Morgunblaðið - 06.11.2005, Side 6
6 SUNNUDAGUR 6. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
F
í
t
o
n
/
S
Í
A
F
I
0
1
4
9
1
5
SUMARLJÓS OG SVO KEMUR NÓTTIN
EFTIR JÓN KALMAN STEFÁNSSON
5-STJÖRNUBÓK
„... HRÍFANDI FYNDIN ... SUMARLJÓS OG
SVO KEMUR NÓTTIN ER FRÁBÆRLEGA
VEL STÍLUÐ BÓK. ... ÞVÍ SKÁLD ER JÓN
KALMAN, GLIMRANDI SKÁLD.“
- Páll Baldvin Baldvinsson, DV
KRISTJÁN Þór Júlíusson, bæjarstjóri Akureyrar, segir
ekki tímabært að tjá sig um hvort bæjaryfirvöld séu sátt
við þá upphæð sem kemur í hlut bæjarins, selji hann 5%
hlut sinn í Landsvirkjun. „Við erum ekkert farin að ræða
þetta að neinu gagni og gerum ekki fyrr en viðræðu-
nefndin lýkur störfum.
Mér finnst málið varla umræðuhæft fyrr en niðurstöð-
ur fást úr nefndinni sem Reykjavík, Akureyri og ríkið fólu
að vinna þetta verkefni.“
Borgarstjóri lýsti því fyrr í vikunni að ágreiningur væri
milli samningsaðila um verðmat á fyrirtækinu. Kristján
Þór segir að sér finnist umræðan hjá Reykjavíkurborg
ekki snúast um neitt. „Það hefur ekki komið fram hvaða
verð þau eru ósátt við og hvaða verð þau vilja fá,“ segir
Kristján Þór.
Viðræðum um sölu á hlut Reykjavíkurborgar og Ak-
ureyrarbæjar í Landsvirkjun er haldið áfram og engar
fregnir eru af stöðu þeirra, að sögn Páls Magnússonar,
aðstoðarmanns Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og
viðskiptaráðherra. Páll segir verkefnið alfarið í höndum
viðræðunefndar og að ekki liggi fyrir hvenær nefndin
lýkur störfum.
Bæjarstjóri Akureyrar um stöðu viðræðna um Landsvirkjun
Ekki tímabært að ræða
um verð á hlut bæjarins
Morgunblaðið/Golli
ENN hefur athygli almennings ver-
ið beint að hættu af flutningabílum
og þætti þeirra í slysum í vályndum
veðrum á þjóðveginum. Stóru flutn-
ingafyrirtækin hafa þó ekki í hyggju
að ræða málin sérstaklega við sína
bílstjóra, enda eru öryggismál
reglulega rædd og því ekki ástæða
til að bæta í hvað það snertir sam-
kvæmt upplýsingum þaðan.
Til upprifjunar má nefna að í
byrjun apríl síðastliðnum kom óveð-
urskafli þar sem fjórir stórir trukk-
ar áttu þátt í slysum og óhöppum á
vegum úti. Í kjölfar þeirra atburða
var vakin athygli á því að íslenskir
vegir væru ekki byggðir fyrir aðra
eins umferð og óhjákvæmilega hefði
skapast með auknum landflutn-
ingum vegna minni strandflutninga.
Sem dæmi má nefna ók trukkur aft-
an á fólksbíl í hríðarkófi við Hval-
fjarðargöngin og svipað gerðist á
Holtavörðuheiði á sama tíma.
Um síðastliðna helgi komu síðan
trukkarnir enn við sögu þegar norð-
anhríð spillti færð víða um land.
Skemmst er að minnast þess þegar
4 tonna hliðarvagn fauk á fólksbíl í
Leirársveit svo lá við stórslysi og á
sunnudag lenti trukkur á tveimur
fólksbílum í Húnavatnssýslu þegar
hann kom út úr hríðinni en tókst
ekki að hemla í tæka tíð.
Fara reglulega yfir öryggismál
Það eru bílstjórarnir sjálfir sem
taka ákvarðanir um hvort farið sé af
stað eða ekki og þeir bera einnig
ábyrgð á því að lestun bílanna og
frágangur sé í samræmi við lög og
reglur að sögn Önnu Guðnýjar Ara-
dóttur markaðsstjóra hjá Sam-
skipum.
„Við setjum öryggið á oddinn í
hvívetna og það má líkja bílstjórum
okkar við skipstjóra sem eru við
stjórnvölinn og ráða því hvort ekið
er eða ekki. Það er því ekki fyr-
irtækið sem þeir vinna hjá sem ræð-
ur þessum hlutum. Bílstjórarnir
meta aðstæður hverju sinni og taka
því aldrei við skipunum frá fyr-
irtækinu um að halda áætlun ef það
er á kostnað öryggisins,“ segir
Anna.
„Við förum ennfremur reglulega
yfir öll öryggismál með bílstjórum
og erum til dæmis nýbúin að gefa út
kynningarmynd um vetrarakstur
þar sem komið er inn á atriði eins
og að keðja stóra trukka og fleira.
Þá höldum við svokallaðar bílstjór-
aráðstefnur reglulega þar sem rædd
eru öryggismál, búnaður bíla, við-
brögð við hættuástandi o.s.frv.
Búnaður bíla hjá Samskipum er í
fyllsta samræmi við íslenskar reglu-
gerðir og við förum mjög strangt
eftir þeim.“
Varðandi gagnrýni sem komið
hefur fram á flutningabílstjóra um
að svíkjast um að festa gáma tryggi-
lega til að þeir fjúki frekar af bíl-
unum í roki en að þeir fjúki með
bílnum, segist Anna Guðný aldrei
heyrt um slík undanbrögð. „Þegar
gengið er frá bíl eftir lestun ber bíl-
stjórinn ábyrgð á því að gengið sé
frá vörum og ökutækinu í samræmi
við fyllstu öryggiskröfur. Þetta tek-
ur líka til frágangs á gámum. Ég
fullyrði að bílstjórar sem eru og
hafa verið í vinnu hjá Samskipum
hafa allir staðið sig með mikilli prýði
hvað þetta varðar. Þeir vita það
manna best að fari þeir ekki eftir
settum reglum eru mannslíf í hættu,
bæði þeirra eigin og annarra.“
Anna Guðný segir það koma fyrir
að bílstjórar ákveða að sitja heima
ef veður eru slæm. „Við verðum
auðvitað að treysta Vegagerðinni og
þeim leiðbeiningum sem þar er að
finna t.d. á tölvustýrðum upplýs-
ingaskiltum við þjóðvegina. Bílstjór-
arnir hringja líka mikið hver í annan
og kanna með færð og eins hringja
þeir mjög mikið í Vegagerðina sem
gegnir mjög veigamiklu hlutverki í
þessu sambandi.“
Ráðstöfun tryggingafélaganna
til fyrirmyndar
Óli H. Þórðarson formaður Um-
ferðarráðs vekur athygli á ráðstöf-
unum sem tryggingafélögin hafa
gripið til gagnvart öryggi flutn-
ingabíla með því að gera viðvart
þegar hættulegt er að vera á ferð-
inni vegna færðar og veðurs. „Þarna
eru auðvitað gríðarlegir hagsmunir í
húfi og vissara að stefna ekki
stórum og dýrum bílum út í óviss-
una. Þetta hefur mér þótt vera til
fyrirmyndar og þá vaknar sú spurn-
ing hvernig megi útvíkka þetta fyr-
irkomulag almennt því hafa verður í
huga að ekki starfa allir flutn-
ingabílstjórar hjá stóru flutninga-
fyrirtækjunum. Ég velti því fyrir
mér hvort gera megi þetta enn
markvissara svo hægt sé að ná til
allra bílstjóra.“
Hjá Eimskipum/Flytjanda eru
menn einmitt ánægðir með samstarf
við tryggingafélög sín að þessu
leyti. Böðvar Kristinsson rekstr-
arstjóri akstursstýringar segir að
samkvæmt þeirri öryggisáætlun sé
allt grjótneglt niður hvenær menn
leggi af stað og í hvernig aðstæðum.
„Menn eru með stífar reglur sem
bæði bílstjórarnir og við erum með-
vitaðir um,“ segir hann. „Við send-
um ekki bílstjóra með tóma bíla út í
hvaða veðri sem er en þar liggur að-
alörsökin. Slysin sem hafa orðið að
undanförnu eru öll á hálftómum bíl-
um.“
Samstarf við tryggingafélögin
hefur verið sterkt að mati Böðvars
og iðgjöldin hafa farið lækkandi að
auki.
Stuðst er við þá reglu að ekki er
farið af stað ef vindhviður eru sterk-
ari en 25 metrar á sekúndu að sögn
Böðvars. Hjá akstursstýringu eru
það bílstjórarnir sjálfir sem geta
sleppt túr ef þeir treysta sér ekki út
í slæmt veður og Böðvar leggur
áherslu á að engum sé att út í tví-
sýnar aðstæður. Á svipaðan hátt
myndi akstursstýring taka fram fyr-
ir hendurnar á bílstjóra sem ætlaði
sér greinilega að ana út í blindhríð
og kolvitlaust veður.
En verður skotið á sérstökum
fundi með bílstjórum eftir atburði
nýliðinnar helgar?
„Ekki umfram það sem er verið
að gera,“ segir Böðvar. „Við fundum
reglulega með okkar mönnum og
þetta er mál sem er metið dags dag-
lega þ.e. vindstyrkur og hlassið á
bílunum.“
Síðasta ákvörðun um hvort farið
sé af stað í slæmum veðrum er tekin
í akstursstýringu í samráði við bíl-
stjórana. Bílarnir eru vel búnir að
sögn Böðvars, búnir vetrardekkjum
og keðjum. Jafnvel þótt aksturshæft
sé samkvæmt reglum akstursstýr-
ingar geta ökumenn sleppt túr ef
þeim líst ekki á aðstæður og við það
situr.
Hjá samgönguráðuneytinu hefur
engin umræða skapast um akstur
flutningabíla og mögulegar hættur
af þeim í vetrarfærð, hvað sem kann
svo sem að gerast í framtíðinni.
Bergþór Ólafsson aðstoðarmaður
samgönguráðherra bendir í þessu
samhengi á að engar sérreglur gildi
um þungaflutninga að vetrarlagi.
Það séu bílstjóranna sjálfra að meta
aðstæður hverju sinni og hvað öku-
tæki þeirra þola. „Enn sem komið
er hafa engar ábendingar komið
fram í þessa veru. En málið er þess
eðlis að það verður skoðað með opn-
um huga eins og annað,“ segir hann.
Fréttaskýring | Töluvert um óhöpp og slys vegna stórra flutningabíla undanfarið
Bílstjórar ákveða sjálfir
hvort ferð er farin
Morgunblaðið/BFH
Um þungaflutninga í slæmum veðrum gilda engar sérreglur. Samgöngu-
ráðuneytið treystir bílstjórum best til að meta aðstæður.
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
Í VIKUNNI sendu 45 nemendur í 1.–5. bekk
Fellaskóla hálft hundrað jólagjafa til Úkraínu.
Taka þeir þannig þátt í verkefninu Jól í skó-
kassa, sem KFUM og KFUK standa fyrir í sam-
starfi við SOS barnaþorp. Hugmyndin af jólum í
skókassa er hluti verkefnis sem hefur verið unn-
ið í fjölda ára, en þó í fyrsta sinn á Íslandi í
fyrra. Þá söfnuðust um 500 jólagjafir sem dreift
var á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og
til fátækra barna í Úkraínu. Í ár er stefnt að því
að senda yfir 1000 gjafakassa þangað.
Börnin í Fellabæ sögðust hafa sett allt frá
sælgæti og sápustykkjum til leikfanga og fatn-
aðar í jólapakkana og vonuðust til að þetta
kæmi að góðum notum og gleddi fátæk börn í
Úkraínu. „Þau hafa kannski aldrei á ævinni
fengið jólagjöf og eru svo fátæk“ sagði ein
stúlkan í hópnum. Það var mikill hugur í krökk-
unum þegar gjöfunum var safnað saman í flutn-
ingabifreið Flytjanda og víst er að góðar óskir
fylgja til þeirra sem ekkert hafa miðað við ís-
lensk nútímabörn, þó þeirra staða geti verið ær-
ið misjöfn líka. Fellaskóli lagði fram nokkur
hundruð krónur með hverri gjöf til að greiða
sendingarkostnað til Úkraínu. KFUM og KFUK
taka við jólagjöfum til Úkraínu fram til 12. nóv-
ember og má fá nánari upplýsingar á vefnum
www.kfum.is.
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
1.–5. bekkur Fellaskóla sendir fátækum börnum í Úkraínu jólagjafir.
Gleðja fátæk börn í
Úkraínu um jólin
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur
austurland@mbl.is