Morgunblaðið - 06.09.2005, Side 15
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. SEPTEMBER 2005 15
ERLENT
Jakarta. AP, AFP. | Farþegaþota með
116 farþegum og fimm manna áhöfn
hrapaði í gær niður í þéttbýlt út-
hverfi í borginni Medan í Indónesíu
skömmu eftir flugtak. Lifðu 15 eða
jafnvel 16 farþeganna slysið af en
síðustu fréttir bentu til að 42 hefðu
farist á jörðu niðri. Samkvæmt því
fórust 147 menn í slysinu en óttast
var að tala látinna ætti eftir að
hækka.
Antara, hin opinbera fréttastofa
Indónesíu, sagði að um hefði verið að
ræða Boeing 737-200-þotu frá indó-
nesíska flugfélaginu Mandala Air-
lines og sögðu yfirvöld í fyrstu að
enginn hefði komist lífs af. Síðar kom
í ljós að 13 farþegar hefðu komist lífs
af.
„Það varð mikil sprenging fram-
arlega í vélinni, eldur gaus upp og
flugvélin hrapaði,“ sagði Rohadi
Sitepu, einn þeirra sem komust af,
og annar, Freddy Ismail, sagði að
vandræðin hefðu byrjað strax eftir
flugtak.
„Skyndilega varð gífurlegur há-
vaði í hreyflunum, flugvélin skókst
til og hrapaði,“ sagði Freddy Ismail.
Indónesískar sjónvarpsstöðvar
sýndu í gær myndir af slökkviliðs-
mönnum berjast við elda í flakinu,
sem dreifðist yfir allstórt svæði á
þjóðvegi skammt frá Polonia-flug-
vellinum í Medan. Á myndunum
mátti einnig sjá sundurtætt hús, bíla
og reiðhjól og lögreglumenn bera
burt brunnin og illa farin lík.
Talsmaður flugfélagsins, sem er
að hluta í eigu indónesíska hersins,
sagði í gær að of snemmt væri að
geta sér til um ástæðu slyssins.
Flugvélin var 24 ára en fór í mikla
skoðun í júní síðastliðnum. Sagði
hann að líklegt væri að auk áhafnar
og farþega hefðu margir farist á
jörðu niðri.
Embættismenn meðal farþega
Nokkrir háttsettir embættismenn
voru meðal farþeganna, þeirra á
meðal Rizal Nurdin, ríkisstjóri á
Norður-Súmötru, og hugsanlega
settur ríkisstjóri í Aceh-héraði þar
sem manntjónið var mest í flóðbylgj-
unni í desember síðastliðnum.
Mandala Airlines var stofnað 1969
og er eitt af nokkrum lággjaldaflug-
félögum í Indónesíu. Hefur það verið
með 15 vélar, aðallega Boeing 737-
200 frá áttunda áratugnum. Flug-
félagið hefur átt í fjárhagserfiðleik-
um og orðið að fækka ferðum og
lækka verð vegna mikillar sam-
keppni.
Flugslysið í gær er eitt hið mesta í
Indónesíu á síðari árum. Í nóvember
síðastliðnum hrapaði MD-82-far-
þegavél í eigu lággjaldaflugfélagsins
Lion Air í borginni Solo á Jövu og
fórust þá 26 manns. Mesta flugslys í
sögu landsins varð í september 1997
en þá fórst Airbus-þota í fjöllunum
við Medan og með henni 232 menn.
Mikil flugumferð er um Polonia-
flugvöllinn í Medan og var hann
mikil miðstöð hjálparstarfs og upp-
byggingar eftir hamfarirnar í des-
ember. Er völlurinn næstum í borg-
inni miðri.
Flugslysið í gær er það sjötta á
skömmum tíma en þau voru fimm í
ágúst, í Grikklandi, Venesúela, Perú
og Túnis. Í þeim létust um 334 menn.
Auk þess fór Airbus-þota frá Air
France út af flugbraut í Toronto í
Kanada en þá lést enginn.
Kom niður
í þéttbýlu
úthverfi
Á annað hundrað manns fórst er
indónesísk þota hrapaði eftir flugtak
Reuters
Björgunarmenn og íbúar í hverfinu við brunnið flak farþegaþotunnar. 15 eða 16 farþegar lifðu slysið af en tala
þeirra, sem létust á jörðu niðri, í fjölmennu hverfi rétt við flugvöllinn, hækkaði stöðugt eftir því sem á daginn leið.
Fimmta stórslysið í farþegaflugi á skömmum tíma – nærri 500 manns hafa farist