Morgunblaðið - 06.09.2005, Side 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. SEPTEMBER 2005 25
MINNINGAR
þökkum allan stuðninginn og sam-
verustundirnar. Megi guð blessa
minningu þína.
Við sendum hlýjar kveðjur til Sig-
urðar, Einars og Auðar, og fjöl-
skyldna þeirra. Megi guð veita þeim
styrk á þessum erfiðu tímum.
Við kveðjum þig með söknuði.
Einar, Arnór, Kolbeinn,
Sturla, Inga og makar.
Elsku frænka, þá kveðjumst við,
þú sem hefur verið okkar öllum
raunverulegur vinur og félagi. Við
þökkum mörgu góðu stundirnar og
þá lánsemi að hafa átt þig að, minn-
ingar um þig verða varðveittar í
hjarta okkar sem fengum að kynnast
þér og því meira sem við fengum að
kynnast þér þeim mun stærra varð
hjartalag þitt. Við munum svo sann-
arlega sakna þín, það verður svo
margt ekki það sama án þín.
Takk fyrir allt sem þú hefur gert
fyrir mig og okkur.
Mig langar að kveðja þig með
þessum orðum Hallgríms Péturs-
sonar:
Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund,
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði,
líf mannlegt endar skjótt.
Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið
sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu
upp á lífsstunda bið,
en þann kost undir gengu
allir að skilja við.
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er.
Grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.
Lífið manns hratt fram hleypur,
hafandi enga bið,
í dauðans grimmar greipar,
gröfin tekur þar við.
Allrar veraldar vegur
víkur að sama punkt.
Fetar þann fús sem tregur,
hvort fellur létt eða þungt.
Elsku Sigga, Einar og Auður, Guð
blessi ykkur og fjölskyldur ykkar.
Einar Pétursson.
Hún vakti athygli hvar sem hún
fór, hávaxin og glæsileg og í senn
frjálsmannleg og fyrirmannleg með
sitt fallega bros og hlýju framkomu.
Þannig birtist Unnur Einarsdóttir
okkur fyrir tæpum fjörutíu árum
þegar við kynntumst henni og urð-
um þeirrar gæfu aðnjótandi að eign-
ast vináttu hennar.
Allir sem þekktu Unni vita að hún
var einstök kona á svo marga lund.
Hún var skrifstofustjóri blómlegs
fyrirtækis þeirra hjóna og sýndi þar
sem annars staðar sína miklu hæfni
til mannlegra samskipta. Hún var
mikill fagurkeri, hög í höndum, hafði
góða tónlistarhæfileika, var framúr-
skarandi gestgjafi og naut þess að
halda veislur stórar og smáar fyrir
fjölskyldu sína, vini og vandamenn.
Hún tók mikinn þátt í ýmiss konar
félagsstarfi og var eftirsótt til þeirra
starfa, var ekki hálf í þeim störfum
fremur en öðru sem hún tók sér fyrir
hendur.
En best var hún þó sem vinur og
bakhjarl. Til hennar var leitað og á
hana treyst af vinum og fjölskyldu.
Hún lét sig ekki einungis varða vel-
ferð fjölskyldu sinnar, það var stór
hópur ættingja og vina sem hún
fylgdist með í blíðu og stríðu, hún
mundi eftir afmælisdögum, hlustaði,
hjálpaði og veitti allt til hins síðasta.
Hún var alla tíð sérlega veitul á tíma
sinn eins og allt annað.
Að baki eru ótal ógleymanlegar
samverustundir, bæði á heimili
þeirra hjóna og eins hér norðan
heiða. Eftirlifandi fjölskyldu er það
vonandi einhver huggun að hvar sem
Unnur kom skildi hún eftir ofurlítinn
loga af eigin ljósi, loga sem var og er
mikils virði þeim sem nutu. Þeir sem
áttu Unni Einarsdóttur að vini voru
aldrei einir á ferð. Minning hennar
verður ekki frá okkur tekin, hún lifir
með okkur um ókomna tíð.
Frændfólki og vinum, Sigurði,
Einari, Auði og fjölskyldum þeirra
sendir Geitaskarðsfjölskyldan ein-
lægar samúðarkveðjur.
Hvítbláinn sveipar minningu
merkiskonu.
Ágúst og Ásgerður.
Í dag kveðjum við kæra vinkonu,
Unni Einarsdóttur. Vinátta okkar
hefur staðið í nær hálfa öld og aldrei
borið skugga á. Hugurinn hvarflar
til unglingsáranna, þegar við sett-
umst allar á skólabekk í gagnfræða-
deild Miðbæjarskóla. Við urðum
strax góðar vinkonur, áttum mörg
sameiginleg áhugamál, ekki síst að
syngja og spila, svo var líka mikið
spjallað og hlegið. Á kvöldin var oft
safnast saman og þá gjarnan hjá
Unni á Smáragötunni, þar var okkur
tekið með opnum örmum og þar
fengum við útrás fyrir kæti okkar.
Hver dagur bar eitthvað nýtt í
skauti sér og lífið var eitt stórt æv-
intýri.
Árin liðu og fullorðinsárin tóku
við. Fjölskyldur voru stofnaðar,
börnin fæddust og lífið tók á sig
breytta mynd. Öll árin höfum við
hist og fylgst með högum hver ann-
arrar og átt saman góðar stundir.
Árið 1996 var höggvið skarð í vin-
kvennahópinn þegar Ragnhildur
vinkona okkar féll skyndilega frá
langt um aldur fram. Við fráfall
Unnar hefur aftur fækkað í hópnum
og við minntar á hverfulleika lífsins.
Það kom snemma í ljós hve mörg-
um kostum Unnur var gædd. Að
henni stóðu sterkir stofnar í báðar
ættir. Hún hlaut í arf dugnað,
atorkusemi og ríka réttlætiskennd.
Hún var sannkallaður dugnaðar-
forkur að hverju sem hún gekk,
hvort sem um var að ræða stjórnun
fyrirtækis, félagsstörf eða önnur
störf sem henni voru falin. Hún virt-
ist hafa tíma til alls og vera til staðar
fyrir alla þegar á þurfti að halda og
allt var þetta gert með sama krafti
og velvilja.
Er þú veist um vin sem þarfnast
vorkunnsemi og hjálpar manns,
taktu þetta tækifæri
til að reynast vinur hans.
Er þú veist um vin sem grætur
vinafár og einn um sinn
réttu honum hönd og segðu:
„Heyrðu, ég er vinur þinn.“
(Ólafur Jóhannsson.)
Þetta ljóð finnst okkur lýsa vel
hvernig Unnur hugsaði.
Sumri hallar og sól lækkar á lofti.
Löngu og ströngu veikindastríði
Unnar er lokið, stríði sem háð var af
þeim aðdáunarverða kjarki og dugn-
aði sem henni var í blóð borinn. Við
vottum eiginmanni hennar, Sigurði,
börnum þeirra, Einari og Auði og
fjölskyldum þeirra okkar innileg-
ustu hluttekningu.
Ásta, Dóra, Ólafía Eva og
Sveingerður.
Núna þegar ég kveð vinkonu mína
Unni, lít ég til baka til bernsku– og
æskuára, sem Unnur var stór hluti
af. Ég minnist leikja okkar hvorrar
heima hjá annarri og úti, skáta-
starfsins, skátaferða og ferðalaga
sem ég fór með Unni og foreldrum
hennar.
Á þessum árum var Unnur mikil
barnfóstra, hún passaði systkina-
börn sín af ástríki og þolinmæði.
Unnur var kornung þegar hún tók
Kristínu Súsönnu, dóttur Guðrúnar
systur sinnar, að sér í veikindum
hennar.
Unnur var lánsöm í sínu einkalífi,
eignaðist góðan mann og var vegferð
þeirra sérlega farsæl.
Dugnaður einkenndi Unni við allt
sem hún tók sér fyrir hendur, hvort
sem var í starfi eða félagsstarfi,
hvarvetna sópaði að henni. Unnur
hafði alltaf mikið umleikis, var
frændrækin og vinamörg. Hún hafði
þó ávallt tíma fyrir gamla vinkonu og
var sú sem farið var til þegar gaf á í
lífsins ólgusjó.
Unnur mátti þola veikindi og
margar læknisaðgerðir um dagana,
bar hún sig alltaf vel og gerði lítið úr.
Sigurður og börn þeirra hafa ann-
ast Unni af kærleik í veikindum
hennar. Ég sendi þeim mínar inni-
legustu samúðarkveðjur í þeirra
mikla missi, einnig Guðrúnu systur
hennar og fjölskyldunni allri.
Að lokum kemur mér í hug
bernskuminning. Eitt sinn vorum
við Unnur sem oftar á leið heim úr
skóla í snjó og sólskini. Ég man að
við gengum meðfram veggjunum á
Sóleyjargötunni, létum snjóinn
sáldrast yfir okkur, hlupum hvor
fram fyrir aðra og duttum í snjóinn.
Það er mikil birta yfir þessari minn-
ingu, og þegar ég hugsa um Unni
finnst mér að þessi birta hafi fylgt
henni allt hennar líf.
Margrét Eiríksdóttir.
Kær vinkona er fallin frá, langt
um aldur fram eftir margra ára bar-
áttu við erfiðan sjúkdóm. Það er
margs að minnast, þegar litið er til
baka eftir áratuga vinskap.
Það var rétt eftir stúdentspróf,
sem við vinkonurnar, sem vorum
búnar að þekkjast mislengi, sumar
allt frá frumbernsku, komumst að
þeirri niðurstöðu að við hittumst
ekki nógu oft og ákváðum að stofna
saumaklúbb til að ráða bót á því.
Þessi saumaklúbbur lifir enn góðu
lífi 40 árum seinna.
Unnur Einarsdóttir var ein af
þessum vinkonum. Hún hóf nám í
MR með okkur hinum haustið 1959,
en hætti námi tímabundið er hún
missti föður sinn. Henni varð ekki
skotaskuld úr því að ljúka námi ut-
anskóla á mettíma og útskrifaðist
stúdent frá Menntaskólanum á
Laugarvatni 1964. Á þessum tíma
kynntist Unnur sínum lífsförunaut,
Sigurði Brynjólfssyni, og hófu þau
sinn búskap á Smáragötu 1, æsku-
heimili Unnar. Minnisstæðar eru
áramótaveislurnar, sem haldnar
voru þar með pompi og prakt, síðir
kjólar og smóking, dýrindis matur
og öll umgjörðin hin glæsilegasta.
Þessar veislur lögðust síðan af, þeg-
ar börnunum fjölgaði og hver fór að
fagna áramótum með sinni eigin fjöl-
skyldu. Á síðari árum mótaðist önn-
ur hefð, hvítasunnuferðirnar. Það
voru farnar nokkrar ferðir um Suð-
ur- og Vesturland, leigð hús, ferðast
um og skoðað það helsta, sem hver
staður hafði upp á að bjóða og borð-
aður úrvals matur og glaðst saman. Í
þessum ferðum stóð Sigurður gjarn-
an við grillið og skoraðist ekki und-
an, þótt veðrið léki okkur stundum
grátt. Unnur var snillingur í að út-
búa borðskrautið, hugmynd og út-
vegun efnis alfarið hennar og hvíldi
yfirleitt mikil leynd yfir undirbún-
ingnum. Þetta lýsir Unni mjög vel,
láta sér detta eitthvað skemmtilegt í
hug og framkvæma það.
Annað dæmi sem lýsir þessum
eiginleika Unnar vel er þegar henni
datt í hug fyrir tveimur árum að fá
okkur hjónin með þeim Sigurði til
Krítar í sólina. Hugmyndin var viðr-
uð. Degi seinna hringir Unnur: Sko
ég er búin að panta og ganga frá, þið
þurfið bara að borga inn á til að
staðfesta. Þar með var það ákveðið
og við áttum yndislegar tvær vikur
með þeim hjónum á Krít.
Unnur og Sigurður komu sér upp
sælureit í Kjósinni, nánar tiltekið
við Meðalfellsvatn. Þar byggðu þau
sér sumarbústað, sem þau nefndu
Brekkubæ. Þar naut Unnur þess að
dvelja og ekki síst að taka á móti
börnunum sínum og þeirra fjöl-
skyldum og alltaf var verið að bæta
við einhverju til að barnabörnin
hefðu sem flest við að vera. Þangað
var ljúft að heimsækja þau hjónin
og dvelja með þeim.
Unnur var með afbrigðum iðin við
hannyrðir og afköstin voru ótrúleg
og það fram undir það síðasta, þótt
veikindin væru farin að setja sitt
mark á hana. Hún var jafnvíg hvort
sem um var að ræða prjónaskap, út-
saum eða annan saumaskap, það lék
allt í höndunum á henni og liggja
eftir hana mörg verkin.
Að leiðarlokum þökkum við
saumaklúbbsvinkonur Unni sam-
fylgdina og allar góðu stundirnar
sem við höfum átt saman.
Við vottum Sigurði, Einari, Auði,
Guðrúnu systur Unnar og þeirra
fjölskyldum okkar innilegustu sam-
úð.
F.h. saumaklúbbsins,
Vigdís Sigurðardóttir.
Kveðja frá Lionsklúbbnum Eir
Kæra Unnur. Við þökkum þér
fyrir árin tuttugu sem þú starfaðir
með okkur og öll nefndarstörfin
sem þú sinntir af einstakri alúð, eins
og þér var einni lagið. Við vorum
stoltar af þér þegar þú fékkst Melv-
in Jones-skjöldinn 1995, æðstu við-
urkenningu Lionshreyfingarinnar,
fyrir frábær störf þín. Þrátt fyrir
veikindi þín fylgdist þú með starf-
semi okkar í klúbbnum til hinstu
stundar. Við kveðjum þig með sökn-
uði. Friður Guðs þig blessi.
Glöð með glöðum varstu,
göfg og trygg á braut
þreyttra byrði barstu,
blíð í hverri þraut.
Oft var örðugt sporið,
aldrei dimmt í sál,
sama varma vorið,
viðkvæm lund og mál.
(M. M.)
Eiginmanni og fjölskyldunni allri
sendum við okkar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Unnur Einarsdóttir er látin. Hún
barðist eins og hetja við illvígan
sjúkdóm í mörg ár. Í Hringinn kom
hún til starfa árið 1985. Alla tíð vann
hún heilshugar að málefnum félags-
ins og velgengni þess. Hún sat í
stjórn Hringsins og gegndi m.a.
gjaldkerastarfi. Hún vann afar vel
metið starf í útgáfunefnd þegar saga
Hringsins var skrifuð. Öll önnur
störf í þágu Hringsins rækti Unnur
af samviskusemi og dugnaði svo vart
varð á betra kosið enda fór hér kona
sem var heilsteypt, ráðagóð og vel-
viljuð. Um leið og við Hringskonur
þökkum Unni samfylgdina viljum
við kveðja hana með eftirfarandi
ljóði eftir Ingibjörgu Sigurðardótt-
ur:
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
Elísabet G. Hermannsdóttir,
fv. formaður Hringsins.
Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir og amma,
HAFDÍS MATTHÍASDÓTTIR,
Leirubakka 14,
Reykjavík,
andaðist á Landspítalanum laugardaginn
3. september.
Jarðarförin auglýst síðar.
Bjarki Friðgeirsson,
Friðgeir Bjarkason, Ingibjörg Zoëga,
Ísabella Björk Bjarkadóttir, Reynir Þorsteinsson,
Viktor Elvar Bjarkason,
Magnús Bjarkason, Þorbjörg Traustadóttir
og barnabörn.
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og
langamma,
FJÓLA BALDVINSDÓTTIR,
síðast til heimilis á
Hornbrekku,
Ólafsfirði,
lést föstudaginn 2. september.
Útför hennar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju laugar-
daginn 10. september kl. 14:00.
Guðni Ólafsson, Ásdís Pálmadóttir,
Ægir Ólafsson, Guðný Ágústsdóttir,
Sigurður Ólafsson, Áslaug Sigurjónsdóttir,
Jóakim Ólafsson, Sæbjörg Ágústsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Hjartkær sambýlismaður minn og faðir okkar,
JÓHANN EYÞÓRSSON,
lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund föstu-
daginn 2. september.
Jarðarförin auglýst síðar.
Borghildur Þórðardóttir
og börn hins látna.
Elskulegur faðir okkar,
SIGURJÓN ÓLAFSSON,
Siggi í Bæ,
Foldahrauni 37G,
Vestmannaeyjum,
lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja sunnudaginn
14. ágúst.
Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins
látna.
Fyrir hönd aðstandenda,
Marý og Sigrún Sigurjónsdætur.