Morgunblaðið - 06.09.2005, Page 14
14 ÞRIÐJUDAGUR 6. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
SKIPULEG leit að lifandi fólki og
látnu hófst í New Orleans í gær,
viku eftir að fellibylurinn Katrín
olli miklum hörmungum þar og
víðar á suðurströnd Bandaríkj-
anna. Staðfest tala látinna leikur á
nokkrum hundruðum en því er enn
spáð að hún muni að lokum nema
nokkrum þúsundum.
Þrír 30 manna flokkar fóru í gær
hús úr húsi í New Orleans með
frystibíla til að flytja lík í fær-
anlegt líkhús, sem komið hefur
verið upp skammt frá Baton
Rouge. Þar verða gerðar á þeim
DNA-rannsóknir, röntgenmyndir
teknar af tönnum og fingraför tek-
in til að unnt verði að bera kennsl
á líkin.
„Ég veit ekki hver tala látinna
verður að lokum en við skulum búa
okkur undir það versta. Þetta er
hryllingur eins og hann getur
mestur orðið,“ sagði Michael Cher-
toff, ráðherra og yfirmaður heima-
varnaráðuneytisins.
Þótt ekki hafi verið búið að finna
nema nokkra tugi líka í gær, þá
segja fréttamenn að þau megi
hvarvetna sjá. Á floti í flóðvatninu,
í hjólastólum, úti á götu og inni á
heimilum.
Michael Leavitt, heilbrigðisráð-
herra Bandaríkjanna, sagði í við-
tali við CNN-fréttastöðina í fyrra-
dag að allt benti til að þúsundir
manna hefðu farist. Það veit þó
enginn enn og til eru þeir sem
efast um að mannfallið af völdum
Katrínar sé jafnmikið og sumir ótt-
ast.
Miklir fólksflutningar
Bandaríkin standa nú frammi
fyrir flóttamannavanda, sem þau
hafa ekki áður kynnst, og þurfa að
búa hundruðum þúsunda manna
nýja framtíð. Finna þarf húsnæði
fyrir fólkið, tryggja börnunum
skólagöngu og tryggja afkomuna
að öðru leyti.
Hafa 20 ríki í Bandaríkjunum
boðist til að taka við fólki en til
þessa hefur Texas borið hitann og
þungann af því. Þar eru nú um
250.000 manns frá New Orleans en
Rick Perry, ríkisstjóri í Texas,
sagði í gær að það væri að verða
ríkinu ofviða og finna yrði hluta af
fólkinu annan samastað.
George W. Bush forseti fór í
sína aðra ferð til hamfarasvæðanna
í gær en hann og ríkisstjórnin
reyna nú að snúa vörn í sókn eftir
að hafa verið harðlega gagnrýnd
fyrir ótrúlega lítil og sein viðbrögð.
Hafa sumir embættismenn
stjórnarinnar reynt að kenna yf-
irvöldum á hamfarasvæðunum að
sumu leyti um klúðrið en það hefur
vakið mikla reiði þar. Þar er því
haldið fram að FEMA, bandaríska
almannavarnastofnunin, sem heyr-
ir undir ráðuneyti Chertoffs, hafi
ekki sent nauðsynlega hjálp vegna
óskiljanlegrar skriffinnsku og jafn-
vel komið í veg fyrir aðstoð.
Bera alvarlegar
sakir á FEMA
„Við báðum um hermenn, þyrl-
ur, mat og vatn,“ sagði Denise
Bottcher, blaðafulltrúi Kathleen
Blanco, ríkisstjóra í Louisiana, „en
þeir vildu að við settumst að samn-
ingaborði um það mál.“
Aaron Broussard, formaður
sýslunefndarinnar í Jefferson-
sýslu fyrir sunnan New Orleans,
segir að Wal-Mart-verslanakeðjan
hafi sent þrjá flutningabíla hlaðna
vatni til hamfarasvæðanna en
FEMA hafi snúið þeim við. Þá hafi
stofnunin komið í veg fyrir að
Strandgæslan kæmi með á fimmta
tonn af dísilolíu og hún hafi rofið
neyðarlínu sýslunnar. Hafi sýslu-
nefndin orðið að koma henni í
gagnið aftur og láta vopnaða menn
gæta hennar fyrir fulltrúum
FEMA.
Ýmsir hafa hvatt til þess að allir
yfirmenn FEMA segi af sér og
Hillary Rodham Clinton öldunga-
deildarþingmaður hefur hvatt til
þess að skipuð verði opinber rann-
sóknarnefnd í þessu máli.
Leitað hús úr húsi
að lifandi og látnum
Nokkur tími getur liðið áður en ljóst verður um manntjónið í New Orleans
Mikið verk að koma hundruðum þúsunda flóttamanna fyrir á nýjum stað
Eftir Svein Sigurðsson
svs@mbl.is
AP
Enn í gær var verið að bjarga fólki úr umflotnum húsum í New Orleans.
Hér er verið að koma tveimur konum fyrir í þyrlukörfu.
„VERÐSTRÍÐI“ bresku dagblað-
anna lauk í gær þegar The Times
hækkaði verð á hverju eintaki í
66 kr. ísl. en það var komið niður
í um 22 kr. um tíma. Í þessu
stríði, sem stóð einkum við blöðin
The Guardian, The Independent
og The Daily Mail, fór salan á
The Times úr 400.000 eintökum á
dag og allt upp í 800.000 en The
Independent missti þriðjung söl-
unnar. Ástralski fjölmiðlakóng-
urinn Rupert Murdoch keypti
The Times 1981 og frá 1993 hef-
ur hann öðru hverju efnt til verð-
stríðs við hin blöðin. Eru þessi
átök sögð hafa ýtt undir það, að
blöðin tækju upp smærra brot í
stað þess stóra auk þess sem þau
verja nú meira plássi undir fræga
fólkið, glæpamál og tísku. Þá fer
líka blöðum, sem eru gefin, fjölg-
andi og það nýjasta kom út í gær,
viðskiptablaðið City A.M.
Liam Fox í
slaginn
LIAM Fox, talsmaður breska
Íhaldsflokksins í utanríkismálum,
ætlar að tilkynna formlega á
fimmtudag, að
hann verði fram-
bjóðandi í vænt-
anlegu leiðtoga-
kjöri í flokknum.
Áður hafa til-
kynnt framboð
þeir David Dav-
is, talsmaður
flokksins í inn-
anríkismálum,
David Cameron,
talsmaður hans í menntamálum,
Malcolm Rifkind, fyrrverandi ut-
anríkisráðherra, og Kenneth
Clarke, fyrrverandi fjár-
málaráðherra. Er David Davis
talinn líklegastur til að verða
næsti leiðtogi Íhaldsflokksins en
framboð Clarkes hefur vakið
mikinn úlfaþyt meðal andstæð-
inga hans í flokknum. Norman
Tebbit, lávarður og fyrrverandi
ráðherra, kallar Clarke „latan“
og Rifkind segir, að stuðningur
Clarkes við Evrópusambandið
geti klofið flokkinn.
Játa íkveikju
ÞRJÁR unglingsstúlkur hafa ját-
að að hafa valdið eldi í íbúða-
blokk í París um síðustu helgi en
þá fórust 16 manns. Var það
þriðji stórbruninn í höfuðborg-
inni á skömmum tíma. Kváðust
þær hafa borið eld að póstkassa í
anddyri hússins, sem er 18 hæðir,
„bara í gamni“ og ekki til að
verða neinum að meini. Búa tvær
stúlknanna í húsinu. Í brununum
þremur hafa 40 manns týnt lífi.
Roberts tekur
við af Rehnquist
GEORGE W. Bush, forseti Banda-
ríkjanna, útnefndi í gær dóm-
arann John Roberts sem eft-
irmann Williams heitins
Rehnquists, formanns hæsta-
réttar. Kvaðst Bush viss um, að
öldungadeildin legði blessun sína
yfir það en áður átti Roberts að
leysa af hæstaréttardómarann
Söndru Day O’Connor. Ætlar hún
að setjast í helgan stein en býðst
til að sitja þar til eftirmaður
hennar hefur tekið við. Það, sem
kallaði einkum á þessi viðbrögð
Bush nú, er, að með fráfalli
Rehnquists voru aðeins átta dóm-
arar í hæstarétti en það gæti
þýtt, að atkvæði skiptust til helm-
inga í umdeildum málum.
Demókratar hafa beitt sér
nokkuð gegn Roberts og segjast
nú ætla að skoða hans mál enn
betur í ljósi þess, að hann hefur
verið útnefndur forseti hæsta-
réttar. Víst er þó, að hann verður
samþykktur en jafnlíklegt, að
stærri slagur verði um eftirmann
ÓConnor.
Verðstríði
breskra
blaða lokið
Liam Fox
Berlín. AP, AFP. | Gerhard Schröder,
kanslari Þýskalands, þótti standa
sig verulega betur en keppinautur
hans um kanslaraembættið, Angela
Merkel, í sjónvarpskappræðunum í
fyrrakvöld. Kom það fram í könn-
unum, sem gerðar voru að þeim
loknum, en ekki er talið, að það
breyti miklu um niðurstöðu kosn-
inganna.
Næstum 21 milljón manna, fjórð-
ungur þýsku þjóðarinnar, fylgdist
með viðureign leiðtoga stóru flokk-
anna, jafnaðarmanna og kristilegra
demókrata, og umræðuefnið var
fyrst og fremst það, sem brennur á
Þjóðverjum: Efnahags- og atvinnu-
málin og framtíð þýska velferð-
arkerfisins.
Kannanir þriggja stofnana sýndu,
að 48 til 54% kjósenda töldu Schrö-
der hafa hafa farið með sigur af
hólmi en aðeins 28 til 33% töldu
Merkel hafa haft vinninginn. Rich-
ard Hilmer, forstjóri Infratest-
skoðanakannanafyrirtækisins, seg-
ir, að Schröder hafi tekist að auka
trúverðugleika sinn með sannfær-
andi vörn fyrir umdeildum breyt-
ingum í efnahags- og velferð-
armálum og haldi hann uppteknum
hætti, kunni hann að endurheimta
eitthvað af því fylgi, sem farið hefur
yfir á hinn nýja Vinstriflokk. Er
þar um að ræða klofningshóp frá
jafnaðarmönnum og gamla komm-
únista í Austur-Þýskalandi.
Of seint fyrir Schröder
Frank Decker, stjórnmálafræð-
ingur við háskólann í Bonn, telur
hins vegar, að þetta sé of seint í
rassinn gripið fyrir Schröder. Til að
kappræðurnar breyttu einhverju,
hefðu Merkel þurft að verða á ein-
hver meiriháttar mistök. Segja má
líka, að hún hafi í raun notið þess,
að fyrirfram var ekki búist við mjög
miklu af henni og því kom kröftug
frammistaða hennar á stundum á
óvart.
Schröder sagði, að Paul Kirchhof,
líklegt fjármálaráðherraefni Mer-
kel, stefndi að því að nota alla
þýsku þjóðina sem tilraunadýr í
róttækum breytingum á skattalög-
gjöfinni, upptöku flats skatts, sem
myndi fyrst og fremst bitna á lág-
launafólki. Merkel svaraði því til, að
Kirchhof væri maður með hug-
myndir og þyrði að taka áhættu,
nokkuð, sem sárlega vantaði hjá
ríkisstjórn Schröders.
Föst skot í
utanríkismálum
Þótt efnahagsmálin hafi verið
fyrirferðarmest, urðu líka hörð
orðaskipti um utanríkismálin.
Schröder benti á viðbrögð George
W. Bush Bandaríkjaforseta við af-
leiðingum fellibylsins Katrínar og
sagði þau sýna hvað gerðist þegar
íhaldsmenn, sem hefðu lítinn áhuga
á samfélagsmálum, kæmust til
valda.
Merkel ítrekaði hins vegar and-
stöðu sína við aðild Tyrkja að Evr-
ópusambandinu en í Þýskalandi eru
miklar efasemdir um hana.
Schröder vann
en Merkel
kom á óvart
Ekki talið að sjónvarpskappræður
þýsku kanslaraefnanna breyti miklu
um kosningarnar 18. september
Reuters
Angela Merkel og Gerhard Schröder er þau tókust á í fyrrakvöld.