Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Page 9
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 | 9
hinu óbyggða svæði í Vatnsmýrinni er ætlað
að leysa liggja utan marka þess en ekki inn-
an. Að horfa einungis á hið óbyggða svæði og
jaðra þess er ekki vænleg leið til að greina
möguleika þess. Ef markmiðið með uppbygg-
ingu í Vatnsmýrinni á að vera að efla gamla
miðbæinn þarf að hafa í huga þá annmarka
sem eru á tengingu svæðisins við Kvosina og
Laugaveginn. Þar á milli, beggja vegna
Tjarnarinnar, liggja rótgróin og vernduð
íbúðahverfi með þröngum götum sem gefa
lítið svigrúm til greiðari tenginga. Ef illa
tekst til gætu fyrri Kringlumistök borg-
arinnar endurtekið sig og nýja byggðin í
Vatnsmýrinni orðið einangrað eyland í sam-
keppni við miðbæinn.
Kvosin – Keldnaholt / línulegur miðbær
Sem innlegg í umræðuna um skipulag
Reykjavíkur er vert að kynna til sögunnar
hugmynd sem kalla mætti Kvosin-Keldnaholt,
línulegur miðbær Reykjavíkur frá austri til
vesturs. Ólíkt hástemmdum hugmyndum um
eyjabyggðir og landfyllingar er þessi hug-
mynd tiltölulega jarðbundin. Í reynd er hún
aðeins ábending um þróun sem þegar hefur
átt sér stað og teikn eru á lofti um að halda
muni áfram, hvað sem öllum skipulagsáætl-
unum líður. Að því leyti er hún í samhljómi
við þá skoðun að eðlilegasta þróun borga sé
sú sem gerist hægt og sígandi á löngum tíma.
Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugs-
un og verki línulegan vöxt miðborgarinnar til
austurs, frá Kvosinni í vestri að Mörkinni í
austri, og til lengri tíma litið áfram yfir á Ár-
túnshöfða allt að Keldnalandi. Þetta felur í
sér að gamli miðbæinn er skilgreindur út frá
sérhæfðu hlutverki sínu og umhverfisgæðum,
hinn sögulegi kjarni og aðsetur æðstu stjórn-
sýslu og menningarstofnana, ekki sem hinn
eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvæg-
asti hlekkurinn í langri keðju.
Með því að endurhanna framhald Lauga-
vegarins austan við Hlemm og áfram inn
Suðurlandsbraut sem fallega borgargötu yrði
til eins konar línuleg hryggsúla eftir endi-
löngu nesinu með öflugum almennings-
samgöngum í báðar áttir, hjólastíg og greið-
um gönguleiðum, auk hefðbundinnar
bílaumferðar. Slík gata yrði annars konar
samgönguleið, manneskjulegur valkostur
samsíða Miklu(hrað)brautinni, sem í dag er
eina tenging úthverfanna við miðbæinn. Með
þessum umhverfisbótum er verið að nýta
dýrmæta fjárfestingu sem fyrir er á svæðinu,
t.d. í hótelum og skrifstofuhúsum, í stað þess
að reisa ný hverfi frá grunni.
Með því að framlengja hinn nýja Laugaveg
með nýrri brú yfir Breiðholtsbraut og Elliða-
árósa yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að
tengja úthverfi Reykjavíkur við byggðina á
nesinu. Að hinum línulega ás liggja mikilvæg
þróunarsvæði sem sjá má fyrir sér að gangi í
gegnum sams konar endurnýjun og Borg-
artúnið. Þar má nefna Brautarholt og Skip-
holt (Hlemmur plús), Suðurlandsbraut og
Múlahverfi, Skeifan, Fenin, Dugguvogur og
Ártúnshöfði, allt inn að Keldnaholti. Öll
svæðin uppfylla þau skilyrði sem hugmyndin
um endurnýtingu lands felur í sér og mörg
þeirra bjóða auk þess upp á heillandi stað-
hætti, t.d. við ósa Elliðaáa, vesturhlíð Ártúns-
höfða og ströndina inn að Bryggjuhverfinu.
Til yrði samhangandi atvinnu-, þjónustu- og
íbúðarsvæði með blandaðri, þéttri borg-
arbyggð sem hefði þann ótvíræða kost að
liggja að flestum stærri íbúðahverfum borg-
arinnar. Mun fleiri borgarbúar en ella ættu
þess kost að búa í göngufæri við hinn stækk-
aða miðbæ. Í stað þess að einskorða þéttingu
byggðar og eflingu mannlífs við vestanvert
nesið myndu allir hlutar borgarinnar njóta
góðs af og Reykjavík þróast í þá átt að verða
ein borgarheild, fremur en aðgreindir hverf-
ishlutar tengdir saman af neti hraðbrauta.
Sama nýtingarhlutfall „Áhugavert er að bera saman reiti með ólíku yfirbragði en með sömu reitanýtingu, 1.1–1.3. Annars vegar eru gömlu verkamannabústaðirnir við Hringbraut með tveggja hæða húsaröð með-
fram götu. Hins vegar Æsufell og Asparfell í Breiðholti, þar sem fjölbýlishúsin eru átta hæðir með stórum opnum svæðum umhverfis.“
Höfundur er arkitekt og deildarstjóri
við Listasafn Reykjavíkur.