Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 29.10.2005, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. október 2005 ! Þessum pistli beini ég til allra barnanna sem lesa sig í gegn- um fyrstu opnur Lesbókar- innar á laugardagsmorgnum af tómri slysni áður en þau átta sig á því að þetta er ekki Barnablaðið. Það er erfitt að álasa þeim, enda Lesbókin allt- af kyrfilega vafin inn í brandara og teiknimyndasögur. Síðan er líka bara gott að menningin skuli draga angana frá tölvuspilunum og ofátinu. Þess verð- ur heldur ekki langt að bíða að næstu fíknir taki við og þar er kunnur heim- ilisvinur, brennivínspúkinn, fremstur í röðinni með upptakarann í annarri og ælupokann í hinni. Nú stendur yfir herferð gegn vímu- efnum og því hanga stórar myndir á strætisvagnabiðstöðvum borgarinnar, skreytt barnaandlitum og orðunum: Ég ætla að bíða. Enn hefur enginn í hverfinu mínu haft hugmynda- flug til að fara út með túss til að breyta b-i í r og gæti það annaðhvort sýnt hvað börn eru niðursokkin í ofátið og tölvu- leikina eða hvað þau eru farin að bera mikla virðingu fyrir opinberum eigum. Kallið það bara skemmdarfýsn en í mínu ungdæmi var það kallað að leika sér með tungumálið. Herferðin er farin til að hvetja ung- linga til þess að bíða með að prófa áfengi, tóbak eða önnur vímuefni þar til þeir hafa þroska til að velja. Mig langar aftur á móti til að gauka öðrum mögu- leika að börnunum: Verið ekkert að bíða. Sleppið þessu bara alveg. Fullt fólk er ljótt. Það sagði Halldór Laxness og hann fékk nóbel. Í Af menníngarástandi skrif- ar hann: „Fullur maður er ljót sjón. Það spillir fegurðarsmekk barnanna að horfa á svo ljóta sjón.“ (bls. 31) Mikið sem mér fannst fyrsta fulla manneskjan sem ég komst í tæri við ein- mitt ljót sjón. Þótt ég væri orðin 13 ára var það gjörsamlega ofar skilningi mín- um að fólk skyldi virkilega vilja breytast sjálfviljugt í drafandi fábjána, enda var ekki verið að fá sér bara í aðra tána. Þessi reynsla hafði þau áhrif að ég ákvað að láta áfengi eiga sig. Ódrukkið fólk er einfaldlega skemmtilegra en drukkið. Það er ólíkt skýrara í tali, kurteisara og ekki jafnóútreiknanlegt og þeir sem hafa fengið sér í glas. Eins og flestir hafa ef- laust tekið eftir vellur dónaskapurinn nefnilega ekki jafngreiðlega upp úr ódrukknum og drukknum. Nógu erfitt getur nú samt verið að hemja sig. Ég veit vel að sumir láta sér nægja að verða aðeins góðglaðir örfáum sinnum á ári en þeir eru bara of margir sem geta það ekki. Af því hlýst óhamingjan. Í raun ætti að vera mun algengara á með- al Íslendinga að drekka ekki og þann kost þarf að kynna. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa ekki byrjað að drekka. Það er aðeins eitt sem getur verið slæmt við að hafa aldrei ver- ið undir áhrifum: allar fylliríssögurnar. Ég virðist ekki hafa neinar forsendur til að skilja þessar illa uppbyggðu og enda- sleppu frásagnir. Þegar maður loksins heldur að sagan sé að fara að ná sér á strik er lokaorðunum skellt fram: „… ég var svo rosalega full/ur.“ Og þetta eitt dugar til að kalla fram hlátur! Líklega er ástæðan fyrir þessum endi sú að enginn man hvað gerðist næst en það getur líka verið saga til næsta bæjar. „… þannig að ég fór bara í algjört blakkát og man ekk- ert hvað gerðist,“ þykja alltaf sniðug lokaorð. Þegar nánar er að gáð fjalla munn- legar frásagnir Íslendinga aðallega um tvennt, brjáluð fyllirí og hvernig þeim tókst síðan loks að hætta að drekka. Ég get samt fullvissað öll börnin sem ákveða að drekka ekki um það að þau eigi eftir að hafa frá nógu að segja. Þeg- ar fólk fer að skiptast á fylliríssögum get ég nefnilega sagt fjölmargar sögur líka, sögur af þeim sem drekka. Í þeirri sem er í mestu uppáhaldi hjá mér koma við sögu heiti lækurinn, tveir lögregluþjón- ar, kafaldsbylur og strákur sem hljóp á milli húsa á nærbuxunum einum fata. Stundum bæti ég hundi við. Strákurinn varð mjög hissa þegar hann heyrði þá útgáfu en var auðvitað ekki í neinni að- stöðu til að rengja mig. Hvað ætli hann muni svo sem – fullur og í algjöru blakkáti? Eilíf bið Eftir Gerði Kristnýju gkristny@simnet.is Ég gæti setið og lesið blöðin daginn útog daginn inn hér í Svíþjóð. Það semhelst vekur áhuga minn eru ekki all-ar fínu fréttirnar af peningum eða pólitík heldur vel skrifaðar greinar um allt milli himins og jarðar þar sem viðtöl við fólk sem hef- ur reynslu er uppistaðan. Þetta eru greinar um daglegt líf fólks og um hvaðeina sem snertir hversdaginn hjá mörg- um; börn, uppeldi, skóla- mál, skilnaði, þrif, þung- lyndi, mat, streitu, auglýsingar, unglinga og nú síðast fyrrverandi ný- nasista sem kynntist írönskum innflytjanda og boðar nú umburðarlyndi og frið. Þessar greinar eru margar og mismunandi og eftir hina og þessa blaðamenn. Þær eiga hins vegar sammerkt að skilja eftir meiri fróðleik um ýmis efni eða skilning á af hverju eitthvað er eins og það er. Oft skilja þær líka eftir jákvæðar tilfinningar, einhverja aukna von um að ekki sé allt að fara til fjandans. Það er nefnilega það sem manni sýnist á yfirborði fjölmiðlanna. Helstu fréttir og fyrirsagnir eru um hamfarir, græðgi, spillingu, stríð og sjúkdóma og næst- mikilvægastar eru þurrar fréttir um skattsvik, æ stærri viðskiptasamsteypur og úrslit fót- boltaleikja. Á mínum blaðamannsferli hef ég annars veg- ar skrifað um viðskipti og hins vegar um dag- legt líf og allt sem undir þeim hatti rúmast – og það er margbreytilegt. Menntun, neytendamál, ferðalög, tíska, börn, matur, heilsa o.s.frv. Nú hef ég unnið þrjú ár á hvoru sviði og áttaði mig á muninum fljótlega eftir að ég hætti að skrifa um viðskipti: ég var hætt að hafa það á tilfinn- ingunni þegar ég tók fólk tali að viðmælend- urnir væru að leyna mig einhverju eða ekki að segja allan sannleikann. Slíkt er nefnilega dag- legt brauð í viðskiptafréttamennsku. Peninga- heimurinn er eitt allsherjar leynimakk sem fáir útvaldir stjórna og gefa þær upplýsingar sem þeim hentar og þykja fínar fréttir. Ég reyni eftir bestu getu að fylgjast með þessum fréttum hér í Svíþjóð en áhuginn bein- ist mun frekar að greinunum þar sem kafað er undir yfirborðið og eitthvað nýtt eða nýtilegt er borið á borð fyrir lesendur. Sænsku dagblöðin gera þetta afar vel og þá er ég aðallega að vísa til Svenska Dagbladet og Göteborgs Posten sem ég les mest um þessar mundir. Nær dag- lega birtast í þessum blöðum greinar og greina- flokkar um mál sem standa stórum les- endahópum nærri: Líf eldri borgara, skilnaðar- börn, unglinga, mataræði, uppeldi, langveik börn o.s.frv. Yfirleitt eru sagðar sögur fleiri en einnar manneskju og lesandinn verður því margs vísari. Þetta vekur áhuga minn og aðdáun á hversu vel þetta er gert. Undanfarna viku hafa t.d. á hverjum degi birst greinar í SvD um skiln- aðarbörn þar sem rætt er við unglinga eða upp- komin börn og foreldra þeirra um mismunandi fyrirkomulag á búsetu barnanna eftir skilnað foreldra. Í Svíþjóð er sameiginleg forsjá barnanna yfirleitt regla og oftast býr barnið eina viku í senn hjá hvoru foreldri með tilheyr- andi flutningum og skipulagi eftir skilnaðinn. Þetta reynist mörgum börnum ágætlega en önnur finna fyrir rótleysi og eru hálftætt greyin. Ætli margir foreldrar sem skilja hafi t.d. velt þeirri leið fyrir sér að láta barnið búa áfram á heimilinu en skiptast sjálfir á að flytja þangað og búa tvær vikur í senn? Þeirri leið var t.d. vel lýst í einni greininni í greinaflokki SvD og ekki laust við að það rynni upp fyrir manni ljós: Auðvitað er æskilegt að foreldrarnir taki ábyrgðina á þessum eilífu flutningum. Hún var líka frábær greinin sem birtist í GP nýlega um fyrrverandi foringja í nýnasista- hreyfingu í Svíþjóð sem vinnur með írönskum innflytjanda að fræðslu og forvörnum. Mynd- irnar sýna m.a. snoðkoll í hermannafötum fá sér mjólkurglas ásamt írönskum háskólakennara. Þeir eru mestu mátar núna en kynni þeirra hóf- ust eftir að sá síðarnefndi bauð nýnasistanum að setjast niður og ræða málin þegar nýnasist- inn slengdi því framan í hann að hann og allir innflytjendur í Svíþjóð ættu að fara úr landi. Svona greinar vekja von. Hins vegar tekst sænskum fjölmiðlamönnum ekki að blása lífi í áhuga minn á viðskiptafrétt- um eða pólitík svo nokkru nemi því þar er allt á neikvæðu nótunum. Þessi og hinn á að segja af sér, eitt fyrirtæki var að kaupa annað og þetta og hitt fyrirtækið er að fara á hausinn. Svona eru viðskiptafréttir auðvitað alls staðar. Það var líklega bara fámennur hópur sem hafði ánægju af greinunum mínum um gengi krónunnar eða viðskipti í Kauphöllinni á sínum tíma. Ég veit reyndar ekki hvort ég hef náð til fleiri með greinum um femínisma, spákonur, börn og aug- lýsingar, heilsu o.s.frv. síðan þá. En yfirleitt veit ég að fólk er ekki að ljúga að mér og það skiptir mig mestu. Það gerist hins vegar í frétta- mennskunni og er frústrerandi fyrir blaða- menn, a.m.k. mig. Peningar og daglegt líf Fjölmiðlar eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is ’Hins vegar tekst sænskum fjölmiðlamönnum ekki aðblása lífi í áhuga minn á viðskiptafréttum eða pólitík svo nokkru nemi því þar er allt á neikvæðu nótunum.‘ I Bókavertíð er að hefjast eins og sjá má áLesbók í dag. Við blaðið hefur verið bætt síðum sem fjalla sérstaklega um bækur sem eru að koma út um þessar mundir. Þessum síðum á eftir að fjölga en fjallað verður um bókaútgáfuna í blaðinu allt fram að jólum, bæði með viðtölum við höfunda, greinum um bækur og umfjöllunar- efni þeirra, fréttum og auðvitað með sí- vinsælum ritdómum. Ef að líkum lætur er að hefjast mikil veisla sem blaðið mun taka þátt í af fullum hug nú sem endranær. II Í dag er reyndar bryddað upp á nýjungí Lesbók í tilefni þess að bókatíðin er að hefjast. Stofnuð hefur verið sérstök bóka- síða í blaðinu (s. 15 í þessu tölublaði) sem dregur dám af síðum sem um nokkurt skeið hafa verið tileinkaðar kvikmyndum og tón- list. Á bókasíðunni verður kynnt ný innlend eða erlend bók sem þykir athyglisverð með einhverjum hætti. Rýnt verður í ritið með gagnrýnum augum en þó mun hver bók kalla á sín efnistök eins og gengur. Í blaðinu í dag er gluggað í nýja bók Þor- björns Broddasonar, prófessors í fé- lagsfræði við Háskóla Íslands, Ritlist, prentlist, nýmiðlar, sem fjallar um fjölmiðla en þar er meðal annars drepið á eitt af mestu deilumálum síðustu ára, fjölmiðla- frumvarpið. Á síðunni verður einnig nýr pistill undir heitinu „Erindi“ þar sem blaða- menn og gagnrýnendur munu lýsa skoð- unum sínum á ýmsu sem viðkemur bókum og bókmenntum á líðandi stund. Að þessu sinni er fjallað um verðlaunaverk Sjóns, Skugga-Baldur, sem aflaði skáldinu Bók- menntaverðlauna Norðurlandaráðs í vik- unni. Að auki verða á síðunni stuttar fréttir af nýjum erlendum bókum en sá dálkur hef- ur verið í blaðinu um nokkurt skeið og átti reyndar upptök sín á þessari síðu. III Í sömu opnu munu birtast ýtarlegargreinar um bæði nýjar bækur og klassískar, innlendar sem erlendar. Slíkar greinar hafa birst í blaðinu að staðaldri síð- ustu ár. Það má því segja að bókmenntirnar hafi eignast sinn fasta stað í Lesbók árið um kring. Umfjöllun á bókasíðunni mun að öllum líkindum taka nokkurt mið af bóka- tíðinni fyrst í stað. Í kynningargreinum um nýjar bækur verður til dæmis leitast við að segja frá verkum sem annars myndu líklega ekki fá mikla athygli í flóðinu. Hugmyndin er hins vegar fyrst og fremst sú að les- endur geti gengið að vandaðri umfjöllun og umræðu um bækur og bókmenntir í hverri viku allt árið um kring. Neðanmáls Það er með stolti og gleði sem ég tek við bókmenntaverðlaunum Norð- urlandaráðs í dag. Og ég er sérlega ánægður með að það skuli vera Skugga- Baldur sem færir mér þau. Rætur þeirrar litlu bókar liggja til vetrardaga bernsku minnar fyrir 35 árum þegar ég lá undir Hawaii-rósarunnanum í stof- unni heima hjá móðurömmu minni og las íslenskar þjóðsögur og ævintýri. En sá lestur hófst einhverju sinni sem ég var búinn með skammtinn úr bókabílnum (það var mest glæpa- og vísindaskáldskapur fyrir unga drengi), og sagnaþyrstur barnshugurinn dró mig að stofuhillunum sem báru, meðal annarra fullorð- insbókmennta, sex binda safn af sögum um afturgöngur og huldufólk, vatna- skrímsli og hlægilega pokapresta, tröll og galdramenn. Þessir endurtekn- ingasömu þættir af fólki sem hét afar venjulegum íslenskum nöfnum, en var sífellt að lenda í mun skrýtnari og hættulegri aðstæðum en sjálf hasarhetjan Bob Moran eða geimdrengurinn Tom Swift, þeir voru mín fyrstu skáldskap- arfræði og kenndu mér að ekki er líf í sögum fyrr en hugur og veruleiki takast á. […] Á þeirri ferð sem hófst við Hawaii-rós ömmu minnar, og hefur nú leitt mig á þennan virðulega áfangastað hér í dag, hef ég lesið mig eftir margþættu reipi gerðu af frásögum, hvort sem eru í bundnu eða óbundnu máli. Og þar má finna súrrealismann sem heillaði mig á unglingsaldri, ljóð Gunnars Ekelöfs, Meist- arann og Margaritu eftir Búlgakov, Sult Knuts Hamsun, anekdótur Italos Calv- ino, Vetrarmyndir Hannesar Sigfússonar, ævintýri Múmínálfanna, Hambrigðin eftir Óvidíus, skítalabba Becketts, gnostískar veraldir Philips K. Dick, Skugga H. C. Andersens, Palómarsögur Gilberts Hernandez, og fleira, og fleira. En einn lærdóm hef ég dregið af öllum þessum skáldum og sagnamönnum, sem hver með sínum hætti segir: Það má ekki slokkna á kerti samúðarinnar, ef við höldum ekki vöku okkar þá tekur myrkrið völdin – og í myrkrinu líður engum vel nema skuggaböldrum. Já, milli lína hvers bókmenntaverks geymir sig þjóðsagan af draugi galdramannsins og vökumanninum viðbragðsskjóta, þögull vitnisburður um að starf rithöfundarins er að þreyja vökuna yfir líki ómennskunnar. Sjón www.bjartur.is Vakað yfir líki ómennskunnar Reuters Landnám í Írak. Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Umsjón Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.