Lesbók Morgunblaðsins - 26.11.2005, Page 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. nóvember 2005
K
lassísk tónlist eins og hún gerist best
verður í fyrirrúmi í Grafarvogskirkju
á aðventunni. Þá mun Hjörleifur
Valsson fiðluleikari fara fyrir 12
manna kammersveit í flutningi Árs-
tíðanna eftir Vivaldi og Battalia à 10
eftir Heinrich Ignaz Franz von Biber. Tilefnið er
söfnun fyrir stækkun barna- og unglingageðdeildar
LSH, en hver króna sem kemur inn í aðgangseyri
mun renna óskert til deildarinnar.
Flestir unnendur klassískrar tónlist-
ar þekkja vel til Vivaldis og meist-
araverka hans, en færri þekkja Biber
og óreiðukennda en ómþýða tónlist
hans. Biber var fæddur árið 1644 í bænum Warten-
berg (nú Stráž pod Ralskem) í bæheimska hluta
Tékklands. Lítið sem ekkert er vitað um tónlistar-
menntun hans en trúlegt þykir að hann hafi stundað
nám við einn af Jesúítaskólum héraðsins. Því hefur
einnig verið haldið fram að hann hafi lært á fiðlu hjá
Antonio Bertali eða Heinrich Schmeltzer í Vínarborg.
Um miðjan sjötta áratug 17. aldar lék hann í hljóm-
sveit prinsins og biskupsins, Karls Lichtenstein –
Kastelhorn af Olomouc, sem var mikill tónlistarunn-
andi, handritasafnari og velunnari tónlistarmanna.
Haustið 1670 fannst Biber tími til kominn að reyna
fyrir sér annars staðar og yfirgaf hljómsveitina í
óþökk prinsins, sem gaf samstundis fyrirmæli um að
hann skyldi handtekinn. Biber faldi sig þá um tíma
hjá hljóðfærasmiðnum Jakob Stainer í Suður-Týról.
Á þeim tíma var nafn Bibers orðið nokkuð þekkt,
ekki síst fyrir tilstilli Stainers, sem taldi hann í hópi al-
bestu fiðluleikara samtímans og sagði það öllum sem heyra
vildu. Það fór svo að Biber fékk starf þá um veturinn við
hirð biskupsins og prinsins af Salzburg, Maximilians Gan-
dolfs Reichsgrafs von Khünberg. Þar komst hann fljótt til
metorða og var loks skipaður tónlistarstjóri árið 1684.
Þeirri stöðu hélt hann allt til dauðadags árið 1704.
Kjötkveðja í Salzburg
Biber var iðinn við að semja verk og gefa út og sendi hann
mörg handrit sín og fyrstu útgáfu þeirra til fyrrum vinnu-
veitanda síns í Olomouc, sem sýnir að prinsinn hafi að lok-
um fyrirgefið honum óskammfeilnina og sjálfstæðið.
Á tónleikunum í Grafarvogskirkju verður verkið Battalia
à 10 í öðru aðalhlutverkanna. Verkið er einskonar svíta fyr-
ir strengi og var samið árið 1673, að öllum líkindum fyrir
kjötkveðjuhátíðarhöld við hirðina í Salzburg. Titill verksins
og undirtitill gefur góða lýsingu á innihaldinu: Battalia:
„Das liederliche Schwärmen der Musquetirer, Mars, die
Schlacht Und Lamento der Verwundten, mit Arien imitirt
Und Baccho Dedicirt“ eða Orrustan: „Svallsamar skyttur,
Mars, orrustan, harmagrátur hins særða, hermt eftir með
aríum og tileinkað Bakkusi.“
Í verkinu koma flest höfundareinkenni Bibers fram; ótví-
ræðir hæfileikar hans til að líkja eftir umhverfishljóðum,
notkun hans á þjóðlögum, gott skopskyn og var óhræddur
við að láta ýmislegt flakka og áræði hvað varðar ómstríða
hljóma og andstæður.
Harmagrátur skyttunnar
Fyrsti þáttur Battalia à 10, Sonata, einkennist af miklum
dýnamískum andstæðum og þar er þess einnig krafist að
sumar nótur séu leiknar með tréhluta bogans (tækni sem
síðar var kölluð col legno).
Annar þáttur kallast Die liederliche Gesellschaft von all-
erlay Humor (hinar ósiðsamlegu skyttur, ásamt húmor úr
öllum áttum). Allegro er samsett úr átta þjóðlögum (þó að-
eins fjögur þeirra hafi verið greind), sem spiluð eru hvert
ofan í annað. Þannig skapast óskapleg óreiða og ómstríður
myndast, en þannig vildi tónskáldið einmitt hafa það. Hann
skrifar sjálfur inn í einn partinn: „… hér eru ómstríðurnar
allsráðandi því fyllibyttur eru líka vanar að baula sína
söngva í einni bendu.“
Þriðji þáttur er stuttur Prestokafli og þar á eftir kemur
Mars, sem skrifaður er fyrir fyrstu fiðlu og fyrstu víólu.
Biber vann þennan kafla úr Sonata represantativa, verki
frá 1669, sem að öllum líkindum er eftir Johann Heinrich
Schmelzer. Hann líkir þar eftir trommuslætti og flautuleik
á ótrúlega sannfærandi hátt. Þar á eftir fylgir annar
Prestókafli og Aría í þjóðlagastíl og í kjölfarið ólgandi kafli
sem lýsir snarpri orrustunni með hröðum 16. pörtum og
sterku Bartók-legu pizzicato. Eftirmála hörmunganna er
síðan lýst í síðasta kaflanum, sársaukafullu adagio, La-
mento der Verwundten Musquetirer, eða harmagráti særðu
skyttunnar.
Antonio Vivaldi þekkja flestir og varla er til það manns-
barn sem ekki getur hummað með köflum úr Árstíðunum.
Vivaldi fæddist í Feneyjum hinn 4. mars árið 1678. Hann
var sonur eins af helstu fiðluleikurum við Markúsarkirkj-
una í Feneyjum og ákvað hann snemma að feta í fótspor
föður síns.
Vivaldi starfaði mestan hluta ævi sinnar sem tónlistar-
stjóri Piéta-skólans í Feneyjum, sem var skóli fyrir mun-
aðarlausar stúlkur og óskil-
getnar dætur aðalsmanna og
hjákvenna þeirra. Skólinn
naut góðs af fjárframlögum
feðra óskilgetnu stúlknanna,
sem vildu allt gera til að
leyndarmál þeirra færu ekki
lengra. Þess vegna hafði
skólinn, sem var rekinn af
ríkinu, efni á að fá til liðs við
sig menn líkt og Vivaldi.
Syngja sem englar
Árstíðir Vivaldis er án efa
hans þekktasta verk. Það
verk líkt og fjölmörg önnur
var samið fyrir þessar hæfi-
leikaríku stúlkur sem tóku
hverri áskoruninni frá
stjórnanda sínum fagnandi. Frakkinn Charles de Brosses
lýsir því sem hann sá og heyrði á ferð sinni um borgina:
„… þær syngja allar sem englar, leika á fiðlu, flautu, orgel,
óbó, selló og fagott. [...] Af þessum fjórum skólum, heim-
sótti ég þann oftast þar sem mér var mest skemmt, Piéta-
skólann, sem stendur framar öllum í fullkomleika
sínum.“
Vivaldi samdi um ævina um 500 konserta, flesta
fyrir fiðlu eða um 200 talsins. Konsertformið var til-
tölulega nýtt á þessum tíma og lagði Vivaldi mikið
af mörkum í mótun þess. Konsertar hans einkennast
af fallega mótuðum laglínum, þeir eru ferskir og
glæsilegir og oft á tíðum dramatískir, þar sem hægi
kafli þeirra myndar mótvægi við hina hröðu hryn-
föstu ytri kafla.
Vivaldi naut mikillar hylli sem tónskáld og fiðlu-
leikari á meðan hann lifði en eftir andlát hans 1741
féllu mörg verka hans í gleymsku. Safn 12. konserta
hans L’estro armonico frá árinu 1711, varð þó til
þess að halda nafni hans á lofti, en það er sagt hafa
haft mikil áhrif á önnur tónskáld, s.s. Johann Seb-
astian Bach. Bach var mikill aðdáandi Vivaldis, tók
konsert-stíl hans sér til fyrirmyndar og umskrifaði
m.a. níu af fiðlukonsertum hans fyrir hljómborð.
Endurreisn Vivaldis
Árið 1926 fannst bunki handrita í klaustri einu á
Ítalíu og með þeim fundi hófst það sem kalla má
endurreisn Vivaldis. Meðal þess sem í klaustrinu
fannst var safn verka sem gefið hafði verið út í
Amsterdam árið 1725. Það safn hafði að geyma 12
konserta ópus 8, sem Vivaldi hafði kallaði Il Cim-
ento dell’armonia e dell’inventione eða Barátta
hljómfræðinnar og hugmyndaflugsins.
Hljóðfæratónlist á þessum tíma var oftast ab-
strakt tónlist. Prógramm-tónlist, þ.e. tónlist sem
segir sögu eða er lýsandi á einhvern hátt, var nær
óþekkt. Undantekningarnar voru þó verk á borð við
ýmis verk Bibers, eins og Battalia à 10. Það sama
má segja um Árstíðir Vivaldis. Með hverjum kon-
serti Vivaldis lét hann fylgja Sonnettur, að öllum
líkindum eftir hann sjálfan, og nær hann að fanga
innihald þeirra snilldarlega í tónum. Þar má heyra
fuglasöng vorsins og sekkjapípudans hjarðsveinanna að
vori. Sumarhitinn verður næstum áþreifanlegur í öðrum
konsertinum og undir flugnasuði er undirliggjandi ógn
þrumuveðursins, sem brýst út í lokaþætti konsertsins.
Góðri uppskeru er fagnað að hausti með hátíðahöldum og
spennandi veiðiferðum. Veturinn kemur svo með tilheyr-
andi kulda og glamrandi tönnum og þá er gott að hlýja sér
við eldinn og hlusta á vindgnauðið úti. Sonnetturnar sem
fylgdu Árstíðunum verða birtar í fyrsta skipti á íslensku á
tónleikunum í Grafarvogskirkju.
Vivaldi lét sér ekki nægja að skrifa Sonnetturnar inn í
nóturnar, heldur bætti hann við frekari útskýringum til að
auðvelda hljóðfæraleikurunum að ímynda sér aðstæður, s.s.
„geltandi hundur“, „tár sveitadrengsins“ og „fyllibyttan“.
Vivaldi var snillingur og í tónlistinni tekst honum að herma
nákvæmlega eftir ákveðnum tegundum fugla, regndropum,
að ná fram áhrifum vetrarkuldans og vindasamri veðráttu.
Þótt verkið hafi verið samið í raun sem rútínukennt verk-
efni fyrir stúlkurnar í Piéta-skólanum, má glögglega heyra
að tónskáldið hefur sett sál sína í það til fulls. Fá klassísk
verk hafa notið jafn mikilla vinsælda fyrr eða síðar.
Eins og áður sagði verða tónleikarnir haldnir í Graf-
arvogskirkju dagana 29. og 30. nóvember. Miðaverð er
2.000 krónur og er hægt að nálgast miða í verslunum Skíf-
unnar og á midi.is.
Svallsamar skyttur
og óskilgetnar dætur
Tveir mestu snillingar 17. aldarinnar njóta óskiptrar
athygli Kammersveitar Íslands á aðventunni. Ástríðu-
fullir tónar Vivaldis og HIF Bibers hertaka Graf-
arvogskirkju dagana 29. og 30. nóvember. Tónleikarn-
ir eru liður í söfnun fyrir stækkun húsnæðis BUGL.
Tónskáldið HIF Biber hafði gott
skopskyn og var óhræddur við
að láta ýmislegt flakka.
Eftir Arndísi
Björk
Ásgeirsdóttur
Höfundur er
píanóleikari og dagskrárgerðarkona.
Vivaldi Í tónlistinni tekst honum að herma eftir ákveðnum tegundum fugla.
#7
Við reyndum allt hvað við gátum til þess að haga okkur einsog fífl ég og kærasti minn eitt kvöldið.
Hann henti glasi í andlitið á mér svo blæddi. Ég henti vatnsmelónu í hausinn á honum og hann rot-
aðist. Þetta gerðist í eldhúsinu af öllum stöðum en seinna fréttum við að eldhúsið væri viðurkenndur
leikvöllur fyrir fíflaskap á heimilum. Því miður. Á staðnum þarsem maturinn er lagður á eldinn. Ég
kraup yfir honum svo blóð úr andliti mínu lak niður á hann og varð sameign okkar. Hvorki áður né
síðar hef ég elskað hann heitar en á meðan hann svaf ónáttúrulegum svefni á eldhúsgólfinu okkar.
Vatnsmelónan rann undir eldhúsborðið og hefði lögreglan mætt á svæðið í þessum töluðum orðum
hefði ég verið handtekin og fáir ef nokkur lagt trúnað á ást mína. Ó, hvað ég elskaði hann á meðan ég
kraup við líkamann hans og kyssti hann á ennið. Opnaðu augun, ástmaður, hvíslaði ég og þá gerði
hann það. Afhverju þurfti ég þetta. Haga mér einsog fífl, sem ég er alls ekki, heldur ekki kærasti
minn, tilað finna endalaust dýpi ástarinnar og væntumþykjunnar inní mér.
Kristín Ómarsdóttir
Einu sinni saga
Höfundur er rithöfundur.