyrðir að „[s]kýring- arinnar á hinni skyndilegu og róttæku hugarfars- breytingu, sem endurspeglaðist í hinum skammlífu fjölmiðlalögum, [sé] að leita í breytingum á eign- arhaldi nokkurra helstu markaðsfjölmiðlanna, sem orðið höfðu næstu misserin á undan“. Hann rekur sameiningu Fréttar ehf. og Norðurljósasamsteyp- unnar „þar sem örfáir reykvískir kaupsýslumenn höfðu tögl og hagldir“ og segir að ýmsum hafi þótt „nóg um þau ítök sem þessi fámenni hópur var kominn með í öllum helstu markaðsfjölmiðlum landsins“ og bætir við: „Einkum gætti þessa við- horfs meðal þeirra sem höfðu fyrir horn í síðu hinna nýju fjölmiðlabaróna og tortryggðu þá. Í þeim hópi var forsætisráðherrann mikilvægastur.“ Þessa túlkun sína á einu stærsta deilumáli síðustu ára rökstyður Þorbjörn ekki með nokkrum hætti. Það rýrir gildi hennar. Það hefði satt að segja verið mjög hnýsilegt að fá ýtarlegri og betur rökstudda greiningu á þeim aðstæðum sem komnar eru upp í íslensku fjölmiðlaumhverfi. Knappleiki Bók Þorbjörns hefði í raun þurft að vera miklu lengri en þær 110 síður sem hún spannar. Knapp- leikinn kemur einnig niður á forvitnilegum pæl- ingum hans um framtíðina í fjölmiðlun. Heims- þorpið, sem Marshall McLuhan boðaði, er orðið að veruleika nú þegar, eins og Þorbjörn bendir á, og afleiðingarnar af hinni hnattvæddu fjölmiðlun blasa við, aukin miðstýring, samþjöppun eignarhalds, raunveruleikafirring o.s.frv. Gagnvirkni er líka að aukast sem vinnur gegn miðstýringunni en færir fólk jafnvel enn lengra inn í sýndarveruleikann sem Þorbjörn vill kalla verulíki. Hann hefði þurft að gefa sér meira rými til þess að ræða þessa framtíð sem brennur jú á svo mörgum. Fjölmiðlar í knöppu máli Ritlist, prentlist, nýmiðlar „Heiti bókarinnar gefur strax til kynna að Þorbjörn byggir á skrifum kanadíska fjöl- miðlafræðingsins Marshalls McLuhans sem lýsti þróun fjölmiðlunar allt frá tilurð stafrófsins til rafvæðing- arinnar í þekktri bók sinni The Gutenberg Gallaxy árið 1962.“ Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði, hefur sent frá sér bók um fjölmiðla frá upphafi ritlistar til samtímans, Ritlist, prentlist, nýmiðl- ar. Í bókinni er meðal annars komið inn á deilur um fjölmiðlafrumvarpið sem staðið hafa und- anfarin misseri hérlendis. Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Það þykir jafnan fréttnæmt innanbókmenntaheimsins þegar Gabriel García Márquez sendir frá sér nýja bók, en nú fyrir skemmstu kom út á ensku fyrsta skáldsaga höfundarins í tíu ár. Bókin nefnist Memories of My Melancholy Whores og er um að ræða for- vitnilega stutta sögu, eins konar lofsöng til ást- arævintýra hóru- hússins og möguleikans á seinvak- inni ást. Sögumaður García Márquez er annars flokks blaðamaður sem býr í glæsilegu en niðurníddu hús látinna foreldra sinna. Ófríður, feim- inn og illa staðsettur í tíma þá er hann um fimmtugt orðinn sérfræð- ingur í rauða hverfi heimaborgar sinnar. Að mati gagnrýnanda Daily Telegraph er bókin ólíkleg til að ná sömu vinsældum í Bretlandi og fyrri verk höfundar, enda eigi við- fangsefnið – sú nostalgíska sýn sem García Márquez dregur þar fram af karlmennskunnni – að öllum lík- indum ekki jafnmikið upp á pall- borðið þar í landi.    Rithöfundurinn Mary Gaitskill ere.t.v. hvað þekktust fyrir skrá- setningar sínar á tilfinningalegu of- beldi og sadisma. Í nýjastu bók sinni, Veronica, leitar Gaitskill þó á nokkuð nýjar slóðir og er viðfangs- efnið hér e.k. íhugun á tengslum grimmdar og fegurðar. Frásögnin er þá látin flakka um í tíma og rúmi líkt og til að líkja eftir tilfinningalegri angist sögumannsins, Alison, fyrr- verandi fyrirsætu á fimmtugsaldri, sem á ómögulegt með að gleyma vin- konu sinni Veronicu, eldri konu sem lést úr eyðni. Að mati gagnrýnanda New York Times nær Gaitskill góð- um tökum á viðfangsefni sínu og fjallar á skemmtilegan hátt um sam- bandið milli yfirborðs og sjálfs, menningar og tísku, tíma og minnis.    Claire, aðalsöguhetja nýjustubókar Astrid Saalbach, þykir blindandi fögur og hefur lært að spila með þau áhrif sem útlit hennar hefur á aðra, ekki síst karlmenn sem falla fyrir henni í löngum bunum, þrátt fyrir að tapa í framhaldinu flestu því sem þeir áður mátu kært. Bókin nefnist Fingeren i flammen og nær höfundurinn þar með skrif- um sínum, að mati Information, að samsama lesandann jafnt tilfinn- ingum og vandamálum Claire og þeirra sem falla fyrir henni, á sama tíma og hún samtvinnar vel vanda einstaklings og heimsins í kring.    Goðsagnir færðar í nútímabúningeru viðfangsefni nýs bókaflokk- ar sem ýtt er úr vör með skrifum ekki ómerkari höfunda en þeim Jeanette Winterson og Margaret Atwood. Bók Winterson nefnist Weight og tekur á goðsögninni af Atlasi, en bók Atwood nefnist Penelopiad og er saga eiginkonu Ódysseifs sem á að hafa staðið dyggilega við bak manns síns í tutt- ugu ára fjarveru hans. Í meðförum Atwood fær Pene- lópa þó öllu meiri dýpt og karakter en sýnir um leið e.t.v. af sér meiri tvöfeldni en goðsögnin vill vera láta. Ný skáldsaga Sjóns, Argóarflísin, kemur einnig út í þessum flokki.    Breski spennusagnahöfundurinnP.D. James sendi nýlega frá sér nýja spennusögu, The Lighthouse. Líkt og í mörgum fyrri verkum James er það lögreglufor- inginn Adam Dalgliesh sem fer með rannsókn málsins, sem að þessu sinni snýr að dularfullu dauðsfalli rithöfundar sem finnst látinn á einni af eyjunum undan ströndum Corn- wall. Gabriel García Márquez Margaret Atwood Erlendar bækur Menningin er eins konar jarð-sprengjusvæði. Sumir sem hættasér inn á það komast aftur út af þvíán þess að verða nokkurs varir, aðr- ir springa í loft upp. Þegar stigið er á jarð- sprengju breytist lífið, stundum þurrkast það út. Maður stígur inn í bók að kveldi og morguninn eftir vaknar nýr maður. Orð geta breytt okkur að eilífu. Raunir Werthers unga eftir Goethe hrakti sumt ungt fólk út í slíkt náttmyrkur að það tók eigið líf. Bækur geta líka drepið. Það eru alla jafna ekki margar jarðsprengjur í íslensku bókmenntalandslagi. En þær leynast á ólíklegustu stöðum eðli sínu samkvæmt. Þegar ég las Skugga-Baldur eftir Sjón í fyrsta skipti sprakk ég í loft upp. Ég bjóst ekki við þessari bók. Ekki þarna. Eftir á að hyggja veit ég samt að þarna, einmitt á þessu svæði, mátti maður vera við öllu búinn. En hvaðan fær Skugga-Baldur sprengikraft- inn? Í stuttu máli: Líklega hefur ekki komið út ís- lensk nóvella sem er skrifuð af jafn miklum þematískum og stíllegum þéttleika síðan Snaran eftir Jakobínu Sigurðardóttur kom út árið 1968. Í bókinni mætast fortíð og nútíð í formi og inntaki, ómennska gagnvart hinu smáa og veika í þjóð- sögulegum afdal sem lesandinn uppgötvar undir lokin að hann er staddur í einmitt núna. Sjón tók við Bókmenntaverðlaunum Norður- landaráðs fyrir Skugga-Baldur í vikunni. Gera má ráð fyrir að þau breyti ýmsu fyrir skáldið þótt þau breyti varla skáldinu. Einar Már Guð- mundsson fékk verðlaunin árið 1995 fyrir Engla alheimsins sem hlaut fyrir vikið gríðarlega at- hygli og útbreiðslu. Vonandi verður hið sama upp á teningnum hjá Sjón. Hann hefur nú þegar fylgt Skugga-Baldri eftir með nýrri skáldsögu, Argóarflísinni, sem kom út sama dag og hann tók við verðlaununum. Hún er einnig í hinu stranga nóvelluformi og glímir við árekstur hins þjóðlega og framandlega eins og margar fyrri bækur Sjóns. Hann heldur sig á jarðsprengjusvæðinu. Jarðsprengjusvæði Erindi eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is ’Þegar ég las Skugga-Baldur eftir Sjón í fyrsta skipti sprakkég í loft upp. Ég bjóst ekki við þessari bók. Ekki þarna.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.