Morgunblaðið - 23.06.2005, Page 18
18 FIMMTUDAGUR 23. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
60 talibanar felld-
ir í Afganistan
BANDARÍKJAHER og afganskar
hersveitir felldu allt að sextíu talib-
ana í hörðum bardaga aðfaranótt
þriðjudags sunnarlega í Afganist-
an. Um er að ræða einar blóðugustu
skærurnar frá því að talibanar hófu
andspyrnu gegn stjórninni í Kabúl
og veru Bandaríkjahers í Afganist-
an fyrr á þessu ári.
Bandaríkjaher naut liðsinnis her-
þotna og árásarþyrlna í aðgerð-
unum í fyrrinótt. Bardaginn braust
út þegar ráðist var á afganskar og
bandarískar hersveitir, sem leita
talibana og annarra uppreisnar-
manna á mörkum þriggja héraða,
Zabul, Kandahar og Uruzgan, þar
sem róstusamt hefur verið und-
anfarnar vikur og mánuði. Afg-
anskir embættismenn sögðu að sex-
tíu talibanar hefðu verið felldir og
að þrír afganskir lögreglumenn
hefðu einnig beðið bana. Banda-
ríkjaher sagði hins vegar að 49 tal-
ibanar hefðu verið felldir.
Embættismenn hafa áhyggjur af
vaxandi styrk sveita talibana en
meira en 100 manns hafa dáið í síð-
ustu viku einni og sér í aðgerðum
er tengdust talibönum.
Hvar er
Cosmos-1?
SNEMMA í gær bárust fréttir þess
efnis að Cosmos-1, geimfar knúið
sólarorku sem skotið var á loft úr
rússneskum kafbáti í Barentshafi
kvöldið áður, væri týnt. Orsökin
var sögð bilun í eldflauginni sem
átti að sjá til þess að geimfarið
kæmist á braut umhverfis jörðu.
Seinna í gær kom svo í ljós að
ekki er öll von úti um að Cosmos-1
komi í leitirnar. Louis Friedman,
forseti Planetery Society sem hefur
umsjón með geimferðinni, segir að
þeim hafi borist merki sem talin
eru vera frá geimfarinu. „Ég hugsa
að það sé ekki búið að skrifa loka-
kaflann – við erum allavega ekki
tilbúin að komast að þeirri niður-
stöðu,“ segir hann.
Njósnaflugvél
hrapar
BANDARÍSK njósnaflugvél, af
gerðinni U-2, fórst í gær í lendingu
á herflugvelli í Sameinuðu arabísku
fursta-
dæmunum.
Flugmaður
hennar var
einn í vél-
inni og lést.
Ekki er vitað hvers vegna vélin
hrapaði í lendingu en rannsókn á
því er hafin.
Vélar af gerðinni U-2 eru langar
og þunnar, vængjahaf þeirra er um
30 metrar og þær geta flogið í 90
þúsund feta hæð (sem jafngildir 27
þúsund metrum). Einn flugmaður
kemst í vélina og þarf hann að vera
í geimbúningi vegna þess hve hátt
hún flýgur.
Olíuverkfalli
afstýrt
FULLTRÚUM atvinnurekenda og
launþega í Noregi tókst á síðustu
stundu að afstýra á þriðjudags-
kvöld yfirvofandi verkfalli sem
lamað hefði þriðjung af olíuiðnaði
landsins. Var samið um hækkanir á
kaupi og fleiri kjarabætur.
Meðalárslaun munu hækka um
rúmlega 7.700 norskar krónur, lið-
lega 80.000 ísl. kr. Einnig munu
vaktaálag og sérstök greiðsla
vegna vinnu á borpöllum hækka.
Stéttarfélögin höfðu einnig krafist
þess að eftirlaunaaldur yrði gerður
sveigjanlegri en gáfu þá kröfu upp
á bátinn. Gildandi reglur kveða á
um að menn geti farið á eftirlaun
við 62 ára aldur.
Hættan á verkfalli er talin hafa
átt sinn þátt í verðhækkunum á olíu
á heimsmarkaði en Norðmenn eru
nú þriðju mestu olíuútflytjendur í
heimi. Um 14% af öllu jarðgasi sem
notað er í Evrópu kemur frá Nor-
egi.
ÞEGAR franski heimspekingurinn Jean-Paul
Sartre lést árið 1980 fylgdu um 80 þúsund manns
honum til grafar í Montparnasse-kirkjugarðinum
í París, en nú í vikunni þegar 100 ár voru liðin frá
fæðingu hans var áhuginn á þeim tímamótum
dræmur í heimalandi hans. Fjölmiðlar í Frakk-
landi, og víðar, hafa undanfarna daga velt fyrir
sér arfleifð Sartre og borið hana saman við þá
stöðu sem hann hafði í lifanda lífi.
Jean-Paul Sartre er einn af feðrum tilvistar-
stefnunnar og með þekktustu hugsuðum síðustu
aldar. Meðan hann lifði var Sartre bæði umdeild-
ur og dýrkaður vegna skrifa sinna og skoðana, en
hann var hlynntur Sovétríkjunum á tímum komm-
únismans. Fréttavefur BBC hefur eftir ævi-
söguritara hans að mörgum Frökkum þyki stjórn-
málaskoðanir Sartre svo ófyrirgefanlegar að skrif
hans séu meira lesin og rannsökuð í Bandaríkj-
unum og Bretlandi en heimalandi hans. En staða
Satre í Frakklandi var og er óumdeilanlega sér-
stök og er því stundum lýst þannig að í lifanda lífi
hann hafi hann verið eins og poppstjarna þegar
hann gekk um götur Parísar og æstur múgur
aðdáenda fylgdi honum hvert fótmál.
Dagblaðið Washington Post segir að ein helsta
arfleifð Sartre sé ímynd hans, en hann hafi verið
„erkitýpa franska menntamannsins“. Þau Simone
de Beauvoir, sem var lífsförunautur hans allt til
æviloka, voru fastagestir á kaffihúsum í Saint-
Germain-hverfinu í París, einkum Cafe de Flore
og Les Deux Magots, og er sá tími sem þau sátu
þar í félagi við aðra menntamenn og hugsuði
sveipaður ákveðnum ljóma. Enn í dag sækja
mennta- og listamenn þessa staði í leit að inn-
blæstri og eru deildar meiningar um hvort frægu
kaffihúsin í Saint Germain séu orðin að túr-
istastöðum þar sem okrað er á kaffinu eða hvort
þar eigi sér í raun stað frjó og áhugaverð umræða
um heimsmálin, listina og lífið. Jean-Paul Ent-
hoven, útgáfustjóri Grasset-bókaforlagsins, sem
þekkir mannlífið á þessum slóðum vel, segir í sam-
tali við dagblaðið Guardian að því fari fjarri að
kaffihúsalífið þar hafi tapað broddi sínum. „Þetta
er virkilega viðkunnanlegt lítið samfélag þar sem
rökræða og hugsun á sér stað. Þegar ég fer til
Bandaríkjanna og heyri til fólks sem enn er að af-
byggja Jacques Derrida, þá sakna ég Saint-
German. Ef eitthvað er, þá er umræðan hérna
meira skapandi og örvandi núna en hún var á
sjötta áratugnum.“
Sartre gæti leyst úr þeirri kreppu sem
Frakkland er í nú
Sá litli áhugi sem virtist vera á 100 ára afmæli
Sartre er meðal annars skýrður með því að í apríl
var þess minnst með veglegum hætti að 25 ár voru
liðin frá dauða hans. Meðal annars setti Franska
ríkisbókasafnið upp sýningu með 400 ritum eftir
Sartre, sumum áður óbirtum, og tróna þrjú stór
málverk af honum eftir Andy Warhol yfir sýning-
unni. Þá verða nokkrar þungaviktarráðstefnur
um verk og hugmyndir Sartre haldnar í Frakk-
landi síðar í sumar.
Skipuleggjendur sýningarinnar í ríkisbókasafn-
inu segja að aðsóknin að henni hafi verið minni en
við var búist en aðdáendur Sartre gera sitt til
halda minningu hans á lofti og segja ótækt að
stjórnmálaskoðanir hans nái að yfirskyggja skrif
hans og heimspeki í hugum frönsku þjóðarinnar.
Benda sumir þeirra á að hugmyndir Sartre eigi
sjaldan betur við í Frakklandi en einmitt nú þegar
þjóðin á í miklum vangaveltum um stöðu sína
meðal annarra þjóða, í kjölfar þess að hún hafnaði
stjórnarskrá Evrópusambandsins.
„Það má nota Sartre til að leysa úr þeirri
kreppu sem Frakkland er statt í nú,“ segir Annie
Cohen-Solal, höfundur metsölubókar um ævi
Sartre, í samtali við dagblaðið Washington Post.
„Hann afhjúpar fyrirbærið tilvistarkreppu,“ segir
hún þar að auki.
Hafnaði Nóbelsverðlaunum
Í höfuðriti Sartre, Veru og neind, útlistar hann
tilvistarstefnu sína sem snýst meðal annars um af-
stöðu mannsins gagnvart tilverunni og frelsi hans
til að skapa sér merkingu innan hennar. Sartre
skrifaði bæði heimspeki- og bókmenntatexta og
var mikils metinn fyrir ritsnilld sína. Árið 1964
voru honum veitt Nóbelsverðlaunin í bók-
menntum en hann hafnaði þeim því hann vildi
ekki eiga þátt í svo borgarlegri stofnun. Sartre
átti þátt í stofnun dagblaðsins Liberation sem nú
er eitt helsta dagblað Frakklands.
„Erkitýpa
franska
mennta-
mannsins“
AP
Jean-Paul Sartre og lífsförunautur hans, Simone de Beauvoir, voru ásamt fleiri menntamönnum og
hugsuðum fastagestir á kaffihúsum Saint Germain-hverfisins í París.
Öld frá fæðingu Jean-
Paul Sartre og Frakkar
yppta öxlum
Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur
bab@mbl.is
Kaupmannahöfn, London. AFP. AP. | Sú
tækni kann að vera í sjónmáli að
hægt verði að búa til egg og sáð-
frumur úr stofnfrumum, að sögn
vísindamanna við Sheffield-háskóla
í Englandi. Rannsóknir bresku vís-
indamannanna, sem kynntar voru á
evrópskri ráðstefnu um frjósemi
sem haldin er nú í vikunni, sýna
fram á möguleika þess að nota
stofnfrumur úr fósturvísum til að
búa til vísi að kynfrumum.
Benda niðurstöðurnar til þess að
í framtíðinni kunni að verða hægt
að búa til egg og sáðfrumur fyrir
fólk sem glímir við ófrjósemi. Einn
helsti sérfræðingur Bretlands í
ófrjósemi, prófessor Bill Ledger
við Sheffield-háskóla, spáir því að
tíðni ófrjósemi muni tvöfaldast í
Evrópu næsta áratuginn, að sögn
fréttavefs breska ríkisútvarpsins,
BBC.
Heppilegasta leiðin til að búa til
egg og sáðfrumur handa ófrjósömu
fólki, samkvæmt vísindamönnun-
um við Sheffield háskóla, væri sú
að kynfrumuvísum yrði komið fyrir
í eista karlsins eða eggjastokk kon-
unnar, og þar sæju hormónar og
umhverfisþættir til þess að úr yrði
fullsköpuð sáðfruma eða egg.
„Það eru sennilega tíu ár í að
hægt verði að prófa þetta, við þurf-
um að leggjast í mikla vinnu og
ganga úr skugga um að þetta sé
öruggt,“ sagði Harry Moore, pró-
fessor við Sheffield-háskóla og einn
forsvarsmanna rannsóknarinnar, í
samtali við dagblaðið Times.
Offita og sýkingar vegna
kynsjúkdóma eiga sinn þátt
Að jafnaði eiga eitt af hverjum
sjö pörum nú erfitt með að eignast
barn með náttúrulegum hætti en
Ledger segir að hlutfallið gæti vax-
ið í eitt af hverjum þrem. Sagði
hann að bjóða ætti konum á frama-
braut að gera hlé á starfi sínu til að
þær geti eignast barn meðan þær
er ungar en þá er frjósemin meiri
en síðar á ævinni, einkum eftir 35
ára aldurinn. Offituvandi og sýk-
ingar vegna kynsjúkdóma eiga sinn
þátt í að ýta undir ófrjósemi, að
sögn prófessorsins. En rannsóknir
hafa einnig sýnt að jafnt gæði sem
magn sáðfrumna karla virðast fara
dvínandi.
„Þeir sem nú eru ungir verða í
framtíðinni skjólstæðingar stofn-
ana sem leysa vandamál vegna
ófrjósemi,“ sagði Ledger.
Stofnfrumurannsóknir fela
gjarnan í sér siðfræðileg álitaefni
og sagði Anna Smajdor, sérfræð-
ingur í siðfræði læknavísinda við
Imperial-háskólann í London,
þessar niðurstöður vissulega vekja
nýjar og ögrandi spurningar. „Ein-
hleypir menn gætu jafnvel búið til
barn úr eigin sæði (með tilbúnu
eggi), og er þar með komin til sög-
unnar ný leið til einræktunar. Og
frjósemi kvenna yrði ekki lengur
bundin við tíðahvörf,“ sagði Smaj-
dor.
Hægt að spá um hvenær
konur hætta að verða frjóar
Þá bendir ný rannsókn til þess að
konur muni í framtíðinni geta
gengist undir einfalt próf sem
skoðar erfðaefni þeirra og spáir
þar með fyrir um hversu lengi við-
komandi kona megi búast við því að
vera frjó. Ísraelskir vísindamenn
frá háskólasjúkrahúsinu í Jerúsal-
em kynntu þessar niðurstöður á
sömu ráðstefnu, en þær byggja á
rannsóknum á hópi 250 kvenna af
sömu ætt sem allar höfðu gengið
með og fætt barn eftir 45 ára aldur.
Vísindamennirnir komust að því að
þessar konur höfðu allar ákveðna
erfðaþætti sem konur í samanburð-
arhópi höfðu ekki og verður nú
rannsakað hvort þessir þættir finn-
ast hjá fleiri konum annars staðar í
heiminum. Þá kæmi til sögunnar sá
möguleiki að konur sem hafa hugs-
að sér að bíða með barneignir,
hefðu kost á því að komast að því
hvenær þær þurfi raunverulega að
huga að þeim í síðasta lagi.
Spáð að tíðni ófrjósemi tvöfaldist
Rannsóknir
benda til þess að
hægt verði að búa
til kynfrumur úr
stofnfrumum
Talið er að eitt af hverjum sjö pörum eigi erfitt með að eignast barn
með náttúrulegum hætti.