Morgunblaðið - 15.04.2005, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 15.04.2005, Blaðsíða 18
18 B FÖSTUDAGUR 15. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ bílar „ÞEIR munu draga okkur uppi, því miður. Keppnistímabilið er langt og þeir vita hvað til þarf. Ég er því sann- færður um að þeir munu verða aftur í fremstu röð,“ segir Alonso. „Hins vegar kvíði ég engu og mitt lið er stöð- ugt að bæta bílinn og í pípunum eru frekari umbætur á honum. Því er ég fullur sjálfstrausts,“ bætir hann við. Alonso vann síðustu tvö mót í röð – í Malasíu og Barein – og er sem stend- ur efstur í stigakeppninni um heims- meistaratitil ökuþóra. Hefur tíu stiga forskot á næsta mann, Jarno Trulli hjá Toyota, en þeir voru liðsfélagar hjá Renault undanfarin tvö ár. Heimsmeistarinn Michael Schumach- er hjá Ferrari hefur hins vegar af að- eins tveimur stigum að státa. Mætir því til leiks í San Marínókappakstur- inn á heimavelli Ferrari í Imola eftir rúma viku 24 stigum á eftir Alonso. Hann neyddist til að hætta keppni í Barein á dögunum vegna bilunar í nýjum keppnisbíl sínum en bilanir í Ferrarifáknum hafa verið sjaldgæfar í seinni tíð. Því er spurt hvort það hafi verið óðagot af Ferrari að taka nýja bílinn í notkun mánuði fyrr en til stóð. Að minnsta kosti örvæntingarfull til- raun til að reyna að laga stöðu sína þar sem bíllinn frá í fyrra – sem not- aður var í fyrstu tveimur mótunum – stóðst bílum helstu keppinautanna ekki snúning. „Eiga sæg af ljósmyndum af bílnum okkar“ Hvað sem því líður er Alonso á því að hann verði að notfæra sér yfirburði Renaultbílsins meðan þeir eru fyrir hendi til að eiga möguleika gegn Schumacher í keppninni um heims- meistaratitilinn. „Það er svigrúm til að betrumbæta bílinn okkar, en minna en hjá hinum liðunum. Allir reyna að kópíera það besta úr okkar bíl, það er gangurinn í formúlunni. Þegar menn mæta til fyrsta mótsins finna þeir út nýjungar hjá keppinaut- unum og draga af því lærdóm. Hin lið- in eiga til dæmis núna sæg af ljós- myndum af bílnum okkar og eðli málsins samkvæmt munu yfirburðir okkar minnka með hverju mótinu sem líður. Við munum ekki verða und- ir en forskotið á hin liðin mun minnka. Vonandi höldum við þeim þó aftan við okkur eitthvað áfram. Sem stendur hef ég engar áhyggj- ur. Við unnum heimavinnu okkar í vetur mjög vel og erum með afar öfl- ugan og samkeppnisfæran bíl milli handa,“ segir Alonso. Og bætir við að Renaultbíllinn muni skarta nýjum og „einkar athyglisverðum“ loftaflsbún- aði í kappakstrinum í Imola. Ásamt því fær hann nýja uppfærslu af keppnismótornum í heimamóti sínu; Spánarkappakstrinum í Barcelona 8. maí. „Liðið leggur því hart að sér til að halda velli og ég veit því ekki hvort hin liðin muni draga okkur uppi,“ seg- ir Alonso. Hann segist enn álíta að Schumacher sé líklegastur til að verða heimsmeistari í ár – annaðhvort af annálaðri hógværð sinni eða til að setja meiri pressu á Ferrari. Og dragi ríkjandi meistari Renaultþórinn uppi mun keppnin standa milli annars veg- ar verðandi konungs og yngsta meist- ara formúlunnar og hins vegar núver- andi meistara sem lagt hefur að velli alla þá sem gert hafa sig líklega til að hrifsa af honum heimsmeistaratign- ina á öldinni. Öruggt er að forystan í stigakeppni ökuþóra verður í höndum Alonsos þegar formúlusirkusinn mætir til leiks á heimavelli hans í Barcelona. Og jafnvel einnig í Món- akó hálfum mánuði seinna, ef ekki lengur. Alúðlegi Spánverjinn – ein- arður stuðningsmaður Real Madrid í fótboltanum þótt frá Oviedo í Astúríu sé – er þó varfærinn og segir að júlí- mánuður muni miklu ráða um gæfu og gengi í keppni ökuþóra. „Miklu varðar að standa sig í júlí, þá fara fram fjögur mót. Eftir það eru ekki nema sex mót eftir af vertíðinni. Og ég er fullur sjálfstrausts því liðið mun þróa bílinn og bæta jafnt og þétt. Við munum gera allt til að vinna tit- ilinn en það skýrist sjaldan fyrr en undir lokin hverjir hrósa sigri í Form- úlu 1,“ segir ökuþórinn ungi. Yngstur til að standa á efsta þrepi verðlaunapalls Vegna velgengni Alonsos hafa vin- sældir formúlunnar stóraukist á Spáni. „Formúla 1 hafði enga þýð- ingu, var eins og einhver bandarísk íþrótt sem sást aldrei í sjónvarpi,“ segir hann. Allt þar til hann varð yngstur ökuþóra til að hefja keppni af ráspól – í Malasíu fyrir tveimur árum – nutu mótorhjólakappakstur og rall margfalt meiri vinsælda í heimalandi hans. Og þar til hann kom til sögunn- ar var annað sæti Alfonsos de Port- agos á Ferraribíl í Silverstone árið 1956 langbesti árangur sem spænsk- ur ökuþór hafði náð í Formúlu 1. Það breyttist er Alonso vann ungverska kappaksturinn 2003 en þar með varð hann jafnframt yngsti ökuþór sög- unnar til að standa á efsta þrepi verð- launapalls í Formúlu 1. Nú á jafnvel fótbolti í vök að verjast í keppninni við Alonso um athygli fjöl- miðla. Hefur hann ítrekað rutt honum af forsíðum blaða á mótshelgum, nú síðast með því að vinna tvö síðustu mót formúlunnar. Svo mikilli hylli hefur hann náð að hús foreldra hans í borginni Oviedo á Norður-Spáni er umsetið öllum stundum af áhangend- um hans. Velgengni Schumachers hafði samskonar áhrif á vinsældir formúl- unnar í Þýskalandi. Margt er líkt með ferli þeirra tveggja. Alonso hóf t.d. keppni í körtuakstri þriggja ára en Schumacher fjögurra. Og meðan heimsmeistarinn býr í faðmi fjöl- skyldunnar í svissneskri sveit kýs Spánverjinn ungi einnig kyrrðarlíf fjarri löndum sínum. Flestir ökuþórar hafa lifað lífi milljónamæringa í Mónakó með lystisnekkjur og lúxus- bíla í hlaðvarpanum en hann hefur bú- ið sér heimili í ensku háskólaborginni Oxford. „Það er fullkomið að búa þar. Ég þekkist kannski einu sinni í mán- uði, fer áreitislaust í stórverslanir eða í sjoppuna til að kaupa mér blað. Er þar í ró og næði en heima á Spáni hangir fólk við hús foreldra minna svo þar væri enginn friður. Veðrið er stærsta vandamálið við England,“ segir Alonso. Fernando Alonso segist búast við því að Ferrari láti senn aftur til sín taka í keppni í Formúlu 1, eftir afleitt gengi í upphafi keppnistíðar. Ágúst Ásgeirsson skrifar að Alonso segi að bæði liðið hans, Renault, og hann sjálfur séu reiðubúin að taka þeirri áskorun þegar hún lætur á sér kræla. Reuters Alonso á undan Schumacher í Barein. Er myndin táknræn fyrir tímabilið eða gefur Schumacher í? Alonso tilbúinn að kljást við Schumacher Alonso fagnað eftir sigur hans í Malasíu í heimabænum Oviedo. Alonso hafði ástæðu til að brosa því hann sigraði í í Barein 3. apríl sl. FERÐASKRIFSTOFAN Ísafold efn- ir til sérferðar fyrir 20–30 manna hóp á formúlukeppnina á Nürburg- ring í Þýskalandi helgina 27.–30. maí. Flogið verður með Flugleiðum til Frankfurt á föstudegi og til baka á mánudegi. Áhorfendasvæðið þar sem hópurinn verður er við svo- kallaða Dunlopbeygju (Südkurve). Fylgst verður bæði með undanrás- unum og keppninni sjálfri, en einnig skyggnst bak við tjöldin eftir því sem færi gefast. Gist er á Hotel Ei- felstern í Bitburg, þar sem hluti af starfsliðinu við formúluna dvelur einnig, og tilvalið er að ræða málin við liðið á kvöldin yfir góðu glasi af Bit. Fararstjóri er Jón Baldur Þor- björnsson, menntaður bíltækni- fræðingur frá München, sem þekk- ir mjög vel til í Þýskalandi. Ólafur Guðmundsson hjá LÍA verður einn af dómurunum í þessari keppni og hópurinn mun verða í sambandi við hann meðan á keppninni stendur. Enn er óselt í nokkur sæti í ferðina. Sérferð á F-1 á Nürburgring TENGLAR ........................................... www.isafoldtravel.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.