Morgunblaðið - 23.06.2005, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 23.06.2005, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JÚNÍ 2005 31 MINNINGAR ✝ Dóra Fríða Jóns-dóttir fæddist á Ísafirði 1. janúar 1932. Hún lést á Grensásdeild Land- spítalans 16. júní síð- astliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Kristinn Finnsson, lögregluþjónn og kennari, f. 1899 á Hvestu í Arnarfirði, d. 1955, og Guðný Guðjónsdóttir, hús- freyja, f. 1904 á Ferjubakka í Borgar- firði, d. 1997. Fóstur- systir Dóru er Ólafía Aradóttir, f. 1938. Hálfbróðir Dóru, samfeðra, er Guðjón Á. Jónsson, f. 1930. Dóra giftist 30. júlí 1955 Sigurði Sigurðssyni lækni, f. 20. ágúst 1933 á Álfgeirsvöllum í Skaga- firði. Foreldrar hans voru Sigurð- ur Jónasson frá Álfgeirsvöllum, f. 1903, d. 1933, og Magndís Guð- mundsdóttir frá Sveinseyri við Tálknafjörð, f. 1906, d. 1997. Börn Dóru og Sigurðar eru: 1) Jón Magni, vélstjóri, f. 1953 í Reykja- vík. Kona hans er Guðjóna Ás- grímsdóttir, f. 1958. Þeirra börn: a) Sigurður Örn, f. 1980, sambýlis- kona Berglind Rut Valgeirsdóttir og eiga þau tvær dætur. b) Stein- unn, f. 1985. 2) Sigurður Pálmi, endurskoðandi, f. 1956 í Reykja- vík. Kona hans er Anna Jóna Lýðsdóttir, f. 1958. Þeirra börn: a) Dóra Sif, f. 1982. b) Hrafnhildur, f. 1987. c) Sólrún, f. 1990. 3) Guðný Dóra, skrifstofustjóri, f. 1960 í Reykjavík. Hennar maður er Gísli Rafn Guðfinnsson, f. 1959. Þeirra börn: a) Pétur Orri, f. 1984. b) Dóra Hrund, f. 1989. c) Sigrún Perla, f. 1996. 4) Rannveig, hjúkrun- arfræðingur, f. 1962 á Siglufirði. Hennar maður er Albert Páll Sigurðsson, f. 1961. Þeirra börn: a) Sig- urður Jens, f. 1995. b) Þorsteinn Ívar, f. 1999. c) Guðlaug Eva, f. 2003. Auk þess á Albert Ingi- björgu, f. 1990. 5) Magndís María, markaðsfulltrúi, f. 1965 á Siglufirði. Hennar maður er Kjartan Steinsson, f. 1964. Þeirra börn: a) Steinn Arnar, f. 1995. b) Hrafnhildur, f. 1997. 6) Ágúst Orri, lögfræðingur, f. 1970 á Siglufirði. Sambýliskona hans er Gerður Rún Guðlaugsdóttir, f. 1972. Dóra ólst upp í foreldrahúsum á Ísafirði til 17 ára aldurs. Þá fór hún suður til náms og lauk prófi frá Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1952, síðar Fósturskóli Ís- lands. Á árunum 1950 til 1962 vann Dóra sem leikskólakennari í Reykjavík. Árið 1962 fluttu Dóra og Sigurður til Siglufjarðar þar sem þau bjuggu til ársins 1972 er þau fluttu aftur til Reykjavíkur. Á þessum árum var Dóra heima- vinnandi húsmóðir, eða allt þar til árið 1985 er hún fór aftur út á vinnumarkaðinn og hóf störf í Skógarborg í Fossvogi þar sem hún starfaði til ársins 1998. Útför Dóru fer fram frá Bú- staðakirkju í dag og hefst athöfn- in klukkan 13. Með örfáum orðum langar mig að minnast elskulegrar tengdamóður minnar Dóru F. Jónsdóttur. Hún kvaddi þegar íslenskt sumar skartar sínu fegursta, mildir dagar, stilltar og bjartar nætur. Sú umgjörð fellur vel að þeirri persónu sem hún var. Dóra starfaði mestan hluta ævi sinnar sem leikskólakennari og því starfi sinnti hún alla tíð af áhuga og alúð. Hún fylgdist vel með nýjung- um og þróun í leikskólastarfi. Það var aðdáunarvert hve fallega hún talaði um litlu skjólstæðinga sína og hversu vænt henni þótti um þá. Þegar ég hugsa til Dóru koma orðin virðing, væntumþykja og blíða upp í hugann. Hún hafði einlægan áhuga á öðrum, spurði margs og var góður hlustandi en það kunnu vinir hennar að meta. Haustið var hennar tími. Þá naut hún þess að kveikja á kertum og skapa sér og sínum nota- legt andrúmsloft. Hvaðeina sem Dóra tók sér fyrir hendur var gert af alúð og natni. Aldrei heyrði ég hana hallmæla nokkrum manni. Hún var mjög listræn, föndur fyrir leikskólabörnin, prjónaðar eða saumaðar flíkur fyrir börnin eða veggteppi var allt gert af stakri smekkvísi og hógværð.Dóra var mikið jólabarn og byrjaði snemma undirbúning jólanna. Hún bakaði þær fallegustu smákökur sem ég hef séð og lagði mikið kapp á að skapa sér og sínum gleðileg jólin. Fallegu jóladagsboðin í Bjarmalandi voru ávallt haldin með sama sniði og- minningarnar um öll litlu smáatriðin sköpuðu tilhlökkun og fjölskyldu- hefðir sem eru mikils metnar. Það var alltaf notalegt að koma í heimsókn til tengdaforeldra minna á fallega heimilið þeirra í Bjarma- landi. Óhætt er að segja að fjöl- skyldan hafi verið henni allt og tal- aði hún ávallt með stolti um afkomendur sína og bar mikla um- hyggju fyrir velferð þeirra. Nú seinni árin átti Dóra við veik- indi að stríða en alltaf bar hún þján- ingar sínar og veikindi með reisn og einstöku æðruleysi. Þó heilsan væri léleg og hvert áfallið af öðru dyndi yfir sá hún alltaf ljósu hliðarnar og hafði húmor fyrir sjálfri sér og um- hverfinu. Í veikindum hennar stóð tengdapabbi eins og klettur við hlið hennar. Þessar síðustu vikur sýndi fjölskyldan mikla samheldni sem var hennar hjartans mál. Hún var sátt við að kveðja og fannst hún skila góðu búi. Við Dóra þekktumst í nær 30 ár og bar þar aldrei skugga á. Ég mun sakna nærveru hennar en veit að minningin um góða konu mun lifa áfram.Ég kveð elskulega tengda- móður mína með hjartans þökk fyrir allt. Blessuð sé minning hennar. Anna Jóna. Leiðir okkar Dóru lágu fyrst sam- an þegar ég kynnist eiginkonu minni Rannveigu fyrir 14 árum síðan. Dóra var afar fáguð, hæglát og geð- góð kona. Aldrei heyrði ég hana byrsta sig eða verða reiða þrátt fyrir ærslagang barnabarnanna. Alltaf talaði hún til þeirra rólega og lemp- aði hlutina til. Dóra hafði mikið yndi af börnum, sjálf eignaðist hún sex börn auk þess að starfa sem fóstra. Hún hafði góða innsýn inn í hugar- heim barna og gerði alltaf gott úr hlutunum. Gott var því að leita til hennar þegar á þurfti að halda í barnauppeldinu. Segja má að Dóra hafi tileinkaði líf sitt fjölskyldunni, enda bera börn hennar þess glöggt merki að hafa verið umvafin ást og alúð. Öll voru þau afar hænd að móður sinni, þau eru samheldin og samband þeirra náið. Dóra naut sín einna best í faðmi fjölskyldunnar. Ég gleymi því ekki hversu vel mér var tekið í fyrsta sinn sem ég hitti fjölskylduna. Dóra hafði boðið fjöl- skyldunni í „smá veislu“ til að kynn- ast tilvonandi tengdasyni. Umræð- urnar voru að vanda líflegar og ekki var maturinn af verri endanum. Ég fékk strax á tilfinninguna að ég hefði alltaf þekkt þetta fólk. Dóra var mikill fagurkeri, hafði dálæti á handavinnu og bar heimili hennar þess merki. Dóra skilur eftir sig ljúfar minningar sem munu lifa með okkur. Þakka ég henni góða sam- fylgd og bið guð að varðveita hana. Albert Páll Sigurðsson. Það fyrsta sem mér kemur í hug þegar ég minnist Dóru, móður Rannveigar tengdadóttur minnar, er hversu ljúf og yndislega kona hún var. Dóra var glæsileg, vel gefin kona og hafði einstaklega fágaða framkomu. Dóra lætur eftir sig mik- ið ævistarf, hún ól upp sex börn, auk þess sem hún sinnti móður sinni og tengdamóður, sem hún reyndist eins og besta dóttir. Dóra var mikilhæf móðir og húsmóðir og bera börn þeirra Sigurðar foreldrum sínum fagurt vitni. Hún bjó eiginmanni sín- um og börnum fallegt og smekklegt heimili og voru þau hjónin höfðingj- ar heim að sækja. Við Dóra höfðum mikið samband þegar börn okkar dvöldu í Bandaríkjunum við nám og varð það til þess að við kynntumst vel. Dóra var fóstra að mennt og þeg- ar börnin fóru að fara að heiman, tók hún til starfa að nýju og vann við Barnaheimili Borgarspítalans. Hún var barnelsk og hafði sérstakt lag á börnum. Dóra átti við mikið heilsu- leysi að stríða seinni árin. Hún tókst á við veikindi sín með stillingu og æðruleysi eins og henni var einni lagið. Ég þakka samfylgdina. Sig- urði og fjölskyldu votta ég samúð mína. Blessuð sé minning hennar. Guðlaug Ágústa Hannesdóttir. Amma Dóra var einstaklega ljúf og einlæg kona sem var gædd mörg- um kostum. Hún var mjög barngóð, hafði mikla hlýju að gefa og var mjög annt um alla í kringum sig. Ég furðaði mig oft á hversu vel hún amma fylgdist með því sem við hin vorum að gera og hversu áhugasöm hún var um okkar hagi. Amma var einstaklega smekkleg kona og glæsileikinn umlék hana og var eitt af hennar aðalsmerkjum. Hún hafði sérstaklega gott auga fyrir öllu sem fallegt er enda var allt svo fagurt í kringum hana. Þegar ég hugsa til baka gleðst ég yfir ljúfum minningum sem ég á frá fallega heimili ömmu og afa í Bjarmalandi. Þau tóku alltaf vel á móti okkur fjölskyldunni, amma eld- aði dýrindis mat og jólaboðin sem hún lagði svo mikið upp úr gleymast seint. Hún bakaði ótal smákökuteg- undir, kökuhúsið var fagurskreytt og allt jólaskrautið þurfti að vera á nákvæmlega sama stað, ár eftir ár. Heimili ömmu og afa hefur að geyma góða sál og þar ríkir friður og ró enda var alltaf jafn notalegt að heimsækja þau. Þegar ég óx úr grasi fór ég að koma oftar ein í heimsókn í Bjarmalandið. Í próflestri sótti ég til ömmu og afa þar sem ég naut næðis, hvatningar og umhyggju þeirra. Þá þykir mér vænt um hve amma var þakklát þegar ég rétti henni hjálparhönd við heimilisstörfin síð- ustu misserin. Við áttum þá góðar stundir saman og ég lærði margt og merkilegt af henni. Við amma vorum miklar vinkonur og gátum setið tímunum saman og talað um lífið og tilveruna. Ég naut þess að hlusta á hana segja skemmtilegar sögur og þakka fyrir að eiga allar þessar dýrmætu minn- ingar um ömmu mína. Ég verð alltaf stolt af ömmu minni og er stolt að bera nafn hennar. Síðustu ár var amma oft mjög veik og fannst mér erfitt að horfa á hana þjást. Hún kvartaði þó aldrei heldur leit á björtu hliðarnar í lífinu. Nú hefur hún fengið hvíld á æðri stað þar sem stjörnurnar halda áfram að skína skært á hana og englar vefja hana örmum sínum að eilífu. Ég á eftir að sakna hennar yndislegu nærveru. Ég sakna þín sárt, elsku amma mín. Þín Dóra Sif. Elsku besta amma. Núna ert þú farin frá okkur og við sitjum eftir með sorg í hjarta. Við vitum að þetta var best fyrir þig því þú varst búin að vera veik svo lengi og það var ekki hægt að leggja meira á þig. Auðvitað viljum við þó halda í þá sem okkur þykir vænt um og okkur þótti svo sannarlega vænt um þig, amma. Þú varst ein besta kona sem við höfum fengið að kynnast. Þú æstir þig aldrei, skammaðir ekki neinn heldur tókst á við lífið með ró- semi eins og þér einni var lagið. Það hefur alltaf verið gaman að koma í heimsókn til ömmu og afa í Bjarmó og ekki síst þegar við vorum yngri og lékum okkur í dótaherberginu. Núna verður tómlegt að fara bara í heimsókn til afa í Bjarmó, en ekki hafa áhyggjur, amma, því við mun- um passa vel upp á hann afa. Þú varst yndisleg kona og við vor- um litlu lömbin þín, eins og þú kall- aðir okkur, sem þú hugsaðir svo vel um. Þó að við förum að gráta núna og séum sorgmædd þá munu góðu minningarnar sitja eftir í hjörtum okkar þegar fram líða stundir. Við munum aldrei gleyma þér því þú átt- ir stóran þátt í að gera okkur að þeim sem við erum. Við vonum inni- lega að þér líði betur þar sem þú ert núna því þú átt það svo sannarlega skilið. Þín ömmubörn, Pétur Orri, Dóra Hrund og Sigrún Perla. Okkur langar til að minnast ömmu Dóru hér í nokkrum orðum. Þó amma okkar sé farin þá eigum við margar góðar minningar um hana í hjarta okkar sem við munum aldrei gleyma. Við minnumst ein- staklega skemmtilegra jólaboða þar sem amma lagði sem mest upp úr að hafa þau sem glæsilegust og skemmtileg. Við erum heppnar að hafa átt Dóru fyrir ömmu og erum við afar þakklátar fyrir allar sam- verustundirnar sem við áttum sam- an. Guð geymi þig, elsku amma. Þínar Hrafnhildur og Sólrún. Í dag kveð ég kæra vinkonu Dóru F. Jónsdóttur. Dóra var fædd á Ísa- firði og ólst þar upp, flutti ung til Reykjavíkur og nam við Fóstur- skóla Íslands; settist að í Reykjavík og giftist náfrænda mínum Sigurði Sigurðssyni lækni. Dóru kynntist ég um þetta leyti; eða fyrir rúmum fimmtíu árum, síðan höfum við verið kærar vinkonur og samskipti þeirra hjóna og okkar verið mikil og ánægjuleg. Dóra var falleg kona, með fallega rauðbrúnt hár, hafði skemmtilega framkomu og einstak- lega notalega nærveru. Hún var greind, vel lesin og víðsýn og gaf sér góðan tíma til að hlusta. Heimili þeirra hjóna að Bjarmalandi 13 ber vott um einstakan listrænan smekk Dóru. Margs er að minnast eftir rösk- lega hálfrar aldar kynni, upp úr standa Siglufjarðarárin þar sem Dóra og Sigurður hófu sína lífsbar- áttu, en við okkar á Akureyri. Hitt- umst við með börnum okkar eins oft og kostur var, okkur öllum til mik- illar ánægju, nutum við þar gestrisni þeirra hjóna, sem og eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Dóra hefur nú kvatt okkur með einstöku æðruleysi, en hún skilur eftir ljúfar minningar um einstaka konu sem reist hefur sér minnis- varða í börnum sínum, sem nú syrgja ásamt mökum og barnabörn- um. Sárastur er þó missir Sigurðar sem hefur stutt konu sína í hennar veikindum undanfarin ár af einstöku æðruleysi. Vottum við Ævar og fjölskyldur barna okkar þeim innilega samúð. Hafðu þökk fyrir öll þín spor, það besta sem fellur öðrum í arf er endurminning um göfugt starf. Moldin er þín. Moldin er trygg við börnin sín, sefar allan söknuð og harm og svæfir þig við sinn móðurbarm. Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð á leiðinu þínu. Moldin er hljóð og hvíldin er góð. (Davíð Stef.) Nú er komið að leiðarlokum, ég kveð þig, kæra vinkona, með sökn- uði, virðingu og þakklæti. Sigrún Jóhannsdóttir. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. (V. Briem) Í dag kveðjum við fyrrum vinnu- félaga okkar í leikskólanum Skógar- borg, Dóru Jónsdóttur leikskóla- kennara. Hún skilur eftir dýrmætar minningar hjá öllum sem henni kynntust og með henni störfuðu. Hún auðgaði umhverfi sitt með góðri greind, hlýju og glaðlegu við- móti, sem varð til þess að hún var fljót að eignast samstarfsfólkið að vinum. Trúmennska, einlægni og sam- viskusemi var henni í blóð borin og því vart hægt að hugsa sér betri samstarfsmann. Dóra var sviphrein, hávaxin og tíguleg, falleg kona til orðs og æðis. Dagfar hennar var í anda prúð- mennsku, smekkvísi og glaðværðar, og hún kunni þá list að bera lof á samstarfsfólk og hvetja það til starfa. Ekki síður kunni hún með hógværð sinni og hlýju að benda á það sem betur mátti fara og það var ljúft að mega hlýða hennar ráðum. Hún hafði metnað fyrir hönd stéttar sinnar og trúði því að með vönduðum vinnubrögðum í leik- skólastarfinu mætti lyfta grettistaki í fræðslu og umönnun barna. Dóra taldi að með góðu atlæti og skilningi á þörfum barna laðaðist allt það besta fram í börnunum og jafnframt manneskjunni sjálfri. Hún fylgdist því vel með hverju barni og ástundaði gott samstarf við foreldrana. Börnin hreif hún með sér um lönd ævintýra og raunveruleika, hvort sem var með sögum eða söng. Dóra var mjög listræn og í leik- skólanum eru verk hennar, sem nýt- ast vel í starfinu t.d. leikmyndir og loðtöflusögur og ekki megum við gleyma glæsilegu smákökunum hennar sem hún bakaði og kom með fyrir hver jól, þær voru svo góðar og fallegar að eftir er munað. Enda þótt við vitum að skilnaðar- stundin búi ætíð í framtíðinni, þá er- um við henni aldrei viðbúin. Þetta finnum við nú á kveðjustundu. Þó sárt sé að horfa á eftir vini, þá býr einnig í huganum gleði og þakk- læti yfir því að hafa fengið að eiga Dóru Jónsdóttur að vinkonu og fé- laga. Við samstarfsfólk í Skógarborg viljum þakka Dóru ljúfa og gleðiríka samfylgd. Eiginmanni hennar biðjum við blessunar Guðs, sem og börnum hennar og fjölskyldum þeirra. Bjart er yfir minningu hennar. Megi sú birta milda hugi þeirra sem syrgja og sakna. Við samstarfsfólkið viljum enda orð okkar með því sem Valdimar Briem segir í sálminum sínum: Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Samstarfsfólk í leikskólanum Skógarborg. Þegar pabbi minn fæddist þá varð hún mamma í fyrsta sinn. Þegar ég fæddist þá varð hún amma í fyrsta sinn. Þegar eldri dóttir mín fæddist þá varð hún langamma í fyrsta sinn. Ég man hvað mér fannst gaman að segja henni að hún væri orðin langamma þegar dóttir mín fæddist. Ég var svo lánsamur að ná að sýna henni næsta langömmubarn líka áð- ur en hún lést. Hún hafði svo gaman af börnum. Það eru ófáar veiðiferðirnar sem við höfum farið með afa og stundum kom amma líka með. Í fyrstu veiði- ferðina sem ég man eftir kom amma með okkur. Ég ætlaði að sýna henni hvað ég gæti kastað flugunni langt. Sú sýning fór ekki betur en svo að ég krækti flugunni í lærið á ömmu. Alltaf hélt hún ró sinni. Hún var allt- af svo hlý og góð. Amma vildi alltaf halda stórar og flottar veislur við hvert tækifæri. Ég held að enginn muni gleyma jóla- boðunum hennar og afmælinu sem hún hélt alltaf á nýársdag. Henni tókst að gera allt svo fullkomið. Mikið sakna ég hennar. Ég á svo margar góðar minningar um hana. Aldrei mun ég gleyma henni. Sigurður Örn Magnason. DÓRA F. JÓNSDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.